Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:16:45 (8376)

2002-04-29 15:16:45# 127. lþ. 132.17 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Hér liggja fyrir málsskjöl varðandi frv. til laga um Tækniháskóla Íslands sem sýna að það er mikil samstaða um þetta mál sem ber að fagna því þetta er gott mál og vil ég nota tækifærið til að þakka hv. menntmn. fyrir vel unnin störf.

Við 2. umr. málsins var spurt ítarlega um allmörg atriði, þar á meðal það sem hefur verið gert að umtalsefni hér við þessa umræðu en það er fjárhagsstaða Tækniskóla Íslands og með hvaða hætti Tækniháskólinn tekur við. Hér mun ég ekki gera annað en að endurtaka það sem ég sagði við 2. umr. málsins, að hinn nýi Tækniháskóli Íslands þarf að taka af festu á rekstrarmálum sínum. Þar sem starfsemi Tækniskóla Íslands var að mestu leyti á háskólastigi má búast við því að á þeim rekstrarvanda sem upp var kominn fyrir breytinguna þurfi að taka í Tækniháskóla Íslands. Það er hins vegar ljóst að taki Tækniháskóli Íslands af festu á rekstrarmálum sínum og haldi sig innan fjárheimilda mun menntmrn. leggja á það áherslu að skólanum verði gert kleift að takast á við uppsafnaðan rekstrarvanda.

Ég vil einnig taka það fram að þau reiknilíkön sem notuð eru nú til viðmiðunar við fjármögnun skólakerfisins eru í mótun. Engum dylst að það þarf að gera á þessum líkönum breytingar til batnaðar, og verið er að vinna í því máli. Hins vegar getur engum dulist að það er ekki hægt að ganga í það mál öðruvísi en að líta á reiknilíkanið sem ramma utan um þær fjárheimildir sem skólarnir fá, og þær fjárheimildir verða skólarnir að virða á hverjum tíma. Síðan er gengið í að endurskoða þetta eftir því sem tilefni gefst til og líkönin eru þannig löguð að raunverulegum vandamálum sem upp koma. Það breytir ekki því að allir hljóta þingmenn að vera sammála um að skólastofnanir eiga allar að halda sig innan fjárheimilda enda vita menn að við það búa allar stofnanir ríkisins. Til þeirra er gerð sú krafa að þær haldi sig innan fjárheimilda.