Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:57:21 (8277)

2002-04-26 18:57:21# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég studdi ekki skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á hátekjufólk og stórfellda lækkun á tekjuskatti gróðafyrirtækja. En það kom jafnframt fram í okkar máli að við vildum frekar verja fjármunum, ef á annað borð væri farið út í það, með aðgerðum sem kæmu nýsköpun í atvinnulífinu til góða, nýjum fyrirtækjum en ekki rótgróðum gróðafyrirtækjum. Það var á þeim sem tekjuskatturinn var lækkaður, hv. þm., hafi það farið fram hjá hv. þm.

Ég held að sá sem hér stendur varla sakaður um að hafa verið sérstakur dragbítur í sambandi við Hvalfjarðargöngin því hv. þm. ætti að vita að hér stendur nú sá sem flutti fyrsta frv. um það mál og gerði samningana um það mál. Hér urðu hins vegar deilur um breytingar sem þar voru gerðar, þ.e. ríkisábyrgð á einstökum þætti málsins. En það liggur fyrir að ég og þáv. hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, ,,president``, sem nú býr á Bessastöðum, komum því máli í gegnum þingið og lögðum drög að því að sú framkvæmd komst af stað þó rækilega hafi verið reynt að breiða yfir þá staðreynd þegar Sjálfstæðisflokkurinn var að opna göngin nokkrum árum síðar. En vonandi ætlar hv. þm. ekki að ganga í lið með þeim og fara að umskrifa söguna svona jafnóðum eins og þeir gerðu í Kóreu að sögn. (Gripið fram í.)

Það er rétt að við þurfum að auka útflutningstekjur. En það er ekki sama hvernig það er gert. Þjóðarbúið er skuldsett og það er nú ekki eins og að valin sé ódýrasta leiðin hér, herra þingmaður. 35 þúsund milljónir á það að kosta að sögn samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu að koma upp 200--250 manna vinnustað. Það er nú býsna drjúgt á hvert starf. Við höfum einmitt verið að flytja tillögur um almennar aðgerðir, t.d. aðgerðir til endurreisnar skipaiðnaðinum. Er það ekki atvinnustefna? Mundi það ekki skipta máli á þeim stöðum þar sem hann var áður blómlegur, eins og á Akureyri, í Hafnarfirði, Seyðisfirði, Stykkishólmi o.s.frv., Ísafirði þar sem hv. þm. þekkir til og rekin var hin ágæta skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar eins og hv. þm. veit.

Herra forseti. Ég held að það sé fjölbreytnin og einmitt það að setja ekki öll egg í sömu körfu sem við eigum að hafa að leiðarljósi, en ekki þessi aðferð hér að veðja á einstaka stóra kosti og kosta þar óhemju fjármunum til eða taka þar ógurlega áhættu.