Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 12:28:25 (8354)

2002-04-29 12:28:25# 127. lþ. 132.17 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Frv. til laga um Tækniháskóla Íslands hefur nú fengið eðlilega umfjöllun í hv. menntmn. þar sem kallaðir hafa verið til þeir gestir sem nefndin taldi nauðsynlegt að kalla til við umfjöllunina. Nefndin hefur lagt fram á þskj. sameiginlegt nál. vegna frv. og sömuleiðis á sérstöku þskj. nokkrar smávægilegar brtt.

Herra forseti. Mér finnst rétt að undirstrika nokkur atriði í nefndaráliti hv. menntmn.

Í fyrsta lagi fagnar nefndin því samhljóma að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til sé því langþráða marki náð að Tækniskóli Íslands mun með þessu frv. komast á háskólastig og ástæða er til, herra forseti, að undirstrika að þeim áfanga fagnar nefndin samhljóma.

Annað atriði, sem ég vil sérstaklega draga fram úr nál. nefndarinnar, er að nefndin telur afar mikilvægt að tryggja tengsl skólans við atvinnulífið og leggur þess vegna beinlínis til í nefndaráliti sínu að fulltrúar þeir sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv. að hæstv. menntmrh. skipi í háskólaráðið komi úr atvinnulífinu.

[12:30]

Þar hefur nefndin fyrir sér ummæli hæstv. ráðherra en það kom fram í ræðu hans við 1. umr. málsins að hann teldi mikilvægt að tengslin við atvinnulífið yrðu sterk, og þau yrðu tryggð. Hann sagði í ræðu sinni í þeim kafla sem fjallar um háskólaráðið sjálft að hann teldi að það færi vel á því að þeim tveim fulltrúum sem ráðherranum sjálfum væri gert að skipa í háskólaráðið væri gert að hafa mjög náin tengsl við atvinnulífið. Hæstv. ráðherra lagði til að nefndin mundi skoða þetta sérstaklega, og ítrekaði síðan afstöðu sína til málsins. Afstaða hans var sú að tengslin ættu að vera náin. Nefndin fjallaði formlega um málið og komst að þeirri niðurstöðu sem getið er um í nál., hún telur að fulltrúar þeir sem ráðherra tilnefnir eigi að koma úr atvinnulífinu. Þannig hefur menntmn. tekið undir með þeim umsagnaraðilum sem sérstaklega gátu um þetta atriði í umsögnum sínum. Má þar nefna Samtök vinnuveitenda og samtök launafólks, ASÍ. Hér er algerlega skýrt talað af hálfu nefndarinnar. Um þetta var enginn ágreiningur þannig að hér var tekið undir orð hæstv. menntmrh. og ákveðinna umsagnaraðila. Þetta er tillaga menntmn. sem fylgir frv. til lokaafgreiðslu þess.

Þriðja atriðið sem ég vil sérstaklega geta um í nál. menntmn. varðar möguleika Tækniháskólans á samstarfi við aðra háskóla. Það var samdóma álit nefndarinnar að samstarf milli þessa háskóla og annarra skóla á háskólastigi yrði mikið, og traustan grunn þyrfti að leggja að því samstarfi. Það er eðlilegt, herra forseti, að slíkur grunnur verði lagður á formlegan hátt þannig að það má ætla að þegar Tækniháskóli Íslands tekur til starfa verði tekið fast á málum sem lúta að samstarfi Tækniháskólans og annarra háskóla á Íslandi. Þar má t.d. nefna verkfræðideild Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri. Það er alveg ljóst að vilji nefndarinnar í þessum efnum er samdóma. Það þarf að leggja formlegan grunn að þessu samstarfi þannig að það sé tryggt og menn viti eftir hvaða línum slíkt samstarf kemur til með að ganga eða því er gert að ganga.

Þá er enn eitt atriði sem ég vil ramma sérstaklega inn varðandi álit menntmn. í umfjöllun um frv. Það varðar rannsóknarþáttinn. Það var nokkuð um það rætt í 1. umr. um þetta mál á Alþingi að ákvæðið sem í frv. fjallar um rannsóknir skólans sé eingöngu heimildarákvæði en um það er getið í 12. gr. frv., herra forseti, þar sem segir að Tækniháskóla Íslands sé heimilt að starfrækja rannsóknarstofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra sem sinni hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum í þágu atvinnulífsins.

Menntmn. var algjörlega sammála um að eðlilegt væri að Tækniháskólinn stundaði rannsóknastörf og var sömuleiðis sammála um að þeim þyrfti að finna ákveðinn formlegan farveg. Hins vegar mótmælti því enginn, herra forseti, í nefndinni að eðlilegt væri að þau skref yrðu tekin, eitt af öðru, þannig að nefndin viðurkennir að háskólinn eða rannsóknastofnun sem rekin yrði við Tækniháskólann komi ekki til með að stökkva fullsköpuð fram á fyrsta degi. Ég tel nefndina líta þarna á afar raunsæjan hátt á þessi mál. Það er vilji nefndarinnar að skólanum verði gert kleift að stunda rannsóknir á sínu sviði og það er vilji nefndarmanna að það gerist á eðlilegan hátt í framhaldi af því að skólinn fari á háskólastig.

Þessi hugsun er orðuð þannig í nál., með leyfi forseta:

,,Tækniháskóla Íslands er þannig gert kleift að hafa samstarf við fyrirtæki og rannsóknastofnanir atvinnulífsins á fjölbreyttum grunni sem er mikilvægt til að efla og styrkja starfsemi hans og uppbyggingu til frambúðar. Nefndin telur að hér sé um að ræða lykilatriði í þeim tilgangi að tengja Tækniháskólann við atvinnulífið.``

Heimildin varðandi rannsóknirnar, herra forseti, er opin og eins og segir í nál. er hún það vegna þess að háskólinn þarf að geta lagað sig að rannsóknarvinnu. Hann er ekki rannsóknastofnun í dag þannig að það er í sjálfu sér samþykkt og nefndin sættir sig við að þessi skref verði tekin. Það er samt alls engin ástæða til að ætla það af því sem sagt hefur verið í þessu máli af stjórnvöldum, og þá á ég við hæstv. menntmrh. og þá starfsmenn menntmrn. sem komu á fund nefndarinnar, að menn vilji ekki að af rannsóknastarfi Tækniháskólans verði.

Þá er enn eitt atriðið sem ber að fjalla hér um, herra forseti, og það eru fjármál skólans. Það er alveg gífurlega alvarlegt að frv. skuli lagt fram með umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. þar sem hún gerir beinlínis ráð fyrir því að skólinn hagræði í rekstri sínum til þess að hægt sé að halda honum innan fjárlaga og vinna upp uppsafnaðan halla. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að álit fjárlagaskrifstofu fjmrn., sem fylgir þessu frv., er algerlega óraunhæft. Í því er þannig haldið á málum að menn sem staðið hafa að samningu þess kjósa að horfa fram hjá veruleikanum í þessum efnum. Veruleikinn er sá, herra forseti, að reiknilíkan það sem Tækniskóla Íslands hefur verið gert að starfa eftir á afskaplega illa við ákveðna þætti í skólanum, m.a. þann þátt sem lýtur að húsnæði þess. Tækniskóli Íslands hefur verið rekinn í leiguhúsnæði. Reiknilíkanið um framhaldsskóla, herra forseti, er afar óhagstætt þeim skólum sem þurfa að reka sig í leiguhúsnæði.

Nú skal ég fara um það nokkrum orðum, herra forseti, hvers vegna reiknilíkanið er óhagstætt þessari tegund skóla. Það tekur í sjálfu sér ekki mið af raunverulegu verði á leigumarkaði. Það er lykilatriði, herra forseti. Ef líkanið á að virka fyrir skóla sem leigja húsnæði á markaði er algert skilyrði að líkanið horfi á markaðinn og verð á markaði eins og það er en ekki í gegnum einhver önnur gleraugu. Sannleikurinn er sá að eðlilegt leigugjald á ári sem húseigandi þarf að fá fyrir húsnæði sitt til að hann fari ekki í mínus út úr þeirri ákvörðun sinni að leigja það er talið 12% af matsverði fasteignarinnar á ári. Reiknilíkan menntmrn. fyrir framhaldsskólana sem þurfa að leigja gerir einungis ráð fyrir því að húseigandinn fái 5% af markaðsverði eignarinnar í sinn hlut á ári.

Hér munar 7 prósentustigum, herra forseti, og það er algerlega deginum ljósara að meðan þessi munur er á hinum raunverulega leigumarkaði og reiknilíkani framhaldsskólanna söfnum við halla. Það er algert skilyrði í því máli sem hér er um rætt að reiknilíkaninu verði breytt á þann hátt að það henti skólum sem leigja á almennum leigumarkaði en ekki sé miðað við einhverjar allt aðrar staðreyndir í reiknilíkaninu en tíðkast eða þekkjast á hinum almenna leigumarkaði.

Þegar þetta mál var til 1. umr., herra forseti, kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. að reiknilíkanið væri í endurskoðun. Það kom líka fram í máli hans að hæstv. ráðherrann ætlaði að beita sér fyrir því að þetta yrði skoðað þó að meginatriði í máli hæstv. ráðherra hafi verið að það sé skilyrði að skólar haldi sig innan fjárlaga. Um það eru þingmenn eftir því sem ég hef heyrt, herra forseti, allir sammála. Stofnanir þurfa auðvitað að halda sig innan fjárlaga. Í fjárlögunum verður þá líka að ganga út frá einhverjum raunhæfum markmiðum og áætlunum.

Það er fullyrt í eyru menntmn., herra forseti, að hvað leiguþáttinn í húsnæðismálum framhaldsskólanna varðar þurfi að verða breytingar því þar er ekki gengið út frá raunhæfum hlutum.

Herra forseti. Að öðru leyti verður að segjast að nefndin lýsti á fundum sínum um málið áhyggjum af uppsöfnuðum halla skólans. Í gögnum málsins kemur fram að uppsafnaður halli sé um 260 millj. kr. og þar er um að ræða bráðabirgðatölur frá Ríkisbókhaldi. Í umsögn fjmrn. er fjallað um að fjárhagsvandi skólans sé ekki síst kominn til vegna fámennra nemendahópa á tæknisviðum og vegna mikils kennslustundafjölda. Þar eru tveir þættir nefndir, herra forseti, sem líka heyra reiknilíkaninu til þannig að við endurskoðun reiknilíkansins verður að skoða þessi mál á raunsæjan hátt. Ef reiknilíkanið kemur illa út fyrir fámenna nemendahópa þarf að gera bragarbót þar á. Það er ekki raunhæft að ætla að Tækniháskólinn geti með handafli fjölgað í nemendahópum sínum. Það er eðlileg og stöðug aðsókn að Tækniháskólanum og því námi sem þar er í boði. Það er jafnvel einhver þörf, virðist vera, úti í samfélaginu fyrir einhverja fjölgum en þá hefur Tækniskóli Íslands ekki fengið það svigrúm sem hann hefur kannski talið eðlilegt til þess að fjölga enda kallar fjölgun í nemendahópum á fjölgun starfsfólks. Hér þarf að taka vel á í endurskoðun reiknilíkansins þannig að við fjöllum um hluti sem eru raunhæfir og að reiknilíkanið standist skoðun.

Ég mótmæli þeirri fullyrðingu sem kemur fram í umsögn fjmrn., fjárlagaskrifstofu, að verulegar breytingar þurfi að gera á náminu og endurskipuleggja þjónustuna til að draga úr kostnaði. Ég tel nauðsynlegt á hinn bóginn, herra forseti, að endurskoða reiknilíkanið til þess að búa þannig um hnúta að nám það sem nauðsynlegt er fyrir skólann að veita verði hægt að veita af fullri reisn og af fullum metnaði innan þess reiknilíkans sem í gildi er. Að öðrum kosti bjóðum við upp á fatlað nám, hálfkarað nám, og það er ekki vilji þeirra hv. alþm. sem fjölluðu um þetta mál í menntmn. að þannig verði um hnútana búið að hér verði um ófullkomið nám að ræða. Fólk talaði um það í nefndinni að það vildi standa af fullum metnaði að þessu máli og þar verður að tryggja, herra forseti, að slíkt geti orðið ofan á.

Herra forseti. Eftir að nefndin lauk umfjöllun um málið hefur upp hafist í fjölmiðlum nokkur umræða um frumgreinadeildina svokölluðu, þ.e. hið sérhæfða aðfararnám að Tækniháskólanum væntanlega, en eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur, er getið um það í umsögn með frv. að gert sé ráð fyrir því að sérhæft aðfararnám verði áfram til staðar við Tækniháskóla Íslands þó að það nám sé eðli málsins samkvæmt ekki á háskólastigi. Um það er getið í grg. að frumgreinadeildin sem nú er rekin verði áfram rekin við Tækniháskólann og að sá rekstur verði byggður á samningi milli háskólans og ráðuneytisins.

[12:45]

Mikilvægt er að ramma það inn, herra forseti, að nefndin tók undir þann vilja sem kemur fram í grg. með frv. og kom einnig fram í ræðu hæstv. menntmrh. við 1. umr. um málið. Það er alveg ljóst að hafa verður í huga þær áhyggjur sem hafa komið fram í fjölmiðlum núna síðustu vikurnar og m.a. í grein, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir tæpum tveimur vikum, þar sem fjallað var um hlut frumgreinadeildarinnar, grein sem skrifuð var af forstöðumanni núverandi frumgreinadeildar, Málfríði Þórarinsdóttur, en þá fjallaði hún um, í þeirri grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl 2002, að mjög mikilvægt væri að tryggja verkmenntuðu fólki viðhlítandi undirbúning að námi í sérgreinadeildum skólans og deildin hefði verið valkostur verkmenntaðs fólks og þyrfti að vera slíkur valkostur til staðar áfram. Menntmn. tók í raun og veru undir þessa meginhugsun og ég tel að með yfirlýsingum hæstv. ráðherra við 1. umr. málsins sé það alveg ljóst að ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á frumgreinadeild.

Hitt verður auðvitað að taka til skoðunar, sem vakin hefur verið athygli á í bréfi til alþingismanna frá stjórn Félags tækniskólakennara, að tryggja verður að réttarstaða kennara við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands verði tryggð, eða það þarf að greina hver hún er, í kjölfar gildistöku þessara væntanlegu laga um Tækniháskólann. Það kemur fram í bréfi sem stjórn Félags tækniskólakennara ritaði menntmn. Alþingis, eða sendi afrit af til menntmn. Alþingis því að þetta bréf er reyndað ritað til menntmrn. 23. apríl 2002, en þar kemur fram að stjórn Félags tækniskólakennara líti þannig á um tímabundna ráðningu eða skipun frumgreinakennara sem ekki uppfylla hæfisskilyrði háskólakennara að þeim verði boðið sambærilegt starf við þá frumgreinadeild sem rekin verði til Tækniháskóla Íslands samkvæmt samningi milli háskólans og ráðuneytisins.

Ég sé ekki ástæðu til annars, herra forseti, en að viðurkenna hér að auðvitað er alveg nauðsynlegt að gengið verði frá því formlega með kennara við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands hver staða þeirra verður í nýju umhverfi. Það er eðlilegt að menntmn. fylgist með því hvernig ráðuneytið svarar þessu erindi stjórnarinnar og ef fram þurfa að fara einhvers konar viðræður við ráðuneytið um aðlögun að breyttu starfsumhverfi þeirra kennara sem ekki uppfylla hæfisskilyrði háskólakennara, þá er eðlilegt að hvetja til þess að slíkar viðræður fari fram því annað væri í sjálfu sér ekki í samræmi við vilja menntmn.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir fór í nokkru máli í ræðu sinni áðan yfir umsagnir þær sem bárust til menntmn., en að mínu mati, herra forseti, ganga þær fyrst og síðast út á það að fagna því að málið skuli nú loksins vera fram komið. Fólk fagnar því að tækninám á Íslandi skuli á þennan hátt flutt á háskólastig. Ég lét í ljós í ræðu minni við 1. umr. málsins ánægju með að málið skuli vera að fá þessar farsælu lyktir og ég lít svo á að ítrekaðar tilraunir til þess að einkavæða tækninám á háskólastigi hafi í raun og veru verið lagðar á hilluna. Ég lít svo á að með yfirlýsingum hæstv. menntmrh. sjái allir sem sjá vilja að hér er gert ráð fyrir að settur verði á laggirnar ríkisháskóli sem heiti Tækniháskóli Íslands og hæstv. ráðherra hefur ekki gefið okkur að mínu mati í máli sínu tilefni til annars en að ætla að um hann komi til með að ríkja friður og sátt.

Ég treysti því, herra forseti, að fullkomin einlægni búi að baki og engin áform séu um það hjá ríkisstjórninni að gera neitt annað en það sem þetta frv. virðist ganga út á, þ.e. að hér verði rekinn metnaðarfullur og öflugur tækniháskóli sem taki við því hlutverki sem Tækniskóli Íslands hefur reynt að sinna eftir fremsta megni hingað til.

Ég hef áður getið um framtíðarsýn Tækniskóla Íslands í ræðum mínum í þessu máli, herra forseti. Ég ítreka að þingmenn hafa fengið í hendur skýrslu Tækniskólans um stöðumat hans og framtíðarsýn. Í henni getur að líta metnaðarfullar hugmyndir starfsfólks og kennara skólans þar sem því er lýst á hvern hátt fólk sem starfað hefur í Tækniskóla Íslands sér þessa umbreytingu eiga sér stað. Ég sé ekki annað en hér sé boðuð öflug framtíðarsýn sem geti nýst Tækniháskóla Íslands til bjartrar framtíðar.

Eini skugginn sem segja má að beri á er uppsafnaður rekstrarhalli Tækniskólans. Ég ítreka það núna, herra forseti, í lok ræðu minnar að lífsnauðsynlegt er að það fólk sem rekur Tækniskóla Íslands fái öruggt og ákveðið vilyrði fyrir því að rekstrarhalli Tækniskóla Íslands verði ekki heimanmundur sem Tækniháskóli Íslands kemur til með að þurfa að taka við. Það hlýtur að vera alger krafa úr þessum sal að rekstrarhallinn verði afgreiddur, frá honum gengið áður en ný háskólastofnun verður formlega sett á laggirnar. Það er ekki hægt að bjóða því fólki sem á að fylgja hinni öflugu framtíðarsýn um tækninám á háskólastigi inn í framtíðina upp á að það hafi þennan slóða í eftirdragi, ég legg á það mjög mikla áherslu, herra forseti. Ég tel að við getum skilið orð hæstv. menntmrh. á þann hátt að slíkt samkomulag eða slíkur frágangur verði á rekstrarhallanum að ekki þurfi að fylgja Tækniháskóla Íslands.

Nú gengur hæstv. menntmrh. í salinn og ég treysti því að hann geti þá fullvissað okkur áfram um að Tækniháskóli Íslands komi til með að byrja starfsævi sína á hreinu borði en ekki með langan skuldaslóða Tækniskóla Íslands á bakinu sem eins og ég hef rekið í máli mínu helgast af ákveðnum göllum í reiknilíkani því sem honum hefur verið gert að starfa eftir. Og ég treysti því líka að hæstv. ráðherra komi til með að staðfesta þær vonir menntmn. sem ég hef getið um í ræðu minni, að hér verði staðið að málum á öflugan hátt þannig að skólastofnunin þurfi ekki að bera neinn kinnroða þegar hún stígur sín fyrstu spor, fyrirheitin um rannsóknaþáttinn séu til staðar og það eigi að standa að baki henni sem rannsóknastofnun. Þó svo við samþykkjum öll að það sé gert skref fyrir skref, þá treysti ég því að hæstv. ráðherra komi til með að staðfesta þær vonir sem mér finnst að hafi ríkt hjá menntmn. Og ég lýsi ánægju minni með þann einhug sem ríkti í nefndinni við alla umfjöllun þessa máls þar.