Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 20:01:04 (8416)

2002-04-29 20:01:04# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[20:01]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 61/1981, um steinullarverksmiðju.

Aðdragandi málsins er sá að með lögum nr. 61/1981 var ríkisstjórninni veitt heimild til að taka þátt í stofnun Steinullarverksmiðjunnar hf. á Sauðárkróki. Stofnsamningur fyrir Steinullarverksmiðjuna hf. var undirritaður 2. desember 1982 og lagði íslenska ríkið fram 40% hlutafjár en Steinullarfélagið hf. 60%. Á árinu 1983 ákváðu Kaupfélag Skagfirðinga, Samband íslenskra samvinnufélaga og OY Partek A/B í Finnlandi að gerast hluthafar í félaginu. Steinullarverksmiðjan hóf starfsemi árið 1985 og eins og fram kemur í greinargerð með frv. eru núverandi eigendur verksmiðjunnar ríkissjóður með 30,11%, Paroc Group með 27,68%, bæjarsjóður Sauðárkróks með 23,98%, GLD heildverslun með 12,38%, Kaupfélag Skagfirðinga með 4,92% og aðrir hluthafar eru með 0,93% eignarhald.

Virðulegi forseti. Fram kemur í athugasemdum við frv. að rekstur Steinullarverksmiðjunnar var erfiður í byrjun. Erfiðleikarnir stöfuðu annars vegar af tæknilegum ástæðum og hins vegar af mikilli skuldsetningu fyrirtækisins í erlendri mynt á tímum óðaverðbólgu. Fljótlega tókst að leysa tæknileg vandamál við framleiðsluna og afurðir fyrirtækisins urðu fyllilega samkeppnishæfar við afurðir frá öðrum framleiðendum. Það hefur komið fram í umræðunni hér, virðulegi forseti, að með tímanum tókst að byggja upp markað í Færeyjum, Bretlandi og víðar, en útflutningur á afurðum fyrirtækisins hefur gert það að verkum að afkastagetan hefur verið að mestu fullnýtt við þessa verksmiðju.

Árið 1989 tóku eigendur, lánadrottnar og starfsmenn höndum saman um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Hlutafé var aukið um 90 millj. kr. og jók finnska fyrirtækið Partek, nú Paroc Group, eignarhlut sinn úr 8% í 27,7%. Jafnframt var samið um nokkra lækkun vaxta og lengingu á endurgreiðslutíma lána. Ástæður þess að svo víðtæk samstaða náðist um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins var sú að tekjur fyrirtækisins jukust, fyrirtækið hafði náð góðum tökum á framleiðslunni og afurðir fyrirtækisins reyndust fyllilega standast kröfur markaðarins. Þetta kemur fram í athugasemdum með frv. Enn fremur kemur fram að í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins var gert sérstakt hluthafasamkomulag á milli stærstu eigenda þess, þ.e. ríkissjóðs, Partek, bæjarsjóðs Sauðárkróks, Sambands íslenskra samvinnufélaga og Kaupfélags Skagfirðinga. Síðar eignuðust BYKO og Húsasmiðjan hf. hlut Sambands íslenskra samvinnufélaga og stofnuðu þessir aðilar fyrirtækið GLD heildverslun um eignarhluti sína. Þetta kemur fram í athugasemdum með frv., virðulegi forseti.

Þær langtímaáætlanir sem lagðar voru til grundvallar hinni fjárhagslegu endurskipulagningu árið 1989 hafa gengið eftir. Fyrirtækinu hefur tekist að þróa nýjar vörutegundir bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. Í þeim efnum hefur fyrirtækið notið góðs af samstarfi við Partek á sviði tækni- og vöruþróunar. Markaðsstaða fyrirtækisins er traust og mikil umsvif í byggingariðnaði hér á landi, sem öllum er kunnugt um, á síðustu árum hafa leitt til þess að efnahagur fyrir tækisins er sterkur. Fyrirtækið hefur staðið vel að viðhaldi og endurnýjun framleiðslubúnaðar og síðasta haust var tekinn í notkun nýr og fullkominn pökkunarbúnaður.

Virðulegi forseti. Ég hef það fyrir víst og það hefur komið fram í umræðunni að átök voru á sínum tíma um staðsetningu fyrirtækisins. Tveir staðir komu til greina. Það voru Þorlákshöfn og Sauðárkrókur. Tekin var pólitísk ákvörðun um það á hinu háa Alþingi að Sauðárkrókur skyldi verða fyrir valinu.

Ég hef upplýsingar um að aðkoma Finnanna, sem hafa verið svo mikill bakhjarl fyrir þetta fyrirtæki, mun vera til komin vegna þess að mikil samskipti voru milli vinabæjar Sauðárkróks í Finnlandi og Sauðárkróks. Persónuleg sambönd mynduðust og það mun hafa leitt til þess að Finnarnir komu inn í þessa fjárfestingu af fullum þunga. Þó svo að finnska fyrirtækið hafi breytt um eðli á síðustu árum þá var þetta, að mér skilst, og ég hef fengið upplýsingar um það, eins konar byggðaaðgerð af hálfu Finnanna og aðstoð í aðra röndina, ekki bara á viðskiptalegum grunni. Nauðsynlegt er að þetta komi fram vegna þess að talið er að velgengni verksmiðjunanr sé fyrst og fremst því að þakka að njóta þess að fá alla nýjustu tækni frá Finnunum og talið er það hafi átt langstærstan hluta í því að fyrirtækið er eins gott í dag og raun ber vitni og aðkoma Finnanna við endurskipulagningu mun hafa verið á þessum grunni en ekki eingöngu á viðskiptalegum forsendum.

Það skýrir ýmislegt varðandi afstöðu Finnanna núna þegar hræringar eru eða menn eru að koma saman þessu söludæmi, að þeir munu hafa sagt sem svo að þeir væru ekki áhugasamir um að vera eigendur að fyrirtækinu ef um breytingu yrði að ræða þannig að ríki og bær færu út. Sú sögulega skýring sem ég er að gefa hér, virðulegi forseti, styður þá kenningu að Finnarnir hafi komið inn í þetta mál á sínum tíma fyrir kunningsskap og velvilja, en ekki eingöngu á viðskiptalegum forsendum --- það mun hafa verið raunin --- og Finnarnir hafi verið í verkefnum af þessu tagi heima fyrir og uppbyggingu á þeim nótum að verið væri að skapa fólki í hinum dreifðu byggðum betri lífsmöguleika þar.

Víðar en hjá okkur talsmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gætir því þeirrar hugsunar að menn þurfi ekki endilega að fara inn í verkefni af þessu tagi bara út frá hörðum stundarhagsmunasjónarmiðum, heldur séu menn að byggja upp til framtíðar og láti að einhverju leyti önnur sjónarmið ráða þó svo að viðskiptalegir hagsmunir verði að koma þar inn í dæmið.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni kemur fram að í ágúst 2001 samþykkti byggðaráð Skagafjarðar að óska eftir formlegum viðræðum við aðra ráðandi hluthafa í Steinullarverksmiðjunni hf. um sölu á hlutabréfum sveitarsjóðs í félaginu. Hinn 5. október sl. var haldinn fundur fulltrúa stærstu hluthafa Steinullarverksmiðjunnar hf. og var tilefni hans að ræða ósk sveitarfélagsins um sölu á hlut þess. Á fundinum kom fram að sveitarfélagið stefndi að því að selja allan hlut sinn og var af hálfu þess lögð áhersla á að sem best sátt ríkti milli aðila hluthafasamkomulagsins vegna endurskipulagningarinnar frá 1989 um framkvæmd sölunnar. Var niðurstaða fundarins sú að sveitarfélagið legði fram nánari hugmyndir um sölu bréfanna og tæki í framhaldi af því upp viðræður við einstaka hluthafa.

Síðan kemur fram í greinargerðinni að í lok nóvember 2001 gerði sveitarfélagið aðilum hluthafasamkomulagsins skriflegt tilboð um að kaupa hlut þess á genginu 3,05. Byggðist tilboðið á mati sérfræðinga á virði Steinullarverksmiðjunnar hf., en matið var á bilinu 794,6--842,4 millj. kr. Það svarar til gengis á bilinu 2,88--3,05 fyrir hvern hlut eins og komið hefur fram hér í umræðunni. Í bréfinu kom fram að stefna sveitarfélagsins væri að selja bréfin fyrir lok ársins og var þess óskað að svör bærust fyrir 5. desember.

Af hálfu ríkisins var tilboði um kaup á hlut sveitarfélagsins hafnað. Það er sá punktur, virðulegi forseti, sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gagnrýnum harðlega. Við teljum að þetta örþrifaráð sveitarstjórnarinnar í Sveitarfélaginu Skagafirði sé fyrst og fremst til komið vegna fjárhagsþrenginga, þ.e. að menn hafi viljað losa þessi bréf til þess að lækka skuldir. Því er það skoðun okkar að ríkissjóður hefði átt að liðka fyrir um tíma alla vega og kaupa bréf sveitarfélagsins eins og kemur fram í tillögu minni hluta iðnn. sem ég skrifa undir sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn.

Eins og ég sagði þá kemur fram í greinargerðinni að af hálfu ríkisins var tilboði um kaup á hlut sveitarfélagsins hafnað. Í síðari hluta desembermánaðar gerðu GLD heildverslun og Kaupfélag Skagfirðinga sameiginlegt tilboð í 52% hlut sveitarfélagsins og Paroc Group í fyrirtækinu. Ef tilboðinu hefði verið tekið hefði hlutur GLD heildverslunar og Kaupfélags Skagfirðinga orðið tæp 70%. Þegar eftir að ríkinu varð kunnugt um að slíkt tilboð hefði komið fram var óskað eftir fundi með aðilum hluthafasamkomulagsins til að ræða breyttar forsendur sem upp væru komnar og framtíðareignarhald á félaginu. Það kemur fram í greinargerðinni að á fundinum lýstu fulltrúar ríkisins því yfir að þar sem fyrir lægi að Paroc hefði breytt um afstöðu og vildi nú selja hlut sinn í fyrirtækinu þá vildi ríkið jafnframt taka til athugunar að selja sinn hlut. Jafnframt var því lýst yfir af hálfu ríkisins að það vildi láta á það reyna hvort hægt væri að ná samstöðu um að bjóða bréf ríkisins, sveitarfélagsins og jafnvel Parocs til sölu með sameiginlegu útboði. Af hálfu sveitarfélagsins og Parocs var þeirri leið hafnað, þ.e. þessa finnska fyrirtækis sem verið er að ræða um.

Virðulegi forseti. Nú er það mat margra að finnska fyrirtækið hafi óskað eftir því að draga sig út úr eða selja sinn hlut einvörðungu vegna þess að fyrirhugað væri að bær og ríki drægju sig út úr fyrirtækinu og þá hefðu Finnarnir á grunni nýrra forsendna ekki áhuga á því að vera með. Það er alvarlegur hlutur. Í greinargerðum eða athugasemdum hefur ekkert komið fram um hvort látið hafi verið á það reyna hvort það að ríkið kæmi inn og leysti út bréf Sauðárkróks eða Sveitarfélagsins Skagafjarðar, hefði breytt viðhorfum finnska fyrirtækisins til þess að vera með áfram. Margt bendir til þess að hugarfarsbreyting Finnanna hafi fyrst og fremst verið út af því að setja átti fyrirtækið á almennan markað og losa um tengingu við ríki og bæ. Um það mál hefur ekki verið nægilega rætt.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er lagt til í frv. að iðnrh. verði veitt heimild til að selja eignarhluta íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni hf. á Sauðárkróki og eins kemur fram greinargerðinni að gert hafi verið samkomulag milli stærstu eigenda fyrirtækisins, Húsasmiðjunnar hf., BYKO hf. og Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á eignarhlut ríkisins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar í fyrirtækinu.

[20:15]

Það var upplýst á nefndarfundi að samkomulagi væri háð nokkrum skilyrðum, m.a. samþykki Alþingis, eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, og því að samkeppnisyfirvöld banni ekki kaupin eða setji á þau efnisleg skilyrði. Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt þó ekki liggi fyrir hvort Samkeppnisstofnun leggi blessun sína yfir þessi viðskipti eða setji um þau efnisleg skilyrði. Minni hlutinn telur augljóst að Alþingi eigi ekki að afgreiða frv. án þess að afstaða Samkeppnisstofnunar liggi fyrir.

Virðulegi forseti. Það er nú eins og með önnur frv. sem er verið að setja í gegnum þingið á allra síðustu dögum þess, að það hefur hreinlega ekki gefist tími til þess að vinna frv. eins og vera ber og afla þeirra upplýsinga sem þarf. Eftir á að hyggja hafa ekki nógu margir komið til hæstv. iðnn. til þess að gefa upplýsingar. Það skýra bókanir bæjarstjórnarmanna í Sveitarfélaginu Skagafirði því þeir átelja meiri hluta sveitarstjórnarinnar fyrir að hafa sent starfandi bæjarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem áheyrnarfulltrúa sinn og vilja sem sagt ekki una því að þannig hafi verið staðið að málum. Eftir á að hyggja hefði líka þurft að heyra ofan í starfsmenn í miklu ríkari mæli en gert var og kalla fulltrúa þeirra til fundar og láta skýra málin fyrir nefndinni.

Hvað varðar Samkeppnisstofnun þá þyrfti, eins og ég bendi á í minnihlutaáliti mínu, úrskurður Samkeppnisstofnunar að liggja fyrir áður en við veitum þessa heimild. Það er forkastanlegt að við á hinu háa Alþingi skulum ekki hafa tíma til að vinna hlutina þannig að við getum gert okkur grein fyrir því í raun hvert við erum að stefna með slíkri ákvörðunartöku, en það er ekki hægt á þessum grunni.

Virðulegi forseti. Fram hefur komið að minni hlutinn er andvígur sölu ríkisins á eignarhlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki við núverandi aðstæður og telur slíka ráðstöfun ekki líklega til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins til lengri tíma litið. Fjárhagsstaða þess hefur verið slæm og til þess að bæta hana hefur sveitarstjórnin brugðið á það ráð að selja eignir. Rafveita Sauðárkróks hefur verið seld og nú stendur hugur sveitarstjórnarinnar til þess að losa um fjármagn sem sveitarfélagið á í Steinullarverksmiðjunni. Eins og m.a. má sjá af ályktun sem birt er sem fylgiskjal með áliti þessu sem ég er að vitna í, þ.e. áliti minni hluta iðnn., eru afar deildar meiningar um málið heima í héraði enda hefur Steinullarverksmiðjan um árabil verið mikilvæg stoð í atvinnulífi Sauðárkróks. Á sínum tíma var tekist hart á um stofnsetningu verksmiðjunnar, eins og ég kom inn á áðan hér í ræðu minni, og ekki síst staðsetningu og það var pólitísk ákvörðun að henni var valinn staður á Sauðárkróki.

Það kom fram hér í umræðunni í dag að ekki munaði nema tveimur atkvæðum að Steinullarverksmiðjan yrði staðsett annars staðar, þ.e. á Þorlákshöfn. Það voru gríðarleg pólitísk átök um það hvar þetta fyrirtæki ætti að vera.

Virðulegi forseti. Ég benti líka á það í mínu minnihlutaáliti í iðnn. að Steinullarverksmiðjan hefur reynst mikill happafengur fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð. Þrátt fyrir þá byrjunarörðugleika sem raktir voru áðan, hefur rekstur hennar gengið vel og hún hefur skilað eigendum sínum drjúgum arði. Hún veitir fjölda bæjarbúa atvinnu, bæði beint og óbeint, og sveitarfélagið hefur af henni umtalsverðar tekjur. Fjárhagur verksmiðjunnar er góður, mjög litlar skuldir hvíla á fyrirtækinu og ekkert bendir til annars en reksturinn geti áfram gengið vel. En skjótt skipast veður í lofti og engin trygging er fyrir því að nýir eigendur verksmiðjunnar hafi jafnmikinn áhuga og núverandi eigendur á því að efla hag hennar á þeim stað þar sem hún er rekin nú.

Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við þannig að það komi skýrt fram að aðkoma Finnanna við fjárhagslega endurskipulagningu á sínum tíma þar sem þeir komu líka inn með nýja tækni og þess háttar, er að allra mati orsök þess góða árangurs sem hefur náðst á síðari rekstrarárum verksmiðjunnar.

Virðulegi forseti. Ég velti vöngum yfir því í minnihlutaáliti mínu að þessi niðurstaða gæti e.t.v. orðið til þess að flytja störf í burtu og leitt til tekjumissis og er þá verr af stað farið, að mínu mati, en heima setið. Ég vil fyrir hönd minni hlutans að allra leiða verði leitað til þess að leysa tímabundinn vanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar, annarra en að selja drjúgan hluta bestu mjólkurkýrinnar á þeim bæ og setja þar með framtíð Steinullarverksmiðjunnar í algjöra óvissu. Reynist sveitarfélagið hins vegar nauðbeygt til þess að selja hlut sinn í verksmiðjunni telur minni hlutinn að ríkið eigi alla vega tímabundið að leysa þann hlut til sín með framlagi eða kaupum á vegum ríkisins.

Af þessum sökum legg ég til að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá sem hljóðar svo:

,,Í ljósi þess að áform um sölu Steinullarverksmiðjunnar eru fyrst og fremst tilkomin vegna bágrar fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar og þess að um málið eru mjög deildar meiningar heima í héraði leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.``

Þetta álit er sett fram 18. apríl 2002. Árni Steinar Jóhannsson ritar undir.

Ég vil líka vitna í fylgiskjal með áliti 1. minni hluta þar sem er ályktun frá fundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Sveitarfélaginu Skagafirði 2. mars sl. Það varðar sölu Steinullarverksmiðjunnar og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sölu Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki mótmælt.

Fundur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Sveitarfélaginu Skagafirði mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu sveitarfélagsins á hlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Jafnframt mótmælir fundurinn þeirri stefnu stjórnvalda að halda sveitarfélögum í landinu í þeirri úlfakreppu að þau telji sig knúin til að selja dýrmætar eignir sínar til að standa undir skuldbindingum sem þau hafa stofnað til. Það var mikið átak á sínum tíma hjá Skagfirðingum að koma verksmiðjunni upp á Sauðárkróki. Auk þess að vera eitt mikilvægasta atvinnufyrirtæki héraðsins hefur hún skilað sveitarfélaginu miklum arði. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur að skoða eigi aðrar leiðir til að auka tekjur sveitarfélagsins af Steinullarverksmiðjunni enn frekar. Leiðir sem einnig tryggi framtíð hennar í Skagafirði. Með sölu nú setur sveitarfélagið framtíð verksmiðjunnar á Sauðárkróki í óvissu. Svo stuttu fyrir kosningar er eðlilegra að láta nýrri sveitarstjórn það hlutverk eftir að taka stærri ákvarðanir um endurskipulagningu á eignum og fjárreiðum sveitarfélagsins.``

Þarna er einmitt hreyft mikilvægum punkti. Sveitarstjórnarkosningar eru náttúrlega alveg á næstu grösum, 25. maí, og þá veit maður ekkert hvernig samsetning bæjarstjórnar- eða sveitarstjórnarmeirihlutans verður. Ég held að allir geti verið sammála um að það sé nú lágmark að bíða eftir úrslitum þeirra sveitarstjórnarkosninga þannig að nýir aðilar geti komið að málinu. Mér skilst að það verði mikið um breytingar á mannskap í sveitarstjórninni hvernig svo sem hlutföllin verða milli flokka, að aðilar séu að fara út úr sveitarstjórn og nýir koma inn væntanlega. Því er náttúrlega mjög mikilvægt að það fólk sem kemur ferskt inn að þessum málum eftir næstu sveitarstjórnarkosningar eigi einhverja aðkomu að málinu og þurfi ekki að standa frammi fyrir svo afdrifaríkum ákvörðunum sem gjörðum hlut rétt fyrir kosningar. Þetta segi ég sérstaklega vegna þess að maður hefur orðið var við að þetta er gríðarlegt hitamál í héraðinu og gengur þvert á allar flokkslínur, eftir því sem mér sýnist. Eftir þeim viðbrögðum sem ég hef fengið, bæði símleiðis og í pósti, lítur almenningur þetta mjög alvarlegum augum.

Ég benti á það í fyrri ræðu minni að svo margt blandast inn í. Fólki finnst að með því að missa forræðið yfir atvinnutækjum --- þetta mótast náttúrlega líka af því að menn hafa staðið frammi fyrir því að missa forræðið yfir útgerðarfyrirtækjum o.s.frv. --- þá lítur allur almenningur á það sem ávísun á óöryggi ef opinberir aðilar missa ítök í atvinnutækjum, sérstaklega í dreifbýlinu. Það leggst mjög illa í almenning og er liður í því að veikja undirstöður hinna dreifðu byggða. Ég hef á tilfinningunni að þetta sé í raun stærsti þátturinn hvað varðar fólksflótta af landsbyggðinni, þ.e. að undireins og mönnum finnst að það hafi ekki á vísan að róa með grunntekjuöflun og starfsemi í viðkomandi sveitarfélagi, jafnvel fólk sem ekki hafi verið að hugsa sér til hreyfings, noti þá tækifærið og komi sér í burtu. Mörg dæmi eru um slíkt. Þetta gerist t.d. þar sem sveitarfélögin eða heimamenn hafa misst forræði yfir útgerðarfyrirtækjum. Þá er það alveg eins og við manninn mælt að fólksflótti brestur á í kjölfarið á svoleiðis uppákomu. Í vissum tilfellum getur verið um huglægt mat að ræða, en alla vega virka hlutirnir þannig á fólk.

Mikið hefur verið rætt í þessari umræðu það sem er nú í tísku hér á hinu háa Alþingi og mikill meiri hluti virðist vera fyrir, þ.e sú bylgja að ríkið eigi ekki að vasast í atvinnurekstri eins og það er orðað og heldur ekki sveitarfélög. Samt erum við alltaf að búa til eða setja upp formúlur þar sem ríki og bæir beint eða óbeint koma að gríðarlegum atvinnuuppbyggingaráformum á hverjum tíma. Ríkisábyrgðarmálið til handa deCODE er náttúrlega langstærsta málið í þessum dúr, þar sem menn alveg án þess að blikna samþykkja 20 milljarða ríkisábyrgð til atvinnuuppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu, fyrst og fremst væntanlega, ef ekki verðar gerðar athugasemdir við það að slíkt fyrirtæki sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er alveg gríðarlegt inngrip og innspýting, ef af verður, í atvinnuuppbyggingu og umsetningu á höfuðborgarsvæðinu. Það gefur augaleið.

Ég veit ekki af hverju menn fælast það svona mikið að ríkið komi að undirstöðuatvinnustarfsemi í tiltölulega smáu sveitarfélagi vegna þess að ef við tökum bara gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers á Reyðarfirði þá er í raun nákvæmlega það sama uppi á teningnum. Við frumvinnslu Kárahnjúkavirkjunarverkefnisins var ævinlega reiknað með því að það yrði sjálfstæð rekstrareining, það yrði sjálfstætt fyrirtæki, sjálfstætt félag, en e.t.v. með aðkomu Landsvirkjunar og einhverra annarra fjárfesta eins og talað var um.

Eftir því sem vinnslu verkefnisins vatt fram var það á örfáum missirum orðið alfarið verkefni Landsvirkjunar að byggja Kárahnjúkavirkjun. Og hvað segir það? Það segir að þar með, með því að setja formúluna upp þannig, er Kárahnjúkavirkjun með óbeina ríkis-, borgar- og bæjarábyrgð, þar sem ríkið er helmingshluthafi á móti Reykjavíkurborg og síðan Akureyrarbær með 5%.

[20:30]

Atvinnuuppbyggingaráform á slíkum skala eru að stórum hluta háð þátttöku eða aðkomu ríkisins á óbeinan hátt. Þátttakan er bein þar sem Landsvirkjun sem slík fer inn í þetta en er óbein með ríkisábyrgðum, bæjarábyrgðum og borgarábyrgðum til að baktryggja þetta fyrirtæki.

Stundum geta menn verið óskaplega heilagir hvað varðar aðkomu ríkisins að atvinnulífinu, en síðan breytt þvert á stefnu sína bara ef það snýst um nógu háar fjárhæðir, helst tugi og hundruð milljarða. Verkefni eins og við vorum að tala um varðandi Kárahnjúkavirkjun kostar a.m.k. á annað hundrað milljóna hvað varðar Landsvirkjun.

Við getum fyllilega réttlætt þá skoðun okkar að til að gera hlutina auðveldari fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð hefði aðkoma ríkisins með tímabundnum uppkaupum á bréfum sveitarfélagsins verið heppilegri leið fyrir allra hluta sakir. Þannig, virðulegi forseti, höfum við stillt málunum upp.

Þá komum við að heildarsýninni sem við verðum að hafa í þessu sambandi. Þetta er í þriðja skiptið á mjög skömmum tíma sem við stöndum frammi fyrir því að sveitarfélag eða sveitarfélög hafa selt eignir til að geta grynnkað á skuldum og gert einingar sínar rekstrarhæfar. Sem dæmi um þetta er salan á Orkubúi Vestfjarða, í öðru lagi salan á Rafveitu Sauðárkróks og í þriðja lagi þessi sala. Við höfum viljað stilla þessum málum upp í allt öðru ljósi. Við viljum taka á fjárhagsvanda sveitarfélaganna, sem er margbrotinn og stafar af mörgum þáttum. Fólksfækkunin skiptir miklu í því sambandi. Þar af eru vandræði vegna félagslega íbúðakerfisins mjög stór þáttur. Samkvæmt skýrslu sem hæstv. félmrh. birti er hann talinn um 2,8 milljarðar. Það er ekkert vafamál að staðan væri allt önnur varðandi þessi sölumál og e.t.v. stæðum við ekki frammi fyrir þessu máli ef tekið væri almennt á stöðu sveitarfélaganna og þau þyrftu ekki að taka ákvarðanir á þeim grunni sem þau neyðast nú til.

Í umræðunni í allan vetur --- raunar þau ár sem ég hef verið á þingi --- hafa menn tekist mjög á um stöðu sveitarfélaganna og hún hefur alltaf farið á verri veg vegna ýmissa aðstæðna. Minna hefur verið gert í að taka á málum sveitarfélaganna og manni virðist af því sem gert er að hæstv. ríkisstjórn finnist best að gera það í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Menn þurfa síðan að sækja í þennan sjóð til að geta lifað í staðinn fyrir að byggja traustan grunn fyrir sveitarfélögin þannig að þau geti höndlað mál sín stolt og af virðingu.

Ég ætla að láta það verða mín síðustu orð að staða sveitarfélaganna er stórhættuleg fyrir lýðræðið í landinu. Það er ekki spennandi að taka að sér að bjóða sig fram í sveitarstjórn víða um landið og taka við þeim fjárhag sem mörg sveitarfélaganna búa við. Margir sem kallaðir eru til sögunnar hugsa sig tvisvar um áður en þeir gefa sig í þá vinnu. Það er niðurdrepandi að hafa ekkert fé eða olnbogarými til að gera nokkurn skapaðan hlut sem til framfara horfir. Auðvitað eykur þessi staða enn á vanda sveitarfélaganna og á fólksflóttann.

Virðulegi forseti. Umræðan um Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki hefur gengið lengi dags. Ég held að það sé ljóst hver hugur okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er í þessu máli og ég læt máli mínu lokið.