Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 14:49:13 (8307)

2002-04-27 14:49:13# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Skoða það í náinni framtíð, segir hv. þm. Það liggur mjög á að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Það má ekki bíða til haustsins svo að menn geti skoðað nánar hvort þeir séu á réttri leið. Og ef það á að leggja Þjóðhagsstofnun niður, og það þegar 1. júlí, hafa þingmenn ekki lengur, frá og með 1. júlí, aðgang að Þjóðhagsstofnun. Af hverju á þá að bíða með að stofna slíkt hagsvið við skrifstofu Alþingis sem ég heyri að hv. þm. tekur undir að sé skynsamleg leið í þessari stöðu? Ég spyr hv. þm. að því hvort hann sé ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að við köllum saman stuttan fund í efh.- og viðskn. og athugum hvort ekki sé hægt að ná samstöðu um þá brtt. sem hér er.

Ég hef heyrt fleiri þingmenn í stjórnarliðinu taka undir þessa skoðun og það sem fram kemur í þessari tillögu, að það sé rétt og eðlilegt að fara þá leið. Við í stjórnarandstöðunni, og þingmenn almennt, þurfum að geta leitað til óháðs aðila. Það er nauðsynlegt fyrir Alþingi og þingmenn að geta leitað til óháðs aðila en vera ekki ofurseldir einhverri ráðgjöf frá fjmrn. sem við oft og tíðum stöndum í ýmsum deilum við, bæði um forsendur fyrir fjárlagagerð og fleira. Ég tel að það sé ótækt, herra forseti, að bíða með þetta. Þessa tillögu verður að samþykkja þegar á þessu þingi ef svo mikið liggur á að ná fram þessu máli sem er fyrst og fremst sett fram út af dyntum hæstv. forsrh. Framsóknarmenn lyppast niður og fylgja honum eftir í þessu máli eins og öðrum.

Það er alveg sérstaklega kaldhæðnislegt að þingmenn Framsfl. skuli gera það í ljósi þess að það er ekki nokkur einasti sparnaður að þessu heldur munum við standa frammi fyrir því, og það þegar á næsta þingi, að aukinn kostnaður mun fylgja þessu.