Barnaverndarlög

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 11:53:15 (8292)

2002-04-27 11:53:15# 127. lþ. 131.2 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv. 80/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að barnaverndarlög séu einhver mikilvægasta samfélagslega löggjöf sem fyrirfinnst, mikilvæg og vandasöm í senn, viðkvæm þar sem alveg sérstaklega vel þarf að vanda til verka. Það held ég að öllum sé ljóst sem hafa sýslað við þessi mál eða unnið að því að skoða löggjöf og framkvæmd hennar. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að ég held að óhætt sé að fullyrða að með frv. og síðan vinnu Alþingis að því sé verið að landa mjög vönduðum og traustum undirbúningi að setningu nýrrar heildarlöggjafar á þessu sviði, nýrra barnaverndarlaga. Reyndar má segja, held ég, herra forseti, og það er ágætt að menn hafi það í huga á þessum dögum þegar tíminn er stundum af skornum skammti --- verið er að drífa málin í gegn og sum stór mál fá kannski ekki alveg þá skoðun (Gripið fram í.) sem æskilegt væri --- nei, ég vil ekki nefna dæmi við þessa hátíðlegu og ánægjulegu umræðu um barnaverndarlögin, fara að spilla fyrir henni með því að blanda inn í hana öðrum og leiðinlegri hlutum --- en það er óhætt að snúa þessu við og segja að í þessu tilviki sé á ferðinni skólabókardæmi um trausta vinnu og vandaðan undirbúning að mikilvægri löggjöf. Þingið hefur tekið sér góðan tíma, við vorum með þetta mál til umfjöllunar í fyrra og þá var unnið í því að hluta til yfir sumartímann, síðan aftur í allan vetur og þar áður lá að baki nefndarstarf og vönduð vinna af hálfu ráðuneytis. Ég held því að hægt sé að gefa þessu starfi hina hæstu einkunn. Að sjálfsögðu er líka ánægjulegt að full samstaða tókst að lokum um afgreiðslu málsins frá félmn. eftir umtalsverða vinnu. Það kostaði líka vinnu að ná þeirri samstöðu en ég held að það hafi allt saman verið þess virði.

Brtt. sem gerðar eru af félmn. eru að stærstum hluta, má segja, lagfæringar. Ekki er hróflað við grundvallaruppbyggingu fyrirkomulagsins sem frv. dró upp og það felur auðvitað í sér nokkrar breytingar, sérstaklega tilkomu kærunefndar barnaverndarmála og nýrra landamæra eða nýrrar verkaskiptingar að hluta til. Ég held að hún sé í öllum aðalatriðum skynsamleg.

Í fyrsta lagi leggur félmn. til að bætt verði nokkuð við hlutverk ráðuneytisins eða félmrh. hvað varðar yfirstjórn eða ábyrgð á stefnumótun og framkvæmd barnaverndarmála í landinu. Það er gert með því að leggja til tvær viðbætur við 5. gr. Sú fyrri er að ráðherra leggi fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Þetta er vel þekkt fyrirkomulag á ýmsum öðrum sviðum og er líka þekkt í nágrannalöndunum. Ég held að það sé hyggilegt að ganga einmitt svona frá þessu, að í upphafi nýs kjörtímabils sveitarstjórna í landinu liggi fyrir framkvæmdaáætlun ráðuneytisins á þessu sviði.

Seinna atriðið sem við leggjum til að bætist við 5. gr. lýtur að því að félmrn. skuli hafa eftirlit með starfi Barnaverndarstofu og það geti kallað eftir upplýsingum um einstök mál úr starfsemi stofunnar. Barnaverndarstofa fær mjög veigamikið hlutverk í þessum lögum og er ákaflega mikilvæg stofnun á þessu sviði. Hún er í raun og veru bæði stjórnsýslu- og framkvæmdastofnun, hefur ákveðnu ráðgjafar- og eftirlitshlutverki að gegna. Vissulega má færa fram sjónarmið í þá veru að ef eitthvað er sé Barnaverndarstofu kannski ætlað of blandað hlutverk og vissulega hafa slík sjónarmið heyrst. Ég held þó að menn verði á hinn bóginn að horfa til þess að við erum ekki stór þjóð og það verður kannski stundum að sníða okkar fyrirkomulag að þeim veruleika að það er praktískara að hafa hlutina með öðrum hætti hér en kannski hjá milljónaþjóðum. Ég held að það hafi líka sína kosti að hafa þessa hluti samþætta og það eigi ekki að þurfa að skapa óyfirstíganleg vandamál, sérstaklega ekki vegna þess að menn eiga málskotsrétt til kærunefndar á hverjum tíma og á hverju stigi máls og síðan hefur ráðuneytið yfirumsjón með Barnaverndarstofu. Að síðustu er að sjálfsögðu dómstólaleiðin fær ef málin þróast á þann veg.

Í öðru lagi vil ég nefna, herra forseti, breytingarnar sem lagðar eru til við 9. gr. og þá um leið þau ákvæði, þ.e. barnaverndarnefndir sveitarfélaganna. Við leggjum til að sveitarfélög sem kjósa að hafa með sér samstarf eða verða að gera það vegna fámennis, samanber ákvæði 10. gr. frv. en hún kveður á um að fámennari sveitarfélög skuli hafa samvinnu og að samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd verði ekki undir 1.500. Við teljum eðlilegt að þegar þannig háttar til að nokkur sveitarfélög slá sér saman á grundvelli þessa ákvæðis eða velja það sjálf, þó að þau séu ekki knúin til þess vegna fámennis, sé þeim jafnframt heimilt að vinna sameiginlega framkvæmdaáætlanir og þurfi ekki að gera það hvert fyrir sig eins og þetta hljómaði í frv.

Ég held að rétt sé að menn hafi þar í huga, og einnig í sambandi við aðrar breytingar sem ég kem síðar að og lúta að almennum ákvæðum um barnaverndarnefndir, að málin hafa mjög víða þróast þannig að umdæmi barnaverndarnefndanna er allt annað en félagsmálanefnda sveitarfélaganna, miklu stærra yfirleitt. Þannig eru t.d. Þingeyjarsýslur gjörvallar eitt barnaverndarnefndarsvæði, ef ég veit rétt, en þar eru auðvitað fjölmargar félagsmálanefndir í einstökum sveitarfélögum. Þetta gerir það að verkum að það er bæði praktískt, held ég, og skynsamlegt að gera ráð fyrir því að barnaverndarnefndirnar geti skipulagt starf sitt á sínu starfssvæði með dálítið sjálfstæðum hætti. Það ætti að spara tvíverknað og hafa fyrst og fremst kosti í för með sér.

[12:00]

Í þriðja lagi, herra forseti, vil ég aðeins víkja að 13. brtt. nefndarinnar við 18. gr. Þar er vissulega um vandasamt atriði að ræða, eitt af mörgum sem nefndin velti fyrir sér en það lýtur að hlutverki lögreglu og samstarfi lögreglu og barnaverndarnefndar eða barnaverndaryfirvalda. Nefndin leggur til að haldið verði inni tilkynningarskyldu lögreglunnar til barnaverndarnefnda og lögreglunni beri að gefa barnaverndarnefndum kost á að fylgjast með rannsókn mála. Síðan er það lagt í vald barnaverndarnefndanna að meta þann vandasama þátt málsins sem snýr að því í hvaða tilvikum foreldrum skuli tilkynnt um mál sem sæti rannsókn eða þá kannski öllu heldur í hvaða tilvikum það skuli ekki gert, sem er auðvitað vandasamast af þessu öllu saman, að meta hvenær svo er komið að það geti beinlínis mælt gegn hagsmunum barnsins að sá réttur foreldra, sem auðvitað er grundvallarréttur ef allt er með felldu, að fá að vita af því að slík mál séu í gangi, að honum verði að víkja til hliðar vegna eindreginna hagsmuna barnsins. Það er jú grunntónn þessarar löggjafar allrar og honum er rækilega haldið til haga í frv., að það er réttur barnsins sem er í öndvegi enda eru þetta barnaverndarlög.

Herra forseti. Að lokum hvað brtt. snertir þá vil ég víkja að XII. kafla frv., sem ég tel að sé einn mikilvægasti kafli þeirra þrátt fyrir allt og er ég þó ekki að gera lítið úr hinum ítarlegu ákvæðum og mikilvægu ákvæðum sem lúta að meðferð mála og hlutverki hvers aðila um sig í þessu sambandi öllu saman. Það eru auðvitað gríðarlega mikilvæg ákvæði og nauðsynlegt að þau séu ítarleg og skýr og þess vegna er ekkert um annað ræða að mínu mati en að þessi löggjöf sé ítarleg. Það eru svo vandasöm mál þarna undir að annað er óhjákvæmilegt og það má ekki bjóða upp á mikla túlkun eða óvissu sem mundi leiða af því að á þessu sviði gilti einhver einföld rammalöggjöf. En þrátt fyrir það, herra forseti, þá held ég að XII. kaflinn, um hin almennu verndarákvæði, sé mjög mikilvægur og ég fagna alveg sérstaklega ýmsum ákvæðum sem þar eru, ýmist eldri ákvæði, óbreytt eða lagfærð, og svo önnur ný. XII. kafli fjallar í fyrsta lagi í 92. gr. frv. um útivistartíma og í öðru lagi um eftirlit með sýningum og skemmtunum og þar koma nýmæli til sögunnar eins og þau sem varða fyrirsætu- og fegurðarsamkeppnir. Þarna er vikið að aldursmörkum og öðru slíku eins og því að börnum yngri en 18 ára sé óheimilt að taka þátt í nektarsýningum eða öðru sambærilegu. Þessu til viðbótar leggur félmn. til að komi tvær nýjar greinar sem bætist við XII. kafla um almenn verndarákvæði. Sú fyrri, sem verður 94. gr., er um skyldur foreldra og forráðamanna. Þetta held ég að sé mikilvægt atriði sem verðskuldi alveg að dregin sé að því athygli, þ.e. að foreldrar eða forráðamenn barna skuli hafa ákveðnar skyldur og þeim beri að reyna að sjá til þess að börn hlíti ákvæðum kaflans um útivistartíma, þátttöku í sýningum og skemmtunum og annað í þeim dúr og þeim beri jafnframt, þ.e. foreldrunum, eftir því sem í þeirra valdi sé, að reyna að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því. Þetta er merkt nýmæli í löggjöf og í raun og veru allt sem þarna kemur til sögu, bæði þær skyldur sem lagðar eru á herðar foreldra og forráðamanna og síðan að nefna þessa þætti sérstaklega.

Sama gildir um seinni greinina, um almennt eftirlit barnaverndarnefnda. Ég tel að það sé líka merkt ákvæði. Ég vísa til þess sem ég áður sagði um starfsumdæmi barnaverndarnefndanna að það er oft á tíðum annað en annarra nefnda viðkomandi sveitarfélaga, þ.e. vegna þess að þau hafa slegið sér saman. Það eitt og sér eru gild rök fyrir því að barnaverndarnefndirnar þurfa að geta haft ákveðið almennt hlutverk í þessum efnum, þurfa að hafa stöðu til þess að gera sig gildandi og benda á hluti sem þær telja að megi betur fara. Ég held að það sé augljóst mál að það styrkir stöðu nefndanna að þeirra sé getið með einhverjum þeim hætti eins og við leggjum til að gert verði með þessu ákvæði. Að sjálfsögðu er ljóst að síðan gilda almenn ákvæði laga um verkaskiptingu og þetta er ekki á nokkurn hátt hugsað til þess að raska henni og á að mínu mati ekki að þurfa að skapa nein vandkvæði í þeim efnum heldur fyrst og fremst styrkja stöðu þessa kerfis, barnaverndarkerfisins og þeirra aðila sem þar eru að störfum og sinna sínum mikilvægu verkefnum.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að fagna alveg sérstaklega þeim nýmælum sem þarna koma inn. Ég tel það mjög ánægjulegt að nefndin skuli að lokum hafa náð samkomulagi um að leggja þetta til. Menn ræddu þetta mikið og voru ýmis sjónarmið uppi í því sambandi en að lokum urðu allir á það sáttir að standa svona að málum. Það held ég að hafi verið mjög ánægjulegt.

Herra forseti. Það þarf ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég tek undir það að mjög brýnt er að þessari vinnu verði skilað í heila höfn og frv. nái afgreiðslu enda ekki seinna vænna því að gildistökuákvæðin hljóða upp á 1. júní 2002. Það má reyndar velta því fyrir sér hvort það sé bratt í hlutina farið, ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. hefur velt þeim þætti málsins sérstaklega fyrir sér, en ég fór að hugsa um það undir umræðunni að það er auðvitað skammur tími fram að því að lögin öðlist gildi. En í sjálfu sér reikna ég ekki með að það eigi að þurfa að skapa nein sérstök vandamál. Það fellur þá líka ágætlega saman við nýtt kjörtímabil sveitarstjórna sem verða þá nýkomnar að völdum og í sjálfu sér ágætt að þetta fari þannig saman. Hins vegar má alveg velta þessu fyrir sér og ef menn telja ráðlegra að þetta bíði t.d. haustsins þá er að sjálfsögðu hægur vandi að lagfæra það þá við 3. umr. með brtt. En þetta er eina atriðið sem eftir á að hyggja ég fór að velta fyrir mér hvort við hefðum e.t.v. þurft að skoða betur í hv. félmn.