Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 16:31:09 (8593)

2002-04-30 16:31:09# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SvH
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Nei, það var svo sem auðvitað að hér væri formaður hv. sjútvn. ekki að bera fram tillögu sem neinu máli skipti um gerð þessa máls. Er það auðvitað í framhaldi af öllu öðru enda hefur ekkert verið borið fram um íslenska fiskveiðistjórn sem neinu teljandi máli tekur frá því að þessi ólög voru sett. Við tökum hér til við að ræða enn á ný um þessi mál, íslenska fiskveiðistjórn, sem veðurstofustjóri hafði þessi orð um, með leyfi forseta:

,,Ég tel fiskveiðistjórn síðasta áratugar mesta samfélagslega ógæfuverk sem framið hefur verið í sögu þjóðarinnar.``

Ástæða væri til að fara yfir þetta svið og rifja upp forsögu málsins. Ég mun þó ekki gera það í neinu ítarlegu máli. Hér er nóg troðið, eins og Jón Hreggviðsson sagði undir hanganum á sínum tíma. En ef við hverfum ekki aftar en til ársins 1999 í aðdraganda kosninga brá landsfundur Sjálfstfl. á það ráð að láta svo sem stjórnvöld væru tilbúin til sátta í þessu máli. Búið var til kosningaprógramm þar sem því var lofað að sættir yrðu fundnar í þessu veigamesta máli íslensks þjóðarbúskapar. Undir þetta gengu fjölmiðlar og var fullyrt að nú þyrfti þetta mál ekki frekari umræðu eða umsýslu, búið væri að lofa sáttum. Að vísu var þess getið í smáa letrinu hjá herrunum að þeir væru ekki þar með að lofa að þessu máli yrði breytt í grundvallaratriðum en við því lögðu engir menn eyru. Þess vegna var kosið með þá fullvissu fyrir framan að fundin yrði bót á þessum dæmalausu lögum. Allt reyndust það gylliloforð, allt reyndust það bein kosningasvik eins og komið hefur á daginn allar götur síðan, og eru nú liðin rúm þrjú ár frá því að þessi loforð voru gefin.

Við skulum víkja örfáum orðum að tilgangi þessa kerfis ef það er rifjað upp fyrir fólki. Tilgangurinn var í fyrsta lagi að efla vöxt og viðgang fiskstofna. Hvernig hefur til tekist um þennan höfuðtilgang? Með þeim hætti að botnfisksaflinn hefur stórlega skroppið saman, þorskaflinn úr því sem hann var, t.d. á árunum 1950--1972, 438 þús. tonnum niður í það sem nú er verið að veiða, 160 þús. tonn eða svo. Það eru nærri því órækar sannanir komnar fyrir því að þetta kerfi sé að ganga af stofninum dauðum, einkum og sér í lagi þorskinum, hvorki meira né minna. Raunar hafa allar botnfiskstegundir látið stórlega á sjá. Þannig hefur orðið niðurstaða af þessum höfuðtilgangi fiskveiðilagakerfisins að sjá um vöxt og viðgang fiskstofna.

Annar höfuðtilgangur kerfisins var að stuðla að stórfelldri hagræðingu í útgerð. Enn er klifað á því, nákvæmlega sama hvaða staðreyndir menn hafa fyrir augum. Þótt menn bendi á hina stórfelldu skuldasöfnun sjávarútvegsins hrín það ekki á þeim sem undir þessu kerfi ganga. Þótt fyrir liggi að lunginn úr sjávarútvegsfyrirtækjum Íslands hefði gengið fyrir ætternisstapa ef ekki hefði komið til stórfelld gengisfelling láta menn sem ekkert sé og leggja ekki við hlustir. Þetta er samt niðurstaðan af kerfinu, og skuldaaukningin gífurleg vegna þeirra fjármuna sem menn hafa farið með út úr kerfinu, stungið í eigin vasa af þjóðarsameigninni og varið til annarra hluta eða stolist með af landi brott, skattfrjálst eins og því var komið fyrir á sínum tíma. Hin stórfellda hagræðing blasir þess vegna við mönnum og hefur gert.

Núna eru að vísu stærstu fyrirtækin að maka krókinn, til að mynda hefur ÚA sem nú er orðið í eigu Eimskips, burðarás þar, skilað meira en hálfum milljarði á þremur fyrstu mánuðum þessa árs. Reynt er að dylja hverjir það eru sem borga við gengisfellinguna til útflutningsatvinnuveganna. Ætti það þó ekki að vefjast fyrir neinum. Það er íslenski neytandinn sem reiðir þá fjármuni alla af höndum.

Svo kemur eitt skrautflaggið herranna. Tilgangurinn með kerfinu var að efla byggð í landinu og treysta búsetu. (GE: Það fer nú bara á einn veg hjá þeim. Það fækkar í dreifbýlinu.) Já. Hv. þm. Gísli Einarsson ber hér vitni um hvernig þetta hafi gengið til. Það geta allir aðrir líka gert. Þetta blasir við öllum mönnum og þeir sem þessu stjórna og bera ábyrgð á því gera þetta með opin augu. Allt annað tal er fals. Þeir eru fyrir löngu búnir að gera sér grein fyrir því til hvers þetta leiða muni enda eru dæmin óræk. Önnur eins öfugmæli hafa aldrei hljómað í íslenskri málafylgju og þau að þessi fiskveiðilagagerð eigi að efla byggð í landinu og tryggja búsetu.

Enn eitt. Höfuðmarkmið var að minnka fiskiskipaflotann. Hvað segja sannanir til um það? Hingað sigla til landsins á færibandi skip byggð í Kína, mjög nákvæmlega hönnuð, upp á sentímetra þannig að þau geta komið með trollið sitt inn að 4 mílunum og skarkað þar með miklu vélarafli. Það hafa orðið stórkostlegar aukningar í flotanum og líka vélarafli til að menn geti komist yfir fiskislóðina með þessum heljartrollum og gengið brátt af botnfiskinum dauðum eins og allt bendir til og allt stefnir í. Hvað skyldi til þurfa að menn vakni af þessari óráðsíu? Ár eftir ár, og líka nú í þeim rannsóknum sem Hafrannsóknastofnun hefur gert, bendir allt til þess sama, allt stefnir á sama veg. Menn ætla samt sem áður að þráast við og ætla sem sé að láta þetta allt saman fara fram af brúninni.

Einn með öðrum af megingöllum þessa kerfis er hið ógnarlega brottkast afla. Fréttir frá Chile nýverið sögðu frá kvótasetningu þar og þá brá svo við að helmingi aflans var fleygt. Menn komu ekki með annað að landi en það sem verðmætast var. Þetta er innbyggt í kerfið eins og menn sjá og reynslan sannar okkur. Hversu oft hefur ekki verið farið yfir það að ekki berst lengur að landi dauðblóðgaður fiskur þótt nýju netin drepi 40% af öllum fiski á fyrstu nóttu? Við höfum óræka vitnisburði um þetta þannig að allt tal um 20--30 þús. tonna brottkast er út í hött. Brottkastið er ógnarlegt. Það hefur meira að segja gengið svo langt að skip hafa komið með hrogn einvörðungu að landi, hafa enga kvóta átt fyrir fiskinum sjálfum. Hvað segja menn við þessu? Er nóg að leggja kollhúfur og þykjast hvorki heyra né sjá? (Gripið fram í.) Samt höfum við í næsta nágrenni við okkur þjóð sem býr við svipaðar og sömu aðstæður og við, Færeyinga, sem hefur tekið upp nýtt kerfi og ferst það mjög vel úr hendi. Á það má aldrei minnast hér. Hér er Nýja-Sjáland nefnt eða önnur lönd sem þykir henta að miða sig við.

Enn eitt sem má nefna sem dæmi er að enginn á lengur möguleika á að ganga inn í þessa stétt. Stéttin er lokuð og þar af leiðandi dauðadæmd eins og allar stéttir verða sem eru lokaðar og ungir menn geta ekki komið ár sinni fyrir borð í. (GE: Er það færeyska kerfið sem þingmaðurinn á við?) Ég var að tala um íslenska kerfið, um að stéttin væri lokuð, en þarna sé ég út undan mér (GE: Það færeyska?) hið færeyska sóknardagakerfi og þar þykjast menn sjá að það skilar þeirri þjóð alveg nýjum viðhorfum frá því sem var. En hér er okkar stétt lokuð. Þangað komast ekki nýir ungir menn en allar framfarir Íslands síðari hluta síðustu aldar byggðust á ungum framtaksmönnum í sjávarútvegi. Nú eru hendur þeirra bundnar fyrir aftan bak, nú er þetta einokað af örfáum mönnum sem auðlindin er gefin. Síðan, eins og menn vita líka ef þeir vilja hafa opin augu, er þessi ótrúlegi sóðaskapur staðreynd, brask og svindl sem stundað er í hverri einustu fiskiskipahöfn þar sem menn eru að bjarga lífi sínu. Auðvitað mælir þessu enginn bót en hvað eiga mennirnir að gera ef þeir ætla að halda áfram að draga fram lífið en ekki pakka saman og flytja á mölina? Öll þessi saga er vörðuð staðreyndum. Við sjáum að það hefur engin áhrif af því að hin raunverulegu völd eru völd peninganna, þeirra manna sem náð hafa um lungann úr auðlegðinni okkar, og sem þeir menn sem hér sitja að jafnaði eins og svölur á símavír eru þjónar fyrir.

Ég hef stundum nefnt sem dæmi um sóðaskapinn í þessu sambandi hinn svonefnda skipstjórakvóta. Ef ég man rétt var Grandi að úthluta 260 millj. kr. arði. Sá sem á sínum tíma fékk stórkostlegan skipstjórakvóta, Ágúst Einarsson, einn aðalmaður Samfylkingarinnar, (Gripið fram í: Já, já.) fyrrv. formaður fjármálaráðs þar, mun þess vegna hafa fengið rúmar 30 millj. kr. (GE: Ekki fjármálaráðs.) Jæja, eða framkvæmdastjórnar sem stjórnar fjármálunum líka, --- þar sem hann á rétt um 20% í Granda mun hann þar af leiðandi hafa fengið sem arðsúthlutun yfir 30 millj. kr. En hann fékk á sínum tíma með skipstjóra af Örfiriseynni yfir á Viðey sem nam nærri 3 þús. þorskígildistonnum. (Gripið fram í: Ekki gat hann gert að því þó ...) Nei, það er svo annað mál og hann er ekkert sekur í þessu. Það eru þeir sem fyrir þessu standa, þeir sem stjórna þessu, sem eru hinir seku. (Gripið fram í.) Og það voru fleiri sem hlutu þessar gjafir úr hinum mildu höndum æðsta valds í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til að orðlengja mjög um þetta mál eins og það blasir alls staðar við. Það frv. sem nú er til umræðu er aumlegur plástur sem engu höfuðmáli skiptir í sambandi við aðalinntak þessa máls. Það er verið að þykjast með því að vera að finna einhverjar skóbætur á þetta en þær hafa enga sérstaka þýðingu og er ástæðulaust að eyða tíma sínum í að fara um þær mörgum orðum.

Ég nefndi sem dæmi um veiðireynslu okkar áður en Hafró kom til með vísindi sín og áður en þessi stefna hélt innreið sína sem nú ræður lögum og lofum að jafnstöðuafli okkar á Íslandsmiðum af þorski hefði verið 438 þús. tonn, og ég fer áreiðanlega rétt með að það var á 22 ára bili, frá 1950--1972. Nú höfum við reynslu af því hvernig til hefur tekist, hvernig tilgangi hefur verið náð með stjórn þessara laga, en nákvæmlega er sama hvar niður er borið í öllu þessu, enginn af þeim sem ræður ferðinni lítur upp. Þeir hafa svarist í fóstbræðralag um að halda svo fram stefnunni sem við höfum fyrir augum enda þótt það geti ekki annað en borið ósköp í skauti sínu, ég tala ekki um fyrir hinar dreifðu byggðir landsins.