Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 15:56:58 (8385)

2002-04-29 15:56:58# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér fannst ekki mikil sanngirni í því frammíkalli sem ég rétt nam héðan utan úr salnum frá einum hv. þm. sem kallaði fram í mál hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, hvort hann væri því meðmæltur að hleypa öllum inn viðstöðulítið. Þetta er nefnilega síbylja sem maður heyrir í vaxandi mæli beitt gegn okkur sem viljum hafa sanngjarnar og tiltölulega rúmar reglur í þessum efnum. Við skulum ekki gleyma því, og hv. þm. sem frammíkallið átti skal heldur ekki gleyma því, að ástæðan fyrir því að efnahagslíf Íslands er í þokkalegu lagi í dag er ekki bara góðæri eða góð ríkisstjórn þó hv. þm. vildi vafalítið skrifa það einvörðungu á það. Það er ekki síst að þakka því að okkur hefur tekist að nýta framleiðsluþættina mjög rækilega vegna þess að við höfum fengið mikinn fjölda hæfra útlendinga inn í landið. Þetta er reyndar staðreynd sem hæstv. félmrh. hefur oftsinnis bent á. Ástæðan fyrir því að hér ríkti ekki óðaverðbólga og hér ríkir ekki óðaverðbólga í dag er fyrst og fremst sú að við fengum hingað inn í landið mikið af útlendingum sem tóku þátt af ærnum krafti í framleiðslustörfum okkar, framleiðslulífi, og þeir eiga mikla þökk skilda fyrir það.

Ég er þeirrar skoðunar að það sem við þurfum að gera varðandi erlent fólk sé að setja skýrar reglur. Ég tel að þær eigi að byggja á þeim viðhorfum sem hafa komið fram af hálfu flokks míns og þær eiga að vera tiltölulega rúmar. En það er algjörlega fráleitt að halda því fram að nokkur sé þeirrar skoðunar að það eigi að vera hægt að hleypa hverjum sem er viðstöðulaust inn í landið. Um það er ekki verið að ræða.

Það hafa ekki verið nægilega skýrar reglur í þessum efnum. Það vitum við sem sitjum á hinu háa Alþingi. Fá mál eru jafnátakanleg og einmitt þau mál sem varða innkomu ættingja þeirra útlendinga sem fyrir eru í landinu og rekur stundum á okkar fjörur.

Ég verð nú að segja að mér finnst sjálfum sem starfsemi Útlendingaeftirlitsins hafi batnað mikið á seinni árum. Menn eru komnir með hlutina í fastari skorður. Ég rek mig líka á að menn hafa oft getað höfðað til mannúðar og sanngirnissjónarmiða. En á hins vegar ekki að gera upp á milli fólks. Þeir eiga ekki að njóta einhverrar vildar sem hafa aðgang að þeim sem hafa afl til þess að þrýsta. Reglur eiga að vera skýrar. Það er hið jákvæða við þetta frv. sem hér er verið að samþykkja að það er skýrt. Ég er að flestu leyti sammála því. Mér finnst vera mörg jákvæð nýmæli í þessu frv.

Það er auðvitað jákvætt líka að fyrir þinginu liggja önnur þingskjöl þar sem verið er að setja skýrar reglur. Ég er ekki jafnsammála þeim og því frv. sem hér er. En hið góða við það er að verið er að setja skýrar reglur. Það skiptir miklu máli.

Við skulum hafa það hugfast, eins og ég sagði áðan, að staða efnahagslífs okkar helgast að mörgu leyti af því hvað við höfum fengið margt gott fólk af erlendu bergi brotnu hingað inn í landið. Mér finnst við eigum að gera vel við það fólk og það er ekki verið að gera illa við það í þessu frv. sem hér liggur fyrir.

[16:00]

Það eru örfá atriði sem ég vildi í stuttu máli drepa á. Fyrst vil ég segja það, herra forseti, að ég er algjörlega sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um það málfarsatriði sem hann drap á áðan. Þegar ég hef lesið þetta frv. og reynt að kynna mér það --- lagði fram langt frv. um svipað efni fyrir nokkrum árum --- hefur það tekið mig svolítinn tíma að skilja rökfræðina bak við hugtakið ,,óbundið atvinnuleyfi``. Það liggur fyrir að tvenns konar atvinnuleyfi eru veitt, tímabundin og síðan óbundin atvinnuleyfi. Hvað er óbundið atvinnuleyfi? Það er ótímabundið. Af hverju köllum við þetta þá ekki bundið atvinnuleyfi og óbundið, hvort tveggja jafnógagnsæ orð? Ég er alveg sammála hv. þm. um að við ættum að kalla þetta tímabundið atvinnuleyfi og ótímabundið atvinnuleyfi. Ég er viss um að sú góða málkennd sem blundar í brjósti og höfði hæstv. forseta sem nú situr á stóli hlýtur að taka undir með mér í þeim efnum.

Það er engin röksemd fyrir því að viðhalda vondu orði í lögum að vísa til þess að því hafi verið beitt árum saman. Að ýmsu leyti hefur málfar á íslenskum lagabálkum og íslenskum rétti batnað verulega, einmitt vegna þess að menn hafa haft fyrir því að verja málið, verja tunguna, með því að hnika út orðalagi af þessu tagi. Ég mun því greiða atkvæði með því. Sömuleiðis vil ég segja í tilefni af ræðu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar að fyrir mig er ákaflega erfitt að samþykkja orðalag eins og er í 7. og 8. gr. þar sem talað er um rík mannúðarsjónarmið og ríkar sanngirnisástæður. Sanngirnisástæður eru sanngirnis\-ástæður. Punktur, finnst mér. Ég er því hlynntur að þetta fari út. Það er bitamunur samt en ekki fjár. Sammála þessu.

Það sem ég vildi ræða er það sem ég átti örlítil orðaskipti um við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og hæstv. félmrh. um daginn, námsmenn. Mér líkar ekki að með þessu frv. sé verið að stytta leyfið sem þeir fá til vinnu niður í sex mánuði. Það var áður hægt að veita leyfi í tólf mánuði. Félagar mínir í þingflokki jafnaðarmanna flytja auðvitað brtt. sem ég styð hjartanlega.

Ég felli mig líka hvorki við skýringar hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur né hæstv. félmrh. Mér fannst í máli hv. formanns félmn. --- við ræddum þetta hér fyrir helgi --- gæta nokkurs misskilnings. Hv. þm. vísaði til þess að menn hefðu e.t.v. um of nýtt sér stöðu sína sem námsmenn til að komast á almennan vinnumarkað hér á landi. Ef ég man rétt orðaði hv. þm. það með þeim hætti að námsmenn hefðu átt greiðari leið inn á vinnumarkað en aðrir útlendingar. Nú vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að námsmenn eigi að eiga greiðari leið. Ég er þeirrar skoðunar. Ég tel að við eigum að gera allt sem við getum til að stuðla að því að útlendingar geti komið hingað til náms, framfleytt sér á vinnumarkaði, og síðan hverfa þeir aftur til heimalandsins. Þeir taka með sér íslensk menningaráhrif, íslensk tengsl, íslenska vináttu og oftar en ekki breytist þetta með einhverjum hætti þegar fram líða stundir í menningarsamskiptum millum þjóðanna í einhvers konar viðskipti millum þjóðanna.

Herra forseti. Ég var í námi einu sinni í öðru landi. Bara núna í sumar koma sökum þess 19 manns til Íslands sem gera mér heimsókn. Það er dágóður biti fyrir ferðaþjónustu, ég tala nú ekki um vegna þess að hluti þeirra ætlar austur á land í kjördæmi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur. Þetta skiptir allt saman máli.

Þegar ég var á sínum tíma í námi í Bretlandi á kostnað frú Margrétar Thatcher ríkti mikil deila um þá ætlan hennar og ríkisstjórnarinnar að fella niður námsstyrki. Ástæðan var ákaflega einföld, menn sögðu að þetta gerði það að verkum að námsmenn frá fjarlægum löndum kæmu ekki lengur til Bretlands heldur til annarra ríkja. Þegar þeir fullorðnuðust, kæmu til baka, gengju inn í stjórnunarstöður og þeir og þeirra kynslóð réð samfélögum eins og gerist með allar kynslóðir alls staðar mundu þeir í vaxandi mæli leita til annarra landa en Bretlands, með öðrum orðum mátti líta svo á að þetta væri fjárfesting.

Við Íslendingar höfum ekki stundað fjárfestingar af þessu tagi. Við höfum hins vegar með þokkalegum hætti, vegna þess að vinnumarkaðurinn hefur bara boðið upp á það, getað gert námsmönnum kleift að koma hingað og framfleyta sér með vinnu. Nú vill svo til að ég þekki þetta svolítið af eigin raun, bæði vegna þess að ég hef verið tengdur með óbeinum hætti menntastofnun fyrir útlendinga og vegna þess að á heimili mínu hafa líka búið útlendingar úr fjarlægum heimsálfum sem hafa komið hingað beinlínis til að læra. Þetta fólk hefur allt saman með einhverjum hætti, það sem ég hef þekkt til, getað ef á hefur bjátað framfleytt sér með vinnu. Ég þekki hversu erfitt það var fyrir ungt fólk sem kom úr fjarlægum álfum og þekkti lítt til hér að verða sér úti um svona leyfi. Það var alveg með ólíkindum þegar settar voru fram kröfur, og beinlínis bent á það af hálfu starfsmanna viðkomandi stofnunar, að einstaklingurinn þyrfti að bregða sér út fyrir landsteinana. Honum var meira að segja bent á hvert væri ódýrast og hentugast að fara. Það mál sem ég vísa til leystist, sennilega vegna þess að viðkomandi starfsmanni þóttu vera rík mannúðarsjónarmið eða miklar sanngirnisástæður. Það er verið að bæta fyrir það, herra forseti.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir taldi að þetta fyrirkomulag gæfi þessum útlendum námsmönnum fullopna leið inn á vinnumarkaðinn. Það var ekki hægt að skilja málflutning hennar öðruvísi en svo að hún væri þeirrar skoðunar að það væri nauðsynlegt að hafa þetta til þess að veita þeim, fyrsta kastið, sex mánaða leyfi en ég skildi hana þannig að hún væri þeirrar skoðunar að eftir það mætti og ætti að vera hægt að veita þeim tólf mánaða leyfið. Það er ekki svo í þessu frv. Ég vildi því spyrja hv. þm. hvort hún teldi ekki möguleika á því að ná samstöðu um það áður en þetta mál verður endanlega afgreitt frá þinginu að hægt verði, þegar framlengt er og viðkomandi uppfyllir þau skilyrði sem hér eru sett, að veita viðkomandi námsmanni tólf mánaða leyfi. Þessu kem ég á framfæri til hæstv. ráðherra og hv. formanns félmn.

Hæstv. ráðherra skýrði þetta að ýmsu leyti vel í máli sínu áðan og líka í umræðunni um daginn. Ég er ekki algjörlega sammála honum um að verið sé að rýmka stöðu námsmanna. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að verið er að stytta leyfið sem veitt er hverju sinni, úr tólf niður í sex mánuði. Það er ekki hægt að kalla það rýmkun. Í öðru lagi sýnist mér að verið sé að setja fram nýjar reglur um námsframvindu og ég hafði af því nokkrar áhyggjur. Ég geri engar athugasemdir við að slíkar kröfur séu settar fram vegna þess að þær koma einmitt í veg fyrir það sem hv. þm. óttaðist. Ég hafði hins vegar svolitlar áhyggjur af skiptinemum af því að ég hef af þeim nokkur kynni, og þar er auðvitað um að ræða annars konar nám. Þeir taka þátt í námi af fullum krafti og það má segja að þeir séu í fullu námi, og að því leyti til sé það rangt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem hann sagði hér áðan, að slíkir námsmenn, skiptinemar, féllu ekki undir 12. gr. Ég tel að þeir falli undir 12. gr. Ég tel hins vegar að ef menn ætla að vera á stífum gormum varðandi skilgreiningu á því hvað sé eðlileg námsframvinda er sé auðvitað hægt að koma í veg fyrir að skiptinemar fái nokkru sinni slíkt leyfi. Ég held nefnilega að í langfæstum tilvikum geti þeir skilað afköstum sem því svarar.

Ég vil hins vegar segja, herra forseti, af því að ég nefndi þetta í ræðu minni um daginn að ég sætti mig alveg við það sem hæstv. félmrh. sagði áðan. Hann sagði í andsvari við þingmann að hann mundi sjá til þess að þegar reglugerð um þetta mál yrði sett skertist ekki staða skiptinema. Ég sætti mig alveg við þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra, herra forseti, og vildi bara láta það koma hér fram að ég tel að í þeirri reglugerð verði að standa skýrum stöfum að þær kröfur sem ella eru gerðar um námsframvindu erlendra námsmanna --- til þess að þeir fái tímabundið atvinnuleyti --- séu ekki gerðar til skiptinema. Ef hæstv. ráðherra ætlar að sjá til þess er ég að öðru leyti bara mjög sáttur við þetta prýðilega frv.