Eldi og heilbrigði sláturdýra

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:15:21 (8532)

2002-04-30 12:15:21# 127. lþ. 134.26 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv. 82/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég hafði allan fyrirvara á frv. þegar það var lagt hér fram og á þessari beiðni um hækkun á gjaldi til að standa straum af raunkostnaði við heilbrigðiseftirlit með sláturfurðum. Það kom fram að gjaldheimildin hafði aldrei verið að fullu nýtt og farið var fram á umtalsverða hækkun.

Það verður að viðurkennast að gjaldið sem tekið er af hverju kílói kjöts, sem hefur verið 2,50 kr., stóð ekki undir kostnaði við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum. Þegar við fórum að skoða málið betur kom í ljós að kostnaður við þetta eftirlit er mjög breytilegur og hafði breyst á fáum árum. Þegar jöfnunargjald var lagt á á sínum tíma var talið að nokkuð svipaður raunkostnaður væri af eftirliti með sláturafurðum mismunandi dýrategunda. Það hefur breyst sem kemur til af breyttum búskaparháttum. Með frekari verksmiðjubúskap og meiri framleiðslu á alifuglum og svínum er eðlilegt að raunkostnaður hvað varðar heilbrigðiseftirlit á þessum tegundum hafi aukist. Samkvæmt svari sem hæstv. landbrh. hefur nýlega dreift við fyrirspurn minni um eftirlitsgjöld á kjöti kemur fram að rannsóknir, svo sem vegna salmonellu og kampýlóbakters, hafa aukist mjög og þá sérstaklega hjá alifuglum.

Eftir að hafa sundurgreint þennan kostnað töldum við ekki rétt að hafa áfram jöfnunargjald þannig að sauðfjárbændur væru í raun að greiða niður eftirlitskostnað fyrir þá framleiðendur sem þeir eru í harðri samkeppni við, þ.e. framleiðendur hvíta kjötsins, og töldum rétt að hver búgrein bæri raunkostnað af heilbrigðiseftirliti sínu. Því er ég fullkomlega sátt við þá breytingu sem hér kemur fram.