Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:03:26 (8547)

2002-04-30 13:03:26# 127. lþ. 134.29 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:03]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í rauninni er hérna á ferðinni hið besta mál. Verið er að samþykkja niðurgreiðslur á grænmeti sem ræktað er hér á landi til að það standist samkeppni við innflutt grænmeti eftir að tollar hafa verið lækkaðir mjög eða felldir niður.

Að samningu frv. hefur unnið grænmetisnefnd svokölluð sem í sátu m.a. fulltrúar garðyrkjubænda og fulltrúar neytenda og fulltrúar Bændasamtakanna, landbrn., Alþýðusambandsins og BSRB og komu þeir sér saman um þetta frv. sem gerir ráð fyrir þeim breytingum á lögum á Íslandi, að verð muni lækka til neytenda með þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til og það verði gert með beingreiðslum til garðyrkjubænda.

Um þetta var mikill samhljómur í nefndinni og undir þetta tekið af öllum nefndarmönnum við vinnslu málsins. En þá gerist það ótrúlega að Sölufélag garðyrkjumanna boðar til fundar með garðyrkjumönnum og telur sig ekki geta tekið þátt í þessari aðgerð og þess vegna þurfi þeir að fá ákveðinn hlut í beingreiðslunum með því að leggja kílóverð á bændur svo að þeir fái sömu krónutölu út úr sínum þætti eftir þessa kerfisbreytingu og þeir höfðu áður. Þetta mun hafa komið flatt upp á bændur á þeim fundi. Nokkrir samþykktu, einn var á móti og flestir munu hafa setið hjá. Þetta hefur verið túlkað sem samþykki garðyrkjubænda við þessari aðgerð.

Nú ber að þakka það að annað fyrirtæki sem sér um sölu á framleiðslu garðyrkjubænda, Mata, hefur tilkynnt að það muni ekki ætla að taka slíkt kílógjald af bændum og einnig hafa fulltrúar seljenda eða kaupmanna tilkynnt að þeir muni ekki ætla að breyta hlutdeild sinni.

Ég harma það að þegar það lá ljóst fyrir í nefndinni að Sölufélag garðyrkjubænda eða garðyrkjubændur hefðu gert þessa samþykkt að þá skyldi ekki gripið til neinna þeirra aðgerða í kjölfarið og neinna þeirra breytinga á frv. sem hefðu fyrirbyggt að slíkt væri hægt vegna þess að ég tel að þetta sé andfélagsleg aðgerð og henni sé í raun beint gegn frv. og aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Því hef ég lagt fram eftirfarandi brtt. um að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

,,Í tólf mánuði eftir gildistöku laga þessara er dreifingaraðilum garð- og gróðurhúsaafurða, í heildsölu og smásölu, óheimilt að hækka álagningu sína, þóknun eða umsýslugjald, hvort sem um er að ræða ákveðna upphæð á einingu eða magn eða tiltekið álagningarhlutfall.

Samkeppnisstofnun skal hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis.``

Ég vona auðvitað að brtt. verði samþykkt í þinginu vegna þess að ég held að hún væri til mikilla bóta og eftir þetta ár sem liði þá frá samþykkt hennar, lægi fyrir ákveðin reynsla af framkvæmd þessara laga og hvort það væri þá e.t.v. nauðsynlegt að endurskoða lögin með tilliti til þeirrar reynslu eða koma fram með einhverja brtt. við þau. En ég held að samþykkt garðyrkjubænda frá því í mars hafi verið til mikillar óþurftar við þetta mál og það hafi aldrei verið ætlunin að milliliðir mökuðu sérstaklega krókinn á þessari aðgerð.