Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 11:41:32 (8347)

2002-04-29 11:41:32# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði búist við svolítið meiri reisn yfir innkomu hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég tek fram, til að fyrirbyggja misskilning, að ég var aldrei félagi í Skagafjarðarlistanum. Ég veit ekki betur en að hver og einn sé með sjálfum sér þegar hann kýs, bæði hann og ég, og það kemur ekki Alþingi í sjálfu sér við.

Hins vegar er Skagafjarðarlistinn einn af aðilum að sveitarstjórn og gerir sjálfsagt sumt vel og sumt ekki þannig að það var ekki stórmannlegt hjá honum að draga þetta upp. Hann hefði átt að draga upp yfirlýsingu meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar sem mótmælir þessum vinnubrögðum og hefur lýst andstöðu við þau. Það hefði verið virðulegra að hv. þm. hefði dregið hana upp og sagt: Ég skal veita ykkur lið. Það hefði verið meiri reisn.