Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:11:37 (8550)

2002-04-30 13:11:37# 127. lþ. 134.29 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:11]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég skrifaði með fyrirvara undir nál. um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Við erum hér með tvö frumvörp sem ganga inn í þessi lög og brtt. og þetta er 630. mál. Við erum að fjalla um breytingar sem snúa að grænmeti og eru hluti af víðtækari aðgerðum til þess að ná þeim manneldissjónarmiðum að lækka verð á grænmeti til íslenskra neytenda og með þeim aðgerðum að hvetja til aukinnar grænmetisneyslu. Það eru því manneldissjónarmið sem eru í fyrirrúmi og þeim á að ná með lækkun á þessari vöru. Of langt mál yrði að fara inn í aðra þætti sem eiga að nást með þessum breytingum en þar má m.a. nefna rauð strik. En hér eru það sem sé manneldissjónarmiðin sem ráða. Til þess að ná fram lækkun á grænmeti höfum við þegar afgreitt breytingar á tollalögum sem leiða til þess að lægri tollar verða á innflutt grænmeti, bæði útiræktuðu og ylræktuðu og til að bæta bændum upp þá vernd sem hefur þá fallið niður með afnámi tollanna. Við vorum með verndartolla á grænmeti til að gæta þess að íslenskir bændur hefðu möguleika á að vera samkeppnisfærir í verðlagi en nú koma til beingreiðslur til bænda í staðinn.

Fyrirvari minn er sá að ég efast um að þær fjárhæðir sem eiga að renna til garðyrkjubænda og ylræktarbænda með þessum breytingum séu nægilegar til þess að þeir standi uppi sem sigurvegarar, og þó ekki væri nema á jafnréttisgrundvelli gagnvart erlendum kollegum sínum, því að víða erlendis eru bein eða óbein framlög eða styrkir til bænda og auk þess eru betri skilyrði til ræktunar í heitari löndum. Á vissum árstímum þegar mikil offramleiðsla er hafa bændur erlendis möguleika á því að verðfella vöru sína það mikið að ég óttast að íslenskir garðyrkjubændur geti aldrei farið svo neðarlega með sitt verð að þeir verði í rauninni samkeppnisfærir. Þá þýðir það ekki nema eitt, að þeir verða undir, þeir muni gefast upp í framleiðslu sinni og við verðum þeim bændum fátækari í framleiðslunni.

Ég hef margoft sagt í þessum ræðustól að ég vil að við eflum íslensku framleiðsluna, ekki bara atvinnunnar vegna þó að hún skipti mjög miklu máli heldur einmitt vegna manneldissjónarmiða, að við fáum góða og heilnæma vöru. Það á auðvitað að vera markmið okkar að ná aukningunni með íslenskri framleiðslu, með aukningu innan lands og styrkja íslenska garðyrkjubændur þannig að þeir verði það samkeppnisfærir að íslenska framleiðslan nái að dafna.

Hvað varðar beingreiðslurnar til bænda, þá fengum við í hv. landbn. þær upplýsingar að þær voru reiknaðar þannig að þær ættu að duga að því tilskildu að þær rynnu alfarið og eingöngu til bænda. En þá tel ég að það hafi hreinlega gleymst að taka þann hluta inn í sem snýr að dreifingu og inn í þá milliliði sem bændur þurfa að skipta við eins og Sölufélag garðyrkjumanna því að með lægra vöruverði kemur í prósentuvís lægra umsýslugald til Sölufélagsins og þar með kom sú hugmynd um að leggja fast krónugjald ofan á hvert kíló af framleiddri vöru. Þetta eru frjálsir samningar á milli bænda og Sölufélagsins sem hv. landbn. hefur ekki aðgang að en mér sýnist að þetta styrki þá skoðun mína að greiðslurnar til bænda séu ekki nægilega háar, þetta sé hluti af því.

Því tek ég sannarlega undir þá grein sem hér kemur fram og skoðun allrar landbn. að frá upphafi hafi verið ljóst að allir í keðjunni, þ.e. frá framleiðanda til smásöluaðila, að allir í keðjunni frá framleiðanda til neytanda þyrftu að vinna saman til að lækka verðið. Það var aldrei hugmyndin að auka þátt milliliðanna, dreifingaraðilanna. Þar er það að sjálfsögðu mál bænda að fara inn í þá verðmyndun og skoða sitt félag og hvort hægt sé að dreifa vörunni með lægri tilkostnaði heldur en gert er í dag.