Varnir gegn landbroti

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:53:23 (8545)

2002-04-30 12:53:23# 127. lþ. 134.31 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv. 91/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:53]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið skrifaði öll landbn. undir þetta nefndarálit án fyrirvara, enda var búið að vinna nokkuð í frv. og taka út þá hnökra sem við frekari skoðun kom í ljós að áttu ekki þar heima, t.d. það að frv. tekur ekki til landbrots vegna ágangs sjávar. Siglingamálastofnun sér um það.

Hér eru skilgreiningar á hvað sé fyrirhleðsla, landbrot, landkostir og nytjaland. Nytjaland þarf að mínu mati hugsanlega að skilgreinast aðeins nánar en þarna er gert til þess að hægt sé að nota þá skilgreiningu áfram sem hugtak í gæðastýringunni og í annarri vinnu við skógrækt og landbúnað allan. Því þarf þessi skilgreining að vera ljós. Hvað varðar gæðastýringuna og ræktun í landbúnaði þá er mikilvægt að skilgreiningar séu ljósar.

Hvað varðar fyrirhleðslur þá telst Landgræðslan ávallt vera framkvæmdaraðili. Það er líka hennar að meta og forgangsraða beiðnir um fyrirhleðslur. En það er alveg ljóst að miðað við þann verkefnalista sem liggur hjá Landgræðslunni að brýn þörf er á meira framkvæmdafé til þess að sinna verkefnum sem til lengri tíma litið leiða til sparnaðar og munu skila sér þannig til landeigenda og ríkissjóðs óbeint.

Hvað varðar kostnaðarhlutdeild þá hefur, eins og hér hefur komið fram, ákveðin regla verið í gildi, þ.e. að bændur eða landeigendur greiddu 1/8 hluta af kostnaði við fyrirhleðslur. Ekki er gert ráð fyrir því að halda þessari reglu inni heldur eiga bændur eða landeigendur að geta sótt um styrk. Það var skilningur okkar í landbn. að þetta ætti engu að breyta og að styrkurinn ætti þá að duga fyrir þeim verklegu framkvæmdum og kostnaði sem af fyrirhleðslunum yrði. Í þeirri trú að þetta standi, að þessar framkvæmdir verði alfarið á vegum Landgræðslunnar, þá samþykki ég þessa breytingu.

Það er alltaf villandi þegar verið er að tala um að hægt sé að sækja um styrki því að styrkir eru ekki alltaf 100%. Ég mun fylgjast með því hvort vikið verður frá þessu, hvort farin verður sú leið að reyna að komast í fleiri framkvæmdir, þ.e. að Landgræðslan muni reyna að sinna fleirum með því að styrkja ekki nema ákveðinn hluta verkefnisins og fá landeigendur til að koma með greiðslu á móti eða taka þátt í kostnaði til þess að komast svolítið niður á verkefnalistann. En það er ekki meiningin með þessari breytingu heldur á verkefnalistinn hjá Landgræðslunni að verða til með beiðnum landeigenda um styrki í ákveðnar framkvæmdir.