Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:07:34 (8573)

2002-04-30 15:07:34# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Brýnar framkvæmdir í opinberum málum bíða úti um allt land. Það er að sjálfsögðu gott að fá fjármuni til þeirra og allir fagna því en við höfum reist afstöðu okkar á því að í fyrsta lagi sé þessi tenging í málinu óeðlileg og þetta séu óeðlileg vinnubrögð. Það væri líka fróðlegt að spyrja hv. þm. um rökin fyrir því að ráðstafa þessum tekjum ríkisins sérstaklega í þessu byggðarlagi. Þau eru þá væntanlega að óvissa skapist í málefnum fyrirtækisins sem geri það að verkum að það sé rétt að verðlauna þetta byggðarlag sérstaklega umfram önnur þar sem brýnar og þarfar framkvæmdir bíða líka. Einhver tenging hlýtur þarna að vera því að venjan er ekki sú að eyrnamerkja tekjur vegna eignasölu ríkisins nákvæmlega því sveitarfélagi sem t.d. höfuðstöðvar viðkomandi fyrirtækis eru í. Væru menn t.d. ánægðir með að Reykjavíkurborg fengi allt söluandvirði Landsbankans ef hann yrði seldur af því að hann hefur höfuðstöðvar hér? Ég held að þá verði bara að fara yfir það. Hver er tengingin? Ef hún er sú að vegna þess að ríkið dregur sig út úr fyrirtækinu skapast óvissa um framtíð þess í héraði verða menn þó a.m.k. að viðurkenna þann þátt málsins.

Að hinu leytinu teljum við að um opinberar framkvæmdir eigi að gilda þau lög og þær reglur sem almennt gilda.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er til sölu og hefur lýst því yfir opinberlega að hann hafi verið til sölu í þessu máli. Vegna þess að helmingur söluandvirðisins eigi að fara í byggðarlagið eða á þessar slóðir ætlar hann að styðja málið. Þá langar mig að spyrja hv. þm.: Hefði verið hægt að kaupa hann fyrir minna? Hefðu honum kannski dugað 50 millj.? Hversu ódýr er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þegar kemur að kaupskap af þessu tagi, að hann gengur yfir sannfæringu sína í málum, viðurkennir það en réttlætir með þessum ömurlega hætti að úr því að gulrót er veifað í hinn endann sé hann til kaups? Hefði bara ein gulrótarsneið verið nóg, sætt hv. þm. Vilhjálm Egilsson við þetta mál og hann þar með verið falur?