Fátækt á Íslandi

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:13:07 (8483)

2002-04-30 10:13:07# 127. lþ. 133.91 fundur 561#B fátækt á Íslandi# (aths. um störf þingsins), KVM
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:13]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nýlega var fjallað á hinu háa Alþingi um stöðu margra heimila í landinu vegna þess að þau eru svo mörg að verða gjaldþrota og vegna þess að vextir í bönkum og innlánastofnunum eru svo háir og vekur það okkur áhyggjur. Yfirleitt fer það þannig þegar fólk getur ekki staðið í skilum með lán sín að það endar í fátæktargildrunni. Því miður er það svo, herra forseti, að við erum farin að sjá þess merki í samfélaginu þegar fjölskyldur sem eru jafnvel þannig saman settar að bæði eiginkona og eiginmaður eru að reyna að koma fjölskyldunni áfram og börnum sínum, og þegar þau geta ekki staðið undir því að reka heimilið á mjög lágum launum, þá þurfum við að fara að íhuga mjög hvað er að gerast í samfélaginu, að ég tali nú ekki um þar sem ein fyrirvinna er, einn einstæður faðir eða ein einstæð móðir. Ekki bætir það vandann. Þetta hljótum við að láta okkur varða á Alþingi sem viljum skapa þau skilyrði í landinu að allir búi við sem bestan kost.

Auðvitað er það rétt sem hefur verið sagt að alltaf sé fátækt fólk í kringum okkur en eins og sagt hefur verið, fátæka hafið þér jafnan hjá yður. En við eigum að reyna að koma því til vegar að þeir verði sem fæstir í landi okkar og sérstaklega ber okkur að hugsa um þetta t.d. þegar verið er að deila út ýmsum sameiginlegum gæðum sem eru í eigu samfélagsins alls og þjóðarinnar, að því sé réttlátlega skipt.