Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:51:43 (8398)

2002-04-29 16:51:43# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Heima fyrir segja menn blátt út, eins og komið hefur fram í ræðum á hinu háa Alþingi, að hugur manna standi til þess að selja hlut Sveitarfélagsins Skagafjarðar nær einvörðungu vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fram hefur komið að sveitarfélagið hefur í tekjur u.þ.b. 1 milljarð, reksturinn er eitthvað í svipuðum skala og skuldirnar eru líklega í kringum 1,5 milljarðar. Það sem stendur upp úr númer eitt, tvö og þrjú er að staða sveitarfélagsins knýr menn til þess að taka þessa ákvörðun. Menn vilja losa peninga. Það skil ég ósköp vel.

Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki er mjög vel rekið fyrirtæki nú um stundir þó að byrjunarörðugleikar hafi verið. Hluti af velgengni hennar er eflaust hversu vel fyrirtækið er búið að koma sér fyrir. Það er gríðarlega mikið eigið fé í fyrirtækinu og það gerir það að verkum með öðru að fyrirtækið er samkeppnisfært. Það hefur að vísu fengið nýjustu tækni frá Finnlandi eins og fram hefur komið. Þetta er sú staða sem fyrirtækið er í og þess vegna er það samkeppnisfært.

Ég ætla engu að spá um það en ég vona sannarlega að ef fyrirtækið skiptir um eigendur þá eigi það langa og bjarta framtíð fyrir sér. En ég segi að þegar menn eru knúnir til þess að taka svona ákvörðun út frá bágri fjárhagslegri stöðu, er það hlutverk okkar á hinu háa Alþingi að taka þessi mál fyrir í víðara samhengi og benda á að þessi ákvörðunartaka og óskir af þessu tagi eru m.a. fram komnar vegna þess hver staða sveitarfélaganna er. Það er nú hin heila og stóra pólitík á hinu háa Alþingi gagnvart sveitarfélögunum sem er að mínu mati stórt mál. Þetta er bara eitt vandræðamálið, að mínu mati, vegna þeirrar stöðu.