Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 18:05:10 (8407)

2002-04-29 18:05:10# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta heldur aumleg málsvörn hjá hæstv. fjmrh. þegar hann ætlar að koma loksins og rausnast til þess í heilu andsvari að verja hendur sínar gagnvart þeirri staðreynd að hæstv. ráðherra er í raun og veru gerður ómyndugur á allan hátt í málinu. Hæstv. iðnrh. hefur yfirtekið prókúruna og ekki bara ákveðið söluna þvert á allar reglur, leikreglur þar að lútandi, sem eiga að vera á könnu fjmrh., heldur tekur sér fjárveitingavald líka og ákveður í hvaða vegarspotta peningarnir eigi að fara. Og hæstv. fjmrh. er ekki geðmeiri maður en svo að hann lætur bjóða sér þetta og kemur síðan hér upp og heldur uppi þessari aumlegu málsvörn sem var náttúrlega dapurleg.

Ég held að ég verði að draga það aftur, sem ég sagði hér fyrr í ræðu, að hæstv. fjmrh. liti vel út því að ég sé að það er ekkert upplit á manninum, þetta er engin frammistaða. Ég hvet eiginlega hæstv. ráðherra til að gera annað tveggja að reyna betur --- og þá í ræðu, ég held að það dugi ekki andsvar til þess að ná upp um sig buxunum --- eða þá hætta þessu.