Staða EES-samningsins

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:01:35 (8315)

2002-04-29 10:01:35# 127. lþ. 132.91 fundur 552#B staða EES-samningsins# (aths. um störf þingsins), ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að varpa nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh. sem varða nýjar og merkar upplýsingar sem nýlega hafa komið fram varðandi stöðu EES-samningsins og afstöðu Evrópusambandsins til hans og EFTA-ríkjanna. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu norsku ríkisstjórnarinnar sem ég vænti að hæstv. utanrrh. hafi kynnt sér vel.

Í skýrslunni kemur fram sú skoðun að EFTA-þjóðirnar og Norðmenn sérstaklega hafi orðið undir í næstum öllum málum sem einhverju skipta í samskiptum við Evrópusambandið. Þar kemur fram að norska ríkisstjórnin telur að samningurinn hafi ekki bara veikst heldur telur hún að hann muni veikjast mikið á næstu árum og eru mörg dæmi nefnd um það hvernig norska ríkisstjórnin telur að EES-samningurinn hafi veikst frá 1994. Það sem skiptir máli finnst mér vera, herra forseti, að norsk stjórnvöld hafa ákaflega takmarkaða ef nokkra trú á því að aukin viðleitni EFTA-þjóðanna til þess að hafa áhrif á lög og reglur sem varða örlög þeirra sjálfra muni bera nokkurn árangur og það segir í skýrslunni að þó að vissulega mætti gera betur og þó að vissulega mætti efla mjög fjárveitingar til þess að reyna að hafa áhrif á afstöðu ESB þá séu litlar líkur á því að það beri nokkurn ávöxt. Það segir líka í þessari skýrslu að reynslan sýni að ekki sé um neitt eiginlegt samráð að ræða af hálfu Evrópusambandsins.

Herra forseti. Þetta er skelfileg lýsing og þó að hún komi okkur ekki alveg á óvart, sem höfum fylgst með þessum málum, þá er ljóst að hér er um talsvert hrikalegra orðalag að ræða en við eigum að venjast og ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Er hann sammála þessu? Er þetta reynsla Íslendinga? Og miðað við þetta, hvernig telur hann þá rétt að tryggja hag Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu á næstu árum?