Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:58:39 (8401)

2002-04-29 16:58:39# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú hefur heldur betur vænkast hagur okkar í þessari umræðu. Tveir hv. þm. hafa dýpkað hana mjög með þátttöku sinni, þeir hv. þm. Jóhann Ársælsson og Kristinn H. Gunnarsson. Það er athyglisvert að menn skuli koma hér og ræða frv., þingmál, án þess að hafa lesið það, án þess að hafa áttað sig á því um hvað málið snýst. Það var alveg bersýnilegt á máli þeirra beggja hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og Kristins H. Gunnarssonar að þeir hafa ekki lesið þingmálið. Þeir vita ekki um hvað það er. Þeir halda að hér sé verið að ræða á Alþingi frv. til laga um að selja hlut Sauðárkróks í Steinullarverksmiðjunni. (JB: Skagafjarðar) Skagafjarðar. Það er rangt. Það er verið að ræða hérna um sölu ríkisins. (Gripið fram í.) Það er verið að ræða hérna um eignarhlut ríkisins. (KHG: Lestu nefndarálitið.) Það er eins og hv. þingmenn hafi ekki áttað sig á þessu. Það er bersýnilegt. Þar fyrir utan voru furðulegar tilraunir til útúrsnúninga uppi hafðar áðan og er kærkomið að fá tækifæri til að svara þeim aðeins.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti hér þá speki að það sæju nú líklega allir menn að það breytti engu hver ætti hlutabréfin í svona verksmiðju, það yrði sem sagt engin breyting á stöðu þessa fyrirtækis, ef marka má orð þingmannsins, þó sveitarfélagið annars vegar og svo ríkið færu út úr því sem eignaraðilar. Er þetta líklegt? Er þetta trúverðugur málflutningur? Hafa menn þá tilfinningu í Skagafirði að svo sé? Ég held ekki. Gaman væri að vita hvort hv. þm. Jóhann Ársælsson er sama sinnis hvað varðar eignarhlut ríkisins í Sementsverksmiðjunni. Ég skýt því svona hérna inn.

[17:00]

Og hvernig ætli hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson heimfæri þetta dæmi t.d. upp á Áburðarverksmiðjuna? Breytti það engu hver átti hlutabréfin, lóðarréttindin og verðmætin sem voru fólgin í Áburðarverksmiðjunni? Hvað tók það nýju eigendurna langan tíma að leggja hana niður? Hvað eru þeir að græða á því að ríkið svo til gaf þeim þessa verksmiðju? Var ekki búið að reikna út að það væru um 700 milljónir sem þeir hefðu fengið á silfurfati með því að kaupa verksmiðjuna, skuldlaust fyrirtæki, með áburð í birgðum upp á um 700 milljónir króna, á 1.100 milljónir, öll réttindi með?

Ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ætti að fara í heimsókn hérna út í bæ, úr því hann er svona illa að sér í þessum efnum, og ræða við nokkra menn sem geta sagt honum sögur af nýjustu íþróttinni á verðbréfamarkaði og í hlutabréfaviðskiptum sem er sú að kaupa innanfeit fyrirtæki og flá þau. Þeir sem eru á höttum eftir skjótfengnum gróða núna og hann er ekki að fá lengur eftir að verðbréfablaðran sprakk, þeir stunda núna þá íþrótt, að reyna að ná sér í innanfeit fyrirtæki og flá úr þeim fituna. Og síðan ræðst það eftir aðstæðum hvað er gert með þau í framhaldinu og þau verða ekki öll mjög gömul eftir að nýir eigendur hafa náð þeim undir sig.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson veit sennilega ekki um átökin sem hafa verið hér, geysað á bak við tjöldin í viðskiptalífinu undanfarin missiri og m.a. allt upp í stærstu olíufélögin verið þar undir, þar sem slagurinn hefur staðið um nákvæmlega þetta, að menn eru á höttum eftir vel stæðum fyrirtækjum sem eru peningalega sterk, eru innanfeit, komast í ráðandi stöðu í þeim, láta þau borga sig sjálf, flá úr þeim fituna og sjá svo til hvað þeir gera við slangið.

Og dettur hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, sem er að baksa eitthvað við byggðamál, er það ekki, er ekki hv. þm. formaður stjórnar Byggðastofnunar --- dettur honum í hug að halda því fram eitt augnablik að eignarhald ríkisins og þess vegna sveitarfélagsins hafi ekki skipt sköpum fyrir þetta fyrirtæki? Það væri ekki til nema vegna þess að ríkið hafði frumkvæði að því að koma því á fót. Og það væri heldur ekki norður á Sauðárkróki nema vegna þess að tekin var um það pólitísk ákvörðun. Að heyra formann Byggðastofnunar koma og tala með þessum hætti hér um hlutina er auðvitað með ólíkindum.

Ég held að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og þeim framsóknarmönnum væri nær að reyna að manna sig upp í að gera eitthvað í sambandi við rekstrarstöðu sveitarfélaganna í landinu sem eru að kikna, sem hafa verið að safna skuldum undanfarin ár, hverra rekstrarkostnaður hefur á fáeinum árum hækkað úr því að vera 75--77% af skatttekjum að meðaltali eins og þetta var fyrir 6--8 árum, upp í að vera líklega um 85% í fyrra og stefna upp á við. Er þetta ekki vandinn, herra forseti? Er þetta ekki ástæða þess að hvert sveitarfélagið á fætur öðru sér sig núna knúið til þess að selja frá sér verðmætustu eignir sínar? Ég fullyrði að það gera sveitarstjórnarmenn oft algerlega nauðbeygðir vegna þess að menn vita að með því eru þeir ekki að gera góð viðskipti, þetta eru afarkostir sem menn eru oft þarna að lúta, og það skapar iðulega óvissu og óöryggi um framhaldið.

Auðvitað er þetta röskun á stöðu Steinullarverksmiðjunnar og skapar meiri óvissu um framhaldið. Að sjálfsögðu vonar maður, gangi þetta eftir samt sem áður, að það fari vel og fyrirtækið verði áfram rekið á staðnum og með fullri drift. En það er algerlega augljóst mál að þátttaka ríkisins í því og áframhaldandi eign ríkisins --- þó ekki hefði verið annað en ríkið hefði sagt sem svo: Ja, við höldum okkar hlut til að tryggja stöðugleika í málefnum fyrirtækisins, það er alveg nóg breyting í senn að sveitarfélagið leysi þá út sinn hlut, þó ríki bæti ekki við að selja sitt líka --- hefði strax skapað ákveðna tryggingu fyrir því að ríkið gat beitt afli sínu, átti aðkomu að fyrirtækinu og ég gef mér að menn hefðu þá viljað stuðla að því að það yrði áfram rekið af myndarskap á Sauðárkróki.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þó að vel hafi gengið hjá þessu iðnfyrirtæki núna um nokkurt skeið, þá hefur það gengið í gegnum erfiðleikatímabil og það hafa fleiri sambærileg fyrirtæki gert og þá hefur skipt miklu að ríkið væri öflugur bakhjarl að þeim fyrirtækjum. Ætli það hafi ekki sýnt sig á Grundartanga, á Akranesi og víðar að þátttaka ríkisins og eignarhald ríkisins og þar með talið eigendaábyrgð ríkisins, hefur verið mikilvæg baktrygging fyrir fyrirtæki af ýmsum toga sem hafa lent í erfiðleikum, þurft að ráðast í fjárfestingar, fengið fyrir það ódýrari fjármögnun og annað í þeim dúr?

Það þýðir auðvitað ekki að ræða þetta öðruvísi en það er, að fyrirtækið er þarna vegna þess að ríkið hafði atbeina um að koma því á fót, eignarhald ríkisins hefur skapað því mikilvæga kjölfestu og það er verið að raska henni með þessu.

Menn eru í raun og veru að sæta þeim afarkostum í sveitarfélögunum hringinn í kringum landið að selja eignir upp í vaxandi rekstrarvanda og skuldir og svo koma talsmenn sömu ríkisstjórnar og hafa setið ofan á höndunum á sér gagnvart vanda sveitarfélaganna ár eftir ár eftir ár og horft á stöðu þeirra versna og bregðast ókvæða við þegar bent er á sjálfa undirrót vandans, sjálfa ástæðu þess að menn sjá sig knúna til að fara út í svona hluti. Og jafnvel þó að staðan sé þessi, er engu að síður ljóst að um þetta mál eru mjög skiptar skoðanir heima fyrir. Ég veit ekki betur en að einmitt upp úr þessum hlutum hafi sveitarstjórnir í raun og veru sprungið í Skagafirði, þ.e. hvernig glíma ætti við skuldirnar og hvort ætti að fara út í þá eignasölu sem síðan hefur verið farið í, á rafveitu og síðan nú steinull.

Ég vil einnig, herra forseti, fá útlistanir á því frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sem taldi að stefna Samfylkingarinnar væri náttúrlega skýr í þessu máli eins og væntanlega í öllum öðrum. Já, Samfylkingin ætlar að styðja málið, er það ekki? Það var varla annað ráðið af nál. meiri hlutans, þar með talin vinnubrögðin sem ástunduð eru við söluna. Fróðlegt verður að hafa það í huga þegar Samfylkingin setur næst á heilagleikaræðurnar um hin vönduðu vinnubrögð, að hún ætlar að styðja það að allar reglur um sölu eigna ríkisins og meðferð þeirra mála eru þverbrotnar í þessu tilviki. Þverbrotnar. Eða hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson ekki lesið reglurnar um ráðstöfun eigna ríkisins, lög og reglur um meðferð þeirra hluta? Ég held að hv. þingmenn Samfylkingarinnar ættu að kynna sér það áður en þeir fara að skrifa upp á þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. En það er eins og Samfylkingin hafi gaman af því, herra forseti, að hýða sjálfa sig aftur og aftur í hverju málinu á fætur öðru, þar sem hún gengur í vatni fyrir ríkisstjórnina. Í hverju málinu á fætur öðru þar sem vinnubrögðin eru með þessu tagi. Og sannast þá enn hið fornkveðna að sjálfskaparvítin eru verst. Sjálfskaparvíti Samfylkingarinnar eru verst. Látum það vera þó Samfylkingin vilji styðja söluna sem slíka, en að hafa ekki einu sinni fyrirvara á vinnubrögðunum er auðvitað merkilegt.

Ég fer því fram á það allra náðsamlegast, herra forseti, að hv. þm. Jóhann Ársælsson sem lýsir eftir stefnu annarra flokka, upplýsi okkur þá örlítið um stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar meðferð ríkiseigna og sölu þeirra og vinnubrögð í því sambandi. Og telur Samfylkingin að reglum um það megi bara ýta til hliðar þegar svo ber undir? Það er alveg sjálfsagt mál að gleðja hv. þm. Jóhann Ársælsson með því að fara aðeins yfir stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboð í þessu máli sem öðrum tengdum og skyldum. Alveg sjálfsagt mál og greinilega þörf á því fyrir hv. þm. (Gripið fram í: Hvaða eignir eigum við að eiga?) Það er aldrei að vita nema hv. þm. Jóhann Ársælsson vitkist svolítið í sinni pólitík ef farið er yfir þessa hluti með honum. Mér hefur fundist hv. þm. vera mjög að þróast til verri vegar og í óskynsamlega átt í grundvallarviðhorfum sínum til stjórnmála og ef hv. þm. er að gerast hér helblár einkarekstrarsinni, þá mundi ég segja: Ja, öðruvísi mér áður brá. Þá skulum við bara fara aðeins yfir það, herra forseti, hverjar við teljum að eigi að vera hinar almennu samskiptareglur opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, í sambandi við atvinnumál og annan rekstur í landinu.

Við erum fyrir það fyrsta í grundvallaratriðum andvíg einkavæðingu í velferðarþjónustu. Það liggur alveg fyrir. (Gripið fram í: En í steinullinni?) Þar er nú kannski ekki svo óskaplega mikill munur á. Þegar kemur að mikilvægum almenningsþjónustufyrirtækjum sem eru í lykilhlutverki eins og Landssíminn og önnur slík fyrirtæki, þá teljum við að ríkið eigi a.m.k. ekki að henda þeim í hendur einkaaðila þannig að við fákeppnis- eða einokunaraðstæður fari menn í þeim efnum úr öskunni í eldinn. Þess vegna höfum við verið andvíg einkavæðingu Landssímans. Samfylkingin var með ákaflega skýra stefnu í því máli, var það ekki? Hún vildi ýmist selja Landssímann þrem mánuðum fyrr eða þrem mánuðum seinna. Og hafði uppi að vísu hugmyndir um að kannski ætti að undanskilja grunnnetið, en svo einhvern veginn gufaði það upp í umræðum um málið. Framsókn var líka með þá stefnu um tíma en hætti svo við hana og féll frá því að gera kröfur um að grunnnetið yrði ekki selt með.

Þetta mundi ég segja að væru svona meginlínurnar hvað okkur varðar. Við höfum að vísu lagt til að farið verði í að skoða skipulega með nefndastarfi og kortleggja út frá aðstæðum í nútímanum hvernig meginlínur slíkrar verkaskiptingar ættu að liggja, því þær eru á ýmsan hátt orðnar óhreinar og það hefur verið deilt mjög um þessi mál. Þetta hefur jú verið eitt helsta hitamál stjórnmála á síðustu tveimur áratugum eða svo í vestrænum stjórnmálum, það er nýfrjálshyggjan með einkavæðingarstefnu sinni sem mér finnst hv. þm. Jóhann Ársælsson og flokkur hans alveg kengboginn undir, í anda Tonys Blairs og slíkra manna, sem sumir telja mestu hægri menn í stjórnmálum nútímans, bara dulbúið í þeirri svokölluðu þriðju leið. En staðreyndin er sú að Blair sem margir samfylkingarmenn hafa nú mært hefur gengið lengra á mörgum sviðum einkavæðingar en íhaldið gerði í tíð Thatcher.

Ef til vill er það fyrirmyndin sem hv. þm. Jóhann Ársælsson á sér og þá er von að hv. þm. sé á móti stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, því það er alveg klárt að nýfrjálshyggjunni andmælum við og berjumst gegn og við sjáum ekki að hún sé að færa mönnum þjóðfélag jafnaðar og réttlætis, heldur þvert á móti er fylgifiskur hennar alls staðar meiri aðstöðumunur og breikkandi gjá í lífskjörum og aðstöðu. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér afleiðingar nýfrjálshyggjutilraunanna t.d. á Nýja-Sjálandi, í Bretlandi og víðar þar sem þessari fílósófíu hefur verið fylgt. (Iðnrh.: En hvað með Kísiliðjuna?) Og væri þá ekki mögulegt að ... óskaplega er þeim órótt hv. þingmönnum undir þessari ræðu, (Iðnrh.: Hafa samræmi í hlutunum.) er þetta kannski svolítið viðkvæmt?

Síðan kemur að því, herra forseti, að þátttaka ríkisins í atvinnulífinu hér á landi og sveitarfélaga, jafnvel félagasamtaka eins og samvinnuhreyfingarinnar sem einu sinni var til og átti sér málsvara (Iðnrh.: Og þingmaðurinn var á móti.) en gerir ekki lengur, ég er mikill samvinnumaður, herra forseti, og mjög hlynntur þeirri hugmyndafræði, (KHG: Og sagði sig úr kaupfélaginu.) en mjög mikill samvinnumaður, en mér var ekki sama hvernig með þá hluti var farið. Þegar Framsóknarflokknum tókst að lokum vegna flokkspólitískrar einokunar á samvinnuhreyfingunni að ganga að henni dauðri, það er staðreynd, það er enginn einn aðili sem ber meiri ábyrgð á því að samvinnuhreyfingin er nánast sáluð í landinu en Framsóknarflokkurinn, það er algjörlega ljóst, (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn stórspillti náttúrlega fyrir þeirri hreyfingu sem í byrjun var fjöldahreyfing studd af öllum almenningi og þar sem menn fóru ekki í manngreinaálit eftir pólitík, en það vita allir hvernig framsóknarmenn höfðu þetta í þeim kaupfélögum þar sem þeir réðu og fengu einhverju ráðið. Þar ráku þeir þetta eins og deild í flokknum. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til þess að finna kosningaskrifstofur Framsóknarflokksins á landsbyggðinni eiginlega allar í kaupfélögunum. Ætli hafi ekki verið borguð lítil leiga? Ég er hræddur um það. Það komst aldrei nokkur maður í stjórn í kaupfélagi nema vera með flokksskírteini í Framsóknarflokknum, þangað til einstöku sinnum til að hafa fjarvistarsönnun frá því að þeir rækju þetta eins og deild í flokknum, þá var kannski sýndur einn maður með annan flokkspólitískan lit. (Iðnrh.: Var hv. þm. með væntingar?)

Nei, hæstv. ráðherra, ég held að ég hafi komist af í lífinu án þess að fá út á náð Framsóknarflokksins einhvers staðar að sitja í kaupfélagsstjórn. Hef alveg haft nóg með starfskrafta mína og orku að gera og hef varið til þeirra hluta sem ég er mjög sáttur við, helgað mig þjóðmálum á öðrum vettvangi. Hitt er svo annað mál að ég hefði sjálfsagt getað lagt gott til mála einhvers staðar í kaupfélagi ef út í það hefði verið farið. (Gripið fram í.) Ja, það vona ég.

En síðan er það þetta, herra forseti, sem er þá kannski kjarni umræðunnar, að ríkið er auðvitað af ýmsum þáttum, hefur verið og var þátttakandi í uppbyggingu atvinnulífs á ýmsum sviðum, þar sem í raun og veru var ekki öðrum til að dreifa, þar sem aðrir höfðu ekki bolmagn vegna fjárleysis og fámennis hér í landinu, að koma þeim hlutum á laggirnar. Það er auðvitað meginástæða þess t.d. að ríkið átti Síldarverksmiðjur ríkisins, að fáum aðilum öðrum var til að dreifa sem höfðu bolmagn og getu til þess, ég tala nú ekki um í kreppunni eða á erfiðleikatímum, að ráðast í slíkan atvinnurekstur í stórum stíl. Það er líka ástæða þess að ríkið kemur á fót sementsverksmiðju, áburðarverksmiðju og ýmsum fleiri slíkum stórum fyrirtækjum. Það er sömuleiðis ástæðan að hluta til fyrir því að ríkið er eigandi að Steinullarverksmiðjunni. Þar voru menn í raun að slá margar flugur í einu höggi. Menn voru að koma á fót nýrri iðnaðarstarfsemi í landinu. Menn staðsettu það fyrirtæki í landsbyggðarhéraði sem lið í byggðastefnu og það var í tíð ágætrar vinstri stjórnar og undir forustu Hjörleifs Guttormssonar, þáv. iðnrh., sem þetta var gert.

[17:15]

Þetta eru hinar sögulegu ástæður fyrir því að ríkið er inni í þessari verksmiðju en ekki einhverjum öðrum. Að ætla svo að taka menn í próf og alhæfa út frá eignarhaldi ríkisins í þessu fyrirtæki, sem á sér sögulegar og efnislegar ástæður, er ómerkilegt. Eign ríkisins í þessari verksmiðju er staðreynd þó að við getum haft um það meiningar. Það er staðreynd sem við hljótum að ganga út frá. Þannig er það í dag. Ríkið á af þeim ástæðum sem ég hef farið yfir um 30% eignarhlut í þessari verksmiðju. Við getum haldið því fram að þannig eigi það ekki að vera, en það er samt staðreynd. Það er samt þannig, er það ekki? Eigum við ekki þá bara að horfast í augu við það? Svona er staðan og ef við ætlum að breyta því þá skulum við ganga út frá þeim veruleika að svona er þetta en ekki að það gæti verið eða ætti að vera einhvern veginn öðruvísi.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson má hafa þær skoðanir fyrir mér, alveg hreint linnulaust, að hlutirnir ættu að vera öðruvísi en þeir eru. En ég ætla að halda áfram að ganga út frá veruleikanum í rökræðum um málin og nálgast það út frá þeim staðreyndum sem fyrir liggja, að ríkið á þennan tæpa þriðjung í fyrirtækinu. Fyrir því eru ákveðnar sögulegar og efnislegar ástæður og út frá því skulum við ræða málið.

Þá kunna menn að spyrja: Er þetta tímaskekkja, eitthvað sem er óheppilegt og vont og viljum við breyta því? Ég sé ekkert að þessu fyrirkomulagi. Ég sé ekkert að því fyrirkomulagi að ríkið sé þarna þátttakandi í atvinnurekstri ef það þjónar skynsamlegum markmiðum um stöðugleika í rekstri þessa fyrirtækis, tryggir að menn séu í leiðinni að ná ákveðnum byggðapólitískum markmiðum fram. Ég hafna því a.m.k. algerlega að á því sé einhver slíkur ljóður að lífið liggi við að ríkið rjúki út úr þessu fyrirtæki. Ég mundi gera strax greinarmun á því ef menn hefðu kynnt þetta mál og sagt: Sveitarfélagið vill selja sinn hlut og meðeigendurnir eftir atvikum eða nýir aðilar eru tilbúnir til að kaupa það út -- gott og vel --- en ríkið ætlar að fara rólega í sakirnar og ekki auka á þá óvissu og los sem þetta kann að skapa í málefnum fyrirtækisins fyrst um sinn.

Ríkið gæti haft sinn eignarhlut síðan mögulega til sölu einhvern tímann á komandi árum (Iðnrh.: Hver vill þá kaupa?) ef allt gengi nú vel, fyrirtækið dafnaði, ríkið teldi sig hafa fullnægjandi tryggingar fyrir því að það væri engin áhætta tekin gagnvart þeim byggðapólitísku, félagslegu og atvinnulegu markmiðum sem hlutur ríkisins í þessu fyrirtæki hefur þjónað hingað til.

Ég spyr þá um rökin á móti: Hvað væri að því að ríkið hefði þetta svona? Hvað væri að því? Sjá menn einhverja óskaplega meinbugi á því? Hver vill þá kaupa, kallar hér hæstv. iðnrh. fram í og rýkur svo úr salnum? Má þá ekki ríkið bara eiga þetta áfram enn um sinn? Er þetta útsöluhugsunarháttur? Er það þannig að ríkið líti á það sem svo rosalegt happ að geta selt núna að það verði að stökkva á það? Er ríkið svo illa statt að það hafi ekki efni á að láta þessar milljónir liggja þarna inni? Hvað er hér á ferðinni? (JÁ: Af hverju þarf ríkið að eiga þetta?)

Á sama tíma, herra forseti, kaupir ríkið orkubú af sveitarfélögum á Vestfjörðum, vegna þess að þau voru á hnjánum og skuldug og áttu velflest enga aðra verðmæta eign til að selja. Hún er auðvitað rifin af þeim í staðinn fyrir að taka á fjárhagsvanda þeirra. Sama ríkisstjórn og skilur sveitarfélögin í landinu eftir með vanda vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis á herðunum, líklega af stærðargráðunni 2,5--3 milljarðar kr., og gerir nánast ekki neitt til að hjálpa þeim við að takast á við vandann, gerir svo samkomulag við þau um að þau borgi þetta sjálf. Ríkið keypti á Vestfjörðum en ætlar svo að rjúka út úr Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. (KHG: Studduð þið það?) Nei, við studdum það nú ekki, herra forseti.

Við studdum það ekki, herra forseti, vegna þess að við vildum og höfum barist fyrir því og flutt um það tillögur að tekið yrði á fjárhagsvanda sveitarfélaganna með almennum aðgerðum og stöðu þeirra komið í skikkanlegt horf. Þannig væru menn sjálfstæðir, gætu tekið sjálfstæðar og hlutlausar ákvarðanir um hvað þeir vildu eiga og hvað ekki. Það er ekki þannig að forsvarsmenn sveitarfélaganna í landinu hafi sjálfræði í þessum efnum þegar þeir eru neyddir til að selja. Sveitarfélögin hafa mörg, þvert gegn því sem vilji þeirra hefði staðið, neyðst til að selja hluti sína, t.d. í útvegsfyrirtækjum, af því að þau hafa engar aðrar eignir átt til að losa, vegna mikils rekstrarvanda eða vegna þess að þau hafi verið að reyna að koma upp íþróttahúsi og skapað í leiðinni mikla óvissu um grundvallaratvinnuhagsmuni í byggðarlögum sínum.

Þetta þekkir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Hann veit þetta vel. En hann talar eins og hann talar eftir sem áður af því hann hefur gengið undir það jarðarmen að styðja þessa ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn lætur Sjálfstæðisflokkinn kúska sig í hverju málinu á fætur öðru, (Gripið fram í: Einkum í þessu.) sérstaklega þessu, já. Sérstaklega í því sem lýtur að sveitarfélögunum. Það á að heita svo að hæstv. félmrh. Páll Pétursson sé félmrh. Hverju hefur hann áorkað í málefnum sveitarfélaganna? Engu. Hann hefur engu komið þar fram af því íhaldið ræður. Geir Hilmar Haarde læsir bara kassanum þegar hæstv. félmrh. kemur og ætlar að reyna að gera eitthvað fyrir sveitarfélögin. Það blasir við hverjum manni.

Hvers vegna beitir nú íhaldið þessari taktík, að kvelja sveitarfélögin? Ég held að það séu pólitískar ástæður á bak við það. Íhaldið veit alveg hvað það er að gera. Það veit nákvæmlega hvað það er að gera. Það heldur sveitarfélögunum í landinu í klemmu, í rekstrarlegri og fjárhagslegri spennitreyju. Að mínu mati er það af tveimur ástæðum. Önnur er andúðin á R-listanum í Reykjavík og hin er sú stefna íhaldsins að knýja menn út í einkarekstur, einkavæðingu og einkafjármögnun alls staðar þar sem því verður viðkomið. Íhaldið veit að þeim mun erfiðari sem afkoma sveitarfélaganna er, þeim mun meiri er freistingin, að selja eignir, láta uppbygginguna fara fram á grundvelli einkafjármögnunar, sem verður svo dýrari þegar upp er staðið. En það þjónar pólitískum markmiðum íhaldsins. Lætur Framsókn undan eins og venjulega og horfir aðgerðarlaus á það ár eftir ár að afkoma sveitarfélaganna versnar og versnar.

Og hvernig ætlar hv. þm., (KHG: Þetta er nú mikil þjóðsaga.) hvernig ætlar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, að útskýra fyrir okkur byggðapólitíska nytsemd þess að kvelja sveitarfélögin í landinu nánast til dauða? Það er leitun að sveitarfélagi utan suðvesturhornsins sem ekki er í bullandi vandræðum. Það má segja að Akureyringar hafi haldið sæmilega sjó í sínum málum og síðan eru það einstöku fámennir sveitahreppar sem standa þokkalega, einfaldlega vegna þess að þar hefur ekki verið sú útgjaldafreka þjónusta sem hvílir á öllum stærri sveitarfélögum. Ég hef farið sæmilega í gegnum þetta, lesið árbók Sambands sveitarfélaga nokkuð vel og skoðað þar t.d. skuldastöðu sveitarfélaganna og kennitölur í þeim efnum. Það er ískyggileg lesning, að lesa þá bók ár eftir ár og sjá hvernig þetta hefur verið að versna. Þegar maður fór um í vetur og hitti sveitarstjórnarmenn, í desember og janúar, þegar fjárhagsáætlanir voru í smíðum var hvert sveitarfélagið á fætur öðru að berjast við að ná rekstrinum niður undir 90% af skatttekjum. Svona er staðan. Þetta er veruleikinn. Þessar tölulegu staðreyndir er hægt að leggja á borðið.

Stjórnarliðar láta eins og þetta sé ekki til og eitthvað skrýtið að við skulum vilja draga þessi mál inn í umræðuna. Ég held að það væri nær og þarfara að nota stundarkorn hér á Alþingi í raunverulegar umræður um þetta. Ég held að þessi slæma staða sveitarfélaganna sé eitt af því versta sem við glímum við í byggðamálunum núna. Þau eru meira og minna að verða máttlaus, svo lestuð eru þau af skuldum og eiga orðið í þvílíkum erfiðleikum með að ná endum saman. Þau geta vart neitt. Útkoman er sú að menn hafa dregið úr öllum fjárfestingum sem þeir mögulega geta. Þá koma menn og hrópa: Skuldirnar eru hættar að aukast.

Af hverju eru skuldirnar hættar að aukast? Af því menn geta ekki tekið meiri lán. Þeir eru orðnir svo skuldugir og reksturinn er svo þungur að það er enginn grundvöllur til slíks. (KHG: Húsavík er nú ekki dæmi um valt sveitarfélag.) Herra forseti, ég held að við skulum sleppa því kannski að vera að nefna einstök sveitarfélög, nema við séum að gera það undir jákvæðum formerkjum. Ég held við ættum ekki að kalla hér fram í nöfn sveitarfélaga, eða í hvaða tilgangi er það gert? Er það af pólitískum ástæðum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kýs að kalla hér framm í nafn eins sveitarfélags í landinu? Það er hugsanlegt. (KHG: Ég held að hv. þm. sé vel kunnugur á Húsavík og geti fjallað um málefni þess sveitarfélags af þekkingu.) Ég þekki Húsavík prýðilega. Ég þekki prýðilega til mála á Húsavík. Ég tel að heimamenn þar hafi staðið sig vel og að núverandi meiri hluti á Húsavík hafi staðið sig mjög vel í að fleyta því sveitarfélagi í gegnum mikil áföll. Það var ekki núverandi meiri hluta í bæjarstjórn Húsavíkur að kenna að Kaupfélag Þingeyinga varð gjaldþrota og komst í þrot með rekstur sinn, né ýmsar þær hremmingar aðrar sem það sveitarfélag hefur orðið fyrir. Sé hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að halda því fram, væri það einstaklega ómaklegt og ómerkilegt af formanni stjórnar Byggðastofnunar. Það skal hann hafa alveg frá fyrstu hendi. (KHG: Ég hef ekkert sagt um það.) Nei, það ætla ég að vona. Það ætla ég að vona. (KHG: Ég bara spurði.)

Ég held, herra forseti, að Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki sé mjög gott dæmi, og þau mættu svo sannarlega vera fleiri, um að það er hægt að gera fleira en reisa risavirkjanir og álver. Steinullarverksmiðjan er einmitt mjög gott dæmi um iðnaðarfyrirtæki af millistærð sem hentaði mjög vel inn í aðstæður þess byggðarlags þar sem það var reist. Það var góðu heilli á Sauðárkróki.

Út af fyrir sig hefði verið ágætt fyrir Þorlákshöfn og nágrenni ef fyrirtækið hefði risið þar, eins og líka var til umræðu, en niðurstaðan varð Sauðárkrókur. Það hefur tvímælalaust átt sinn þátt í því að segja má að þar hafi verið blómaskeið í byggðaþróun um alllangt skeið. Ég hygg að það hafi verið, t.d. á 9. áratugnum og jafnvel fram á þann 10., að Sauðárkrókur var eitt af fáum dæmum um byggðarlag í jöfnum og stöðugum vexti sem bjó við svona hagstæða og farsæla þróun. (KHG: Og sterkt kaupfélag.) Þar er kaupfélag sem framsóknarmönnum hefur ekki tekist að koma í þrot, það er alveg rétt. Þvert á móti er það glæsilegt dæmi um að hægt er að reka kaupfélög og gera það vel. Þar hafa menn farið aðrar leiðir en í öðrum kaupfélögum. Mönnum hefur tekist að leggja Kaupfélag Eyfirðinga niður á örfáum missirum og breyta því í verðbréfasjóð. Þannig er það mikla kaupfélag eiginlega horfið, orðið að verðbréfasjóði. Annars staðar hafa menn farið þá leið að selja og reyta utan af kaupfélögunum eiginlega alla starfsemi þangað til ekkert stendur eftir annað en ein verslun eða sjoppur. En á Sauðárkróki, í Skagafirði, hafa Skagfirðingar rekið kaupfélag, deildaskipt kaupfélag, undir fullum seglum og frekar fært út kvíarnar heldur en hitt og gert það vel. Það er ánægjulegt. Það hefur að sjálfsögðu líka komið sér vel fyrir þetta byggðarlag.

Ég held, herra forseti, að það sé einmitt ástæða til að minna á að Steinullarverksmiðjan er gott dæmi um það sem gerst getur með tilstyrk ríkisins. Það er fínt þegar aðstæður mæla með því og tryggir að menn nái þeim markmiðum fram um atvinnuuppbyggingu í byggðarlegu tilliti og öðru slíku sem menn keppa að. Að sjálfsögðu eiga menn þá líka að fara varlega gagnvart því að hrófla við því fyrirkomulagi sem þarna varð niðurstaðan á sínum tíma og það er með öllu ástæðulaust að ríkið gangi á undan í því að skapa meiri óvissu um hag þessa fyrirtækis en þörf er á.

Það er líka fullkomið ósamræmi í framgöngu ríkisstjórnarinnar í hinum einstöku málum af þessum toga um þessi missirin. Ég nefndi kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða. Ef sveitarfélagið Skagafjörður þurfti að losa þessar eignir --- við vitum að þar eru þungar skuldir og allt það --- hvers vegna gátu þá ekki Skagfirðingar fengið sams konar móttökur varðandi mál sitt og Vestfirðingar varðandi orkubúið, svona fyrir það fyrsta? Hvers vegna var ekki farið í að skoða hvort aðrir meðeigendur voru ásamt ríkinu tilbúnir að leysa til sín hlut sveitarfélagsins? Það hefði verið lágmarksröskun á högum fyrirtækisins. (Gripið fram í.) Eða ríkið eitt.

Það kemur fram í athugasemdum með frv., herra forseti, að ríkið hafnaði tilboði um kaup á hlut sveitarfélagsins. Ég spurði að þessu við 1. umr.: Hvers vegna var það gert? Það er þess vegna sem málin eru komin í þessa stöðu. Hvað gerðist þarna? Hvað gekk þarna á á bak við tjöldin? Ég hef ekki annað en hinn prentaðan texta fyrir mér. Þar stendur það á íslensku: ,,Af hálfu ríkisins var tilboði um kaup á hlut sveitarfélagsins hafnað.`` Punktur --- það getur varla skýrara verið. Þetta mun vera í nóvember/desember þegar þessi mál voru í uppsiglingu.

[17:30]

Herra forseti. Þetta mál er þó náttúrlega eins og dropi í ómælishafinu þegar kemur að ríkisábyrgðinni til fyrirtækisins deCODE. Þá er í lagi að ríkið komi að málum, er það ekki? Heldur betur. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, byggðakóngurinn sjálfur, styður það auðvitað með bros á vör að ríkið leggi 20 þús. millj. kr. í eitt áhættufyrirtæki í Vatnsmýrinni, að sögn. (KHG: Ríkið leggur ekki féð beint í fyrirtækið.) Ja, gæti nú farið svo, gæti nú farið svo, hv. þm. Það veit hv. þm.

Herra forseti. Þarna voru færar ýmsar aðrar leiðir en þessi kostur, sem ég tel þann versta. Þessi aðferð skapar langmesta óvissu um framtíð fyrirtækisins og eina vitið væri að láta þessa samninga bíða og fara í viðræður á nýjan leik um hvort ekki væri hægt að leysa þessa hluti og láta þá ganga upp einhvern veginn öðruvísi, t.d. þannig að ríkið verði þarna áfram með einhverjum hætti, annaðhvort með óbreyttan hlut sinn, taki að sínu leyti þátt í að leysa hlut sveitarfélagsins til sín, sem mundi þá þýða að það færi upp í 35--40% eignarhlut, eða að það mundi kaupa sveitarfélagshlutinn allan. Allt þetta hefði að mínu mati hefði komið til greina og verið augljóslega mikið betri niðurstaða heldur en sú sem hér á að knýja fram. (KHG: Hvað viltu að ríkið borgi mikið fyrir þann hlut?)

Herra forseti. Það er þannig að ríkið segir ekki öðrum aðilum fyrir verkum um það hvernig farið er með eignarsölur þeirrar. Ríkið ræður því hvort það kaupir þá á einhverju tilteknu verði. En þegar ríkið selur eigin eignir á að heita svo að ákveðnar reglur eigi að gilda um það, lög og reglur. Svo undarlega bregður hins vegar við að þær eru bara notaðar stundum þegar það hentar pólitískt og stundum ekki. Þetta er að geðþótta að því er virðist.

Það er von að aumingja fjármálaráðherrann sé hér lítið, enda er hann auðvitað eins og barinn hundur, hæstv. fjmrh. í þessu máli. Það er iðn.- og viðskh. sem fer með þetta mál á skjön við reglur um sölu eigna ríkisins og bætir svo gráu ofan á svart með því að gefa það út í fjölmiðlum hvernig eigi að nota peningana sem koma inn fyrir söluna, þeir eigi að fara í þennan veg eða eitthvað annað. Þannig er hæstv. iðnrh. allt í einu orðin eins og fjármálaráðherra eða fjárlaganefnd og Alþingi, allt í senn. Það er ekkert smáræði sem pundið hefur þyngst í hæstv. ráðherra núna síðustu vikurnar. Hún er bara komin með allt þetta vald á sínar hendur. Það er þannig að fjmrh., eða Innkaupastofnun ríkisins sem heyrir undir fjmrn., á að annast um sölu á eignum ríkisins. Við sölu á eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum ákveða fjmrh. og viðkomandi fagráðherra hvernig staðið sé að slíkri sölu. Það á að gera á grundvelli reglna, laga og reglna, sem þar um gilda.

Í fyrsta lagi hefði áætlað söluverð eignarhlutans átt að vera metið af hlutlausum aðila, t.d. löggiltum verðbréfasala eða endurskoðanda. Það má þá ekki vera aðili sem hefur nein minnstu tengsl við viðkomandi mál, það er augljóst, þá kæmu til venjuleg vanhæfisákvæði.

Í öðru lagi skyldi eignarhluturinn auðlýstur opinberlega, almenningi til kaups þannig að allir sem áhuga hafa hefðu getað tekið tilboðinu. Hefur það verið gert? Var það gert? Nei.

Ég held að færa megi fram rök fyrir því að hvorugt skilyrðanna hafi verið uppfyllt. Það má efast um að hið svokallaða mat hafi verið hlutlaust. Hitt er alveg ljóst að það var ekki staðið að þessari sölu eins og vera ber samkvæmt opinberum reglum. Þeim er þarna ýtt til hliðar. Og það er ekki ætlunin að það sé gert nema sérstakar og mjög ríkar ástæður krefjist að svo sé. Hverjar voru þær? Af hverju mátti t.d. ekki láta á það reyna hvort almenningur, t.d. í Skagafirði, var áhugasamur um að kaupa? Það mátti setja ákvæði, eins og heimilt er í lögum, um hámarkshlut hvers og eins til að tryggja dreifða eign. Það er alls ekki fráleitt að heima fyrir hefði verið talsverður áhugi á að reyna að standa bak við þetta fyrirtæki með umtalsverðri eign almennings í héraði. Sú leið var hins vegar ekki valin.

Herra forseti. Heima fyrir er þetta geysilega umdeilt mál og skyldi engan undra. Þeir sem þekkja til sögunnar eru náttúrlega mjög uggandi um hvaða afleiðingar þessar breytingar á stöðu fyrirtækisins kunni að hafa. Það er fullkomlega skiljanlegt að mönnum sé illa við allt sem geti skapað einhverja óvissu um stöðu þessa fyrirtækis eða framtíð þess. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá því að það er að gerast í þessu máli. Væntanlegir ráðandi eigendur fyrirtækisins eru viðskiptaaðilar í byggingariðnaði og geta haft blandaða hagsmuni í málinu. Það verður bara að ræða að alveg eins og það er. Það kann að vera að hagsmunir gætu lagst með svipum hætti og í áburðarverksmiðjumálinu. Aðili sem hefur aðallega atvinnu af því að selja einhvern varning getur svo sem alveg eins þénað á að kaupa hann lágu verði af öðrum eins og að framleiða hann sjálfur með sama tilkostnaði, það kemur út af fyrir sig út á eitt ef hagsmunir þess fyrirtækis eru fyrst og fremst fólgnir í álagningunni, umsýslunni um varninginn. Fyrir þessi tvö byggingarfyrirtæki sem til samans ráða nánast byggingarvörumarkaðnum á Íslandi gæti komið eins vel út að flytja þessa steinull inn og leggja dálítið hressilega á hana eins og að framleiða hana sjálf norður á Sauðárkróki.

Það er alveg vitað að samkeppnisskilyrði framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni hafa versnað. Það liggur alveg fyrir. Ég efast meira að segja um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þó hann verji allt sem þessi ríkisstjórn gerir alveg sama hversu vitlaust það er, reyni að halda því fram að samkeppnisstaða framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni hafi ekki versnað vegna þess hvernig flutningskostnaður og fleira í þeim dúr hefur þróast. Það liggur alveg fyrir. Maður hefur séð útreikninga í iðnfyrirtækjum, t.d. á Akureyri, sem sýna fram á að þessi munur hefur aukist um mörg prósent á örfáum missirum. Það er ástæða þess að ýmiss konar framleiðslustarfsemi á nú mjög undir högg að sækja. Með sameiningu fyrirtækja og öðru slíku fer hún iðulega bakdyramegin í burtu og endar í Reykjavík, af því menn þurfa orðið að flytja aðföngin í slíka framleiðslu dýrum dómum út á land og síðan afurðirnar aftur hingað á markaðinn þar sem 70--80% hans eru, ef um innanlandsmarkað er að ræða. Í raun gildir hið sama þó um útflutning sé að ræða. Upphaf og endir allra ferða, hvort sem um er að ræða ferðamenn eða varning, er hér á suðvesturhorninu. Þannig er nú það.

Þetta veit hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson væntanlega eða þyrfti a.m.k. að vita það, sitjandi í stjórn Byggðastofnunar. Forustumenn í framleiðslufyrirtækjum á landsbyggðinni sitja sveittir við að reikna út hvort nokkurt vit sé í að reyna að halda þessari framleiðslu áfram, þrjóskast við það úti á landi, eða hvort einfaldara og ódýrara sé að færa hana bara hingað suður, framleiðsluna. Það að menn eru bundnir eignum sem þeir eiga eða öðru slíku heldur hins vegar í þá.

Mér er vel kunnugt um að meira að segja hjá sumum af stóru framleiðslufyrirtækjunum sem enn eru rekin með sæmilegri drift úti á landsbygginni liggja oftar en ekki í skúffum framkvæmdastjóranna áætlanir og útreikningar þar sem þeir hafa borið saman svör við spurningunni um hvort verjandi sé, t.d. út frá hagsmunum hluthafanna sem vilja heimta arð sinn í viðkomandi fyrirtækjum, að þrjóskast við að reyna að reka þau á landsbyggðinni áfram. Halda menn ekki að þar af leiðandi sé eðlilegt að það setji nokkurn ugg að Skagfirðingum, öðrum en innvígðum stuðningsmönnum þessa máls, þegar þessar fréttir berast?

Ég held að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni væri nær að útlista fyrir okkur aðgerðirnar til að jafna þennan aðstöðumun en að láta eins og hann sé ekki til staðar. Hann gufar ekki upp þó að hv. þm. sé í Framsóknarflokknum. Það þarf meira til, greinilega. Ekki sé ég að það sé á dagskrá í drögum að nýrri byggðaáætlun eða öðru slíku, aðgerðir sem hönd er á festandi í þessum efnum.

Þessa þætti alla, herra forseti, þarf auðvitað að skoða í samhengi við þetta mál. Steinullarverksmiðjan er að vísu ákaflega skemmtilegur iðnaður sem vinnur úr íslenskum jarðefnum, skeljasandi og basaltsandi, bræðir það í deiglu og blæs það út í steinull. Aðfangakostnaðurinn er ekki stór í þessu dæmi, hvað varðar flutning og annað slíkt. En síðan er framleiðslan rúmfrek. Það kostar auðvitað sitt að koma henni á markaðinn. Þessa útreikninga voru menn með í höndunum á sínum tíma þegar þeir báru saman Þorlákshöfn og Sauðárkrók. Menn geta farið aftur í þau plögg ef þeir vilja átta sig á þeim og glöggva sig á hvernig það mál stóð tölfræðilega þá. Ég fullyrði þó að þá voru þessar aðstæður allar hagstæðari staðsetningu norður í landi. Mér er stórlega til efs að menn gætu brúað þetta bil í dag ef þeir settu niður reikninga af því tagi sem menn geta kynnt sér og skoðað hér í grg. sem fylgdi frv. til laga um steinullarverksmiðju á sínum tíma, sem hér var á dagskrá Alþingis á 103. löggjafarþingi 1980--1981. Þá voru ekki margir þeirra er hér eru viðstaddir þessa umræðu nema líklega man einn virðulegur forseti vor, hv. þm. Halldór Blöndal, þá daga.

Munurinn þá var að því er talið var 1--3% ef ég man rétt, á milli Þorlákshafnar og Sauðárkróks. Menn töldu hægt að brúa hann. Sumir hlutir voru hagstæðari Sauðárkróki, aðrir hagstæðari Þorlákshöfn, þar á meðal lá flutningskostnaðurinn augljóslega heldur betur fyrir Þorlákshöfn, sérstaklega gagnvart markaðnum á suðvesturhorninu og einhverju leyti þá gagnvart útflutningi eins og hann var stundaður. En þá voru aðrir dagar. Þá var til fyrirtæki sem hét Ríkisskip. Þá var flutningskostnaði öðruvísi háttað í landinu og staðan mun hagstæðari fyrir landsbyggðina en hún er í dag. Eitt mesta kjaftshögg sem landsbyggðin og sérstaklega sjávarbyggðirnar vítt og breitt á ströndinni hafa orðið fyrir var þegar Ríkisskip voru lögð niður og stóraukinn flutningskostnaður lagðist á herðar landsbyggðarmanna. Við gætum farið yfir það dæmi, herra forseti, við tækifæri.

Ég sé sem sagt, herra forseti, engin efni til að standa svona að málum, rjúka til og fara út í þessa sölu á hlut ríkisins. Ég er að verða svolítið leiður á þessum endalausu heimildarlögum sem hæstv. ráðherrar koma hér og verja sig svo með þegar í harðbakkann slær, þetta sé ekki svo alvarlegt af því það sé ekki verið að slá þessu föstu, þetta séu bara heimildalög, 20 milljarðarnir sem við vorum að greiða atkvæði um hér fyrr í dag og svo þetta frv. aftur. Þeir segja að þetta séu bara heimildalög. Þetta mál afgreiðir t.d. hæstv. ráðherra þannig að það sé nú til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum. En það á að bjóða Alþingi upp á að afgreiða hér óútfyllta ávísun. Heimildalög til handa ráðherranum. Ég fer nú bara að spyrja, herra forseti, vilja ekki bara ráðherrarnir hafa þetta ein heimildalög á ári? Getur ekki bara Alþingi komi saman 1. október og afgreitt eitt frv. og verið búið að því 3. okt., þ.e. bara heimild til ríkisstjórnarinnar til að gera það sem henni sýnist. Punktur. Alþingi heim. Þetta stefnir í það.

Menn sulla út heimildum af þessu tagi í allar áttir þó að grundvallarforsendur málanna liggi ekki fyrir. Það er verið að færa fjárlagavaldið og löggjafarvaldið út í bæ, það er hverjum manni ljóst. (KHG: Fjárlögin eru nú eiginlega heimildalög.) Sennilega er ekkert dæmi jafnsvakalegt og ríkisábyrgðin til deCODE, þar sem lögunum um ríkisábyrgð, lögum sem Alþingi hefur sett um meðferð þessara mála, er ýtt til hliðar á einu bretti og í staðinn kemur: Hvað? Í staðinn kemur mat eins manns á því hvað teljist nógu gott. Mat fjmrh. á því hvaða forsendur þurfi að vera til staðar til að veita ábyrgðina, til þess að hæstv. ráðherra taki upp pennann og skrifi 20 milljarða ávísun. Nú vill hæstv. ráðherra fá svona heimild hér til að fara svona með eign ríkisins í Steinullarverksmiðjunni.

Þannig á ekki að standa að málum. Það er a.m.k. lágmark að hlutirnir séu klárir og kvittir og allar forsendur viðkomandi mála liggi fyrir þegar málin eru endanlega borin inn á Alþingi. Þá er auðvitað hreinlegast að Alþingi taki sjálfa ákvörðunina um hvort hlutur ríkisins í Steinullarverksmiðjunni skuli seldur, ef það er það sem menn ætla að gera, en ekki að það sé heimilt. Það er afsiðandi í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að þróa hlutina í þessa átt, endalausar heimildir á óljósum forsendum til að gera þetta og gera hitt, sérstaklega þegar menn fara að eins og raun ber vitni.

[17:45]

Tökum dæmi um hvernig ríkið hefur farið með jarðasölu. Það er alveg hreint yfirgengilegt hvernig menn hafa staðið að þeim hlutum núna síðustu árin. Ráðherrar Framsfl. hafa orðið frægir að endemum hver á fætur öðrum í því. Ég ætla að vona að Samfylkingin mæli því ekki bót eins og þessu frv. En kannski gerir hv. þm. Jóhann Ársælsson það. Ef ég man rétt þá hafa þeir nú stundum tekið undir með okkur svona frekar en hitt að það væri ámælisvert hvernig ríkið hefur farið með þessar eignir sínar. En það bregður svo undarlega við ... (KHG: Það hafa nú fleiri selt ríkisjarðir.) Já, það hafa nú fleiri gert það sjálfsagt, herra forseti. Það er trúlega rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. (Gripið fram í.) Það er aldrei að vita nema --- hún var nú ekki seld, herra forseti --- aldrei að vita nema hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi borið ábyrgð á ríkisstjórnum bæði fyrr og síðar sem hafa selt ríkisjarðir. En það voru nú aðrir tímar þegar menn höfðu ekki þá stefnu, eins og nú er, að reyna að selja allar jarðir ríkisins heldur þvert á móti var nú það viðhorf lengi uppi að ríkið ætti ekki að selja jarðir úr sinni eigu nema til sveitarfélaganna. Þeirri línu var í aðalatriðum fylgt a.m.k. þegar ég kom að þeim málum og enn teldi ég það skynsamlegustu málsmeðferðina. Það er ekki í þágu þess að almenningur njóti tilverunnar sameiginlega hér í þessu landi að ríkið hafi forgöngu um að koma meira landi í einkaeigu --- og svo er lok, lok og læs og allt í stáli --- en þar er í dag.

Hvað gerist gjarnan þegar ríkisjörð er seld einhverjum gæðingi núna, hvort sem hann borgar eitthvað fyrir hana eða ekki? Það er eiginlega alveg reglan, segja heimamenn manni í hinum ýmsum héruðum landsins, að það næsta sem gerist er að það kemur keðja á veginn og spjald hangir neðan í henni þar sem stendur: ,,Einkavegur. Allur aðgangur bannaður.`` Það stórdregur úr möguleikum almennings, íbúa viðkomandi byggðarlaga eða almennings til þess að fara t.d. um það land og njóta þess. Þetta er nú bara hlutur sem heimamenn vita og þekkja hver á sínu svæði. Ég hvet menn til að leggja eyrun við ef þeir halda að það sé mikil framför fyrir hönd almennings í landinu að ríkið sé að selja eigur sínar.

Herra forseti. Nú sé ég að þau stórtíðindi hafa orðið hér í umræðunni að hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde er mættur til leiks. Ég býð hann alveg innilega velkominn, hjartanlega velkominn. (Fjmrh: Kærar þakkir.) Það er okkur mikið gleðiefni að hæstv. fjmrh. skuli vera hér bara tiltölulega glaðlegur á svip og við bestu heilsu. Ég bið þá hæstv. fjmrh. að fara yfir það fyrir okkur í þessari umræðu hvernig staðið var að verki í þessu máli. Vill hæstv. ráðherra vinsamlegast fara yfir það hvers vegna reglum um ráðstöfun eigna ríkisins var ekki fylgt? Hvers vegna var ekki unnið að málinu í samræmi við staðfestar reglur um sölu á eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum? Hvers vegna hefur hæstv. iðnrh. allt í einu tekið sé fjárveitingavald og tilkynnir í fjölmiðlum í hvað krónurnar eigi að fara eða a.m.k. helmingurinn af þeim, jafnvel í tiltekna vegarspotta? Það er þá ekki verkefni þingmannahóps kjördæmisins að skipta því vegafé, ekki vegáætlunar eða hæstv. fjmrh. að leggja til hluti í því sambandi í fjárlagafrv. eða fjárauakalagafrv.? Nei, það er hæstv. iðn.- og viðskrh. sem ákvað að reyna að slá pólitískar keilur og gylla málið fyrir Skagfirðingum með því að þeir fengju aura í tilteknar opinberar framkvæmdir, sem venjulega ættu bara á koma á vegáætlun eða sem framvæmd á fjárlögum, fjárveiting á fjárlögum. (Iðnrh.: Er afbrýðisemi í gangi?) Nei, það er nú ekki afbrýðisemi. En eigum við ekki að tala bara um hlutina eins og þeir eru? Var það ekki nákvæmlega þetta sem þarna var að gerast, þ.e. að í þessu máli sem Framsókn hefur hugsanlega áttað sig á að gæti verið misvel til vinsælda fallið, að steypa þessu fyrirtæki í þessa óvissu, væri rétt að reyna að búa til einhverja gulrót á móti. Þetta er svona svipað og Bandaríkjamenn hafa það gjarnan, að þeir eru með byssuna í annarri hendi og dollarabúntið í hinni og ná oft árangri með slíkum aðferðum. Mér hugnast ekki, herra forseti, og mér finnst það síður en svo setja betri svip á þetta mál, hvernig hæstv. ráðherra ætlaði að kaupa því hylli með þessum undarlegu aðferðum, ég tala nú ekki um þegar í hlut eiga vegaframkvæmdir sem eru á vegáætlun og ætlunin hefur verið að leggja til fé í á næstu árum og framkvæma. Því er auðvitað alveg með ólíkindum að menn skuli ætla að fara út í hluti af þessu tagi. Það finnst mér, herra forseti, mjög sérkennilegt.

Ég held að ég geti farið að ljúka máli mínu senn, herra forseti. Það væri auðvitað áhugavert að taka upp margt fleira í þessu sambandi og samhengi þessa máls. En það er nú best að láta öðrum eftir einhvern ræðutíma hér á þessu síðdegi til að ræða málin ef vera kynni t.d. að hæstv. fjmrh. heiðraði okkur með þátttöku í umræðunum. Svo er aldrei að vita nema hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi svo mikið við aldrei þessu vant að hann geri meira en að fara í andsvar. Það hefur verið afar athyglisvert að framlag Framsfl. til umræðna hér í hverju málinu á fætur öðru hefur verið andsvör. Kristinn H. Gunnarsosn hefur t.d. séð um þátttöku Framsfl. í umræðum um 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgðina með andsvörum og fleiri slík mál hefur Framsfl. dekkað með sambærilegum hætti.

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að ef Sjálfstfl. ber fram mál um þessar mundir þá hverfur Framsfl. gjarnan í umræðum um þau. Hann bara gufar upp, er ekki til fyrr en hann kemur hérna töltandi til að greiða þeim atkvæði eins og við sáum í deCODE-málinu í dag. Þá birtist hann okkur allt í einu. En af einhverjum ástæðum virðast ástirnar á kærleiksheimilinu vera þannig um þessar mundir að menn eru svona ekki mikið að ganga í verkin hverjir fyrir aðra og það er ekki bróðurlegur samvinnuandi sem birtist okkur í gagnkvæmri þátttöku stjórnarflokkanna í umræðum um erfið mál. Skyldi það nú ekki vera þannig að Sjálfstfl. sé alveg ótrúlega fjarverandi þegar kemur að umræðum um þetta mál og leyfir Framsókn að baksa hérna með það og puða í þessu. Nú verður fróðlegt að sjá, herra forseti, hversu vasklega t.d. hæstv. fjmrh. gengur þá í vörnina fyrir stjórnarstefnuna í þessu mikla framfaramáli eða hitt þó heldur.

Herra forseti. Það standa a.m.k. öll rök til þess að eyða ekki miklu af dýrmætum tíma Alþingis í þetta mál á þessum vordægrum ef menn ætla að ljúka því á eitthvað nálægt þeim tíma sem til stóð. Það mætti a.m.k. að ósekju bíða haustsins. Mér segir svo hugur að þá væri aldrei að vita nema við fengjum það í nýjum búningi hér inn. Ég er eiginlega alveg viss um það. Ef þetta mál verður ekki knúið í gegn núna og þessu þrælað af núna á þessum dögum og fyrir sveitarstjórnarkosningar þá er algerlega óvíst, og reyndar ólíklegra tel ég, að þetta mál sæist hér á nýjan leik í sambærilegum búningi. Ég er eiginlega algerlega viss um að heimamenn hljóta að sjá að sér ef þeir fá bara tækifæri til þess og fara fram á það við ríkið að reynt verði að leysa úr þessum málum þannig að ríkið hverfi ekki frá fyrirtækinu, fyrst um sinn a.m.k., með eignarhlut sinn hvað sem líði þörf sveitarfélagsins fyrir að losa þarna peninga. Enginn maður fær mig til að trúa því að Skagfirðingar allir sem einn, upp til hópa og allir sem einn, mundu ekki frekar kjósa að tekið væri á vanda sveitarfélagsins með öðrum aðferðum, ef þær væru í boði, og almennum aðgerðum sem kæmu jafnsettum sveitarfélögum til góða, heldur en að þeir væru nauðbeygðir til þess að velja þennan kost. Því vil ég fá að trúa þangað til mér er sýnt fram á annað, herra forseti. Annað tveggja verður að gera, fresta afgreiðslu þessa máls eða fella það.