Atvinnuréttindi útlendinga

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 12:19:52 (8297)

2002-04-27 12:19:52# 127. lþ. 131.16 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. rakti í framsögu sinni fyrir nál. og brtt. er hér um að ræða margar breytingar sem horfa mjög til bóta og hlutirnir eru miklu traustari en áður. Ég er sammála obbanum af því sem hv. þm. rakti varðandi þær breytingar.

Eitt atriði langar mig hins vegar að spyrja hv. þm. um, sem ég ræddi annaðhvort við 1. umr. nú eða í fyrra og varðar námsmenn. Í 12. gr. þessa frv. er fjallað um atvinnuleyfi vegna námsdvalar. Ég fæ ekki betur séð en verið sé að þrengja skilyrðin, forsendur atvinnuleyfis vegna námsdvalar, frá gildandi lögum. Það er verið að setja inn skilyrði um að hámark leyfistímans verði stytt í sex mánuði úr tólf mánuðum. Ég fæ engin rök séð fyrir þessu, herra forseti.

Mig minnir að ég hafi innt hæstv. ráðherra eftir þessu fyrir ári og fengið heldur loðin svör, sem er ólíkt þeim ágæta hæstv. ráðherra. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur: Hvað veldur því að verið er að stytta skilyrði um hámarksgildistíma atvinnuleyfis námsmanna sem þessu nemur? Hver eru rökin fyrir því?