Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:51:52 (8570)

2002-04-30 14:51:52# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, VE
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki ætlað mér að tefja þetta mál lengi í umræðum. Það sem varð til þess að ég stend upp og tek til máls voru orðaskipti sem ég átti í dag í andsvari og hv. þm. Steingrímur Sigfússon kvartaði undan að ég hefði verið að misnota aðstöðu mína í andsvari til þess að koma með ákveðið innlegg í málið.

Fyrst út af sölunni vil ég segja að ég skil vel að starfsfólk Steinullarverksmiðjunnar sé hugsandi yfir þessum eigendaskiptum. Það mjög eðlilegt og hlýtur í rauninni alltaf að vera svo þegar jafnmiklar breytingar verða á eignarhaldi í fyrirtækinu eins og nú er. Á það ber hins vegar að líta að það hefur ekki verið neitt leyndarmál að ríkið hefur haft áhuga á að selja hlut sinn í verksmiðjunni. Eins og fram kom fyrr í dag lýsti þáv. iðnrh. Sverrir Hermannsson sem opnaði verksmiðjuna á sínum tíma því yfir að hlutur ríkissjóðs væri þá til sölu. Ríkið hefur þess vegna alla tíð haft áhuga á að losa sig út úr þessu.

Að því er varðar kaupendurna þá þekki ég þá að góðu einu. Þeir eru öflugir og ég vona sannarlega að þeir hafi metnað til þess að reka þetta fyrirtæki af myndarskap. Til þess hafa þeir alla burði ef þeir hafa slíkan metnað. Ég treysti því að þeir hafi þann metnað fyrir hönd fyrirtækisins að þeir geti rekið það vel. Þetta fyrirtæki hefur staðið sig framar vonum. Margt gott hefur verið að gerast í þessu fyrirtæki og það hefur hagnast vel á undanförnum árum. Því er í sjálfu sér fagnaðarefni að þetta fyrirtæki er það gott að menn fáist til þess að leggja í það fé og kaupa sig inn í það eins og hefur verið gert jafnvel þótt deila megi um verðið á fyrirtækinu. Ég treysti því að þeir menn sem eru að kaupa fyrirtækið hafi metnað til þess að standa sig í rekstrinum.

Þess má geta að BYKO hefur komið að atvinnumálum í Skagafirði áður. Það lagði fé fyrst í uppbyggingu í fiskeldi og síðan í sjávarútvegi. Allt sem það fyrirtæki hefur komið nálægt í Skagafirði hefur verið með miklum ágætum og þar hefur verið staðið vel að í alla staði. Því miður gekk ekki vel í fiskeldinu en húsnæðið og sú aðstaðan sem fyrirtækið byggði upp á sínum tíma að Reykjarhóli í Fljótum hefur nýst fyrir Hólalax og þar hefur verið rekstur í gangi lengi síðan.

Ég er hins vegar ekki sáttur við afstöðu Vinstri grænna í þessu máli og vil segja það hér ekki síst vegna þess að ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á eftir að tala. Látum liggja á milli hluta þótt hv. þm. Jón Bjarnason skyldi í gær bæði afneita þátttöku sinni í Skagafjarðarlistanum núverandi sem var settur í gang fyrir fjórum árum af Alþfl. og Alþb. Það var sameiginlegur listi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem allir helstu forkólfar Alþb. sáluga og Alþfl. sáluga stóðu að. Hann kemur svo hér í andsvari í gær og vill ekki viðurkenna að hafa kosið þennan lista í kosningunum, fer að tala um að enginn viti hvað hver gerir og neitar allri ábyrgð á listanum. Látum það líka liggja á milli hluta að hv. þm. neitaði því í gær að hafa tekið þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir síðustu alþingiskosningar. Hann neitar því flatt út þrátt fyrir allir norður í Skagafirði og Norðurl. v. hafi séð þetta og fullt af fólki hafi kosið hv. þm. í prófkjöri Samfylkingarinnar. Hv. þm. Þuríður Backman hristir höfuðið yfir þessu. En þetta var samt þannig. (SvH: Fullt af því.) Það var töluvert af fólki, já. Hann lenti í góðu sæti. Hann lenti að vísu ekki nægilega ofarlega á listanum til þess að vera ánægður. Hann stefndi á fyrsta eða annað sætið en náði því ekki. Metnaði hans til þess að komast á hið háa Alþingi var ekki fullnægt í þessu prófkjöri. Þess vegna söðlaði hann um og fór í framboð með Vinstri grænum í staðinn. En hann tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar (Gripið fram í: Litlu verður Vöggur feginn.) og hann væri maður að meiri að viðurkenna það hér að hafa tekið þátt í þessu prófkjöri en ekki vera að sverja það allt saman af sér eða afneita því. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Svaraðu því.)

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir tók þátt í þessu prófkjöri með hv. þm. Jóni Bjarnasyni. (AKG: Hann svaraði þessu ... sem ég var að tala um.) Hann svaraði þessu ekki, kallar hv. þm. fram í. En þannig vill til að ég er með útskrift af því sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði í andsvari í gær. Hér segir hv. þm. í þessari útskrift, með leyfi forseta:

,,Að vera svo að draga allt aðra þætti inn sem skipta ekki máli --- ég fór ekki í prófkjör fyrir Samfylkinguna`` --- segir hv. þm. Jón Bjarnason í gær --- ,,ég fór ekki í prófkjör fyrir Samfylkinguna ef það er málið, ég fór í prófkjör fyrir Alþýðubandalagið á sínum tíma.``

Hv. þm. fór aldrei í prófkjör fyrir Alþb. Alþb. var ekki með neitt prófkjör fyrir síðustu alþingiskosningar. Það var Samfylkingin sem var með þetta prófkjör. Að koma svo hér og halda að hann geti sagt einhverja svona vitleysu og að ekki séu gerðar neinar athugasemdir við það, ég verð bara að viðurkenna að ég skil það ekki. En látum þetta allt liggja á milli hluta.

Það sem mér gremst af hálfu þingmanna Vinstri grænna --- og það á ekki bara við um hv. þm. Jón Bjarnason --- er að í atkvæðagreiðslunni fyrr í dag eftir að fyrir lá að búið var að samþykkja fyrri efnismálsgrein 1. gr. frv., að ríkið var búið að fá heimild til þess að selja hlutabréfin, þá voru greidd atkvæði gegn síðari efnismálsgrein 1. gr. frv. sem sneri að því að nota mætti hluta af andvirði sölunnar til framfaramála í Skagafirði. Eftir að fyrir liggur að salan á sér stað þá eru greidd atkvæði gegn því að nota peningana fyrir norðan. Það gremst mér. Ég verð að segja það. Ég skil ekki af hverju þingflokkur Vinstri grænna greiðir atkvæði gegn því að nota þessa peninga fyrir norðan þegar fyrir liggur að peningarnir munu koma í ríkissjóð. Er það kannski betra fyrir Vinstri græna að þessir peningar komi aldrei norður? Er það eitthvað betra fyrir Vinstri græna að þeir renni beint í ríkissjóð og nýtist ekkert sérstaklega í Skagafirði? Er það það sem hv. þingmenn Vinstri grænna vilja? (Gripið fram í.) Nákvæmlega hér er tækifæri til þess að nota þessa peninga nú í sumar, til þess að eyða þeim norður í Skagafirði. Eina raunhæfa leiðin til þess að eitthvað verði gert fyrir þessa peninga núna á þessu ári er að samþykkja þessa síðari efnismálsgrein, heimildina (Gripið fram í.) sem tengist þessu. Það er enginn annar raunhæfur kostur nema að samþykkja þetta til að sjá hluti gerast í Skagafirði fyrir þessa fjármuni á þessu ári. Það stendur ekki til og hefur ekki staðið til annað en að fylgja þeim fjárlögum sem samþykkt voru fyrir ári. (ÁSJ: Af því að þið eruð í meiri hluta þá er þessi staða.) Já, af því að við erum í meiri hluta þá er þessi staða, segir hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. En það vill bara til að við stöndum frammi (Gripið fram í.) fyrir því núna að fjárlög eru samþykkt. Svo kemur allt í einu möguleiki á því að fá meiri peninga inn á svæðið. Hv. þingmenn voru ósammála (Gripið fram í.) aðferðinni en þeir eru líka á móti því að peningarnir komi inn á svæðið.

Hvernig verður það nú þegar þessir peningar hafa nýst til framfara t.d. í samgöngumálum? Það verður gaman þegar hv. þingmenn fara að keyra einhvern vegarspotta sem verður til fyrir þennan pening. Þá munu þeir berja sér á brjóst: ,,Ég var á móti þessum vegi.`` Eða hvernig verður það þegar einhver önnur framfaramál hafa náð fram að ganga í héraðinu, (Gripið fram í.) t.d. ef þessir peningar skyldu nýtast á Hólum? Þá lítur það þannig út frá mínum bæjardyrum séð að það sé bara kominn einhver ákveðin afbrýðissemi í gang, það megi ekki koma með peninga á miðju ári norður í Hóla af því að þeir séu eitthvað illa fengnir. Hvernig skyldi það vera ef hv. þm. Vinstri grænna eru á móti einhverjum skatti og finnst það vera slæmur skattur og peningarnir komi inn í ríkissjóð með einhverjum leiðinlegum hætti, ætla þá þingmenn Vinstri grænna að taka upp þá stefnu að það eigi helst ekki að nota þá peninga, ekki nokkurn skapaðan hlut, það eigi helst ekki að verja þeim hvorki til góðra mála né slæmra, bara safna þeim inn á bók? Ég bara skil ekkert í þessari afstöðu. (Gripið fram í.) Þessi afstaða er ekki til sóma fyrir hv. þingmenn Vinstri grænna, þ.e. að leggjast gegn framfaramálum í héraði í Skagafirði með því að greiða atkvæði gegn því að þessir peningar fari norður í Skagafjörð. Mér finnst það hryggilegt. Mér finnst þetta ekki beysin afstaða. Ég verð bara að viðurkenna að ég er alveg gáttaður.