Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:19:10 (8579)

2002-04-30 15:19:10# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það gerist stundum þegar menn eru komnir í mikil vandræði, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, að þeir virðast festast í vítahring, fara úr öskunni í eldinn og staða þeirra versnar við hverja einustu ræðu sem þeir reyna að flytja máli sínu til varnar. Ég held að þessi ræða hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, félaga okkar hér á þingi, sé einhver sú ómerkilegasta sem ég hef heyrt hann flytja um dagana --- eiginlega alveg örugglega. Ég fullyrði það.

Þessi síðasta aðdróttun í garð hv. þm. Jóns Bjarnasonar var t.d. merkileg. Hvað hefur hv. þm. Jón Bjarnason gert sérstaklega á hlut Vilhjálms Egilssonar sem gerir það að verkum að hann telur sér sæmandi að fara að honum með aðdróttunum af því tagi sem hann gerði hér? Ætli Skagfirðingar viti ekki betur? Ætli þurfi ekki meiri mann en Vilhjálm Egilsson, þó að hár sé í loftinu, til þess að sannfæra þá um að Jón Bjarnason hafi verið sérstakur dragbítur á uppbyggingu og framfarir í Skagafirði? Ætli þeir sem þekkja til uppbyggingarinnar á Hólastað viti ekki betur, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson?

Ég held það. (VE: Er útlit manna orðið til umræðu hér?) Það er greinilegt að hv. þm. er mjög órótt og það skil ég, enda í mikilli vörn í máli sínu. (VE: En er útlit manna orðið að umræðuefni hér?) Nei, það á auðvitað ekki að gera það að umtalsefni. Ég biðst velvirðingar á því ef hv. þm. hefur tekið það nærri sér sem ég sagði um það. En hitt stend ég við, að ummæli hans voru einstaklega ómakleg og ómerkileg í garð hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Ég held að það dæmi sig alveg sjálft, þegar menn eru komnir í þvílík vandræði sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hér áðan, er hann fór að rifja upp atburði úr persónulegri pólitískri sögu viðkomandi einstaklings og reyna að draga hana inn í algerlega óskylt mál. Ég held að hv. þm. hafi ekki tekist með neinum hætti að sýna fram á að að hefði einhver efnisleg tengsl við þessa umræðu. Eða hefði það mikið upp á sig að fara að velta fyrir sér pólitískri fortíð Vilhjálms Egilssonar, prófkjörsglímum hans við hv. fyrrv. þm. Hjálmar Jónsson sem hv. þm. tapaði reyndar eins og kunnugt er. Hvað hefði slíkt upp á sig? Auðvitað ekkert. Það er pólitísk sagnfræði sem getur kannski átt við við einhverjar vissar kringumstæður en á ekkert erindi inn í efnislegar umræður um mál af þessu tagi þar sem menn ættu auðvitað að reyna að ræðast við með rökum og gagnrökum. Slík umræða sýnir bara að menn eru komnir í algert rökþrot. Menn eru í þvílíkum hengjandi vandræðum með sjálfa sig, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er hér, að þeir grípa til svona örþrifaráða og gera bara illt verra með því.

Herra forseti. Það er fyrst og fremst tvennt sem við höfum lagt áherslu á í þessu máli. Það er burðarásinn í þeirri afstöðu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum tekið í sambandi við þetta mál. Annars vegar teljum við óskynsamlegt, ekki rétt, að ríkið fari út úr eignarhaldi á verksmiðjunni við núverandi aðstæður og auki á þá óvissu sem skapast af því að sveitarfélagið telur sig knúið til að losa sinn hlut. Hitt er að við erum andvíg þeirri uppsetningu mála sem hér er fram sett, að hluta af söluandvirðinu eigi að veifa framan í menn á þessu svæði til einhverra óskilgreindra opinberra framkvæmda samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar. Slíkri uppstillingu mála höfnum við auðvitað og þar sem þetta er einn pakki erum við auðvitað á móti málinu sem slíku með nákvæmlega sama hætti og við snerumst ekki til stuðnings við einkavæðingu Landssímans þótt reynt væri að halda því að fólki að þar með kæmu peningar í ríkiskassann sem unnt yrði að nota í opinberar framkvæmdir. Við erum ekki til sölu með þeim hætti, ef við tökum (Iðnrh.: Hvernig er með Kísiliðjuna, hvernig stendur með hana?) grundvallarafstöðu til mála af þessu tagi.

Hæstv. iðnrh. þekkir nú vel þær mjög svo sérstöku aðstæður sem voru uppi í sambandi við málefni Kísiliðjunnar. Ég skal bara fara yfir það úr því að hæstv. ráðherra vill gjarnan fá að heyra það. Þannig var að það var fullkomin tvísýna um hvort það fyrirtæki yrði starfrækt nema í fáein ár í viðbót, það vissu allir. Þá kemur upp tækifæri sem er mjög sérstakt, að gegnum aðkomu nýs eignaraðila gefst tækifæri á að breyta eðli starfseminnar og fara yfir í vinnslu á aðfluttu hráefni þannig að umdeildri dælingu úr Mývatni lyki. Það var alveg ljóst að sá möguleiki á að skapa þarna tryggan framtíðarvinnustað var bundinn við að fara inn í þetta samstarf. Það setti auðvitað þá sölu og þá breytingu á högum fyrirtækisins í allt annað samhengi. Þvert á móti var þar í boði mögulega trygg framtíð fyrir fyrirtækið sem annars var í mikilli óvissu, öfugt við það sem hér gerist, (Iðnrh.: Peningarnir nýttust.) að ríkið skapar mikla óvissu með því að hverfa frá fyrirtækinu með þessum hætti.

Hins vegar kann að vera að menn hefðu átt að standa öðruvísi að því að ákveða hvernig farið væri með þá fjármuni, sem voru náttúrlega mjög takmarkaðir samanborið við þetta, sem menn hugðust verja til atvinnuuppbyggingar á því svæði. Það hafði reyndar löngu verið gert að stofna sérstakan atvinnuþróunarsjóð, Kísilgúrsjóð, sem í runnu ákveðnir fjármunir frá því fyrirtæki.

Ég hygg nú að þó að Steinullarverksmiðjan sé mikilvæg í atvinnulífi Skagafjarðar og nágrennis sé ólíku saman að jafna þeirri umbyltingu á samfélagslegum högum sem ríkið með uppbyggingu Kísiliðjunnar skóp á sínum tíma í Mývatnssveit, þar sem íbúatalan meira en tvöfaldaðist með tilkomu þessa eina fyrirtækis. Það er náttúrlega svo algerlega yfirgnæfandi að samfélagið yrði tæpast samt eftir ef sá vinnustaður hyrfi einfaldlega af yfirborði jarðarinnar. Þess vegna hafa sanngjarnir menn allan tímann, í þeirri umræðu, viðurkennt þá miklu ábyrgð sem ríkið ber á þeim aðstæðum sem þar sköpuðust. Ríkið ber vissulega að sínu leyti ábyrgð á Sauðárkróki líka vegna þess að það breytir atvinnulífi og hagsmunum byggðarlaga þegar stórir vinnustaðir eru settir upp með þessum hætti. Það eru að sjálfsögðu rök fyrir því að ríkið eigi ekki að hlaupa frá þeim. Ríkið ber þar töluverða ábyrgð með inngripi sínu í þróun viðkomandi svæða.

Herra forseti. Auðvitað er mjög margt fleira ámælisvert í sambandi við málsmeðferðina hér. Ég hef gagnrýnt það mjög harðlega og spurt að því endurtekið. Sama hefur hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gert. Aldrei hafa komið nein svör. Ráðherra og stjórnarþingmenn og aðrir aðstandendur málsins forðast ævinlega að svara því hvers vegna ríkið hafnaði því, eitt eða ásamt hinum eignaraðilunum, að kaupa til sín hlut sveitarfélagsins þegar það fór fram á það snemma vetrar. Þá voru málin sett í þann farveg sem við stöndum frammi fyrir. Ég veit ekki til þess að það hafi verið ósk Sveitarfélagsins Skagafjarðar að ríkið seldi sinn hlut. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið sett fram sem sérstök ósk af hálfu sveitarfélagsins. Þvert á móti óskar sveitarfélagið eftir viðræðum við ríkið um að ríkið kaupi hlut þess. En því tilboði hafnar ríkið í nóvember, í aðdraganda þess að málin fara í þann farveg sem þau eru nú komin í.

Þetta er náttúrlega áleitin spurning sem er auðvitað með öllu ólíðandi að hæstv. ráðherra skuli víkja sér undan að svara. Hvers vegna léði ríkið ekki einu sinni máls á viðræðum um að koma að því með hinum stóru eigendunum, eða með einhverjum hætti, að leysa til sín hlut sveitarfélagsins úr því að skuldsett sveitarfélagið sá sig knúið til að losna þarna fé? Hvers vegna gat ríkið ekki látið það duga í bili, sem breyting á fyrirtækinu og röskun á högum þess? Málið er sett í allt annan farveg og í miklu meira uppnám með því að ríkið hafnar þessu. Ríkið sem er stærsti einstaki eignaraðilinn og kjölfestueignaraðili í fyrirtækinu hafnar því að málið sé unnið þannig. Þar gátu ýmsir möguleikar komið til greina, allt frá því að ríkið segði sem svo: Við erum ekki tilbúin til að auka okkar eignarhlut en við skulum halda okkar hlut áfram ef aðrir eru tilbúnir til að taka sitt. Ríkið gat eins sagt: Við erum til í að kaupa að okkar hluta 30% af hlut sveitarfélagsins þannig að eignarhlutur okkar fari upp í 35--40% en þá verða aðrir að koma á móti okkur í kaupunum.

Þriðji kosturinn var sá sem ég hefði talið að ríkið hefði vel getað gert ef annað var ekki í boði, þ.e. einfaldlega að leysa til sín svo til að öllu leyti þennan 24% eignarhlut sveitarfélagsins. Það hefði að vísu haft þann ókost í för með sér að margra mati að ríkið hefði orðið meirihlutaeigandi en það gat t.d. boðið upp á það, til að létta róðurinn, að fara í 49% og kaupa að mestu leyti hlut sveitarfélagsins, þó ekki væri nema um sinn, og áskilja sér svo rétt til þess að lækka sinn eignarhluta á nýjan leik, t.d. með því að reyna að losa bréf og láta þau fara á almennan markað. Með einhverri blöndu af þessum leiðum mátti gera þetta þannig að lágmarksröskun yrði á stöðu fyrirtækisins. Þessar áhyggjur og deilur í héraði hefðu þannig aldrei þurft að koma upp. Það er ríkið sem lokar þessari leið með því að hafna henni í haust eða snemma vetrar. Þannig liggur málið fyrir.

Hæstv. ráðherra þegir þunnu hljóði þegar spurt er að þessu: Hver eru rökin fyrir því að standa svona að málum? (Iðnrh.: Ég er margbúin að útskýra þetta.) Á sama tíma og ríkið er til í að kaupa hlut sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða og tilbúið í að skutla út 20 þús. millj. kr. ríkisábyrgð vegna eins húss hérna í Vatnsmýrinni, virðist ríkið ekki geta lagt það af mörkum til að treysta stöðu þessa fyrirtækis þarna, í gegnum þær breytingar eru þá að verða á þess högum, að halda eignarhlut sínum eða taka þátt í því að leysa til sín hlut Sauðárkróksbæjar.

[15:30]

Síðan hefði þá að mínu mati verið miklu heppilegra að reyna að stofna til dreifðari eignaraðildar að þessu fyrirtæki, setja það á markað og athuga hvort almenningur væri áhugasamur um að fjárfesta í því. Það gat þá gerst í rólegheitum eða ríkið hefði farið þá leið sem það þykist vilja halda sig við samkvæmt lögum og reglum, að auglýsa bara einfaldlega opinberlega til sölu einhver bréf og byrja þannig að stofna til virks hlutabréfamarkaðar með bréf í þessu fyrirtæki.

Herra forseti. Það er líka alveg stórkostlegt að sjá hæstv. ráðherra --- í hlut á nefnilega líka hæstv. viðskrh., yfirmaður samkeppnismála í landinu --- yppa öxlum yfir þeirri staðreynd að þetta mál er til skoðunar, kauptilboð þessara hagsmunaaðila í byggingariðnaði sem hafa samtals nánast algerlega markaðsráðandi stöðu í verslun með allar byggingarvörur í landinu. Það er til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum. Þá segir hæstv. ráðherra: Þetta er allt með fyrirvara um að þar komi grænt ljós. Þar er ekki verið að fara fram á að fá niðurstöðu í málinu eða óska eftir forúrskurði eða öðru slíku og koma svo til Alþingis og leggja málið fullbúið fyrir þingið þannig að menn geti tekið afstöðu. Og þá átti auðvitað Alþingi að taka ákvörðunina og þá eiga þetta ekki að vera heimildarlög heldur einföld ákvörðun, annaðhvort um sölu eða ekki sölu á verksmiðjunni, og síðan á að ráðstafa þeim fjármunum samkvæmt venjubundnum leiðum á Alþingi. Með því er ekki útilokað að einhver hluti þeirra fari sérstaklega inn á þetta svæði. Það er ekki það sem við höfum sérstaklega sett fótinn fyrir heldur sú afbrigðilega málsmeðferð sem hér er uppi höfð. Hæstv. ráðherra rýkur í fjölmiðla og boðar að þegar þessir fjármunir komi telji hún að þeir eigi að fara í tiltekna vegarspotta.

Þetta eru auðvitað alveg ólíðandi vinnubrögð. Við getum meira og minna hætt að hafa vegáætlun, fjárlög og aðrar slíkar skipulagðar aðferðir við að taka ákvarðanir og ráðstafa fjármunum hins opinbera ef menn láta sér alltaf lynda þessi vinnubrögð. Það er þannig. Þá er í raun og veru lafstutt í að bara ein heimildarlög á ári verði afgreidd, ríkisstjórnin geri það sem henni sýnist, setji peninga í það sem henni þóknast og fari með allt að eigin geðþótta. Heimildarlögin eru mjög í tísku núna, samanber deCODE-málið. Það eru líka heimildarlög, 20 þús. millj. kr. óútfyllt ávísun handa fjmrh., og þær gerast ekki öllu gildari nú um stundir.

Þá, herra forseti, er ríkisstjórnin náttúrlega algerlega berrössuð hvað það varðar að hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. iðn.- og viðskrh. hafa getað haldið uppi neinum vörnum gagnvart því að lögunum og reglunum um sölu eigna ríkisins er ýtt til hliðar. Það á ekki að gera samkvæmt þeim ákvæðum nema mjög sérstakar og ríkar ástæður séu til að ekki sé farið að með hinum venjubundna hætti, að láta óháðan aðila meta, að auglýsa opinberlega til sölu og gefa almenningi kost á að bjóða í. Þessi málsmeðferð, herra forseti, er öll ámælisverð. Það segir sig alveg sjálft. Og hversu mikið sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og málsins --- því miður hafa einstöku samfylkingarþingmenn gengið undir það jarðarmen líka --- reyna að snúa út úr málflutningi þeirra tveggja þingflokka sem hafa andæft í málinu blasa hinar efnislegu forsendur við. Ég er ekkert hræddur um það mál í hinni almennu umræðu meðal almennings og ekki heldur í Skagafirði því að ég spái því að í Skagfirðingum sé sá metnaður að þeim þyki ekki sniðugt að það eigi að reyna að stilla þeim upp með þessum hætti, með byssuna í annarri hendinni og dollarabúntið í hinni og menn eigi að láta sig fyrir slíku.

Hvar endar það, herra forseti, ef menn halda áfram inn á þessa braut, að farið verði að líta á það sem sjálfsagðan hlut að taka verðmæti sem koma í ríkissjóð vegna hinnar eða þessarar eignasölu og eyrnamerkja það einhverjum einstökum, sérstökum framkvæmdir? Sama gildir þá um þau byggðarlög þar sem ríkið á einhver verðmæti til að selja. Eiga þau þá að njóta ein en hin, þar sem engu slíku er til að dreifa, sitja eftir með sárt ennið og fá ekki neitt? Heldur ekki hæstv. iðn.- og viðskrh. að það sé mönnum á Vestfjörðum eða á norðausturhorni landsins alveg óskapleg huggun þegar þeir bíða ár eftir ár með sína vegarspotta ef þetta á að verða niðurstaðan? Nákvæmlega það sama var uppi á teningnum þegar átti að fara að reyna að gylla það fyrir mönnum, ekki síst landsbyggðarfólki, sem höfðu miklar efasemdir og réttmætar eins og reynslan hefur sýnt um bröltið með Landssímann og bankana. Mönnum var talin trú um að það yrði þeim til framdráttar en annað hefur nú komið á daginn. Þá átti að reyna að gera gott úr því og fá menn til að kokgleypa einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar út á það að peningarnir ættu að fara í einhverja framkvæmd, vegaframkvæmdir, jarðgangaframkvæmdir eða annað því um líkt. Þetta er ekki skynsamleg nálgun og menn ættu a.m.k. að vera menn til þess að ræða málefnalega hvort þeir vilja fara út á þessa braut því hvar ætla menn þá að stöðva sig af.

Ef einhverjar framkvæmdir eru þarfar og brýnar og þær á að kosta af opinberu fé á að taka um það ákvörðun sem slíka. Ætlum við að ráðast í þær nú? Ríkið er ekki þannig á vegi statt, sem betur fer, að það eigi ekki fyrir nokkrum kílómetrum af vegum nema selja til þess eignir. Sem betur fer er ekki svo illa komið en því á að halda algjörlega aðskildu. Enda koma tekjur vegna eignasölu kannski stundum inn í stórum gusum og síðan líða ár meðan ekkert kemur og það er beinlínis heimskulegt að ætla að fara að miða framkvæmdarstigið í almennum opinberum framkvæmdum ár frá ári við það hvort nákvæmlega á því ári kemur eitthvað í ríkiskassann eða ekki. Það er gjörsamlega út í hróa hött. Ef ríkið gæti kannski eftir einhver ár selt allan eignarhlut sinn í Landsvirkjun á einu bretti fyrir 40 milljarða, á að eyða því á því ári? Væri það gáfuleg pólitík? Það mundi heldur betur hrikta í þá. En síðan kannski næstu fimm ár á eftir eða tíu ár þar á undan hefði ekkert komið inn. Á þá ekkert að gera þau ár?

Nei, herra forseti, það sjá auðvitað allir að þetta er út í loftið. Þetta eru pólitískir loftfimleikar sem á að afhjúpa. Ég nenni ekki að standa í að ræða svona. (Gripið fram í: Ætlarðu ekki að hætta þá?) Það er alveg sama þó að kempur komi hingað og ætli að hræða mann með því að einhverjir hverfi frá stuðningi í Skagafirði eða annars staðar. Ég hef ekki nokkrar minnstu áhyggjur af því né mundi ég láta það ráða afstöðu minni. Það væri ómálefnalegt og heldur ódýrt. Það er alveg ömurlegt að sjá menn koma upp og viðurkenna upp á sig kaupskapinn með þeim hætti sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði áðan. Það er satt best að segja eitt af því allra dapurlegasta sem maður getur lent í á þessari samkomu, að verða vitni að slíku. Og ríkisstjórnin er að reyna að bjóða mönnum upp í þennan dans með þessari lágkúrulegu framsetningu mála, með þessari lágkúrulegu tengingu tiltekinna opinberra framkvæmda við söluandvirði sem komi inn vegna hluta af eignarhlut ríkisins í þessari verksmiðju. Það er auðvitað á allan hátt alveg fráleitt, herra forseti.

Krónurnar þekkjast heldur ekki í sundur eins og ég hef stundum minnt menn á. Ég held að kannski sé einfaldast að afhjúpa þennan blekkingarleik með því að benda á að krónurnar þekkjast ekki í sundur þegar þær eru komnar í kassann. Þó að, þegar eða ef þessar 200 millj. eða hvað þær eru margar mundu skila sér í kassann hjá hæstv. fjmrh. Geir Hilmari Haarde í ár verða þær alveg nákvæmlega eins og það verður ekkert sérstakt skarð í þeim krónum sem munu hafa komið inn fyrir söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar. Þær verða bara eins og hverjar aðrar krónur og þekkjast ekki frá hinum sem komu inn fyrir virðisaukaskatt eða með einhverjum öðrum hætti. Allt eru þetta í raun og veru loftfimleikar, herra forseti. Svona eyrnamerking hefur ekkert upp á sig. Það er dálítið fyndið að helstu talsmenn þessara mála núna eru þeir hinir sömu og vildu afnema alla eyrnamerkta tekjustofna. Það ætti ekki að vera þannig. Það ætti ekki að innheimta sérstaka tekjustofna sem væru merktir tilteknum verkefnum. Muna menn ekki eftir þessum ræðum? Þetta var hluti af hátíðarræðuhöldunum, gott ef þetta kom ekki eitthvað við sögu þegar menn voru að ræða hér um kaffipakkalýðræðið á sínum tíma, og hluta af ræðunum í uppgjörinu við fortíðarvandann á þeim dögum þegar Alþýðuflokkurinn var í ríkisstjórn með Sjálfstfl. Þá átti heldur betur að brjóta í blað í öllum þessum málum. Þá var eitt af því sem um voru haldnar innblásnar ræður á Alþingi að ekki mætti innheimta svona eyrnamerktar tekjur í Framkvæmdasjóð fatlaðra eða Framkvæmdasjóð aldraðra eða annað slíkt því að allar slíkar eyrnamerktar tekjur væru vondar, það ætti bara að fara út með þetta allt og allt ætti að afgreiðast á almennum forsendum gegnum ríkissjóð.

Það er með þetta eins og fleira, prinsippin eru hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki föst í hendi þegar á þarf að halda. Þetta er bara alveg eins og með ríkisábyrgðina og sértæku aðgerðirnar sem allar áttu að heyra sögunni til. Þegar það hentar er þessu öllu vikið til hliðar. Nú er allt í einu uppi þessi nýja tegund af eyrnamerktum tekjustofnum. Sala tiltekinna ríkiseigna á að fara í tilteknar framkvæmdir, ekki samkvæmt ákvörðunum Alþingis, nei, heldur eftir því sem hæstv. ráðherrum þóknast að ákveða við ríkisstjórnarborðið eða í einhverjum bakherbergjum þegar þeir eru að gera kaupskapinn, herra forseti. Þetta er alveg óbrúkleg aðferðafræði hér, herra forseti, og það eru allar forsendur til þess að hafna þessu máli eins og það er hér fram borið. Það er aðstandendum sínum til lítils sóma.