Fátækt á Íslandi

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:00:31 (8476)

2002-04-30 10:00:31# 127. lþ. 133.91 fundur 561#B fátækt á Íslandi# (aths. um störf þingsins), JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:00]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að mótmæla því að hæstv. forsrh. skuli neita ósk minni um að ræða á Alþingi í utandagskrárumræðu þá vaxandi fátækt sem blasir við í þjóðfélaginu en samkvæmt upplýsingum frá kirkjunni, mæðrastyrksnefnd og Félagsþjónustu sveitarfélaga hefur þeim fjölgað um 20--30% milli ára sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og matargjafir hjálparstofnana og snertir þetta um 10--15 þúsund einstaklinga og fjölskyldur.

Mikið hefur verið rætt um þetta mál, bæði í margra blaðsíðna úttekt í Morgunblaðinu á nýafstöðnu málþingi um fátækt og á morgun 1. maí, hátíðardegi verkafólks, ætla verkalýðsfélög að mótmæla því harkalega að fullvinnandi fólk, láglaunastéttir og lífeyrisþegar þurfi í vaxandi mæli að sækja sér matargjafir til líknarsamtaka til að svelta hreinlega ekki. En hæstv. forsrh. virðist ekki sjá þessa fátækt því að hann segir að í fyrsta lagi sé ekkert tilefni til þess að ræða um fátækt í þjóðfélaginu og hins vegar ef endilega þurfi að ræða hana, þá vísar hann á félmrh.

Ég óska eftir því við hæstv. forsrh. að hann svari þeirri spurningu minni hvort hann væri reiðubúinn að beita sér fyrir því að fram fari heildarendurskoðun á öryggisneti velferðarkerfisins sem tryggja á að fólk þurfi ekki að lifa við hungur og skort og geta ekki leyst út lífsnauðsynleg lyf eins og nú er. Öryggisnet fátæks fólks snertir mörg svið hjá a.m.k. sex ráðuneytum og það er oddviti ríkisstjórnarinnar og enginn annar sem á að veita svör við því til hvaða aðgerða á að grípa.

Ég mótmæli því að þessu þingi ljúki án þess að við ræðum hér við oddvita ríkisstjórnarinnar um hvernig hægt er að bregðast við til að styrkja öryggisnet og framfærslu fátæks fólks svo það eigi fyrir húsaskjóli og mat frá degi til dags í landi einnar ríkustu þjóðar heims. Það þolir ekki bið að greina orsakir og afleiðingar fátæktar á Íslandi, bæði félagslegar og fjárhagslegar og hvernig við á að bregðast.