Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 21:12:32 (8425)

2002-04-29 21:12:32# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[21:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn geta auðvitað verið í þessum hártogunum. Auðvitað snýst málið um það hvort það hægt verði að taka þessu tilboði eða ekki fyrir sveitarfélagsins hönd. Það er bara þannig. Það verður ekkert af þessu ef ríkið verður ekki með líka. Tilboðið gengur út á að kaupa af þessum aðilum. Auðvitað er ágreiningur um þetta. Það vitum við. En hverjir hafa gert mestan ágreininginn? Það eru þeir sem vildu selja fyrir stuttu síðan. Um hvað snýst þá ágreiningurinn? Hann er um verðið. Mér er sagt að það muni heilum 10 milljónum. Það gæti verið 10% og það hefur verið rifist um minna í gegnum tíðina. (JB: Væri ekki eðlilegt að þeir fengju að svara fyrir iðnn.?)

Ég veit ekki betur en að þeir hafi komið athugasemdum sínum á framfæri. Auðvitað vita menn vel af þessum ágreiningi. Mér finnst hins vegar að enn sé ástæða til þess að minna á að það er alveg öruggt að þetta fyrirtæki er ekki á hjólum. Það er ekki hægt að hlaupa með það hvert sem er. Þeir sem kaupa það bera auðvitað sinn hag fyrir brjósti. Hvernig í ósköpunum dettur einhverjum í hug að menn ætla að kaupa fyrirtæki af þessu tagi fyrir stórfé til að leggja það niður og að það séu helstu samkeppnisaðilar fyrirtækisins í innflutningi? Ef þeir geta drepið þetta fyrirtæki með innflutningi, af hverju gera þeir það þá ekki? Það er vegna þess að fyrirtækið er vel samkeppnisfært. Þeir eru að kaupa það þess vegna, af því þeir vita að þetta er gott fyrirtæki og ástæða er til þess að halda að hægt sé að reka það inn í framtíðina og hafa af því hagnað. Þess vegna vilja þeir kaupa. En tryggingin fyrir því að framtíð fyrirtækisins sé góð og í lagi er einmitt fólgin í þessu.