Samgönguáætlun

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 16:05:16 (8311)

2002-04-27 16:05:16# 127. lþ. 131.5 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, Frsm. minni hluta JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Frv. til laga um samgönguáætlun er til 3. umr. og ég flyt hér brtt. við 3. gr. frv. Sú brtt. sem ég flyt er reyndar alveg umorðun á greininni. Þessi grein frv. fjallar um samgönguráð og hlutverk þess.

Í brtt. sem ég flyt legg ég til að 3. gr. um samgönguráð orðist eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Samgönguráðherra hefur yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Samgönguráðherra skipar samgönguráð sér til ráðuneytis við gerð samgönguáætlunar. Í samgönguráði sitja flugmálastjóri, siglingamálastjóri, vegamálastjóri og forstöðumaður Póst- og fjarskiptastofnunar. Enn fremur skulu eiga sæti í samgönguráði fulltrúi Náttúruverndar ríkisins, fulltrúi umferðaröryggismála og tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skipunartími þessara fulltrúa skal vera fjögur ár.

Samgönguráðherra skal minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar.

Til samgönguþings skal boðið fulltrúum frá öllum hagsmunaaðilum og almannasamtökum á sviði samgöngumála, þar á meðal fulltrúum umhverfis- og náttúruverndarsamtaka, landshlutasamtaka sveitarfélaga, fulltrúum samtaka á vegum umferðaröryggismála, neytendasamtaka, Byggðastofnunar og frá helstu mennta- og rannsóknastofnunum landsins.

Á samgönguþingi skal gerð grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar.``

Herra forseti. Þetta er sú breyting sem ég legg til við þetta frv. Ég vil fara um hana nokkrum frekari orðum.

Við umræðu um gerð samgönguáætlunar í 2. umr. á Alþingi um samgönguáætlun flutti ég brtt. sem lutu að því að við gerð samgönguáætlunar skyldi vera tekið mið af stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum. Þessi tillaga hlaut ekki brautargengi Alþingis við 2. umr. og þess vegna taldi ég nauðsynlegt að flytja brtt. við 3. gr. sem kvæði frekar á um hlutverk samgönguráðs.

Virðulegi forseti. Ég fór allítarlega yfir þetta frv. til laga um samgönguáætlun við bæði 1. og 2. umr. Ég verð að ítreka vonbrigði mín með það með hvaða sýn samgrh., og þá Alþingi ef hér verður samþykkt, nálgast samgöngumálin. Við gerð samræmdrar samgönguáætlunar á Alþingi eru rakin helstu áhersluatriði sem skuli hafa þar að leiðarljósi, m.a. stendur að ná skuli fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla, sem er jú góðra gjalda vert, og í öðru lagi að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgrn. Þetta eru m.a. þau leiðarljós sem samgönguáætlun á að hafa.

Mér finnast þetta ekki vera háleit markmið eða í takt við tímann og ítreka það sem ég sagði við fyrri umræður málsins. Að sjálfsögðu er ekki hægt að framkvæma áætlanir í samgöngumálum nema til þess sé fjármagn, og þarf í sjálfu sér ekki að kveða á um það í þessum rammalögum um gerð samgönguáætlunar. Jafnframt ætti að vera óþarfi að setja í rammalög um gerð samgönguáætlunar að einstakar stofnanir á vegum samgrn. ættu að vinna saman. Mér finnst það ekki vera háleitt að þurfa að setja það í rammalög um gerð samgönguáætlunar.

Hins vegar hefði ég talið að við gerð samgönguáætlunar ætti að taka mið af stefnumörkun stjórnvalda í þeim meginmálaflokkum sem snerta samgöngumál, svo sem stefnu í byggða- og búsetumálum sem hljóta að ráða miklu um áherslur í samgöngumálum. Þess vegna ætti það að vera inni í þessari stefnumörkun í umhverfismálum. Ríkisstjórnin og íslenskir opinberir aðilar hafa samþykkt fjölda skuldbindinga á sviði umhverfismála, alþjóðlegra skuldbindinga, skuldbindinga hér á Norðurlöndum og auk þess hefur ríkisstjórnin sett sér líka umhverfisáætlun til að vinna að. Það er alveg ljóst að samgöngur hafa hvað mest áhrif á umhverfismál og taka þarf þar tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á umhverfi, mengun o.s.frv. Fá atriði hafa þar meiri þýðingu en einmitt samgöngumál. Þess vegna ættu skilyrðislaust að vera í rammalöggjöf um samgönguáætlun ákvæði um að hún skuli unnin í samræmi við stefnumörkun af hálfu Alþingis í umhverfismálum.

Sömuleiðis erum við líka með stefnumörkun í almenningssamgöngum en í þessari samgönguáætlun, lagarammanum sem settur er þar utan um, er hvergi minnst á almenningssamgöngur. Ég tel að mikið skorti á við setningu þessara laga, eins og þetta frv. ber með sér, að eðlilega sé kveðið á um þá stefnumörkun sem skuli hafa að leiðarljósi við gerð samgönguáætlunar, og ég gagnrýni það.

Ég hef líka, virðulegi forseti, gagnrýnt það hversu lítið fjölskylduvæn þessi áætlun og vinnan í kringum hana hefur í rauninni verið, að þau samgöngumál sem lúta að fjölskyldumálum og aðkomu þeirra sem hafa hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi eru hvergi nefnd. Ég nefni sem dæmi um nálgun þessa máls að við gerð plaggs sem heitir hér ,,Samgöngu\-áætlun og tillaga stýrihóps``, vangaveltur ákveðins stýrihóps á vegum samgrh. um samgöngumál í náinni framtíð sem hafa verið kynntar á Alþingi, var stýrihópurinn samsettur af eintómum körlum, einum fimm eða sex körlum sem um þetta fjölluðu, en í stýrihópnum var engin kona. Ég dreg m.a.s. í efa að þessi vinnubrögð séu í samræmi við jafnréttisáætlun sem ríkisstjórnin telur sig eiga að starfa eftir. Og ég gagnrýni þessa nálgun máls sem skiptir líf og störf okkar allra miklu máli. Og þetta er smitað út í þjóðfélagið.

[16:15]

Ég er með úrklippu úr Morgunblaðinu þar sem talað er um að boða til málþings um miðhálendið og vegagerð á miðhálendinu. Það er afar brýnt mál. Það var haldið núna 19. apríl og við höfum fengið fréttir af því að menn hafa verið þar að draga upp vegi þvers og kruss um hálendið. (Gripið fram í: Hvað með Kaldadalinn?) Væri þó nær að huga að vegum í byggð en að vera að eyða orku og kröftum í að tala um vegi sem ættu kannski að vera aftar í forgangsröðinni. Ég hygg að þeim sem bíða eftir vegaframkvæmdum á Norðausturlandi eða á Vestfjörðum hafi ekki fundist að taka ætti tillit til þessa.

Virðulegi forseti. Af öllum þeim sem þarna voru kvaddir til að halda erindi er engin kona. Þarna voru á annan tug karla kvaddir til þess að halda erindi um hálendisvegina og ... (Gripið fram í.) Ha! (BH: Bara karlar?) Það voru bara karlar, eintómir karlar, í sjálfu sér afbragðsmenn, ég vænti þess, og metnaðarfullir fyrir sín störf. En svona nálgun á heilum stórum málaflokki getur ekki gengið upp. Þeir sem stýra samgöngumálum þurfa að taka sér alvarlega tak og snúa við blaði. Samgöngur eru ekki bara fyrir karla. Það er bara fráleitt að halda því fram.

Ég get lesið hér upp, af því að þetta er á prenti, með leyfi forseta:

,,Guðmundur Þorsteinsson kennari setur þingið og ávarp flytur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Erindi halda: Einar Ragnarsson ... Trausti Valsson ... Sveinn A. Sæland ... Sveinn Sigurbjarnarson ... Einar G. Bollason ... Garðar Vilhjálmsson ... Rögnvaldur Guðmundsson ... Guðmundur Arnaldsson ... Gunnar Larsson ... Óli H. Þórðarson ... Helgi Hallgrímsson.

Pallborðsumræður: Landbúnaðarráðherra, formaður samgöngunefndar, fulltrúi SAF, Vegamálastjóri, fundarstjórar Hjálmar Árnason og`` --- loksins ein kona --- ,,Ásborg Arnþórsdóttir.``

Hún fær að vera þarna fundarstjóri. (Gripið fram í.)

Þessi nálgun gengur ekki í einum stærsta málaflokki þjóðarinnar. Ég skora á hæstv. forseta og fyrrv. samgrh. að styðja sjónarmið mín í þessu máli. Meðan við nálgumst samgöngumál þannig að þau séu eingöngu ætluð körlum, eingöngu ætluð stórvirkum vinnuvélum þá erum við ekki á réttri braut.

Sú brtt. sem ég flyt við 3. gr., virðulegi forseti, snýr líka að því að í frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Samgönguráðherra skipar samgönguráð sem hefur yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar.``

Mér finnst þetta rangt. Hæstv. samgrh. sjálfur á hverjum tíma á að hafa yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar. Hann getur kvatt undirsáta sína til að aðstoða sig við það. En hann á ekki að vísa ábyrgð á þessari vinnu til annarra. Því er ég andvígur. Ég tel að það sé skylda ráðherra fyrir hönd ráðuneytisins að hafa umsjón með að þessi vinna sé unnin og síðan kemur hún inn til Alþingis. Hann getur þá kvatt þessa nefnd eða þetta ráð sér til stuðnings.

Þess vegna flyt ég hér brtt., virðulegi forseti, sem kveður á um að samgrh. axli fulla ábyrgð á gerð samgönguáætlunar en geti skipað ráð, og þar bæti ég inn í. Ég tel t.d. að Póst- og fjarskiptastofnun, sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna í samgöngumálum sem lúta að fjarskiptamálum, eigi að tengjast samgöngumálum. Af hverju ekki? Ég tel að hún eigi að koma þarna inn og auk þess eigi að kveða skýrt á um að þeir sem koma að samgönguþingi sem ráðherra er falið að boða skuli spegla þjóðfélagið í mun meiri breidd en að þar komi saman tíu eða tólf karlar, forstöðumenn einhverra stofnana á vegum ríkisins sem þetta lýtur að.

Virðulegi forseti. Þess vegna legg ég áherslu á að kveðið verði nánar á um það í samgönguráði hverjir skuli koma á samgönguþing, þ.e. að þar skuli ekki aðeins koma að fulltrúar þeirra opinberu stofnana sem þessi málaflokkur heyrir undir heldur einnig fulltrúar umhverfissamtaka, fulltrúar almannasamtaka og fulltrúar þeirra aðila, almennings og hagsmunasamtaka í landinu, sem að sjálfsögðu skiptir framvinda og verk þessa málaflokks miklu máli.

Herra forseti. Ég ítreka það að hér verður að breyta um kúrs og áherslur og sýn í samgöngumálum. Það er ekki hægt að sniðganga umhverfismálin eins og hér er verið að gera. Það er ekki hægt að sniðganga hagsmuni hins almenna íbúa þessa lands. Það er heldur ekki hægt að bjóða okkur upp á að þessi málaflokkur sé eingöngu málaflokkur karla eins og hér birtist og ég hef gert grein fyrir.

Virðulegi forseti. Við verðum að breyta um kúrs og breyta um sýn. Það er okkur ekki samboðið hvernig hæstv. samgrh. og samgrn. nálgast þetta mál og eins ef Alþingi ætlar að taka undir það. Þess vegna hef ég lagt fram þessa brtt. sem kveður á um að tekið verði fullt tillit til þeirra aðila sem eiga tvímælalaust að koma að gerð samgönguáætlunar.