Barnaverndarlög

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 12:08:25 (8293)

2002-04-27 12:08:25# 127. lþ. 131.2 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv. 80/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[12:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég stend hér upp einungis til þess að þakka hv. félmn. fyrir að afgreiða þetta mál. Ég vek athygli á því að þetta er eitt af fáum stærri málum á þessu þingi sem afgreidd eru með þeim hætti að algjör einhugur er um það í nefnd og enginn nefndarmaður einu sinni með fyrirvara. Ég vona að það boði gott að afgreiðslan sé með þeim hætti. Ég held að hér sé um mjög mikilvæga löggjöf að ræða. Reynt hefur verið að vanda til hennar svo sem frekast hefur verið kostur. Þetta er langdýrasta frv. sem samið hefur verið í tíð minni sem ráðherra og væntanlega vandaður undirbúningur sem því nemur.

Varðandi gildistökuákvæðið þá var það nú sett viljandi með þessum hætti. Þegar frv. var lagt fram aftur var lagt til að gildistaka yrði strax eftir kosningar og mér finnst það rökrétt. Það er rökrétt að þegar nýjar sveitarstjórnir taka til starfa þá taki þetta nýja barnaverndarskipulag líka gildi. Og ég hef enga trú á að það skapi nein vandamál. Ég þakka bara kærlega fyrir mig.