Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 15:23:38 (8309)

2002-04-27 15:23:38# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég verð eiginlega að byrja á að óska hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni til hamingju með að senn eru liðin 19 ár frá því að hv. þm. settist fyrst hér í sali Alþingis. Þó ég sé ekki alveg viss um að hann eigi önnur 19 ár fyrir höndum á þingi þá er ég viss um að hann á langa þingsetu hér fyrir höndum. Ég vil líka segja honum það til hróss að hann hefur frekar batnað með árunum, herra forseti, bæði að útliti og innræti.

En gamanlaust, herra forseti, þykir mér alltaf gaman af því þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gefur sjálfum sér lausan tauminn. Það gladdi mig þegar hann brá sér áðan í líki hjónabandsráðgjafa fyrir núverandi hæstv. ríkisstjórn. Hv. þm. taldi mjög farnar að kulna þær glæður sem eitt sinn ornuðu þeim sem ultu saman í hjónasæng núverandi ríkisstjórnar. Það eru orð að sönnu og margir hafa orðið varir við það. Ég vildi líka, eins og hv. þm., gera mitt til þess að bæta um betur fyrir þessa þjóð. Ég held að hún eigi ekki skilið þetta hjónaband öllu lengur. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði áðan að hjá hæstv. ríkisstjórn reki hvert klúðrið annað og eiginlega má segja að hvert sem horft er um þessar mundir hafi fæst af því sem lagt var upp með náð í höfn.

Það sem mér finnst skelfilegast þegar horft er yfir sögu þessa máls er vitaskuld hvernig farið er með starfsfólkið. Eins og menn hafa auðvitað sagt við þessa umræðu ber okkur sem kjörnir erum á löggjafarsamkunduna að reyna að fara vel með fjármuni skattborgara. Það þýðir að við eigum að reyna að koma í veg fyrir tvíverknað hvar sem er. Þess vegna er ekkert að því þó að menn leyfi sér þann munað að skoða hvort sum verka stofnana ríkisins séu óþörf, önnur beinlínis til þess fallin að setja á markað og hin þriðju e.t.v. fallin til að flytja þau yfir til annarra stofnana. Þjóðhagsstofnun er ekkert undanskilin í þessu sambandi fremur en aðrar stofnanir en það er lágmark, hvernig sem menn nálgast þessi mál, að haft sé samráð við starfsfólk og loforð við starfsfók séu efnd.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór vel yfir það í ræðu sinni áðan og hefur jafnvel drepið á það mál áður í umræðum um þetta mál hvernig starfsfólkinu voru gefin ákveðin vilyrði um að haft yrði samráð við það um framvindu og framtíð stofnunarinnar. Þegar menn lögðu í þessa sjóferð var beinlínis sagt við starfsfólkið að þetta væri ekki gert til að leggja stofnunina niður, hins vegar væri verið að skoða hvort einhver verk hennar væru betur staðsett hjá öðrum stofnunum.

Þegar upp var staðið var ekkert samráð haft við þá sem starfa að stofnuninni. Það var átakanlegt fyrir okkur, sem viljum halda fram nytsemd góðrar stjórnsýslu, að sitja í efh.- og viðskn. og hlýða á mál fulltrúa starfsfólksins sem þangað kom til spjalls og svara fyrir nefndinni. Þá gerðist það tvisvar að ráðuneytisstjóri forsrn. sem jafnframt var viðstaddur vísaði til fundar þar sem fallið hefðu hin eða þessi orð. Þá kom á daginn að starfsmenn Þjóðhagsstofnunar, sem áttu að vera í viðkomandi samráðsnefndum, höfðu ekki verið á þessum fundum. Ég minnist þess gerla að fulltrúi starfsmanna spurði: Hvaða fundir voru þetta? Þá var vísað til þeirra. En starfsfólkið sem átti tvo fulltrúa minntist þess ekki að þau mál sem ráðuneytisstjórinn velti upp hefðu verið rædd þar.

Það er auðvitað sorglegast í málum eins og þessum þegar ráðist er til atlögu við gamalgrónar stofnanir, að því er virðist einungis til að þjóna lund einstakra ráðamanna, þegar hagsmunir starfsmanna eru fyrir borð bornir. Þetta birtist líka í að ekki er gert ráð fyrir því að starfsfólkinu séu boðin sambærileg störf. Það er lágmark, herra forseti, þegar menn ráðast í aðgerðir af þessu tagi.

Það er líka athyglisvert hvernig menn hafa haldið fram röngum upplýsingum um þróun þessarar stofnunar og sagt við okkur, sem vorum að véla um þessi mál í efh.- og viðskn., að stofnunin væri nánast sjálfdauð, það væru svo margir starfsmenn flúnir frá henni. Þetta er einfaldlega rangt, herra forseti. Það kom í ljós þegar innt var eftir þessu að á síðasta ári létu fjórir starfsmenn Þjóðhagsstofnunar af störfum. Það er ekki ýkja mikil velta þegar haft er í huga hversu margir starfa hjá þeirri stofnun. Fjórir starfsmenn á einu ári er ekki mikið. Það er líka athyglisvert og til nokkurs framdráttar fyrir stofnunina þegar horft er til starfanna sem þessir menn hurfu til. Einn varð borgarhagfræðingur, annar varð yfirmaður Verðbréfaþings Íslands. Ég nefni hér tvö dæmi.

Starfsfólk Þjóðhagsstofnunar er í krafti reynslu sinnar, þekkingar og vandvirkni eftirsóttur starfskraftur. Því er af og frá að halda því fram, eins og fulltrúar Framsfl. gerðu í umræðunni, að stofnunin væri hvort eð er að fótum fram komin, brostinn væri flótti í liðið.

[15:30]

Ég vildi svo, ef hv. þm. og formaður þingflokks Framsfl. sem hér hlýðir á mál mitt af mikilli alvöru, notaði tækifærið ef hann sér sér fært til þess hér á eftir --- ég gæti þó lifað daginn á enda þó að hann sæi sér ekki fært að gera það sökum annarra anna --- að svara því: Hvar er hagræðingin í þessari breytingu? Framsóknarmenn voru auðvitað dregnir til þessa leiks nauðugir viljugir. Við heyrðum það sem hlustuðum á ræður manna hér í þessum sölum að þeir voru ekki áfram um það að leggja niður Þjóðhagsstofnun en það gerðist í skyndingu á einni helgi, liggur mér við að segja, að hv. þm. Framsfl. brugðu á það ráð að láta að vilja forsrh. í þessum efnum. Þeir sögðu það sjálfir í þessum sölum að það væri vegna þess að hagræðis væri að vænta. Og ég er sammála þeim sem segja að hagræða eigi í ríkisrekstri. Einn af þeim sem oft hafa gert það er t.d. hv. þm. Kristján Pálsson, sem gengur hérna fagur og nýklipptur um kollinn fyrir ræðustólinn. (JB: Reistur.) Reistur mjög, eins og hv. þm. Jón Bjarnason kallar fram í. Hann er einn af þeim sem hafa, eins og við mörg, talað um nauðsyn þess að hagræða í rekstri ríkisins.

Ég minnist þess að hv. þm. Pétur Blöndal kom hér upp fagnandi í andsvari við ræðuna sem hæstv. utanrrh. og starfandi forsrh. í fjarveru hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, flutti um þetta mál. Hv. þm. Pétur Blöndal lét þess getið að loksins væri hér komið mál sem mundi horfa mjög til hagræðis og sparnaðar í rekstri ríkisins. Eins og menn vita hefur hv. þm. Pétur Blöndal löngum verið ákafur í kvörtunarsemi sinni gagnvart núverandi stjórnvöldum sökum útþenslustefnu þeirra varðandi umfang ríkisins. Hv. þm. lýsti því yfir í sínu fyrsta andsvari að þakkarvert væri að frv. væri lagt fram og sannarlega skyldi hann styðja það. Ástæður þeirrar afstöðu hv. þm. voru þær að hér væri um sparnað að ræða. En hv. þm., aldrei þessu vant, hafði gleymt að lesa heima. Hann hafði gleymt að lesa frv. sem til umræðu var, hafði gleymt að lesa þá greinargerð sem starfsmenn kollega hans, hæstv. fjmrh., höfðu lagt með frv. Kom þar fram að einhver sparnaður væri að þessu? Kom þar fram að eitthvert aðhald væri að þessu? Kom fram að þar væri eitthvert sérstakt hagræði? Nei, það kom ekki fram í þeirri umsögn sem fjárlagaskrifstofa fjmrn. lagði með frv. Þvert á móti kom þar fram að sá kostnaður sem nú væri bókfærður stofnunarinnar vegna í reikninga ríkisins og áætlaður á næstu fjárlögum, mundi ekki minnka heldur yrði honum skipt í hlutföllunum 2:1 milli Hagstofunnar og fjmrn. Ja, herra minn trúr, hvar er þá sparnaðurinn?

Látum það nú vera. Vel kann að vera að samt sem áður hefði verið hægt að finna rök fyrir þessum gerningi, hægt að segja að þarna væri a.m.k. vega verið að stemma stigu við frekari útþenslu og kannski væri einhverjum verkum betur fyrir komið á þessum nýju stöðum. Hins vegar blasti það svo við þegar við fórum að skoða frv. að það var ekki bara það að skipta ætti kostnaðinum í þessum hlutföllum á milli Hagstofu og fjmrn. Aukreitis --- og því höfðu þingmenn ekki gert sér grein fyrir --- átti síðan að falla aukinn kostnaður á ríkið af eftirtöldum ástæðum, herra forseti. Í frv. kom fram að Seðlabankinn hyggst þétta greiningargetu sína og þá deild sem lýtur að líkanagerð sem tengjast framvindu þjóðarhags. Með öðrum orðum: Hið opinbera, því að Seðlabankinn er auðvitað partur af því þótt sjálfstæður sé orðinn frá annarri stjórnsýslu, er að auka kostnað sinn vegna nákvæmlega þeirra verka sem unnin voru innan Þjóðhagsstofnunar. Í fjórða lagi kom fram, og ég geri út af fyrir sig ekki athugasemd við það, að auka átti það fjármagn sem rennur til að halda úti hagdeild Alþýðusambands Íslands. Nú er þetta gamalt baráttumál okkar sem höfum verið að púkka undir verkalýðshreyfinguna með einum eða öðrum hætti en þetta kostar peninga. Og þá vísa ég til fyrri reynslu minnar af viðleitni okkar jafnaðarmanna til að aka meiri fjármunum að hagdeild Alþýðusambandsins. Ég hygg það hafi verið 1993 þegar þá sat í sæti félmrh. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Henni tókst með atbeina verkalýðssinna í ýmsum flokkum að aka svolitlum fjármunum til þess að ýta undir hagdeild Alþýðusambandsins og vafalaust hefur á þeim tíma eitthvað runnið líka til hagdeilda annarra verkalýðssamtaka, hefði a.m.k. átt að gera það, en þá var eins og minkur væri laus í hænsnabúi á skrifstofum þeirra sem réðu fyrir ríkjum vinnuveitenda. Þá kom í ljós að menn töldu sig búa við einhvers konar jafnræðislögmál sem fólst í því að ef sett var fjármagn til hagdeildar Alþýðusambandsins, þá var nauðsynlegt að setja jafnmikið fjármagn á skrifstofur atvinnurekendasamtakanna. Það endaði því með því að þær milljónir sem áttu að fara til Alþýðusambandsins komu líka til atvinnurekendasamtakanna.

Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að mér sýnist að þetta bendi til þess að sá kostnaður sem við sjáum þarna sé nú ekki allur kominn fram í dagsljósið. Því til viðbótar kom það fram í fyrirspurn minni til hæstv. forsrh. við 2. umr. þessa máls að það kæmi vel til greina að styrkja Alþingi með einhverjum hætti til þess að geta gefið þingmönnum aukna ráðgjöf um hagfræðileg málefni.

Mér líkaði þetta svar hæstv. forsrh. vel. Einn af stærstu ágöllum þess að leggja niður Þjóðhagsstofnun er auðvitað sú staðreynd að við þingmenn sem höfum getað leitað til stofnunarinnar eigum nú í fá hús að venda til þess að fá hlutlausa ráðgjöf varðandi efnahagsmál. Við höfum getað leitað til Þjóðhagsstofnunar. Hún hefur verið boðin og búin að sinna því hlutverki að veita þingmönnum upplýsingar um framvindu efnahagsmála. (Gripið fram í.) Ja, þakka skyldi. Þetta er partur af lögbundnu hlutverki Þjóðhagsstofnunar. Þegar hún er lögð niður hlýt ég að spyrja eftirfarandi spurningar: Af hverju var það upphaflega bundið í lög að Þjóðhagsstofnun ætti að láta þingmönnum í té hlutlausar upplýsingar og ráðgjöf varðandi efnahagsmál? Væntanlega vegna þess að þeir sem settu lögin, þingið á sínum tíma taldi að ekki væri vanþörf á að alþingismenn ættu kost á að njóta slíkrar ráðgjafar. Hefur það eitthvað breyst? Hefur samfélagið orðið eitthvað fábrotnara eða einfaldara í sniðum? Þurfa þingmenn minna á því að halda að fá slíka ráðgjöf? Að sjálfsögðu ekki, herra forseti. Þjóðfélagið hefur orðið margbrotnara, efnahagslífið hefur orðið flóknara og ef eitthvað er þurfa þingmenn á því að halda að fá einhvers konar aðgang að slíku. Ég tala nú ekki um, herra forseti, þingmenn stjórnarandstöðunnar. Við höfum líka ákveðnu hlutverki að gegna sem er bundið í stjórnarskrá lýðveldisins. Það hlutverk felst í því að veita stjórnvöldum aðhald og eftirlit. Í þessu felst lýðræðið, herra forseti. Stjórn og stjórnarandstaða takast á með rökum og úr þeirri deiglu spretta síðan ákvarðanir sem vonandi eru þjóðfélaginu til hagsbóta.

Hvert á stjórnarandstaðan að leita nú þegar búið er að ákveða að leggja niður Þjóðhagsstofnun? Það kemur hvergi fram í þeim plöggum og þeim svörum sem við höfum fengið hvar við eigum að leita ráðanna. Það hefur verið sagt að við eigum kost á því að leita til Seðlabankans. Ja, herra minn trúr, spyrjum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvað henni finnst um slíka framvindu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ítrekað og aftur lent í því að þurfa að spyrja Seðlabankann ýmissa ráða og verið ákaflega óánægð með þau svör. Ég spurði fulltrúa Seðlabankans þegar hann mætti til svara fyrir efh.- og viðskn. hvort leitað hefði verið sérstaklega til bankans um að veita þingmönnum og þá þingmönnum stjórnarandstöðunnar slíka ráðgjöf. Sá ágæti fulltrúi kvað já við. Ég spurði hann hvernig bankinn mundi þá tryggja að það yrði gert og hvers konar aðstoðar við mættum vænta þaðan. Þá vafðist þeim ágæta fulltrúa sem mætti tunga bæði um tönn og höfuð og sagði að ekki væri búið að ráða því til lykta en það yrði í samræmi við lög. En lögin kveða ekkert sérstaklega á um það.

Ég held því að þarna hafi lýðræðinu verið greitt örlítið högg. Ég held að þarna hafi stjórnarandstöðunni verið gert erfiðara um vik með að sinna því aðhaldi sem hún á að sinna gagnvart ríkisstjórn. Nú er það svo, herra forseti, að ég held að það hafi ekki verið einhver sérstakur tilgangur þeirra sem lögðu fram frv. að gera slíkt, síður en svo. En ég held að menn hafi ekki alveg horft til þessa.

Og vegna þess að hæstv. forseti, Halldór Blöndal, er nú sestur í stólinn þá langar mig til að varpa þeirri spurningu til hans, sem hann svarar e.t.v. núna eða þá seinna: Er hann sammála því sem komið hefur fram hjá hæstv. forsrh. að tryggja beri þinginu fjármagn til þess annað tveggja að efla ráðgjöf innan veggja þingsins gagnvart þingmönnum um hagfræðileg málefni, þá væntanlega með því að ráða hagfræðinga til þingsins eða, eins og hæstv. forsrh. benti á, að gerður yrði samningur við utanaðkomandi stofnun eins og t.d. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um að hún og starfsmenn hennar væru þingmönnum til reiðu varðandi hagfræðilega ráðgjöf?

Ég held að sú hugmynd sé a.m.k. einnar messu virði. Þá mundi það þýða, herra forseti, að hið háa Alþingi mundi gera samning við Hagfræðistofnunina, greiða ákveðið fast gjald sem kynni að verða hnikað til í ljósi reynslunnar og framvindunnar en mundi gera okkur þingmönnum kleift að leita liðsinnis Hagfræðistofnunar þegar við þurfum á því að halda.

Þegar ég settist á hið háa Alþingi 1991 voru sárafáir lögfræðingar sem voru ráðnir hingað að þinginu. Síðan hefur nefndadeildin tekið flugið, við höfum hér ákaflega góða og vandaða sérfræðinga á sviði lagagerðar. Þetta hefur orðið til þess að lagasmíð þingsins hefur orðið miklu vandaðri. Við fáum flóknari mál frá framkvæmdarvaldinu til umfjöllunar en meðferð þingsins á þeim málum hefur orðið miklu betri, þori ég að fullyrða.

Í dag hlustuðum við t.d. á ræður hv. þingmanna varðandi einhvern merkasta lagabálk sem farið hefur í gegnum þingið, barnaverndarlög. Halda menn að það hafi ekki kostað tíma og atgervi að slá það frv. í gadda eins og gert var? Þar var um að ræða mál sem þingið hafði gefið sér góðan tíma til þess að fara yfir og þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu nutu sameiginlegs liðsinnis lögfræðinga þingsins til að búa svo um hnúta að þegar frv. var lagt hér fram í endanlegri gerð frá nefndinni þá var það þess eðlis að allir sérfræðingar sem að því höfðu komið og séð þennan fullskapaða ávöxt töldu þetta vera eitthvert vandaðasta frv. sem hér hefur komið ákaflega lengi. Hluti af því, herra forseti, stafar auðvitað af því að við höfðum aðgang að sérfræðilegri ráðgjöf, við höfum lögfræðinga hér innan veggja sem gátu gefið okkur ráð í flóknum málum sem þetta vörðuðu.

Ég verð að segja þó að ég kunni ýmislegt frá fyrri tíð sem tengist fiskum og lífríki hafs og vatna, þá er ég nú ekki meiri bógur en svo að oft á tíðum teldi ég ákaflega nauðsynlegt að geta leitað hagfræðilegrar ráðgjafar með skömmum fyrirvara hér innan þingsins. Ég nefni það t.d., herra forseti, að ég og hv. þm. Jón Bjarnason, sem hér er staddur og hlýðir á mál mitt, höfum setið saman í fjárln., oft og tíðum hefur það verið erfitt fyrir okkur að þurfa á örskömmum tíma að brjóta til mergjar flókið fjárlagafrv., að kanna til hlítar og skoða rækilega ýmis mál sem tengjast efnahagsframvindu samfélagsins. Það er eigi að síður hlutverk okkar sem stjórnarandstæðinga að reyna að gera það og svara því með hvaða hætti við í stjórnarandstöðunni teljum best að svara vandamálum sem upp koma innan þjóðarbúsins, í þjóðarbúskapnum.

Herra forseti. Ef hæstv. forseti vildi einhvern tíma áður en þingi lýkur á þessu vori, hvort heldur það verður í dag eða þá undir lok næstu viku, þá þætti mér vænt um ef hann mundi með einhverjum hætti gefa til kynna í hvaða formi hann telur rétt að við þingmenn njótum hinnar hagfræðilegu ráðgjafar og leiðsagnar sem við höfum fengið með svo ákaflega góðum hætti hjá Þjóðhagsstofnun til þessa. (Gripið fram í: Þetta er eðlileg spurning.) Kallað er úr salnum: Þetta er eðlileg spurning. Og hún er í hæsta máta eðlileg. Hún er svo eðlileg að það eina sem segja má er að við í stjórnarandstöðunni, sem höfum haldið uppi harðri andstöðu gegn þessu máli, höfum þó náð fram er sú yfirlýsing hæstv. forsrh. að hann telji ekkert að því að þingið styrki sjálft sig hagfræðilega og hann telji koma vel til greina að það verði gert með föstum samningi við óháða hagfræðistofnun.

[15:45]

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka hér upp hanskann fyrir mig og minn pólitíska venslamann sem situr í salnum og hefur flutt hér frábæra ræðu í dag, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að því er varðar aðdraganda þessa frv. Fram hefur komið af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að menn ættu ekki að fara með miklum látum að frv. því að svo vildi til að það ætti sér aðdraganda sem tengist m.a. ríkisstjórn sem ég og hv. þm. studdum, og hv. þm. sat reyndar í með skörulegum hætti eins og menn vita. En hæstv. utanrrh. sagði þegar hann mælti fyrir þessu frv., og ég man ekki betur en ég hafi heyrt hæstv. forsrh. endurtaka það, þó ekki með jafnsterkum hætti, að í þeim stjórnarsáttmála sem barinn var saman við bjarghellu í Viðey á vordögum 1991 segði fortakslaust að breyta ætti hlutverki Þjóðhagsstofnunar. Orð hæstv. utanrrh. mátti ekki skilja með öðruvísi en svo að þar hefði mátt lesa að hún skyldi niður lögð.

Þetta er auðvitað af og frá, herra forseti. Hið rétta er að hér mun einu sinni hafa verið samþykkt þáltill. sem gerði ráð fyrir þessu. Hún komst aldrei til framkvæmda. En menn hafa svo sem verið að sippa þessari stofnun fram og aftur mjög lengi. Og af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vísaði hér til kennileita í sínu pólitíska landslagi og baklandi vísa ég til þess að árið sem ég fæddist, þó að það hafi verið gjörsamlega ótengt, var forveri Þjóðhagsstofnunar settur á stofn. Ég man ekki betur en að þá hafi verið stofnaður Framkvæmdabanki Íslands sem á sér nú glæsilega sögu, og þá hafi jafnframt verið sett á fót við hann hagdeild sem sá um alls kyns hagskýrslugerð og efnahagsráðgjöf sem einmitt var jafnan birt í fræknum ritum sem sum okkar lásu á ungum aldri. Það var ritið ,,Úr þjóðarbúskapnum`` sem birti fyrstu þjóðhagsreikninga íslenska þjóðarbúskaparins upp úr 1960, held ég. Stofnunin sem nú er verið að leggja niður var ekki sett á fót fyrr en 1974. Tíu árum síðar minnist ég þess að þá var sett á sérstök nefnd, stjórnkerfisnefnd, á vegum íslensku ríkisstjórnarinnar sem átti m.a. að velta fyrir sér breytingum á stjórnkerfinu. Þar sá dagsins ljós, svo ég viti til, í fyrsta skipti sú hugmynd að færa burt frá Þjóðhagsstofnun tiltekna hluti sem tengdust þjóðhagsáætlun. Þá, árið 1983, var reyndar gert ráð fyrir því að gerð þjóðhagsáætlana yrði færð í forsrn. Það stafaði af því að þá voru á dögum menn sem töldu rétt að efla forsrn. sem efnahagsráðuneyti til meiri muna en þróunin varð síðar.

Ekkert varð af þessum breytingum en það var hins vegar 1987 sem sú þál. sem ég vísaði til hérna rétt áðan var lögð fram og samþykkt. Í henni fólst að ríkisstjórninni yrði falið að endurskoða starfsemi Þjóðhagsstofnunar og meta hvort væri hagkvæmt að fela öðrum verkefnið. Ég held að þessi ályktun hafi verið samþykkt en það var ekkert í þessu gert. Síðan var þessu velt upp aftur 1989 en sú ríkisstjórn sem ég studdi 1991 komst ekki að þeirri niðurstöðu að leggja bæri Þjóðhagsstofnun niður í þeirri mynd sem núna er. Þar var hins vegar í stjórnarsáttmála og starfsáætlun vísað til samþykktar þáltill. frá 1987 um endurskoðun á starfsemi stofnunarinnar. Þar var auðvitað rakið að stefnt væri að því að færa hefðbundin hagstofuverkefni til Hagstofunnar, sem höfðu verið hjá Þjóðhagsstofnun, en hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að í sjálfri starfsáætlun ríkisstjórnarinnar var það alveg skýrt að efnahagsráðgjöf og spár yrðu áfram unnar af Þjóðhagsstofnun.

Ég vil leyfa mér að lesa þetta, með leyfi virðulegs forseta, en í þessu gagni segir:

,,Stefnt er að því að ákveðnir þættir heyri í framtíðinni undir Hagstofu Íslands í þeim tilfellum þegar um hefðbundin hagstofuverkefni er að ræða.`` --- Síðan segir, og er þá búið að þvo allan mögulegan og meintan sektarblett af pólitískri æru hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og okkar sem studdum þá ríkisstjórn, með leyfi forseta: ,,Önnur verkefni, þar með taldar spár og efnahagsráðgjöf, verða áfram unnin af stofnuninni sem mun starfa í nánari tengslum við forsrn. en verið hefur.``

Það er því algjörlega tilhæfulaust að ætla með einhverjum hætti að reyna að rekja þetta frv. til föðurhúsa minna, eins og ég sé að hv. formaður Vinstri grænna og þingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, er mér ákaflega sammála um (SJS: Fráleitt alveg.) og kinkar sínu fagra og gljáandi höfði því til staðfestu.

Herra forseti. Ég hef sagt það oft hérna, m.a. í umræðum um annað frv. um Umhverfisstofnun um daginn, að það er ekkert að því að skoða skiptingu verkefna innan Stjórnarráðsins, það er ekkert að því að stokka upp Stjórnarráðið, það er ekkert að því að kanna hvort ekki sé rétt að leggja niður sumar stofnanir, sameina aðrar og jafnvel víkka út starfssvið enn annarra. Í sumum tilvikum er hægt að setja út á markaðinn ýmis verkefni sem eru unnin innan vébanda ríkisins. Þetta held ég, herra forseti, að ætti að ná líka til ráðuneytanna sjálfra. Hvað er að því, herra forseti, að velta fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á að sameina sum ráðuneyti? Ég velti fyrir mér hvort einhverjir óbrjótanlegir kínamúrar séu í millum sjútvrn. og landbrn. Að sjálfsögðu ekki, herra forseti. Ég gæti haft langt mál um þetta en ég ætla ekki að gera það. Mergurinn málsins er þessi: Það er ekkert að því að velta fyrir sér að leggja niður stofnanir, t.d. stofnun eins og Þjóðhagsstofnun, en það verður þá að gerast með þeim hætti að það sé kannað hvaða skynsemd er í slíkri ákvörðun. Það var ekki gert í þessu tilviki, herra forseti. Og það verður líka að gera í nánu samráði við starfsfólk. Það var heldur ekki gert í þessu tilviki, herra forseti. Í þriðja lagi er auðvitað algjör forsenda, ef menn ráðast í eitthvað sem hægt er að kalla hagræðingu, að hægt sé að sýna fram á hagræði af því. Ég hygg að eitt af því sem staðfesti að þetta frv. sem hér er til umræðu megi fyrst og fremst rekja til duttlunga stjórnarherranna en ekki brýnnar þarfar til aðhalds speglist í eftirfarandi staðreynd: Það kostar 132 millj. kr. að reka þessa stofnun. Mun það kosta eitthvað minna þegar búið er að flytja verkefni frá henni? Ef svo er hefur fjmrn. ekki komist að því. Ef svo er hefur hæstv. fjmrh. ekki getað fært að því nokkur rök. Í kostnaðarumsögninni sem hann lét fylgja frv. kemur skýrt fram að enn er ætlað á næstu árum að verja til þeirra verkefna sem í dag eru innan stofunarinnar þessari sömu fjárhæð, 132 millj. kr. Til viðbótar kemur líka fram að það á að verja 50 millj. kr. í biðlaun, fjármagni til að styrkja nýja spádeild eða spávinnu og áætlanagerð innan Seðlabankans og, sem ég styð í sjálfu sér mjög, til að ýta undir hagdeild Alþýðusambands Íslands. Síðan er auðvitað bara nauðsynlegt, eins og sagan mun sýna fram á, að gera þinginu með einhverjum hætti kleift að hafa aðgang að hagfræðilegri ráðgjöf. Hún verður ekki ókeypis, herra forseti.

Ég tel því að nálgunin gagnvart þessu verki sé röng. Menn gáfu sér niðurstöðuna áður en þeir fóru í að skoða hvort breyta ætti starfsemi stofnunarinnar. Í öðru lagi, herra forseti, er það fordæmanlegt að það var með engu móti haft nokkurt samráð við starfsfólk stofnunarinnar. Í þriðja lagi liggur einfaldlega fyrir að ekki verður sparnaður eða hagræðing af þessu, og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir heldur því raunar fram að þetta muni tvöfalda kostnaðinn.

Þá vil ég, herra forseti, ljúka ræðu minni á því sem ég byrjaði hana á sem var að vísa í hina fyrstu ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Hann kom hér upp til að fagna þessu frv. og sagði: Ég get stutt þetta frv. og ég fagna því vegna þess að það leiðir til sparnaðar. Þetta var við 1. umr. Hv. þm. kom síðan aftur upp til andsvars við framsögumann álits efh.- og viðskn. í upphafi 2. umr. og þá var hann kominn á þveröfuga skoðun. Hverju sætti það, herra forseti? Hv. þm. Pétur Blöndal hafði gefið sér tíma til að skoða málið og hann komst að því að þetta leiddi ekki til sparnaðar heldur þvert á móti til aukinna útláta. Og það eru fyrir mér og öllum skynsömum skattborgurum nægileg rök til að hafna þessu máli algjörlega.