Atvinnuréttindi útlendinga

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:18:17 (8390)

2002-04-29 16:18:17# 127. lþ. 132.18 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv. 97/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Nokkur orð um frv. um atvinnuréttindi útlendinga þar sem ég er einn af nefndarmönnum og hef ritað undir nál. með fyrirvara og er 1. flm. að brtt. sem hafa verið hér nokkuð til umræðu, ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, enda búið að ræða allmikið um þær brtt. sem við erum með á þskj. 1146, en mig langar þó að nefna nokkur atriði sem viðkoma þessum breytingum og það er m.a. að við leggjum til að tímabundið atvinnuleyfi sé veitt fleirum en einungis atvinnurekanda. Við teljum eðlilegt að einnig sé hægt að veita útlendingi tímabundið atvinnuleyfi og gerum brtt. í þeim efnum, bæði sem snýr að 3. gr. og 7. gr.

Síðan leggjum við til að í 8. gr. verði fellt brott orðið ,,ríkar``, þar sem segir: ,,Tímabundið atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, ...`` Ég held að nokkuð góð rök hafi komið fyrir því að ekki sé ástæða til að hafa þetta áhersluorð hér inni og vonast til þess að stjórnarliðar hafi tekið þeim rökum og séu tilbúnir að samþykkja það að þetta orð falli út, því auðvitað er erfitt að meta það hvenær sanngirnisástæður eru ríkar og hvenær þær eru ekki ríkar. Auðvitað þurfa að vera sanngirnisástæður og það á að standa þannig í lögunum, þannig að ekki þurfi að vera matsatriði hverju sinni hversu ríkar sanngirnisástæðurnar eru fyrir því að tímabundið atvinnuleyfi liggi fyrir áður en útlendingurinn kemur til landsins.

Varðandi breytingu á 11. gr. þá langar mig aðeins til að nefna það að nefndin er með brtt. sem við hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir stöndum að þar sem komið er nokkuð til móts við brtt. okkar, en þó teljum við að ganga þurfi lengra, en það er um réttindi, þ.e. atvinnuréttindi útlendinga sem eru í sambúð eða í hjónabandi með Íslendingi, íslenskum ríkisborgara. Í frv. er gert ráð fyrir að hjúskapur þurfi að hafa varað tvö ár eða að viðkomandi útlendingur skuli hafa átt hér lögheimili í tvö ár til þess að hægt sé að víkja frá þeim skilyrðum að hann þurfi að sækja um óbundið atvinnuleyfi. Eins og menn þekkja þá öðlast makar íslenskra ríkisborgara rétt til atvinnu sjálfkrafa en við teljum að þarna eigi aðeins að miða við eitt ár. Dæmi hafa komið upp um að menn bíða annars vegar með að skilja vegna þessara ákvæða og eru þá í hjónabandi lengur til þess að ná þessu markmiði, og við teljum að ástæðulaust sé að halda þarna inni þessum tveimur árum, teljum eitt ár vera nægilega langan tíma. Sama gildir auðvitað ef íslenskur maki útlendings hér á landi sem er hér í vinnu fellur frá, þá missi viðkomandi atvinnuleyfið, sem er mjög hastarlegt í þeim tilvikum. Nefndin leggur reyndar til heimild um að víkja frá þeim skilyrðum við andlát og er það auðvitað til bóta. En engu að síður tel ég eðlilegt að tímabilið sé skemmra, þ.e. eitt ár.

Varðandi námsmennina sem hafa nokkuð verið til umræðu hér í dag, þá langar mig til að minnast á það að þetta mál var nokkuð til umræðu í fyrra, á síðasta þingi, því þá var aðalumræðan í nefndinni um þetta þingmál. Þá kom fram að þetta væri ákveðin afturför, verið væri að þrengja réttindi námsmanna með því að stytta atvinnuleyfi þeirra niður í sex mánuði í stað tólf mánaða áður. Meðal annars voru nefnd dæmi um útlenska námsmenn sem vinna með skóla, sem sjá sér farborða með vinnu með námi. Það er verið að gera þeim erfiðara fyrir með því að þurfa að sækja um atvinnuleyfi að nýju eftir sex mánuði. Þeir vinna með skólanum og síðan vilja þeir jafnvel vinna að sumarlagi. Þarna er því verið að þrengja að námsmönnunum hvað varðar atvinnuleyfið og hefðum við þingmenn Samfylkingarinnar í félmn. viljað sjá þarna aftur tólf mánaða ákvæðið.

Varðandi orðalagið tímabundið og óbundið þá tökum við undir þá gagnrýni sem komið hefur frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og verð ég að segja að ákveðið ósamræmi er í lögunum með því að tala um tímabundið atvinnuleyfi og síðan óbundið. Það er auðvitað rökréttara að segja þá bara ótímabundið, tímabundið og ótímabundið, vegna þess að ekki er samræmi milli notkunar á þessum orðum og hefði ég talið eðlilegt að gætt væri samræmis í orðavali.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Frumvarpið er mjög til bóta þó svo ýmislegt mætti betur fara eins og við höfum bent á í brtt. okkar og snýr fyrirvari minn og okkar þingmanna Samfylkingarinnar í félmn. einmitt að þeim atriðum sem við gerum brtt. við.