Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 14:42:28 (8304)

2002-04-27 14:42:28# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég hef aldrei útilokað það í þeirri umræðu sem fram hefur farið um framtíð Þjóðhagsstofnunar að gera breytingar á stofnanakerfi ríkisins. Hv. þm. getur flett upp viðtölum við mig við fjölmiðla t.d. á síðasta ári þar sem ég tek það mjög skýrt fram að ég útiloki ekki stuðning við breytingar á stofnanakerfinu. Núverandi ástand hefur aldrei verið í mínum huga einhver heilög kýr sem ekki mætti hrófla við heldur þvert á móti minni ég á ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem kveður á um það að endurskipuleggja rekstur hins opinbera með það í huga að ná fram aukinni hagræðingu. Ég held að ævinlega þurfi að huga að því, herra forseti, í rekstri hins opinbera að gæta að því að ekki sé þanið út umfram það sem þarf og endurskipulagt sé til að freista þess að ná fram því sem ætlað er með sem minnstum tilkostnaði.

Í öðru lagi vil ég benda á hvað varðar þær upplýsingar sem lúta að liðnum tíma að hef ég ekki neinar efasemdir um það að Hagstofan muni geta unnið þær með sama hætti og verið hefur hjá Þjóðhagsstofnun. Það er ekki ástæða til að ætla að gagnasöfnunin og úrvinnsla úr gögnum um efnahagsmál, um liðinn tíma fari fram með neitt lakari hætti en verið hefur. Það sem menn velta auðvitað fyrir sér fyrst og fremst er spurningin um mat á framtíðinni. Og það er auðvitað það sem er helst álitamál í þessum breytingum.