Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:15:12 (8321)

2002-04-29 10:15:12# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér kveinka hv. þm. sér og bera sig illa undan því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafi mikið til málanna að leggja, sama fólk og hleypur út úr þingsalnum þegar óþægileg mál eru hér til umræðu.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru reiðubúnir að sitja hér fram á haust ef það gæti orðið til þess að stuðla að vönduðum og faglegum vinnubrögðum en þá á líka að taka um það ákvörðun og haga þinghaldinu með það í huga. Forsenda þess að Alþingi geti starfað vel og faglega er að þinghaldið sé í föstum skorðum. Að þessu hefur verið stefnt. Að því var stefnt að ljúka þingi 24. apríl. Þess vegna voru settir ákveðnir tímafrestir. Þingmönnum, þar á meðal hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni, var gert að setja mál inn til þingsins fyrir marslok. Þessi tímamörk voru ekki virt. Á síðustu sólarhringum var komið með hvert stórmálið á fætur öðru og eftir að tímafrestur var úti var haldið áfram að setja mál inn í þingið.

Við höfum óskað eftir því að stjórn og stjórnarandstaða setjist niður og ræði með hvaða hætti þinghaldið fram undan eigi að vera og þessu hefur verið neitað. Þetta eru staðreyndir málsins og það er mjög ódýrt að koma síðan í ræðustól á Alþingi og saka okkur um óvönduð vinnubrögð. Það er ódýrt.