Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:29:14 (8329)

2002-04-29 10:29:14# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:29]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli í nál. meiri hluta iðnn. hversu fáir hafa verið kallaðir á fund nefndarinnar til þess að fjalla um málið. Það vekur líka athygli í ljósi orða hv. þm. og frsm. að það væri að frumkvæði heimamanna sem málið væri komið í þennan farveg. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm.: Kannaði nefndin rækilega hug heimamanna í þessu máli? Hverjir komu á fund nefndarinnar? Í nál. stendur að einungis hafi komið Jón Gauti Jónsson frá sveitarstjórn Skagafjarðar. Hann er ekki einu sinni persónulega ráðinn sveitarstjóri heldur er það samningur við fyrirtæki sem hann er ráðinn hjá.

Mér er kunnugt um að það er mikill ágreiningur um þetta mál í héraði. Ég leyfi mér því að spyrja hv. formann iðnn.: Hvers vegna voru ekki fleiri kallaðir til af hálfu heimamanna? Fulltrúar minni hlutans? Ég bendi á að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ályktað mjög sterkt gegn þessari fyrirhuguðu sölu. Hvers vegna kannaði iðnn. ekki rækilega hug heimamanna?

Þessi sala er háð skilyrðum Samkeppnisstofnunar um að hún geri ekki athugasemd við söluna. Hvers vegna var Samkeppnisstofnun ekki kölluð á fund iðnn. úr því að það var ljóst að hún gat hugsanlega haft áhrif á hver afgreiðsla málsins yrði? Hvers konar vinnubrögð eru þetta í iðnn., virðulegi forseti?