Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:24:06 (8273)

2002-04-26 18:24:06# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þætti nú vænt um ef hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefði stund aflögu til vera áfram við umræðuna því það voru náttúrlega ekki lítil tíðindi þegar fyrst örlaði hér á Framsfl. Formaður þingflokks framsóknarmanna lagði hvorki meira né minna en heilt andsvar undir til að koma afstöðu flokksins á framfæri. Reyndar birtist ýmislegt athyglisvert í því andsvari og ég held að hv. þm. verði að heiðra okkur með nærveru sinni augnablik. Það er ekki seinna vænna í þessari umræðu en að Framsfl. komi í leitirnar. Það hefur ekki farið mikið fyrir honum hingað til.

Það má segja um þá framsóknarmenn að þeir virðast vera að læra þá tækni að fela sig í málum sem þeir telja ekki sérstaklega til vinsælda fallin. Þeir láta Sjálfstfl. nokkurn veginn einan um að draga þessa kerru hér. Það hefur alla vega orðið alveg ljóst af þátttöku eða öllu heldur þátttökuleysi þeirra í umræðunum. En ég veit ekki til þess, herra forseti, ég verð þá leiðréttur ef rangt er, að framsóknarmenn hafi tekið þátt í þeirri miklu umræðu sem hér hefur verið fyrr en þá núna í þessu merka andsvari Kristins H. Gunnarssonar. Ég óska eindregið eftir því að eins og einn fulltrúi Framsfl. sé í salnum og helst nefndur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokksins, því að það breikkar hana auðvitað mikið að síðasti flokkurinn sem fulltrúa á hér á Alþingi láti svo lítið í lokin að vera a.m.k. viðstaddur umræðuna þó ekki sé nú sagt að hann taki beinan þátt í henni nema þá svona í þessu andsvari.

Herra forseti. Þetta mál er að öðru leyti stórmerkilegt og verðskuldar svo sannarlega að Alþingi taki sér svolítinn tíma til þess að ræða það og alla enda þess og kanta. Það er heldur til vansa t.d. að hæstv. ríkisstjórn skuli algjörlega láta sig vanta í umræðunni. Hæstv. fjmrh. er hér svona í mýflugumynd af og til og nú er reyndar kominn hingað formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, og þó fyrr hefði verið.

Herra forseti. Hér eru sem sagt á dagskrá einhver stórfelldustu ríkisafskipti af atvinnulífi í landinu, sennilega bara um langt skeið, því ég held að aldrei í einu einstöku tilviki hafi það verið á dagskrá áður að veita 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgð. Það hefur að vísu gerst kannski á löngum tíma að safnast hafa upp ábyrgðir sem hægt er að jafna við þetta í þeim skilningi að ríkið hefur samtals með eigendaábyrgð sinni að bönkum eða fjárfestingarlánasjóðum á áratugabili gengið í miklar ábyrgðir. Hægt er að taka sem dæmi ríkisábyrgðna sem var á bak við lán Fiskveiðasjóðs á sínum tíma eða eigendaábyrgðina á bak við Landsbankann, Búnaðarbankann. En ég held ég fari alveg örugglega rétt með það, herra forseti, og verð þá leiðréttur ef annað er uppi á teningunum, að aldrei áður hefur 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgð verið á dagskrá til eins einasta fyrirtækis, út á einn vinnustað með 250 manns sem að sögn á að koma þarna til. Það er algjört einsdæmi.

Svo kemur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hér og setur á ræður um að það eigi að treysta á einkaframtakið og spyr hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur hvernig þekkingarþorpið í Vatnsmýrinni eigi að rísa ef ekki á að treysta á einkaframtakið. (Gripið fram í.) Ja, bíddu, hvernig á það að rísa? Á að veita 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgð á bak við hver 200--250 störf? Það er það sem verið er að gera. Málið er náttúrlega, herra forseti, að þau tvö mál sem segja má að standi nokkuð upp úr þessum vetri hér á Alþingi eru hvor tveggja svona gríðarleg ríkisafskiptamál. Það er ríkisframkvæmdin Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð sem að langmestu leyti áttu að vera á vegum ríkisins. Það er mál sem ríkisstjórn er að keyra áfram og ráðuneyti reka áfram. Menn eru í sjálfboðavinnu við að reyna að koma því máli áfram, menn eins og hæstv. utanrrh. sem alls ekkert hefur málið á sinni könnu. En það hefur ítrekað verið upplýst að hæstv. utanrrh. er að reyna að keyra málið áfram með samtölum við forstjóra erlendra fyrirtækja og öðru í þeim dúr. Verkefnið sem slíkt á að langmestu leyti að vera á herðum ríkisins sem eiganda Landsvirkjunar og þess aðila sem keyrir málið áfram.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur áhyggjur af því að andstaða okkar þingmanna sumra hverra, t.d. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sé í andstöðu við kosningastefnuskrá R-listans af því að R-listinn vill byggja þekkingarþorp í Vatnsmýrinni. Ég spyr þá: Hvar stendur í þeim plöggum að það þorp eigi að byggjast upp með ríkis\-ábyrgð á bak við uppbyggingu einstakra fyrirtækja? Auðvitað hvergi. Hv. þm. veit vel að það er út í hróa hött að halda svona hlutum fram.

Við erum einmitt að hverfa frá því þannig að þetta verði byggt á almennum forsendum í þeim skilningi að borgin og aðrir aðilar sem þarna eru þá í samstarfi skapi aðstæður til að til reiðu séu lóðir eða húsnæði, garðar, og að slíkur almennur stuðningur hvað varðar undirstöðurnar standi öllum til boða jafnt. Ekki er um það að ræða hér. Þetta er einmitt dæmi um einhverja svakalegustu mismunun sem sögur fara af lengi í atvinnuuppbyggingu í landinu, ef af verður. Það er öllum mönnum ljóst. Þetta mál á ekki að byggjast á neinum markaðsforsendum þar sem áhættan er tekin af einkaaðilum. Ónei, ekki. Hún verður á herðum íslenskra skattborgara.

[18:30]

Hún gengur því ekki upp, sú áhersla hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem tók hér loksins til svara fyrir Framsfl. í þessu merka andsvari sem verður auðvitað í minnum haft sem mögulega eina innlegg Framsfl. í allri þessari miklu umræðu. Nú man ég það ekki nákvæmlega, alltént hafa þeir verið sjaldséðir hér í umræðunni, þingmenn Framsfl., en það er gott að vita að þeir eru enn þá til og ætla sér væntanlega að styðja þetta mál.

Nei, herra forseti, þegar maður fer yfir stöðuna er fjöldi annarra fyrirtækja sem er að gera nánast að öllu leyti sambærilega hluti hvað það varðar að verið er að brjóta nýtt land, menn eru í nýsköpun í tækni- eða þekkingargreinum, meira að segja innan þessa sviðs atvinnulífs. Ef við köllum erfðafræði, lyfjaþróun og heilbrigðistengda nýsköpun í atvinnulífi svið, sem er ekki verri málnotkun en hver önnur, sinnir fjöldi fyrirtækja merku þróunarstarfi í landvinningum í útflutningi og hefur enga sambærilega fyrirgreiðslu hlotið. Það er t.d. alveg hlálegt og nöturlegt að í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem er að verða eitthvert auglýstasta blaðið í umræðunni er einmitt frétt um hitt stóra erfðavísindafyrirtækið í landinu --- ég held að óhætt sé að kalla það svo --- Urður, Verðandi, Skuld. Hvað er það að gera? Er það mjálmandi út ríkisábyrgð? Nei. Það hefur boðið út nýtt hlutafé, fengið öfluga fjárfesta til liðs við sig, þar á meðal af lyfjasviðinu, hefur skilað í hús 600 millj. kr. hlutafjárútboði, er komið með öfluga bakhjarla eins og Pharmaco, sem er orðinn stærsti hluthafinn, og er að landa samstarfssamningum um áframhaldandi rannsóknir á sínu sviði í góðu samstarfi við aðila eins og Háskóla Íslands, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Krabbameinsfélagið.

Urður, Verðandi, Skuld er að gera þetta sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir að eigi að gera en verður ekki að veruleika með þessu máli Íslenskrar erfðagreiningar, heldur öfugt. Hér er tínt út eitt fyrirtæki og það á að fá þessa gríðarlegu fyrirgreiðslu og með því á að taka þessa ofboðslegu áhættu á sama tíma og fjölmargir aðrir áhugaverðir sprotar á tengdu sviði, svo maður tali ekki um nýsköpun og þróun í atvinnulífinu almennt, fá ekki neina sambærilega fyrirgreiðslu. Eiga sumir hverjir mjög erfitt uppdráttar af því að þeim stendur eiginlega engin fjármögnun til boða. Þetta er nefnilega að snúa hlutunum algerlega á haus, að reyna að setja þetta inn í samhengi einhverrar almennrar nálgunar. Þetta er það ekki. Þetta er svo sértæk nálgun að hv. þm. Pétur H. Blöndal kallaði hana ,,eintæka``. Það má til sanns vegar færa. Þetta er of sértækt til að kallast sértækt.

Á sama tíma, herra forseti, liggur það algerlega fyrir og það veit enginn maður betur en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, að það eru ýmsir áhugaverðir, veikir sprotar að reyna að skjóta rótum í atvinnulífi, t.d. úti um landið, og fá alveg sorglega lítinn stuðning. Norður í Ólafsfirði er fyrirtæki sem hefur vaxið úr því að vera eins, tveggja manna framtak í að vera núna miðlungsstór eða með stærri vinnustöðum í þeim bæ, NMT-slökkvibílafyrirtækið. Það hefur heldur betur þurft að hafa fyrir því að fá aðkomu einhverra aðila. Nú síðast sá ég að meira að segja Ólafsfjarðarbær, skuldsett sveitarfélag, tekur þátt í hlutafjáraukningu til þess að reyna að ýta undir styrkingu fyrirtækisins hvað fjármögnun snertir. Ef menn langar að styðja eitthvað nýtt þar sem verið er að vinna land, meira að segja til útflutnings --- og aukastafirnir í þessu dæmi mundu skipta sköpum --- eru slík tækifæri vítt og breitt um landið þar sem 5--10 millj. mundu gera gæfumuninn, jafnvel 2 millj.

Hér erum við að tala um 20 þús. millj. kr. ábyrgð sem vel mögulega getur fallið á íslenska ríkið innan fárra ára. Það blasir við í þessu dæmi því að áhættan er alveg gríðarleg, það vita allir. Um það eitt eru menn þó sammála. Ég hef engan einasta mann heyrt reyna að halda öðru fram.

Það var eiginlega sérkennilegt að heyra hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem gefur sig út fyrir að vera glöggan á tölur og kenndi víst stærðfræði fyrr á árum í landinu, skauta jafnléttilega yfir þetta og ég bara trúi því ekki að hv. þm. reyni að halda því fram að hér sé ekki stórkostlega umdeilanlegt mál á ferðinni. En Framsókn ætlar auðvitað að láta hafa sig í að styðja þetta. Þetta eru Kárahnjúkarnir hennar.

Það sem ég tel, herra forseti, líka hvað áhugaverðast í þessu er sú staðreynd að þessa ábyrgð á að veita móðurfyrirtækinu, deCODE genetics Inc. í Delaware í Bandaríkjunum. Ef hér á að stuðla að þessari tilteknu uppbyggingu hlýtur að vera lafhægt að gera það í sjálfstæðu dótturfyrirtæki, skráðu á innlendan markað. Það er verulega annar hlutur að ríkið komi með einhverjum hætti að því að styðja það sem sjálfstæðan þátt í sjálfstæðu fyrirtæki og draga þannig úr áhættunni. Að sjálfsögðu getur eigendaábyrgð móðurfyrirtækisins verið til staðar eftir sem áður með því eigin fé sem þar er til tryggingar. Það er ekki nokkur einasti vandi að koma því þannig fyrir. En ríkið gengst þá ekki í ábyrgð nema fyrir þeim þætti sem er í því fyrirtæki, á þeirri kennitölu.

Hvers vegna er þetta ekki gert svona? Hverju veldur það að ábyrgðin er veitt móðurfyrirtækinu í gegnum dótturfyrirtæki sitt hér, Íslenska erfðagreiningu hf., til þess að færa þar út starfsemina? Maður spyr sig auðvitað af hverju svona sé gengið frá málinu. Er það mögulega vegna þess, sem hér hefur verið haldið fram og menn hafa vitnað í blöð og skrif, að menn vilji fá þessa ríkisábyrgð á bak við móðurfyrirtækið sjálft sem Íslendingar eru þá komnir með að enn þá meira leyti á herðar sínar? Menn voru gírugir að kaupa inn í landið eignarhlut hinna erlendu áhættufjárfesta svo milljörðum ef ekki milljarðatugum skipti á rjúkandi háu gengi. Og menn vita hvernig ávöxtunin er af því í dag. Hver er ávöxtun bankanna og sjóðanna sem keyptu hérna milljarðahluti í Íslenskri erfðagreiningu eða í deCODE öllu heldur? Ætli það standi ekki í 1/4 af því sem það var keypt á, 1/3--1/4? Þessir stóru aðilar munu hafa verið að kaupa á gengi sem var í kringum útboðsgengið 18.

Hvar er umræða um þessi mál? Hefur þetta reynst gáfuleg ávöxtun á þeim eignarhlutum sem þarna fóru? Ekki enn þá a.m.k.

Herra forseti. Það er líka auðvitað sérkennilegt, eins og margir hafa bent hér á, að þetta stendur til boða gagnvart þessari áhættusömu uppbyggingu og rökin eru þau ein að hér sé verið að stuðla að því að þessi starfsemi byggist upp hér í landinu og skapi þessi störf. Jákvætt og gott og göfugt sem það nú er getur sá tilgangur ekki bara sem slíkur algerlega helgað meðalið. Sú röksemdafærsla gengur ekki upp. Á sama tíma, herra forseti, láta menn merkum atvinnugreinum þar sem í boði eru ágætlega vellaunuð störf blæða út í landinu, og þar sem iðnmenntun og fagmenntun kemur við sögu. Er það rökrétt, herra forseti, að Íslendingar láti skipaiðnaðinum blæða út, sem hér var löngum blómleg atvinnugrein með iðnmenntuðu og fagmenntuðu fólki, verkfræðingum, tæknifræðingum, iðnaðarmönnum? Af hverju er skipaiðnaðinum að blæða út? Það er af því að íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað jafna samkeppnisskilyrði hans við nágrannalöndin.

Það er ekki verið að biðja um einhverja sérstaka ríkisaðstoð sem ekki er í boði almennt. Nei, það hefur verið beðið um að samkeppnisskilyrði íslensks skipasmíðaiðnaðar yrðu jöfnuð í formi vaxtaniðurgreiðslna eða annarra sambærilegra hluta sem Norðmenn, Spánverjar og aðrir slíkir hafa ástundað lengi. Þá hafa menn verið svo heilagir að menn hafa sagt: Nei, enga ríkisaðstoð, þessi grein verður bara að lifa eða deyja eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Hún verður bara að spjara sig sjálf. Og við höfum horft á eftir hundruðum starfa, miklu fleiri en hér er verið að ræða um, því að þegar best lét var vel á annað þúsund störf beint í skipaiðnaðinum íslenska með síðan öllum þeim margfeldisáhrifum sem sú grein hafði. Þau voru mjög mikil, miklu meiri en verða af starfsemi af þessu tagi vegna þess að þar komu við sögu mikil aðföng, margir undirverktakar o.s.frv.

Herra forseti. Svo mega menn ekki láta eins og það sé óþekkt fyrirbæri að menn sæki sér fjármuni með lántökum, með hlutafjárútboðum, á forsendum sem síðan reynast ótraustar. Er ekki ástæða til að vera dálítið á verði? Við höfum mörg dæmin um það frá síðustu árum að menn hafa veifað svipuðum plöggum um hátækni, um nýja atvinnustarfsemi, og sett upp áferðarfalleg plön, miklu flottari áætlanir en hér eru sem eru reyndar engar því að engar greiðsluáætlanir liggja fyrir, ekkert hagkvæmnismat, ekkert áhættumat. Það var þó til staðar t.d. þegar stálfyrirtæki ætlaði að fara að endurvinna stál landsmanna. Útlendir aðilar veifuðu fínum áætlunum, fengu innlenda aðila til liðs við sig og drógu mikið fé út úr bönkum og sjóðum, byggðu hús og síðan ekki söguna meir. Fyrirtækið fór á hausinn áður en það hóf formlega starfsemi. Gjaldþrotið upp á þúsundir milljóna, a.m.k. fleiri hundruð, og alveg ljóst að menn höfðu makað krókinn hressilega, þeir sem að þessu stóðu, meðan ævintýrið stóð.

Er ekki nýlega skollið á menn sóðalegt gjaldþrot á Suðurnesjum þar sem kannski svipaðir hlutir voru á ferð? Miklir fjármunir hafa tapast af því að menn reyndust of auðtrúa gagnvart áætlunum sem var veifað framan í þá um slíka uppbyggingu í tæknivæddri grein. Ég gæti lengt þessa sorgarsögu mikið því að ég kann ýmis dæmi af þessum toga.

Menn hafa stundum líka lent í því, bæði við og ýmsar nálægar þjóðir, að menn hafa ætlað að veðja á möguleika inn í framtíðina, lagt stórt undir í lottóinu og tapað. Færeyski landssjóðurinn fór ekki glæsilega út úr því þegar Færeyingar ætluðu að brjóta í blað á sviði þar sem þeir eru þó engir nýgræðingar, í sjávarútvegi, og reyna að gerast brautryðjendur í því að veiða kolmunna og vinna hann í súrimi á Japansmarkað. Eitthvert stærsta og glæsilegasta skip í Norður-Atlantshafinu var byggt og keypt, mig minnir að það hafi heitið Slættaratindur, og færeyski landssjóðurinn stóð á bak við þetta með miklum ábyrgðum. Svo fór allt á dúndrandi hausinn af því að hvorugt var til staðar, hvorki faglegu undirstöðurnar --- það átti eftir að láta reyna á hvort fiskurinn reyndist vinnanlegur með þeim hætti í stórum stíl í vélum sem nauðsynlegt var --- og hinn þáttinn vantaði líka, markaðinn. Bæði faglegi þátturinn og viðskiptaþátturinn voru óunnir og því fór sem fór.

Nú getur vel verið að þetta eigi einhvern tíma eftir að lánast, vonandi, og menn eru að þreifa sig áfram með þetta núna en þetta fór illa hjá frændum okkar. Ég held að það hafi fyrst og fremst gert það vegna þess að menn voru of bráðir á sér, menn voru of bjartsýnir og gættu ekki að því að það er dálítið varhugavert að ætla að veðja á vinning af þessu tagi, sérstaklega ef hinar efnislegu undirstöður vantar.

Hvernig er nú ástandið í þessu máli, herra forseti? Það er nákvæmlega svona. Í þessu tilviki á eftir að sýna sig að þessi aðferðafræði sé viðráðanleg, gangi upp, að sannanlega sé hægt að nota erfðaupplýsingarnar, tengdar við hinar líffræðilegu upplýsingar úr genunum, til að finna lyf við fjölgenasjúkdómum þar sem ekki bara eitt heldur mörg erfðamengi koma við sögu. Hin faglega hugmynd er enn á fræðilegu stigi, í mótun, og þá er eftir hinn hluti málsins, að menn komist alla leið og geti gert þetta að seljanlegri vöru. Þá er viðskiptaóvissan eftir. Hverjum einasta manni sem leggur sig eftir því að setja sig eitthvað inn í þetta, þó að hann sé enginn sérfræðingur á sviðinu, nægir að hafa nasasjón af öðru hvoru, viðskiptalegu áhættunni eða þeirri faglegu. Þetta eru menn allt saman tilbúnir til að taka, og það ekki með neinum smáaurum heldur 20 þús. millj. kr. til að ábyrgjast að vísu mjög áhugaverða hluti ef eftir gengju --- það væri glæsilegt að bæta við þennan vinnustað sem fyrir er þeim 250 störfum sem sagt er að þarna gætu bæst við. Segjum að þetta mundi blómstra upp í að verða þúsund manna vinnustaður --- það er auðvitað gaman að koma þarna og upplífgandi að sjá það sem gerst hefur --- en þetta er enn á algjöru óvissustigi, algjöru tilraunastigi.

[18:45]

Hver er hin hliðin á því ef hér væri kominn 1.000 manna vinnustaður eða svo gott sem í Vatnsmýrinni, með hámenntuðu fólki, að verulegu leyti Íslendingum? Hún er sú að það yrði alveg ægilega sárt að sjá á eftir þeim. Í hvaða stöðu gætum menn þá lent eftir þrjú ár, fimm ár, sjö ár? Í þeirri vondu stöðu að annaðhvort yrði að stórauka aðstoðina við fyrirtækið, framlengja ábyrgðina, stækka hana, til að ná í meira fé, til að hafa úthald í kapphlaupinu og ná alla leið í mark. Það er það sem ég held, herra forseti, að sé nú kannski hvað alvarlegast í þessu. Við erum hér á vendipunkti þess máls að gera það upp við okkur hvort við ætlum í þetta ferðalag eða ekki. Er sú áhætta verjandi? Ég er algerlega sannfærður um að ekki verður öfundsvert að standa í þeim sporum ef þau koma einhvern tíma til, sem maður vonar auðvitað ekki, að málin séu að komast í þrot, að annaðhvort sé ekkert í sjónmáli, sem væri náttúrlega verst, eða þá hitt sem gæti sett menn í mjög erfiðar aðstæður, að meta einhverjar líkur á því að eftir tvö til sjö ár þar í viðbót og svo og svo marga milljarðatugi þar í viðbót, væri mögulegt að menn fengju eitt gullegg í hendur sem gæti orðið að stóru ævintýri, en eins og ég hef sagt gæti líka orðið að fúleggi, ofboðslegu fúleggi.

Herra forseti. Ég segi það alveg eins og er að mér finnast þeir menn býsna kjarkmiklir sem ætla bara að stinga sér út í laugina svona án þess svo mikið sem að gá í raun að því hvort vatn sé í henni. Þetta er nú ekki einu sinni bara spurning um hitastig. Menn geta þó látið sig hafa það að dúndra sér út í kalda laug. En það er verra ef ekkert vatn er í henni. En við vitum það bara ekki. Þetta er þannig. Áhættan er ofboðsleg. Viljum við þá verja takmörkuðum fjármunum okkar skuldsetta þjóðarbús í þessa einu viðskiptahugmynd, því þetta er ekkert annað en viðskiptahugmynd? Þetta er viðskipta- og fræðihugmynd á mótunarstigi. Það á algjörlega eftir að sýna sig hvort hlutirnir ganga upp. Þar byggja menn á upplýsingum frá fyrirtækinu sjálfu, þeim mönnum sem eðlilega reyna að sanna hugmyndir sínar og tala fyrir þeim. Það er eðlilegt. Það er þeirra hlutverk. En það er miklum erfiðleikum bundið að fá á það óháð mat og það mundi sennilega aldrei koma neitt annað út úr því en að áhættan væri gríðarleg. En menn hafa ekki einu sinni reynt það. Þeir hafa nú ekki einu sinni reynt það. Það liggur ekkert slíkt fyrir. Að vísu er talað um einhver blöð frá tveimur eða þremur fjármálafyrirtækjum, Morgan Stanley og einhverjum öðrum, sem í ljós kemur að eru nátengdir viðkomandi fyrirtæki hagsmunatengslum. Hvar er hið óháða faglega mat? Hvar er það? Hvar eru sérfræðingar á sviði erfðavísinda og lyfjaþróunar sem menn hafa reynt að leita til til að fá fleiri álit á því hversu líklegt sé að þetta dæmi gangi upp og að þetta takist svona? Ég hef ekki séð það. Það er ekki í málsskjölunum.

En það vekur athygli mína að helstu sérfræðingar landsins aðrir en þeir sem vinna hjá Íslenskri erfðagreiningu eru að skrifa í blöðin þessa dagana fullir efasemda. Mér er tjáð að margir erlendir sérfræðingar sem hafa fylgst mjög vel með þessu máli, breskir, þýskir og bandarískir, hafi gríðarlegar efasemdir. Þeir hafa reifað þær í umræðuþáttum í erlendum sjónvarpsstöðvum og í blaðagreinum. Það hefur ekkert verið farið í að skoða hvernig þetta vigtar saman, enda er málið auðvitað ekkert rekið á þeim forsendum að efnisþættir þess skipti máli. Þetta er bara borið hér þannig að okkur, herra forseti, að það er algerlega nakið. Tekin hefur verið pólitísk ákvörðun úti í bæ um að veita þessu ábyrgð og þá skal það keyrt hér í gegn og menn eru látnir hýða sjálfa sig með hrísvendi hér eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson frammi fyrir alþjóð. Það er hroðalegt að sjá. Helsta huggunin er að sól er að hækka á lofti og þá eru menn yfirleitt upplitsdjarfari en ella væri. Ég býð ekki í það hvernig þeim liði ef enn væri svartasta skammdegið, herra forseti.