Fátækt á Íslandi

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:03:00 (8478)

2002-04-30 10:03:00# 127. lþ. 133.91 fundur 561#B fátækt á Íslandi# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:03]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ekki voru þetta efnismikil viðbrögð frá hæstv. forsrh. við alvarlegu máli. Það ætti að vera okkur öllum til umhugsunar sem fram kom á ráðstefnu sem haldin var um síðustu helgi um fátækt. Í fyrsta lagi ætti það að verða okkur til umhugsunar að til slíkrar ráðstefnu skuli vera boðað, að þurft hafi að boða til slíkrar ráðstefnu og síðan hitt það sem þar kom fram, til dæmis að læknar sjái sig nú knúna til að vísa fátæku fólki til hjálparstofnana til þess að fá aðstoð til að kaupa lyf. Með öðrum orðum að hluti samfélagsins, efnaminnsti hluti þjóðfélagsins, hafi ekki tök á að leita sér lækninga vegna peningaleysis.

Fram hefur komið að hér er um að ræða bæði launafólk á lægstu kauptöxtunum, iðulega einstætt fólk, í sumum tilvikum með börn á framfæri. Einnig er hér um að ræða atvinnulaust fólk og öryrkja en atvinnuleysi á Íslandi mælist nú 2,7% en það eru 3.692 einstaklingar. Það er greinilegt að öryggisnet samfélagsins heldur ekki, hvað þá að við séum nærri þeirri hugsun sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum beitt okkur fyrir að tryggja öllu fólki samfélagsins laun sem hægt er að lifa af. Eða gera menn sér grein fyrir því að atvinnuleysisbætur núna eru 73.765 kr. og af þessu eru teknar 1.250 kr. í skatta? Hvernig lifir fólk af 72.475 kr.? Það gerir fólk að sjálfsögðu ekki. Þess vegna er það mjög alvarlegt þegar fullyrt er að 4% þjóðarinnar séu undir fátæktarmörkum. Eftir standa þá 96% og er eðlilegt í framhaldinu að spyrja hvort árangur okkar mælist þá upp á 96%. Nei. Okkur hefur mistekist 100% þegar við búum fólki slík kjör að það mælist undir fátæktarmörkum og getur ekki framfleytt sér og sínum.