Lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 16:26:33 (8313)

2002-04-27 16:26:33# 127. lþ. 131.6 fundur 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 73/2002, Frsm. minni hluta JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi þennan bandorm sem fylgir vegáætlun um breytingar sem lúta bæði að flugmálum og hafnamálum og reyndar líka vegamálum vildi ég taka eftirfarandi fram: Ég tel að átt hefði að vinna bæði vegáætlun og flugmálaáætlun með sama hætti og verið hefur undanfarin ár, þ.e. við hefðum átt að vinna núna annars vegar tveggja og hins vegar fjögra ára áætlun og ekki kveinka okkur undan því. Ég tel að við hefðum átt að vinna það á þann hátt sem gildandi lög kveða á um. Þó svo að lög um samgönguáætlun sem hér eru til umfjöllunar kveði á um að unnið sé að þessu með samræmdum hætti þá tel ég að á undanförnum árum hafi þetta ekkert verið unnið þannig að ósamræmi væri. Það væri a.m.k. afar óeðlilegt því að allir þessir málaflokkar heyra undir sama ráðherra. Því væri óeðlilegt ef þessir málaflokkar hefðu verið unnir með svo ósamræmdum hætti á undanförnum árum að vansi sé að. Það hefði verið eðlilegra ef við hefðum bara unnið á reglubundinn hátt áætlun til tveggja og fjögra ára eins og lög kveða á um og síðan hefði sú áætlun verið endurskoðuð í kjölfar breytinga á næsta ári, á næsta þingi, eftir atvikum.

Í fyrsta lagi eigum við eftir að staðfesta þessi nýju lög um samgönguáætlun. Síðan á eftir að undirbúa vinnu á hinum nýju forsendum. Það getur allt tekið sinn tíma þannig að það var alveg ástæðulaust að kveinka sér undan því að vinna áætlun í vegamálum og flugmálum til næstu tveggja og fjögra ára eins og lög kveða á um. Ég vil bara mótmæla þeim vinnubrögðum.

Varðandi síðan frv. sjálf að öðru leyti þá tel ég að vinna hefði átt þessi frv. betur og samræma þau. Ég vil benda á að í samgöngumálum eða í vegamálum er vegamálastjóri sem heyrir síðan beint undir samgrn. Þar er ekki neitt vegaráð. Hins vegar erum við með flugráð í flugmálum og hafnaráð í hafnamálum. En með því lagafrv. sem núna er verið að leggja til eru verkefni, umsvif og hlutverk bæði flugráðs og hafnaráðs mjög verulega skert frá því sem áður hefur verið og eru þau núna að langmestu leyti að verða einhverjir málamynda umsagnaraðilar til samgönguráðs. Ég tel að skoða hefði átt þessa þætti miklu betur, færa þá til samræmis og skilgreina hlutverk þeirra frekar en að hrista þetta svona að því er virðist bara fram úr erminni til þess að koma einhverju nafni á þetta. Ég tel að jafnvel ætti að skoða það að finna einhvern annan samstarfsflöt en þann að halda uppi flugráði eða hafnaráði. Það hefði átt að finna annan samstarfsvettvang. Þá hefðu orðið ákveðnar hliðstæður á milli annars vegar Vegagerðarinnar og flugmála og hafnamála. Þar hefði orðið nokkuð lík skipan á. Þetta hefði átt að gera í stað þess hafa þetta nú sitt með hvorum hætti og gert er ráð fyrir að svo verði áfram.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi frv. hafi ekki verið vel unnin og að til þeirra hafi verið kastað höndum. Menn hefðu átt að nota tækifærið og vinna þarna mun betri samræmingarvinnu.