Deilur Ísraels og Palestínumanna

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:31:15 (8513)

2002-04-30 11:31:15# 127. lþ. 133.11 fundur 734. mál: #A deilur Ísraels og Palestínumanna# þál. 25/127, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar lýsa mikilli ánægju með að þessi tillaga hefur verið samþykkt. Við erum þeirrar skoðunar að það sé mikill áfangi að hafa náð þeirri breiðu samstöðu sem birtist í því að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á hinu háa Alþingi hafi sameinast um þessa samþykkt. Vitaskuld hefðum við viljað kveða fastar að orði í þessari tillögu. Við hefðum viljað fordæma miklu harðar það framferði Ísraelsmanna sem við höfum séð í gegnum auga sjónvarpsvéla síðustu ár og sem við, í gegnum sérstök tengsl okkar við Palestínu, höfum fengið nákvæmar upplýsingar um í gegnum sérstakan vin Samfylkingarinnar, dr. Mustafa Barghouthi, sem hingað kom og vann hug og hjörtu þjóðarinnar þegar hann var heiðursgestur á landsfundi Samfylkingarinnar sl. haust. Eigi að síður er þetta mikill áfangi. Ég vil sérstaklega þakka formanni utanrmn. fyrir að hafa lagt lóð sitt á vogarskálar til að hægt yrði að ná þessu fram.

Ég rifja það upp, herra forseti, að talsmenn Samfylkingarinnar hafa aftur og aftur tekið upp málstað Palestínu á þessu þingi og það var Samfylkingin sem hafði frumkvæði að því að umræður um samþykkt þáltill. af þessu tagi hófust. Ég er sérstaklega ánægður með það þegar ég horfi yfir þá tillögu sem hér blasir við að ég sé að í henni er að finna nánast öll þau efnisatriði sem voru í tillögu okkar.

Þáltill. sem við lögðum fram um sjálfstæði Palestínu gerði í fyrsta lagi ráð fyrir því að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Ísraelsmenn drægju heri sína frá hernumdu svæðunum í Palestínu. Í öðru lagi að Palestínumönnum yrði gert kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi. Í þriðja lagi að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Palestínumenn og Ísraelsmenn leysi úr ágreiningsmálum sínum á grundvelli alþjóðaréttar, samþykkta Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamninga. Í fjórða lagi var lagt til í tillögu okkar að Alþingi styddi hugmyndir um að alþjóðlegt gæslu- og eftirlitslið yrði sent á vettvang til þess að koma í veg fyrir vopnahlésbrot.

Þegar ég les tillöguna sem hér liggur fyrir og utanrmn. stendur öll að blasir við að öll meginatriði þeirrar tillögu sem Samfylkingin lagði fram á þingi fyrr í vetur er að finna í þessari tillögu. Það er sérstakt ánægjuefni, herra forseti. Við vitum öll að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins er uggvænlegt. Á hverjum einasta degi sjáum við að Ísraelsmenn fara með vopnavaldi á hendur Palestínumönnum. Þeir brjóta alþjóðlega samninga og þær óskráðu siðareglur sem jafnan hafa verið í gildi manna í millum. Hvar höfum við séð það gerast áður á síðustu áratugum þó að styrjaldarátök hafi blossað upp að herjum hafi verið skipulega beitt til að koma í veg fyrir að sjúkrasveitir og heilsugæslustöðvar gætu sinnt hlutverki sínu? Herra forseti. Á þessum morgni fengum við í Samfylkingunni upplýsingar um það frá skrifstofu dr. Mustafas Barghouthis að í síðasta mánuði hefðu verið gerðar 126 árásir á sjúkrasveitir. Við fengum upplýsingar um að ítrekað í síðasta mánuði hefðu ísraelskir hermenn tekið t.d. hjúkrunarfólk og lækna og notað sem mannlega skildi þegar þeir fóru hús úr húsi til að rýma íbúðarhús, stökkva íbúum á flótta og nota síðan stórtækar vinnuvélar til að mölva húsin.

Herra forseti. Við höfum líka fengið upplýsingar um það, sem alþjóð þekkir, að Ísraelar hafa meinað hjúkrunarsveitum að sækja fólk sem liggur blæðandi til dauða í ryki götunnar. Aftur og aftur hefur þetta gerst. Við höfum dæmi um það frá félögum okkar í Palestínu að fólki hafi jafnvel blætt til ólífis tveimur metrum frá hliði heilsugæslustöðvar.

Í dag er staðan þannig að 270 heilsugæslustöðvar í Palestínu eru óvirkar vegna þess að þær hafa ekki fengið efni og búnað sem þarf til að halda þeim gangandi. Þetta er staðan í dag, herra forseti. Það blasir við að sú óöld sem Ísraelsmenn hafa hrundið af stað fyrir botni Miðjarðarhafsins og viðhaldið árum saman er orsök þessa ástands. Heilu kynslóðir Palestínumanna eru aldar upp í flóttamannabúðum og sjá enga von. Það er þess vegna sem þetta fólk grípur til þess í beiskju sinni að ganga hryðjuverkasveitum á hönd. Þannig er í gangi vítahringur sem erfitt er að brjóta upp. Þá er auðvitað spurningin, herra forseti: Getur land eins og Ísland, þjóð okkar, haft einhver áhrif?

Oftsinnis er eins og Íslendingar telji að rödd Íslands skipti ekki máli. Reynslan sýnir allt annað. Reynslan sýnir að við höfum miklu meiri styrk á alþjóðavettvangi en e.t.v. mætti ætla af stærð þjóðarinnar. Í þessu máli höfum við auðvitað sérstakar skyldur og líka sérstök réttindi. Það var Íslendingur sem lagði fram tillöguna á þingi Sameinuðu þjóðanna sem að lokum var samþykkt og leiddi til þess að Ísraelsríki var stofnað. Það gerir það að verkum að við eigum með vissum hætti frumburðarrétt að Ísraelsríki. Það þýðir það líka að það er hlustað meira á okkur en margar aðrar smáþjóðir. Þess vegna ber okkur siðferðileg skylda til að segja hvað okkur finnst um þetta mál.

Herra forseti. Tvennt vildi ég spyrja hæstv. utanrrh. um áður en þessari umræðu lýkur. Í fyrsta lagi: Hefur hann komist að einhverri niðurstöðu um það hvenær hann hyggist þiggja boð Arafats um að heimsækja Palestínu, og þá Ísrael í leiðinni, til að koma skoðunum Íslendinga, stuðningi þeirra gagnvart Palestínu, á framfæri og jafnframt gagnrýni á framferði Ísraelsmanna? Fram hefur komið að hæstv. utanrrh. áformar slíka för og hafði í hyggju að fara hana fyrir lok maí en hefur eðlilega átt erfitt með það vegna kosninga hér á Íslandi sem hann skiljanlega vill fylgjast með.

Í annan stað vil ég rifja upp, herra forseti, að ég fyrir hönd Samfylkingarinnar innti hæstv. forsrh. eftir því utan dagskrár fyrir skömmu hvort íslenska ríkisstjórnin hygðist fara að frumkvæði norsku ríkisstjórnarinnar sem hefur nú í bígerð að setja upp sérstakan sjóð til að styrkja uppbyggingu á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í Palestínu. Hæstv. forsrh. svaraði því með því að rifja upp sannarlega lofsverð framlög íslensku þjóðarinnar, íslensku ríkisstjórnarinnar, til Palestínu en hann tók jafnframt vel í að Íslendingar létu meira fjármagn af höndum rakna. Ég spyr því hæstv. utanrrh.: Mun hann beita sér fyrir því í kjölfar samþykktar þessarar tillögu að ríkisstjórnin samþykki líka að setja sérstaka fjárveitingu til að byggja upp þau svæði sem verst hafa orðið úti í þessari hrinu átaka Palestínumanna og Ísraels?