Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:20:22 (8377)

2002-04-29 15:20:22# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér erum við að ræða um atvinnuréttindi útlendinga og tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið sl. laugardag.

Þetta frv. var í nefndinni á síðasta þingi og þá var farið allvel yfir málið. Ég og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vorum með brtt. við frv. sjálft, skrifuðum þar af leiðandi undir nál. með fyrirvara en erum sammála því að meginefni til.

Það sem er afar gott kannski og jákvætt við þetta frv., miðað við stóra frv. sem kemur vonandi á dagskrá síðar í dag, er hvernig að því hefur verið unnið. Sérstakur vinnuhópur, bæði frá atvinnurekendum og verkalýðshreyfingu, vann í rauninni þessa vinnu og jafnframt þetta frv. þar sem verið er að taka inn talsvert af heimildum vegna EES þannig að það er mjög margt sem horfir til framfara í þessu frv.

Umsagnir voru líka tiltölulega jákvæðar. Á síðasta þingfundi þegar þetta mál var til umræðu var rætt um 3. gr., varðandi námsmennina, og ýmsir sem voru með frv. til umsagnar lögðu til breytingar við hana. Þar erum við með brtt. og viljum gjarnan opna það að tímabundið leyfi sé ekki bara veitt atvinnurekanda heldur útlendingnum sjálfum líka.

Á þessu eru uppi tvær skoðanir. Atvinnurekendur vilja gjarnan að þetta færist alfarið yfir til útlendingsins sjálfs en verkalýðshreyfing telur að svo eigi ekki að verða, nema þá kannski að gangast við einhverri slíkri tillögu eins og við höfum lagt hér fram, vegna þess að þeim finnst að þeir tryggi betur rétt og séu betur á vaktinni með því fyrirkomulagi sem nú er. Því er uppi þessi umræða og sér ekki alveg fyrir endann á henni en vonandi fer okkur fram hægt og hægt þannig að við sjáum að atvinnuleyfin geti verið hjá útlendingnum eða atvinnurekandanum eftir atvikum, þurfi ekki að vera algilt að þau séu hjá atvinnurekandanum. Við erum með þannig brtt. við frv.

Í umræðunni sl. laugardag var einnig rætt um 12. gr., varðandi námsmennina, en þar erum við jafnframt með tillögu þar sem talað er um sex mánuði, ef ég man rétt, og atvinnuleyfi vegna námsdvalar. Ekki á að veita leyfi lengur en sex mánuði í senn. Við vildum hins vegar gjarnan veita leyfið tólf mánuði í senn, og mjög margir eru sammála því. Það er fróðlegt að sjá hvort það verður ekki samþykkt hér í umræðunum. Þetta var samt sem áður sú grein sem ekki voru gerðar athugasemdir við þegar frv. var sent út.

Við höfum líka viljað rýmka, ef ég ræði aðeins um 11. gr., óbundið atvinnuleyfi. Þar er talað um eitt ár í stað tveggja.

Við sjáum samt að þetta frv. hangir að hluta til með því frv. sem verður rætt síðar í dag, um lögin um útlendinga. Þar er búið að setja inn varðandi búseturéttinn, eins og margir vita, námskeið í íslensku. Því er hins vegar mætt á mjög jákvæðan og fínan hátt í þessu frv. um kennslu og námskeið sem bæði atvinnurekendur og verkalýðshreyfing koma að. Nálgunin í þessu frv. er í rauninni mjög jákvæð.

Ástæðan, eins og ég segi, var að við vorum með fyrirvara á þessu vegna þeirra breytinga sem við vildum gera þannig að um það gætu verið einhverjar umræður. Annars voru umræður í nefndinni mjög fínar og fengum við að sjálfsögðu til liðs við okkur ýmsa sérfræðinga og alla þá sem veittu umsagnir um málið. Það er ekki lagst gegn samþykkt þess.