Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 18:59:53 (8278)

2002-04-26 18:59:53# 127. lþ. 130.11 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta hefur verið lífleg og skemmtileg umræða að mörgu leyti þó ég verði að segja að málefnið veki mér nú nokkurn hroll þrátt fyrir það.

[19:00]

Eftir því sem ég fæ best séð er áhættan mjög mikil í þessu máli. Hún er mjög mikil viðskiptalegs eðlis og hún er einnig mjög mikil varðandi þá afurð sem menn hyggjast framleiða, þ.e. lyf. Þar er geysilega mikil óvissa þannig að bæði viðskiptahliðin og framleiðsluhliðin eru að mínu viti háð mikilli óvissu.

Ekki ætla ég að gefa mig út fyrir það að hafa mikið vit á lyfjum. Sem betur fer nota ég þau afar sjaldan. Ég veit eiginlega ekkert um þau. Kannski hef ég ekki heldur mikið viðskiptavit. Ég er þó sæmilega töluglöggur. Hvað um það. Mér er samt ætlað sem þingmanni hér á þinginu að taka afstöðu til þessa máls, hvort sem þekking mín á því er næg eða ekki. Ég reyni eðlilega að setja mig inn í það sem við erum að reyna að fjalla um eftir því sem ég hef tök á.

Við eigum ekki sæti í efh.- og viðskn. og höfum ekki komið að upplýsingum um málið þar. Ég get hins vegar lesið mjög skilmerkilega það sem sett hefur verið fram í nefndarálitum 1. og 2. minni hluta því mér fannst ekki mikið að græða á áliti meiri hlutans varðandi þau vafaatriði og spurningar sem hljóta að vakna þegar fjallað er um þetta mál. Ég stend því frammi fyrir því að taka afstöðu til þessa máls eins og margir aðrir þingmenn.

Ég sé í nefndaráliti 2. minni hluta að því er haldið fram að nánast allar upplýsingar skorti til þess að þingmenn geti fengið yfirsýn yfir málið. Mér sýnist í nál. beggja minni hlutanna að færð séu fyrir því mjög sterk rök að yfirsýn skorti í þessu máli til þess að þingheimur geti tekið upplýsta afstöðu til þess hvort hér sé um verðugt verkefni að ræða sem muni skaffa mikla fjármuni í framtíðinni og að sú ábyrgð sem við værum þá að veita til fjmrh. samkvæmt þessu frv., væri nokkuð trygg, þ.e. að ekki verði miklar líkur til þess að hún félli á þegna þjóðarinnar.

Ég fæ ekki séð að þessum spurningum sé svarað þannig að það breyti þeirri skoðun sem ég hef myndað mér á málinu, að áhættan sé mikil og hér sé verið að taka þá stefnu að láta eitt fyrirtæki, þ.e. Íslenska erfðagreiningu, njóta sérstaks forgangs umfram mörg önnur fyrirtæki sem starfa hér á lyfjasviði. Niðurstaða mín er því sú að ég treysti mér ekki til þess að styðja þetta mál sem við erum að fjalla um.

Ef ég fer aðeins yfir þau nál. sem ég er með fyrir framan mig frá 1. og 2. minni hluta þá vakna margar spurningar. Á bls. 5 er verið er að meta hæfni fyrirtækisins, fjárhagslega stöðu þess og annað slíkt og heildarfjárfestinguna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Af heildarfjárfestingarþörfinni, u.þ.b. 35 milljörðum íslenskra króna, er gert ráð fyrir að fjárfesting í húsnæði og búnaði verði um 8--10 milljarðar en önnur útgjöld 25--27 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir því að þeir 15 milljarðar sem upp á vantar verði fjármagnaðir með tekjum af starfseminni, eiginfjárframlögum og lánum.``

Svo kemur þessi gullvæga setning:

,,Hlutfall hvers þáttar í fjármögnuninni ræðst af gengi verkefna og stöðu fyrirtækisins í heild ...``

Þetta er kortlagningin á því hvernig þessi fjármögnun mun eiga sér stað.

Síðan vitum við að Íslensk erfðagreining hefur hingað til verið rekin með tapi og tekjur fyrirtækisins eru ekki neitt nálægt því að koma fyrirtækinu í hagnað. Samt er okkur sagt hér í svörum og það segir í þessu nál. 1. minni hluta á bls. 6, þ.e. þá kemur spurning númer 9:

,,9. Hvað má áætla að núverandi eigið fé og áætlaðar tekjur dugi lengi til að reka fyrirtækið án nýrrar innspýtingar eða aðgerða til að styrkja reksturinn?``

Svarið er:

,,Samkvæmt greiningarskýrslum er áætlað að frjálsar og bundnar bankainnstæður (167 milljónir bandaríkjadollara) séu nægjanlegar til reksturs núverandi starfsemi a.m.k. í þrjú ár vegna núverandi starfsemi. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að fyrirtækið verði rekið með hagnaði.``

Mér er nú sem ég sæi að ein svona setning dygði mönnum hér í bankakerfinu eða í Byggðastofnun til þess að lána fyrirtækjum ef ekki er betri upplýsingar á bak við það en hér er gerð grein fyrir. En þetta eru þær upplýsingar sem við þingmenn eigum að byggja á til þess að taka afstöðu.

Á bls. 6 er 7. spurning sem hljóðar svona, með leyfi forseta:

,,7. Var gengið úr skugga um að fyrirtækið gæti ekki fengið lánafyrirgreiðslu á markaði hér innan lands eða erlendis áður en vilyrði voru gefin af hálfu ríkisvaldsins fyrir ríkisábyrgð?``

Svarið er:

,,Hugmyndir um fjármögnun sem kynntar eru í frumvarpinu gera ekki ráð fyrir því að um hefðbundna lánsfjármögnun verði að ræða heldur verði lögð áhersla á skuldabréf með breytingu í hlutfé samkvæmt tilteknum skilmálum. Þetta þýðir að sá hópur fjárfesta sem leitað verður til með fjármögnun verður fjárfestar sem sérhæfa sig á þessu sviði.

Stærð verkefnisins veldur því að ekki er talið líklegt að innlendir lánveitendur eða fjárfestar gætu séð um fjármögnun af því tagi sem hér er um ræða. Erlendir lánsfjár- og hlutabréfamarkaðir eru einnig erfiðir um þessar mundir til fjármögnunar á verkefnum á þessu sviði vegna almenns samdráttar í efnahagslífi og afleiðinga atburðanna frá 11. september. Því er líklegt að bein lánsfjármögnun án ríkis\-ábyrgðar yrði fyrirtækinu það óhagstæð að álitamál yrði hvort það sæi sér hag í því að fara þá leið.``

Herra forseti. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að sem leikmaður á þessu sviði en lesandi þau svör sem hér eru gefin þá veita þau mér ekki mikla festu í því að breyta um skoðun í þessu máli. Ég verð því bara sem óbreyttur þingmaður að reyna að leggja mat á það sem hér kemur fram, enda get ég ekki annað en lesið þau plögg sem koma frá efh.- og viðskn. og eru í þessum álitum og reynt að mynda mér skoðun á verkefninu.

Í þessum nefndarálitum segir líka að ekkert áhættumat hafi verið framkvæmt af óháðum fagaðila á þeim áætlunum fyrirtækisins sem lagt er upp með. Ekki eykur það möguleika okkar þingmanna til að taka upplýsta afstöðu í málinu. Það auðveldar það alla vegana ekki, herra forseti.

Herra forseti. Í umsögnum í nál. 2. minni hluta er vikið að samkeppni bæði á framleiðslusviði og eins um starfsfólk. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Varðandi fullyrðingu um að umrædd ríkisábyrgð hafi ekki skaðleg áhrif á viðkomandi markaði vísast til ábendinga þeirra fyrirtækja sem nú þegar eru til staðar í skyldum greinum og er því þjónað af starfsfólki sem hefur sambærilega menntun og það fólk sem Íslensk erfðagreining ehf. mun leitast eftir að fá til starfa við hina nýju deild.

Þau benda á að um gríðarmikinn aðstöðumun í samkeppni um vinnuafl verði að ræða þegar einum mjög stórum aðila er veitt fyrirgreiðsla til fjármagnsöflunar í formi ríkisábyrgðar, sem að sjálfsögðu lækkar til muna vaxtakostnað hans og bætir þar með til muna samkeppnisstöðu þess fyrirtækis gagnvart öðrum.``

Herra forseti. Ég sé ekki betur á þeim umsögnum sem hafa borist, þeim tilvitnunum sem hér eru og einnig á svörum sem fylgja með þessum nál. frá þeim aðilum sem voru kallaðir fyrir nefndina en að menn hafi miklar efasemdir um það sem hér er verið að leggja upp með. Mér sýnist menn færa fyrir því mörg rök sem ég get ekki annað en tekið mark á og tekið tillit til. Þau rök styðja þá skoðun mína að ekki beri að veita þessa ábyrgð.

Herra forseti. Síðan má spyrja almennt í svona pólitískri umræðu um það hvers vegna afstaða stjórnarflokkanna og ríkisvaldsins komi nú upp með þessum hætti, þ.e. að vilja sérstaklega fara í að styrkja þessa stefnumótun um að eitt fyrirtæki, Íslensk erfðagreining í þessu tilfelli, fái mikla ríkisábyrgð til þess að efla hér atvinnulíf.

Við Íslendingar höfum í gegnum árin reynt að leitast við að halda hér uppi þjónustu við skipaiðnaðinn. Að því var vikið í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan. Ég hafði hugsað mér að gera það að nokkru umræðuefni hér vegna þess að mér finnst að stefna ríkisstjórnarinnar í skipasmíðaiðnaði, bæði í skipasmíðum og viðhaldi, hafi verið sú að þessi iðnaður hefur nánast verið látinn drabbast niður. Þarna var um að ræða fjölmörg störf, herra forseti, og þessi störf voru ekki bara bundin við Reykjavik. Þau voru stunduð vítt og breitt um landið.

Ég tel að mikill skaði hafi verið af því hvernig ríkisvaldið hefur haldið á málefnum skipasmíðaiðnaðarins og hvernig hann hefur í raun verið látinn drabbast niður vegna þess að stjórnvöld hafa hvorki haft vilja, burði né getu. Kannski getu, ég veit það ekki. En það sem hefur hins vegar vantað í þetta er stefnumótun til þess að reyna að halda þessum þekkingariðnaði í landinu og gera hann sterkari og samkeppnisfæran.

Hér erum við að fara í sérstaka ábyrgð til þess að efla samkeppni á lyfjasviði og efla nýsköpun þar. Ég sakna þess að menn skyldu ekki hafa tekið skýra stefnu varðandi skipasmíðaiðnaðinn um að tryggja þróun skipasmíðaiðnaðar hér á landi og að viðhaldið á flotanum væri til staðar. Við vitum að þessi iðnaður var vítt og breitt um landið, á Seyðisfirði, í Neskaupstað, Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Keflavík, Vestmannaeyjum, Stykkishólmi og Reykjavík, svo dæmi séu tekin. Því miður hefur iðnaðurinn átt verulega undir högg að sækja. Hann hefur þurft á ákveðnum stuðningsaðgerðum að halda sem eru við lýði í mörgum löndum hér í kringum okkur. En hann hefur ekki fengið þann stuðning og verið látinn drabbast niður.

Ég tel að þarna hafi verið illa að verki staðið. Í þessum iðnaði hefðum við getað viðhaldið mörgum arðbærum og ágætlega launuðum störfum ef vel hefði verið staðið að verki.

Herra forseti. Í annan stað langar mig að víkja að því hvers vegna ríkið hafi tekið þá stefnu að selja í miklum mæli fyrirtæki sem oft og tíðum á undanförnum árum, alla vegana seinni árin, hafa verið að skila verulegum arði í rekstri. Hvers vegna, herra forseti, hafa menn séð sér svo mikinn hag í því að losa sig við góð og rekstrarhæf fyrirtæki? Nú ætla menn sérstaklega að taka mikla ábyrgð á einu fyrirtæki til þess að stofna hér til atvinnu.

Auðvitað er hægt að nefna margt í þessu sambandi. Upp í hugann koma mjög fljótlega fyrirtæki eins og Síldarverksmiðjur ríkisins, Íslandsbanki-FBA, Áburðarverksmiðjan, Landsbankinn og Búnaðarbankinn --- það sem búið er að selja í þeim --- Hitaveita Suðurnesja og nú stendur til að ríkið selji hlut sinn í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Ef ég man rétt, herra forseti, þá hafa eiginlega öll fyrirtækin sem ég hef hér nefnt skilað góðum arði á undanförnum árum og missirum. Sum eru enn þá að hluta í ríkiseign með ágætisarð, m.a. Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki og Landsbanki/Búnaðarbanki. Ég veit ekki annað en Hitaveita Suðurnesja hafi verið að skila hagnaði. Hún var reyndar seld. Ríkið seldi hlut sinn þar nýlega. En nú liggur fyrir þinginu ákvörðun um að veita ríkisábyrgð fyrir miklum áhætturekstri sem byggist annars vegar á viðskiptahugmynd um að framleiða lyf og þeirri miklu áhættu sem felst í lyfjaframleiðslu, eins og þeir vita sem hafa lesið sér til. Þar lánast aðeins örfá framleiðsluferli. Um 90% af lyfjaframleiðslunni fellur sem markaðshugmynd eða framleiðslulyf og aðeins 10% nýtast áfram og fá af þeim verða í raun það sem kallað er ,,topp söluvara`` eða lyf sem skila miklu. En þau lyf sem tekst að framleiða og verða virk á markaði gefa mikið í aðra hönd. Því er ekki að neita.

Herra forseti. Hvernig sem á málið er litið þá er niðurstaða mín sú að hér sé íslenska ríkið að taka of mikla áhættu. Með þessari ábyrgð erum við að ábyrgjast skuldbindingu upp á u.þ.b. 300.000 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Niðurstaða mín er sú, herra forseti, miðað við þekkingu mína og þær upplýsingar sem ég hef skoðað og reynt að afla mér, að ég mun ekki treysta mér til þess að greiða því atkvæði.