Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 21:14:43 (8426)

2002-04-29 21:14:43# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[21:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta mál er skylt deCODE að ýmsu leyti, eins konar spegilmynd þess máls. Í þessu máli hefur enginn sjálfstæðismaður kvatt sér hljóðs í umræðunni. (JB: Það kom andsvar frá einum.) Það mun hafa verið andsvar frá einum þingmanni. Hér ganga framsóknarmenn fram fyrir skjöldu, enda er þetta framsóknarmál. Í hinu tilvikinu ... (GÁS: ... í þessu máli. Ég átta mig ekki alveg á því.) Við erum með mjög skýra afstöðu. Við höfum verið að vekja athygli á því að það er svolítið undarlegt að allt sem gefur arð, allt sem vel er rekið og gefur samfélaginu arð er selt frá almenningi. En hitt sem er í tapi og vandræðum er látið vera á vegum skattborgarans.

[21:15]

Taugaveiklun Samfylkingarinnar í þessu máli er undarleg. (GÁS: Hún er bara sjálfri sér samkvæm.) Hún er undarleg, taugaveiklun Samfylkingarinnar í þessu máli. Hún ruglar saman ólíkum þáttum. Hún segir: Við eigum að virða vilja sveitarfélagsins til að selja opinberan hlut í þessu fyrirtæki. Það stendur enginn gegn því að sveitarfélagið taki ákvörðun um að selja sinn hlut. Við erum hins vegar að fjalla um allt annað frv., um hlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Við erum að tala um að selja hlut ríkisins í verksmiðju sem, samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2001, veitir 46 manns atvinnu. Fyrirtækið hefur góða eignarstöðu og góða rekstrarafkomu. Fyrirtækið gat lagt í stofnbúnað tæpar 200 millj. kr. á síðasta ári og samtímis greitt niður áhvílandi lán og greitt út arð.

Hlutur ríkisins í þessu pólitíska máli, vegna þess að þetta er fyrst og fremst pólitískt mál --- þar kem ég að samlíkingunni við deCODE --- er athyglisverður. Í þessu máli er verið að reyna að fá Alþingi til að leggja blessun sína yfir gerðan hlut. Varðandi deCODE var handsal utan þingsins og þinginu síðan stillt upp við vegg. Hið sama á við í þessu máli því hér segir í nál. meiri hlutans, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að selja eignarhlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni hf. á Sauðárkróki. Samkomulag hefur verið gert á milli stærstu eigenda fyrirtækisins og Húsasmiðjunnar hf., BYKO hf. og Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á eignarhlut hinna fyrrnefndu í fyrirtækinu.``

Samkomulag hefur þegar verið gert (Iðnrh.: Með fyrirvara.) með fyrirvara, að sjálfsögðu vantar ekki fyrirvara. Það vantar ekki fyrirvarana í Kárahnjúka og deCODE, að þeirra sögn. En í hverju felast þessir fyrirvarar? Í duttlungum ráðherranna. Í deCODE-málinu er vikið brott lögum, landslögum um ríkisábyrgð. Skilyrðin eiga hins vegar að hvíla á mati fjmrh. Nú hvílir það á mati hæstv. iðnrh. hvort virkjað verður á Austurlandi. (GÁS: Er Steinullarframleiðsla stoðkerfisþjónusta?) Þetta er það sem við erum að gera hér. Nei, ég er ekki að segja það að steinullarverksmiðja eða nokkur önnur verksmiðja eða atvinnurekstur eigi um aldur og eilífð að vera á hendi ríkisins. (Iðnrh.: Nú.) Ég er ekki að segja það. Ég er ekki að tala um það sem einhverja algilda reglu, síður en svo. En ég vil hins vegar að hagsmuna skattborgarans og hagsmuna þess fólks sem starfar við þessa verksmiðju sé gætt. Þetta er mikilvæg atvinnustarfsemi á Sauðárkróki.

Það hefur komið fram við umræðuna að þetta er mjög umdeilt mál þar. Margir sem finna af þessu pólitískan fnyk. Pólitískan fnyk. Það sem er að gerast er að verið er að stilla Alþingi upp við gerðan hlut.

Ég spyr: Hvernig fór þegar sveitarfélagið fór þess á leit við ríkið að kaupa sinn hlut og aðstoða sveitarfélagið við að létta skuldaklyfjar sínar? Því var hafnað. Það kemur fram í grg. frv. að beiðni sveitarfélagsins var hafnað. Það er þessi málatilbúnaður allur sem við erum að andæfa.

Fyrirtækið er ekki á hjólum, segir hv. þm. Jóhann Ársælsson. Það er ljóst að þegar þetta fyrirtæki var sett á laggirnar á sínum tíma var litið svo á að fjarlægðin við hinn stóra markað hér á suðvesturhorninu væri hinn mikli akkillesarhæll þessa fyrirtækis. Menn hafa alltaf haft af því nokkurn beyg ef fyrirtækið kæmist í eignarhald hagsmunaaðila í verslun, að það kynni að taka ákvarðanir sem stríddu gegn atvinnuhagsmunum á Sauðárkróki. Um það snýst þetta mál. Það er verið að selja fyrirtækið dreifingaraðilum afurðar verksmiðjunnar. Framtíð verksmiðjunnar verður undir þeim sömu aðilum komin. Þetta eru staðreyndir málsins. Það er þetta sem fólk hefur nokkurn beyg af og ég skil það mjög vel.

Herra forseti. Þetta mál hefur verið allítarlega rætt hér í dag og ég ætla ekki að lengja þessa umræðu þótt full ástæða væri til þess og fjölyrða um hlut Samfylkingarinnar í þessu máli sem hér gengur erinda ríkisstjórnarinnar, sem gengur hér pólitískra erinda. Þetta er fyrst og fremst pólitískt mál. Þetta er ekki efnahagslegt mál. Hún skrifar upp á þennan víxil ríkisstjórnarinnar, að fela í vald hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur (Gripið fram í.) að ganga frá þessum samningi. Já, það er áhyggjuefni hvernig Framsóknarflokkurinn hagar sér á Alþingi. Það er áhyggjuefni.

Það er áhyggjuefni að menn hafa sett ákvarðanir um virkjun á Austurlandi í pólitískan farveg Framsóknarflokksins. Þar er fyrrverandi varaformanni flokksins og fyrrverandi ráðherra falið að annast samninga fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Það er áhyggjuefni hvernig þar er haldið á málum. Það er mikið áhyggjuefni hvernig þar er haldið á málum. Þar talar hæstv. ráðherra sem hefur lýst því yfir að hún nenni ekki að ræða efnahagslegar forsendur málsins.