Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:18:53 (8551)

2002-04-30 13:18:53# 127. lþ. 134.29 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:18]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Þau tíðindi sem bárust þegar þetta frv. kom fram voru nokkuð dapurleg, að Sölufélag garðyrkjumanna ætlaði að breyta því fyrirkomulagi sem það hafði á innheimtu fyrir flutning á grænmetinu. Þess vegna kemur þessi brtt. fram hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og styð ég hana.

Það vekur líka furðu í þessu máli að ekki skuli þá vera sett ákveðið kílógjald í staðinn fyrir að það sé álagningargjald líka fyrst verið er að tala um þetta svona. Einnig skýtur skökku við að ekki skuli vera sett kílógjald á aðrar vörur sem Sölufélagið flytur, t.d. sveppi og kál. Að minni hyggju gætir mótsagna í þessu og ýtir það einmitt undir það sem fram hefur komið í málinu.

Auðvitað er þetta annars hið besta mál, að grænmetið verði niðurgreitt eins og gert er ráð fyrir. Vona ég að rauða teygjan sem sífellt er verið að tala um slitni ekki við þetta. (Gripið fram í: Það er rauða strikið.) Rauða strikið, já. Afsakið, herra forseti, ég sagði rauða teygjan. Það getur verið af því að stundum hefur manni fundist að verið sé að leika sér fram og til baka með rauða strikið. Því vaknar sú spurning, herra forseti, hvort nokkuð sé rangt að tala um rauðu teygjuna þegar verið er að koma með alls konar aðgerðir til að breyta henni í stað þess að efnahagslífið í landinu fái að stjórna þessu sjálft.