Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 12:54:23 (8355)

2002-04-29 12:54:23# 127. lþ. 132.17 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, SI
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[12:54]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Með því frv. sem hér um ræðir er verið að staðfesta stöðu Tækniskólans á háskólastigi og breyta innra stjórnkerfi hans til samræmis við almenn lög um háskóla. Í frv. felst mikil framför frá núverandi starfsumhverfi Tækniskóla Íslands og nauðsynlegt fyrir áframhaldandi uppbyggingarstarf skólans að það verði að lögum nú í vor.

Það hefur berlega komið í ljós, bæði af þeim umsögnum sem hv. menntmn. hafa borist vegna málsins sem og af málflutningi gesta nefndarinnar, að almenn sátt ríkir um frv. efnislega. En vissulega hafa menn áhyggjur af þeim fjárhagsvanda sem skólinn hefur átt við að etja á undanförnum árum og er uppsafnaður fjárhagsvandi skólans nú um 260 milljónir sem er mjög alvarlegt mál. En ljóst er að fjárhagsvandi skólans stafar að miklu leyti af óhagstæðum bekkjareiningum, þ.e. fámennum bekkjardeildum, og á það einkum við um bekkjardeildir í heilbrigðisgeiranum. Reynt hefur verið að taka inn nemendur einungis annað hvert ár en gallinn við það er að þeir nemendur sem ætla að hefja nám en fá ekki vegna þess að það hittir ekki á inntökuár skila sér ekki inn síðar heldur leita frekar inn á aðrar námsbrautir.

Í Tækniskólanum hefur verið reynt að miða við sjö nemenda lágmark í bekkjardeildir, en í sumar bekkjardeildir, eins og í meinatækni og geislafræði, þarf einnig að beita fjöldatakmörkunum vegna þess að ekki er hægt að koma nema takmörkuðum fjölda nemenda inn í starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum.

Með því að setja Tækniháskólanum þessi sérlög er verið að auðvelda honum samstarf við aðra háskóla. Í gildi hefur verið samstarfssamningur á milli Tækniskólans og Háskólans á Akureyri og víst er að það samstarf verður reynt að efla enn frekar sem og að auka enn á samstarf við aðra háskóla.

Í 12. gr. frv. er kveðið á um að Tækniháskóla Íslands sé heimilt að starfrækja rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra sem sinni hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum í þágu atvinnulífsins. Ég tel afar jákvætt að þarna sé um rannsóknaheimild að ræða en ekki rannóknaskyldu. Það er sem sagt ekki verið að skella á skólann lagaskyldu um rannsóknarvinnu sem hann er e.t.v. ekki fær um að sinna í upphafi heldur getur hann eftir efnum og ástæðum þróað sig upp á það stig að efla sitt rannsóknastarf og hann á að hafa fullt sjálfstæði til að fóta sig sjálfur á þeirri braut.

Það er ekki endilega samasemmerki á milli aukinna fjárframlaga frá hinu opinbera og rannsóknastarfa heldur eru rannsóknir sem unnið er að innan háskóla oft og tíðum unnar fyrir einkaaðila og þá jafnframt kostaðar af þeim.

Stefna ber að því að Tækniháskóli Íslands verði virtur fagháskóli á sviði tækni og rekstrar og nauðsynlegt er að opna skólann fyrir nýjum námsbrautum og svara þannig nútímakröfum atvinnulífsins.