Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:55:06 (8276)

2002-04-26 18:55:06# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að stjórnvöld þurfa að huga að því að skapa þannig skilyrði í atvinnulífinu að unnt sé að treysta á hagvöxt á komandi árum til að byggja upp áframhaldandi betri lífskjör. Veikleikinn í íslensku hagkerfi er sá að útflutningstekjur sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru frekar lágar og það hlýtur að vera aðalverkefni íslenskra stjórnvalda á þessum tíma að reyna að styrkja atvinnugreinar sem hækka þetta hlutfall. Því er mjög eðlilegt að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að koma á fót atvinnugreinum eins og virkjunum sem selja rafmagn til álvera og annað slíkt og líftækniiðnaði og honum tengdum, sem að sama skapi er til þess fallið að skjóta nýjum stoðum undir íslenskt efnahagslíf og vera til þess að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar til lengri tíma litið. Þetta verða íslensk stjórnvöld að gera. Þau gera það annars vegar með almennum aðgerðum og hins vegar með sértækum aðgerðum.

Herra forseti. Ég minni á að í vetur beitti ríkisstjórnin sér fyrir almennum aðgerðum á sviði skattamála með því að lækka skatta og gera fleiri slíkar aðgerðir. Hv. þm. studdi ekki þær aðgerðir. Hann studdi það ekki að skapa hin almennu skilyrði. Nú hefur ríkisstjórnin líka ákveðið að beita sér fyrir sértækri aðgerð til að koma á fót atvinnugrein sem verður byggð upp í þekkingarþorpinu í Vatnsmýrinni. Hv. þm. styður það ekki heldur.

Til að rifja upp söguna fyrir hv. þm. þá beitti ríkisstjórnin sér fyrir því á sínum tíma, fyrir nokkrum árum til þess að koma á fót jarðgöngum undir Hvalfjörð að ríkisábyrgð yrði veitt á framkvæmdina að hluta til. En hv. þm. gat ekki einu sinni stutt það. Hvernig ætlar hv. þm. að standa að því að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma þegar hann greiðir atkvæði gegn öllum aðgerðum, bæði almennum og sértækum?