Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:54:54 (8442)

2002-04-29 23:54:54# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:54]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi draga fram í ræðu minni þá gagnrýni sem hefur komið fram á það að ekki væri verið að setja heildstæða löggjöf um málefni útlendinga. Þrátt fyrir að þetta heyri áfram undir tvö ráðuneyti þá held ég því fram að löggjöfin sé heildstæð vegna þess að að öðru leyti en um þær reglur sem sérstaklega er fjallað um í þessum tveimur frv., þ.e. frv. um atvinnuréttindi og þessu útlendingafrv., gilda um útlendinga íslensk lög alveg eins og þau gilda um Íslendinga nema lög taki annað sérstaklega fram.

Hins vegar segir í áliti meiri hluta allshn. að meiri hlutinn telji að málunum væri betur komið með því að þau heyrðu undir eitt ráðuneyti. Mig langar í þessu tilviki að taka fram að í Noregi er þegar verið að vinna gagngera endurskoðun á lögum um útlendinga og ég spái því að á næstu einu til þremur árum verði farið í að skoða hvernig framkvæmdin er á þessu og þá m.a. hver framkvæmdin er á því að vera með þetta í sitt hvoru ráðuneytinu.