Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:18:58 (8323)

2002-04-29 10:18:58# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Fyrir þinginu liggja býsna mörg mál. Það er ekki svo að þau séu óunnin, þvert á móti. Þau hafa fengið þinglega meðferð í nefndum, eru fullunnin þar, og þingmenn hafa skilað nefndarálitum og brtt. þannig að samkomulag um störf þingsins og væntanleg lok þinghalds í vor felast í því að menn reyni að ná samkomulagi um það hvernig haga skuli þinghaldinu, hversu lengi þingfundir skuli standa dag hvern og í hvaða röð mál eru tekin og að ná samkomulagi um hversu langan tíma menn ætla sér í að ræða hvert mál.

Við erum tilbúin til að ná samkomulagi um þessa hluti og hefur aldrei staðið á því af hálfu stjórnarliðsins. (ÖJ: Jú. Það er rangt.) Það sem hins vegar hefur gerst, herra forseti, er að hluti af stjórnarandstöðunni, þ.e. vinstri grænir, hafa verið að setja saman kröfur um annað en lýtur að því að ná saman um störf þingsins. Þeir hafa verið að setja fram kröfur um að ákveðin þingmál nái ekki fram að ganga og m.a. þingmál sem njóta yfirburðarstuðnings á þinginu en þeir eru á móti. Hvers konar lýðræði er það, herra forseti, ef sex manna þingflokkur ætlar með málþófi í þingsal að fara að koma í veg fyrir það að þingmál nái fram að ganga? Um það snýst málið. Það er þess vegna sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er orðinn svona reiður að mönnum er orðið ljóst að það sem vakir fyrir honum og þingmönnum hans er að tala í púltinu tímunum saman, ekki til þess að setja fram skoðanir sínar um það mál sem er til umræðu, þeir eru að gera lítið úr sínum eigin sjónarmiðum í málinu með því að drekkja þeim í málæði. Þeir eru að gera lítið úr málinu sem er til umfjöllunar og þeir eru að gera lítið úr öðrum þingmönnum með því að fara svona með umræðu í veigamiklum málum. Þess vegna finnst mér að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kunni eiginlega ekki að skammast sín þegar hann kemur hér upp.