Stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 10:00:06 (8279)

2002-04-27 10:00:06# 127. lþ. 131.91 fundur 551#B stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds# (aths. um störf þingsins), ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[10:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við erum að hefja hér þingfund á laugardegi. Það eru 58 mál á dagskrá. Þinghaldinu átti að ljúka sl. miðvikudag. Fyrir mánuði voru allgóðar líkur á að áætlanir þingsins mundu standast. Þá gerist það að ríkisstjórnin fer að skófla inn í þingið hverju stórmálinu á fætur öðru og gerir nú kröfu um að þau verði afgreidd fyrir þinglok. Mér finnst kominn tími til þess að menn setjist af alvöru niður og ræði framhald þinghaldsins. Hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn verða að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekki stillt Alþingi upp við vegg með þessum hætti. Hér voru áform, hér var ákveðið skipulag á málum, og stefnt var að því að ljúka þinghaldinu sl. miðvikudag. Við lýstum vilja til þess að láta þessar áætlanir ganga upp, og sá vilji stendur enn. En við látum ekki bjóða okkur þau vinnubrögð sem við verðum nú vitni að af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég óska eftir því að boðað verði til fundar með formönnum þingflokka til að ræða þessi mál og reyna að koma skipulagi á þau. Eða hvað stendur til að gera hér í dag? Hvenær á að ljúka þinghaldinu í dag? Á hádegi? Klukkan þrjú? Klukkan fjögur? Hvaða áform eru uppi? Við verðum að fá betra skipulag á hlutina.