Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:52:49 (8275)

2002-04-26 18:52:49# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við fögnum því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur nú hafið upp málflutning fyrir Framsóknarflokkinn þó í andsvörum sé.

Mér er ljóst að þetta eru heimildarlög. Frv. er þannig úr garði gert. En það gerir málið að sumu leyti enn þá verra, enn þá fráleitara, vegna þess að með þessu frv. er lögunum um ríkisábyrgð og öllu því ferli sem þar er tryggt um málsmeðferð, ýtt til hliðar. Eftir stendur að ekkert annað en einföld heimild handa ráðherra til þess að taka upp pennann og skrifa 20 þús. millj. kr. ávísun. Það er hann, hæstv. ráðherrann, sem á að meta skilyrði málsins. Með öðrum orðum, hæstv. fjmrh. er settur í þann hroðalega gapastokk að hafa þessa heimild í höndunum án nokkurrar leiðsagnar, án nokkurra trygginga eða girðinga sem lögin setja fyrir því að einhver skilyrðu séu uppfyllt. Þetta er einhver ofboðslegasti kaleikur sem hefur verið settur á borð nokkurs manns mjög lengi.

Herra forseti. Í öðru lagi er sagt að fyrirtækið sé vel fjármagnað. Jú, það mun eiga svo sem 15--18 milljarða á bók, þ.e. það sem eftir stendur af hlutafjárútboðinu mikla. En það gengur hratt á það. Það brennur hratt upp. Fyrirtækið á fyrir u.þ.b. þriggja ára taprekstri að óbreyttu. Með öðrum orðum, algjör umskipti í afkomu fyrirtækisins þurfa að verða á allra næstu missirum ef ekki á illa að fara. Menn verða að setja tölurnar í sitt rétta samhengi, það samhengi að fyrirtækið er að tapa 4--5 milljörðum á ári. Það hefur heldur dregið í sundur með tekjum og gjöldum miðað við uppgjör síðasta árs. Svona er þetta.

Herra forseti. Í þriðja lagi má færa rök fyrir því að á sinn hátt væri áhættan miklu minni í sjálfstæðu dótturfyrirtæki hér sem væri þá ekki annað en reksturinn utan um þennan vinnustað og staðsett hér. Þó að ríkið væri þar í einhverri ábyrgð þá væri það betur sett en að vera komið með svona stóra ábyrgð inn í sjálft móðurfyrirtækið. Ég held vel megi færa rök fyrir því að ef þetta dótturfyrirtæki væri sæmilega vel fjármagnað í grunninn, t.d. með 5.000--8.000 millj. kr. eigið fé frá Íslenskri erfðagreiningu plús ábyrgð ríkisins, væri það betur sett en samkvæmt þessu fyrirkomulagi hér.