Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:26:10 (8493)

2002-04-30 10:26:10# 127. lþ. 133.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Framganga hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli öllu er afar hraksmánarleg. Á haustmánuðum neitar ríkisstjórnin tilboði frá sveitarfélaginu um að koma að því að kaupa hlut þess út úr fyrirtækinu og nú er málum þannig komið að ríkið er að selja eignarhlut sinn og stofna til óvissu um framtíð fyrirtækissins. Til þess að sætta menn við þetta í héraði eftir því sem kostur er er þeirri gulrót veifað að hluti af söluandvirðinu fari til sérstakra verkefna á svæðinu samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hæstv. iðnrh. hefur boðað í fjölmiðlum hvernig eigi að verja fénu og þar með gert hæstv. fjmrh. ómyndugan. En hlutur hæstv. fjmrh. er náttúrlega alveg einstaklega metnaðarlítill, að koma svo hér og verja þessi óeðlilegu vinnubrögð þar sem fjárveitingavaldið er flutt út í bæ. Þetta eru alveg ólíðandi vinnubrögð, herra forseti, og ekki er nokkur leið að standa að þessu.