Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 17:58:12 (8404)

2002-04-29 17:58:12# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bæta því við það sem fram hefur komið fyrr að fjárahagsstaða sveitarfélagsins var mikið mál hjá hv. þm. í ræðu hans. Ég vil benda honum á að fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur verið mjög að batna, sérstaklega á síðasta ári, eins og hann hefur væntanlega lesið í þeim tölum sem fyrir liggja um hallarekstur þeirra á síðustu árum.

Í öðru lagi var sú aðgerð ríkisvaldsins að kaupa Orkubú Vestfjarða af sveitarfélögum þar mjög vel fallin til þess að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaga á Vestfjörðum sem var orðin mjög slæm fyrst og fremst vegna fólksfækkunar en ekki almennra skilyrða í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. vildi vera láta. Sú aðgerð sem Vinstri grænir voru á móti, eins og vænta mátti, hefur skilað því að sveitarfélög á Vestfjörðum eru nú komin í sóknarhug. Sveitarstjórnarmenn á Ísafirði, í Bolungarvík, á Hólmavík og Vesturbyggð eru í sóknarhug. Þeir eru að kynna fyrir kjósendum sínum þessar vikurnar hvernig þeir ætla að sækja fram til að bæta þjónustu við íbúana vegna þess að ríkisvaldið greip til þessarar aðgerðar. Ég held að ekki sé hægt að gera betur fyrir veikburða sveitarfélög, eins og voru á Vestfjörðum, en einmitt þetta.

Herra forseti. Við skulum hafa það í huga að orðalag eins og það að orkubúið hafi verið rifið af sveitarfélögunum er algjör fjarstæða. Sveitarfélögin nutu góðs af aðgerðum ríkisvaldsins og svo hefur það bæst við til viðbótar, sem sannar að fullyrðingar þingmannsins um andstöðu fjmrh. og Sjálfstfl. við aðgerðir í sveitarstjórnarmálum eru fullkomlega rangar, að búið er að leysa þá erfiðu stöðu sem blasti víða við, m.a. á Vestfjörðum í félagslega íbúðakerfinu. Það er búið að gjörbreyta forsendum til að reka sveitarfélögin úti um land og kannski sérstaklega á Vestfjörðum. Ég tek það fram vegna þess að hv. þm. nefndi það svo stíft áðan.