Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 16:49:04 (8594)

2002-04-30 16:49:04# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar þetta mál hefur verið kynnt, hefur gjarnan verið rætt um það fyrst og fremst sem það þingmál sem felur í sér eitthvað það sem ríkisstjórnarmeirihlutinn ákvað að kalla veiðigjald. Sannarlega er það rétt að einn hluti málsins er þau nafnaskipti á þeim gjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir frá því að vera skilgreind gjöld yfir í það að kallast veiðigjald. Þar eru svo sem ekki stórtíðindi á ferð. Hafi menn haldið það, þá komst sjútvn. að niðurstöðu um að svo væri ekki við skoðun sína á málinu því að út af fyrir sig var sama hvort kallaðir voru til hagfræðingar eða lögfræðingar, enginn vildi viðurkenna að nafnabreytingin skipti yfir höfuð neinu máli, hún hefði engin áhrif, hún mundi ekki breyta neinu, hvorki stöðu þeirra sem eiga auðlindina, þ.e. þjóðarinnar, né heldur þeirra sem fá að nýta hana hverju sinni. Hér eru því ekki stórtíðindi á ferð hvað það varðar og út af fyrir sig ekki ástæða til að orðlengja mjög um það þó að ég ætli síðar í ræðu minni að koma aðeins að veiðigjaldinu og þeirri aðferð sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að viðhafa við gjaldtöku af sjávarútveginum í stað þeirra aðferða sem nú eru viðhafðar.

En það eru fleiri atriði sem hafa kannski fallið í skuggann af þessari veiðigjaldsyfirskrift og það má kannski segja, herra forseti, að það hafi verið ákveðin klókindi af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa það sem yfirskrift vegna þess að það eru önnur stór atriði og e.t.v. miklu stærri sem eru í frv. Annars vegar sú breyting sem verið er að gera á kvótaþakinu, og má þar marka ákveðinn vilja eða viðleitni hæstv. ríkisstjórnar, og síðan sú brtt. sem kom frá meiri hluta sjútvn. og er nú orðinn hluti af því plaggi sem við ræðum hér eftir 2. umr., og hins vegar byggðakvótinn sem er orðinn þéttasti hluti hins ríkisrekna hluta sjávarútvegsins sem við komum auga á í bili. Þessi þrjú atriði skipta öllu máli þegar verið er að fjalla um það frv. sem hér er að komast í lokaumræðu á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að fjalla um kvótaþakið og hvaða viðhorf búa að baki því hvernig það ber að hinu háa Alþingi. Þannig var að fyrir nokkrum árum hugðist þáv. hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson hét hann á þeim tíma, reyna að lægja óánægjuöldur og reyna að slá á það óöryggi sem var víða í byggðum landsins sakir þess að menn höfðu orðið þess áskynja að heilmikil samþjöppun var að eiga sér stað hvað varðaði það hverjir höfðu þær veiðiheimildir til ráðstöfunar sem úthlutað var á hverjum tíma. Skipuð var nefnd í málið og formaður hennar var núv. ráðuneytisstjóri í fjmrn., Baldur Guðlaugsson. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að brýnt væri að setja á kvótaþak, þ.e. að breyta lögunum um stjórn fiskveiða þannig að sett væri ákveðið þak á það hvað hver útgerð gæti verið með mikið af veiðiheimildum hverju sinni og átti það bæði við hvað varðaði heildarmagnið en sömuleiðis hvað varðaði einstaka tegund.

Það sem gerðist núna, herra forseti, var að hæstv. sjútvrh. eða einhverjir trúnaðarmenn hans ákváðu að sú ráðstöfun sem gerð var á þeim tíma og þótti sæmilega rökstudd af Baldri Guðlaugssyni og hans mönnum þótti ekki ganga nógu langt til móts við vilja, ég ætla ekki einu sinni að segja útgerðarinnar heldur kannski frekar verðbréfamarkaðarins, þannig að ákveðið var að breyta þessu. Þegar eftir því var leitað kom í ljós að í sjálfu sér var ekki þrýstingur frá útgerðinni vegna þess að þess voru engin dæmi að nein útgerð væri farin að ýta á þau mörk sem sett voru í lögin á sínum tíma. Ekki einu sinni fyrirtækið Samherji sem menn hafa gjarnan rætt um sem hið stóra og næstum að segja hið hættulega fyrirtæki vegna stærðar sinnar. Nei, ekkert þessara fyrirtækja var farið að þrýsta en eigi að síður var ákveðið að rýmka þarna mörkin.

Segja má, herra forseti, að það hafi verið dálítið merkileg ráðstöfun á þessum tíma vegna þess að einhvern tíma ætluðu menn að það frv. sem nú kæmi fyrir Alþingi frá hæstv. ríkisstjórn væri frv. sem væri ætlað að stuðla að frekari sátt um þetta kerfi, sem væri ætlað að stuðla að því að fólkið í landinu svæfi ögn rólegar gagnvart því sem gæti gerst vegna fiskveiðistjórnarkerfisins. Þess vegna kom það nokkuð á óvart þegar hæstv. sjútvrh. kom með frv. sem gerir ráð fyrir því að í stað þess að ýsan sé undir því að þar megi einstök útgerð ekki hafa ráðstöfunarrétt að nema 10% þá fari það upp í 50% sem menn sögðu sér á augabragði að gæti leitt til þess að einungis tveir aðilar gætu verið handhafar alls ýsukvóta í landinu. Menn spurðu sig eðlilega spurninga eins og þessara: Hvað þá um brottkast? Hvað þá um þá sem svo þrengir að að þeir komast ekki yfir ýsukvóta sakir þess að stærri fyrirtæki hafa sérhæft sig og láta hann ekki af hendi?

Það átti líka að gerast, herra forseti, að ufsinn færðist úr 20% og upp í 50%. Sama var með karfa og grálúðu. Allar þessar tegundir áttu að breytast þannig að í stað þess að einstök fyrirtæki mættu vera handhafar 10--20% veiðiheimildanna, þá átti það að breytast í 50%. Ég held, herra forseti, að það sé rétt munað hjá mér að ekki einn einasti umsagnaraðili sem kom á fund sjútvn. og skipti sér af þessu atriði yfir höfuð mælti með því að slík breyting yrði gerð. Hinir voru hins vegar margir sem vöruðu við þeirri breytingu og meiri hluti sjútvn. sá að sér hvað þetta varðaði og breytti þessum tölum þannig að í stað þess að ýsan færi úr 10% upp í 50%, þá fer hún bara úr 10% upp í 20%. Í stað þess að ufsinn færi úr 20% upp í 50%, þá er hann áfram í 20%. Í stað þess að karfinn færi úr 20% upp í 50%, þá fer hann upp í 35%. Og í stað þess að grálúðan fari úr 20% upp í 50%, þá verður hún áfram í 20%. Rétt er að taka fram að síld, loðna og úthafsrækja verða áfram undir þeim hattinum að einstök fyrirtæki mega ekki vera handhafar meira en 20% kvótans og það stendur óbreytt.

Þetta með karfann, herra forseti, skýrist af því að fram kom að eini þrýstingurinn í sjónmáli, hann er ekki orðinn en hann er í sjónmáli, er sá að fyrirtækið Grandi hér í bæ sem hefur áður verið nefnt í umræðunni mun vera komið með 19% karfakvótans og gæti þess vegna einhvern tíma ýtt á 20% og til vonar og vara hleypur meiri hluti sjútvn. til og setur markið við 35% í staðinn fyrir að fara með það alveg til baka eins og með hinar tegundirnar. Þetta vekur auðvitað upp þær spurningar, herra forseti, af því að ekki hafa orðið svo mikil mannaskipti á hinu háa Alþingi né heldur hefur ríkisstjórnarmunstrið breyst síðan lögin voru sett um kvótaþakið á sínum tíma, 1998 minnir mig að það hafi verið, hvaða vilji var í raun hjá hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta hennar á bak við þetta hámark. Hvaða vilji var á bak við hámarkið ef menn eru tilbúnir að hlaupa til um leið og einhver þrýstir á? Reyndar var gerð breyting. Það var þannig að ekki var sama hvernig eignarhaldi í fyrirtækjum var háttað, hvað það varðaði, hversu stór þau máttu verða, það varð að vera dreifð eignaraðild til að einstakt fyrirtæki gæti verið handhafi 12% af veiðiheimildunum, að öðrum kosti máttu þau einungis vera handhafar 8%. Þessu er nú breytt, herra forseti, og allt fært upp í 12% og breytir e.t.v. ekki svo miklu en sýnir þó eigi að síður tilhneigingu í ákveðna átt.

[17:00]

Herra forseti. Þetta er atriði sem ég veit að mörgum þykir stórt þó það hafi ekki verið stórt í umræðunni kannski vegna þess að það féll í skuggann af nafnabreytingunni. Fólki þykir þetta stórt vegna þess að þrátt fyrir þessa lagasetningu um árið sem hæstv. þáv. sjútvrh. fór reyndar með eins og mannsmorð, hefur lítið slegið á ótta landsmanna við hin stóru fyrirtæki.

Nú hef ég verið þeirrar skoðunar að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki mættu verða nokkuð stór. Það hefur verið mín skoðun að við ættum að horfa aðeins út fyrir landsteinana þegar við erum að skoða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og við ættum að horfa til þess hve sjávarútvegur er mikill burðarás í okkar atvinnu- og efnahagslífi. Þar af leiðandi ættum við að geta þolað að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki gætu orðið nokkuð stór ef tryggt væri að hér væri ákveðin fjölbreytni og það verður auðvitað aldrei tryggt nema með rekstrarskilyrðum. Það er afskaplega erfitt, eins og við vitum, að setja lög um að hlutirnir eigi að vera svona eða hinsegin ef ekki eru til þess aðstæður og efnisleg rök að öðru leyti.

Þó svo ég sé á þessari skoðun þá skil ég afskaplega vel það óöryggi sem ég skynja hjá fólki vegna þess hvernig þróunin hefur verið. Hún hefur ekki bara verið sú að einstök fyrirtæki eru að verða stærri og teygja sig í rauninni landshorna á milli. Fyrirtæki eru ekki lengur bundin við einstaka staði heldur geta þau verið með útgerð frá einum stað, fiskvinnslu á öðrum og eignarhaldið getur meira og minna legið á þeim þriðja eins og raunin er með mörg hin stóru fyrirtæki.

Það er líka að verða til nýtt eignarform á sjávarútvegsfyrirtækjum sem við höfum kannski séð best kristallast í Burðarási, eignarhaldsfyrirtæki Eimskipafélagsins, sem á ekki lengur bara hluti í stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur á það orðið að mestu leyti sum hver og er orðið áhrifamikill aðili í sjávarútvegi. Ég er ekki endilega að segja að það sé vont að Eimskip eigi hluti í sjávarútvegsfyrirtæki umfram einhver önnur fyrirtæki eða fjárfesta. Ég nefni þetta fyrst og fremst sem dæmi um þróun sem er í gangi og menn geta ekki horft fram hjá og vekur þeim ótta sem trúa því að eignarhaldið á fyrirtækinu skipti mestu máli.

Við erum búin að heyra í dag og í gær og reyndar áður býsna þétta umfjöllun um að eignarhald fyrirtækja sé það sem skiptir máli. Ég held að flestir viðurkenni reyndar að önnur lögmál ráða en eignarhaldið þegar um það er að ræða hvort fyrirtæki lifir eða deyr. Stjórn fyrirtækisins og möguleikar þess til að hagnast skipta meginmáli vegna þess að ef fyrirtæki hefur ekki rekstrargrundvöll þá getur hvorki ríki né sveitarfélag bjargað því.

Það sem vekur fólki ótta er það óöryggi sem fylgir þessum breytingum oft og einatt þar sem menn sjá í hendi sér að ef einkaaðilar eru ekki tilbúnir til þess að fjárfesta á staðnum þá eru kannski fáir aðrir tilbúnir.

Herra forseti. Eins og þetta er orðið núna þá er umræðan um sjávarútveginn í stórum dráttum þannig, þó að hér sé reynt að tala með öðrum hætti, að ekkert er orðið til sem heitir heimamenn, byggð eða fólk. Það er búið að markaðsvæða veiðarnar og veiðimannasamfélagið, sem menn eru gjarnan að tala út úr eins og það sé enn lifandi staðreynd um allt land, er að líða undir lok og sjávarútvegssamfélag sem er alþjóðavætt, tæknivætt, byggir á þekkingu, fjármagni og markaðsvæðingu er að taka við. Fyrirtæki í sjávarútvegi eru komin á hlutabréfamarkað og þau lúta mjög mörg þeim lögmálum sem þar gilda um árangur. Þessi fyrirtæki eru ekki hluti af veiðimannasamfélaginu, herra forseti.

Við getum varla sagt að fyrirtæki í sjávarútvegi sem eru á viðskiptaforsendum fyrst og fremst komin í samvinnu við fyrirtæki erlendis séu hluti af gamla veiðimannasamfélaginu. Ég held líka að hin stóra breyting hafi verið upptaka kvótakerfisins sem gerði mögulegt að skipuleggja starfsemina þannig að hægt var að fara með fyrirtækin á markað sem var auðvitað hið stóra endanlega fráhvarf frá veiðimannasamfélaginu.

Herra forseti. Í veiðimannasamfélaginu var það hluti af sjálfsögðum rétti hvers manns ef hann hafði til þess að öðru leyti aðstöðu og átti til þess tæki að róa til fiskjar. En við markaðsvæðingu veiðanna er eignarhald útgerðarinnar komið á allt annan stað og allt önnur lögmál hljóta þess vegna að gilda um aðgang að auðlindinni. Þess vegna höfum við jafnaðarmenn haldið því fram að það væri hluti af þessari þróun, herra forseti, að fyrirtækin greiddu fyrir aðgang að auðlindinni, ekki bara að þau greiddu fyrir hluta af þeim kostnaði sem hlýst af heldur greiddu fyrir aðgang að auðlindinni vegna þess að við erum að tala um gjörbreytt umhverfi sjávarútvegsfyrirtækjanna og það er ekki hægt að vinna í gjörbreyttu umhverfi en tala alltaf og gera kröfur út frá gamla umhverfinu.

Já, þau eru býsna mörg þessi fyrirtæki sem hafa verið skráð á markaði og um tíma virtist sem svo að það væri eftir því mikil eftirspurn að eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtæki. Þá hækkuðu þessir hlutir mjög verulega og atvinnugreinin varð býsna spennandi fyrir marga til fjárfestingar og til þátttöku. Menn vildu komast að þar sem verið væri að gera það svona gott, ekki bara til að gera út heldur líka til þess að hasla sér þar völl í vinnu, komast að sem framkvæmdastjórar, fjármálastjórar og ráðgjafar. Ég nefni öll þessi nýju störf sem hin unga, hagfræðimenntaða eða lögfræðimenntaða kynslóð vill hasla sér völl í. Síðan hefur orðið ákveðið bakslag. Bæði hefur orðið bakslag almennt á hlutafjármarkaðnum og það hefur líka orðið bakslag vegna þess að við höfum orðið að búa við samdrátt aflaheimilda.

Menn tengja gjarnan saman kvótakerfi og þennan samdrátt. Það má vel vera að menn hafi eitthvað til síns máls, að kvótakerfið eins og við höfum rekið það sé ekki endilega það verndarvænasta. Ég hef a.m.k. verið alveg tilbúin til þess að hugsa það á þeim nótum nú undanfarin ár einfaldlega vegna þess að ég hef verið tilbúin til þess að leita allra leiða og hugsa allar þær hugsanir sem þarf til þess að finna þá þær aðferðir sem duga betur til þess að efla vöxt og viðgang fiskstofnanna. En í mínum huga var kvótakerfið aldrei fiskverndarkerfi. Ég heyrði menn ekki tala svo mikið yfir því þegar það var tekið upp á sínum tíma. Ég heyrði allt aðra hluti. Ég veit reyndar að menn seldu ýmsum það út á það og sumir réttlættu fyrir sér stuðninginn með því. En ég heyrði alveg hin hagfræðilegu rök. Þau voru nefnilega á fullu í umræðunni allan tímann líka. Menn voru með hin hagfræðilegu rök uppi. Þeir voru uppi með þau rök að mikilvægt væri að útgerðin gæti skipulagt sig. Þeir voru með þau rök uppi að kvótakerfið gæti hjálpað til við fækkun í flotanum, það gæti gert greinina hagkvæmari. Ef menn vilja er hægt að finna þessi rök í þingmálum og þingræðum frá þessum tíma. Það er hægt að finna bæði fögnuð og ótta ýmissa þegar þeir sáu hvað þetta kerfi gat í rauninni gert. Hjá mörgum var hugurinn blandinn. Aðrir voru alfarið á móti og sumir voru eðlilega með. Mér finnst það vera dálítið mikil einföldun á veruleikanum, herra forseti, þegar menn koma hér og tala um kerfið eins og það hafi verið sett á fyrst og fremst sem fiskverndarkerfi vegna þess að ef það hefði verið gert þá værum við fyrir löngu búin að henda því. Það að þetta kerfi skuli enn vera við lýði og menn skulu reyna að treysta það með þeirri löggjöf sem við erum hér að fara yfir sýnir okkur betur en allt annað að hér var ekki um fiskverndarlöggjöf að ræða, herra forseti. Hér var fyrst og fremst um þá aðgerð að ræða sem ætluð var til að nútímavæða íslenskan sjávarútveg, markaðsvæða íslenskan sjávarútveg, segja skilið við gamla veiðimannasamfélagið.

Ég byrjaði ræðu mína á því að fara yfir það að menn hefðu kannski blekkt svolítið með yfirskriftinni veiðigjald af því að aðrir hlutir væru stærri. En kannski urðu menn að nota þá yfirskrift til þess að einhverjir fengjust til að trúa því að hér væri á ferðinni sáttamálið. Það vitum við hins vegar að er ekki. Við vitum að þetta þingmál, þetta frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er ekki bara þriðja málið í vetur, er ekki bara mál númer ég veit ekki hvað á annan tuginn síðan ég byrjaði á hinu háa Alþingi sem alþingismaður og er ugglaust ekki síðasta málið á þessu kjörtímabili. Við vitum að strax í haust verður flutt mál. Við vitum að það er ekki búið að loka ýmsum öngum. Við vitum það að bara núna við 3. umr. kemur meiri hlutinn þegar með brtt. Plástrarnir eru þegar komnir af stað. Menn eru búnir að átta sig á því, bara núna á milli umræðna, að það sem var verið að samþykkja við 2. umr. gengur ekki og við erum komin með brtt. í nokkrum liðum. Þetta er veruleikinn, herra forseti. Svona eru vinnubrögðin. Þetta eru áherslurnar. Þetta er virðingin fyrir atvinnugreininni. (GAK: Þetta er skóbótaleiðin.) Þetta er sú leið sem meiri hlutinn á hinu háa Alþingi hefur kosið að fara meðan atvinnugreinin hefur sífellt kallað á traustara starfsumhverfi, reglur sem hægt væri að treysta. En þetta er leiðin sem er farin.

Menn eru hlaupandi fram og til baka til þess að þóknast nánast nafngreindum einstaklingum eða fyrirtækjum. Menn eru að gera hrossakaup fram á síðustu stundu og átta sig svo skyndilega á því að hlutirnir ganga ekki upp innbyrðis vegna þess að línan er svo óskýr að mörgu leyti að hangi menn bara með þetta svokallaða stóra kerfi inni í aflahlutdeildarkerfinu þá eru þeir tilbúnir til þess að semja um nánast hvað sem er svona við hliðina.

Þá kem ég að byggðakvótanum, herra forseti. Byggðakvóti var fyrst settur á árið 1995 um vorið þegar ný ríkisstjórn kom saman. Það átti að friða einhverja aðila með því að setja hér á 500 lesta byggðakvóta sem var úthlutað samkvæmt tiltölulega óljósu orðalagi sem gat boðið upp á nánast hvað sem var. (Gripið fram í.) Þannig fór fyrir þessum 500 lestum að innan tveggja ára var búið að úthluta þeim varanlega til þeirra báta sem fengu þær upphaflega. Þá var ekkert spurt að því hvernig þeir hefðu farið með þessar veiðiheimildir, hvort þeim hefði verið landað á þeim stöðum sem bátarnir voru skráðir á eða annars staðar. Þannig fór um sjóferð þá.

[17:15]

Herra forseti. Ég er stolt af því að hafa verið eini þingmaðurinn sem stóð upp til að gagnrýna þetta þá. Ég leyfði mér að gagnrýna þá braut sem valin var. Mér þykir í raun leitt að þetta skyldi allt fara í vaskinn. Mér þykir jafnmerkilegt að menn skyldu ekkert læra af þessu og taka strax fjórum árum seinna aðra æfingu, hinn svokallaða byggðakvóta. Það var kvótinn sem menn settu á vorið 1999, 1.500 lestirnir sem fóru til Byggðastofnunar.

Ég gagnrýndi það einnig og þóttist spá fyrir um hvernig gæti farið. Það gekk því miður eftir vegna þess að auðvitað var alveg ljóst hvernig þetta mundi, átti að fara að mati sumra. Nú er enn verið að bæta í pottinn. Ef við tökum með það sem úthlutað er samkvæmt 12. gr., 3 þús. lestirnar sem fara til aflamarksbátanna og annað skítti sem ráðherrann hefur haft til að mylgra út, erum við komin með byggðakvóta upp á andvirði 6--7 milljarða fljótandi í kerfinu.

Við getum velt því fyrir okkur, ef við viljum fara í aðgerðir til stuðnings landsbyggðinni og til stuðnings einstökum byggðum, hvort þessir 6--7 milljarðar eru endilega best komnir þar sem þessi ríkisstjórn er að setja þá, þ.e. í veiðirétti sem úthlutað er eftir reglum sem einhverra hluta vegna leiða þennan kvóta að mestu leyti inn á eitt tiltekið landsvæði, sumir segja í einn eða tvo tiltekna sparisjóði eða bankastofnanir. En þetta er svona, herra forseti. Hér eru geysilegir fjármunir komnir á flot í kerfinu og þarna, eins og ég sagði áðan, erum við komin með ríkisreknasta hluta kerfisins. Þarna stjórnast aðstæður af atbeina stjórnmálamanna og er ekki ætlast til þess að atvinnugreinin bjargi sér sjálf.

Ég sagði áðan, þegar við vorum að afgreiða málefni Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki, að þegar staður eða svæði á allt sitt orðið undir ákvörðunum stjórnmálamanna og atvinnulífið gengur eftir ákvörðunum stjórnmálamanna --- þá er ég að tala um bein áhrif, herra forseti, ekki þau óbeinu sem felast í almennri löggjöf eða almennum efnahagsramma --- þekkja menn það sem lögmál að einkakapítalið dregur sig í hlé. Menn vita að atbeini stjórnmálamanna er tiltölulega fallvaltur. Bæði eiga stjórnmálamenn til að falla í kosningum eða hætta og sömuleiðis geta veður skipast þannig á hinum stjórnmálalega vettvangi að þær áherslur sem hafðar voru uppi kunna að breytast. Þegar svo er komið að svæði á allt sitt undir slíku þykjast menn finna af því lyktina að hinar efnahagslegu forsendur séu ekki lengur fyrir hendi. Menn hafa sig því á brott. Það er bölvuð staða. Þess vegna fögnum við því, fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar, að þar skuli einkaaðilar vilja inn með peninga. Það er hraustleikamerki og ber vott um að menn hafi trú á þessu svæði, á því að Sveitarfélagið Skagafjörður muni spjara sig og verða eitt af vaxtarsvæðum landsins.

Veltum fyrir okkur því hvernig menn horfa til þeirra svæða sem fá byggðakvóta. Mér finnst það sem Guðni Einarsson á Suðureyri segir kannski skýra best eða gera okkur helst grein fyrir hvernig sumir eru farnir að líta á þetta með grátbroslegum hætti. Þetta er svona tragíkómík. Sá ágæti athafnamaður sem sýndi sannarlega fram á að Suðureyringar eins og duglegt fólk víðast hvar gæti bjargað sér biðst nú afsökunar á því að hafa reynt að bjarga sér vegna þess að með dugnaði sínum hafi hann komið í veg fyrir það að ríkið kæmi Suðureyri til bjargar. Það þurfti sem sagt ekki að bjarga Suðureyri, herra forseti. En af því að mönnum þykir það svo sjálfsagt að ríkið skenki veiðiréttinn með þessum hætti sér þessi ágæti athafnamaður ástæðu til að biðjast afsökunar á að hann hafi orðið þess valdur.

Þetta er auðvitað ömurleg staða. Það sem hann gerir þarna, eins og til að hæðast að kerfinu, ulla á alþingismennina og þá stjórnmálamenn sem að þessu standa, lýsir ömulegri stöðu enda hefur farið þannig fyrir þessum byggðakvótum, herra forseti, að þeir hafa safnast á nokkrar útgerðir með fiskvinnslu eða athafnasemi á þeim stöðum sem þóttu verðugir kvótans á sínum tíma. Þessi kvóti hefur einnig flust á hendur ýmissa stærri fyrirtækja vegna þess að sums staðar var ekki um svo mörg skip að ræða til þess að veiða þennan kvóta og vegna mikilla sameininga og breytinga sem orðið hafa á eignarhaldi í sjávarútvegi hefur byggðakvótinn færst yfir í eigu ýmissa hinna stærri fyrirtækja sem menn hefðu kannski seint kennt við þessa tegund úthlutunar.

Menn geta alltaf spurt sjálfa sig: Er þessi tegund úthlutunar eitthvað verri eða siðlausari en hin? Út af fyrir sig er hún það kannski ekki, þ.e. ef horft er á það þannig að verið er að úthluta ókeypis kvóta í upphafi hvers fiskveiðiárs. Menn sjá hins vegar líka að kerfið sem við höfum er undirstaða fyrir tiltekið efnahagslíf. Menn verða að taka tillit til þess þegar þeir breyta því og skilaboðin, til útgerðarinnar og fiskvinnslunnar hafa verið þau að menn væru komnir inn í ákveðið markaðsumhverfi þar sem þeir yrðu að spjara sig enda er sjávarútvegurinn burðarás í atvinnulífi og efnahagslífi og sú atvinnugrein sem við höfum ekki efni á því að hafa slaka í. Með svokölluðum byggðakvóta er hins vegar verið að bjóða upp á ákveðinn slaka og menn urðu þess varir, sem voru að berjast á fiskmörkuðum, að fljótlega eftir að Byggðastofnunarkvótanum var úthlutað þrengdi nokkuð fyrir þeirra dyrum. Það er auðvitað mjög vont, herra forseti, ef þeir sem hafa unnið eftir þeim lögmálum sem fyrirmæli eru um að fylgja standa frammi fyrir því að vegna breyttra reglna versni samkeppnisstaða þeirra, sakir þess að ákveðinn hluti sjávarútvegsins er rekinn undir annars konar formerkjum.

Það kom mér því nokkuð á óvart þegar iðnn. var að fjalla um byggðaáætlun og í ljós kom að Byggðastofnun mælti með því í einni af þeim tillögum sem lögð var inn í nefndina af hálfu þeirrar stofnunar að afli til verkunar á Vestfjörðum og á Austurlandi yrði settur undir önnur lögmál en gerist og gengur. Ég verð að segja að ég hef ekki orðið eins undrandi lengi og þegar ég sá þessa klausu frá Byggðastofnun. Þar virtust menn ganga út frá því að heilu landshlutarnir væru þannig settir að þeir þyrftu fyrst og fremst á því að halda að hráefnið til fiskvinnslunnar væri niðurgreitt og þar lyti efnahagslífið allt öðrum forsendum en fyrir norðan og sunnan.

Ég velti því aðeins fyrir mér, herra forseti, hver samkeppnisstaða fyrirtækjanna væri þegar komin væru á erlendan markað. Það er þekkt, litlu fyrirtækin sem versla á markaði kvarta undan því, að þegar stóru fyrirtækin sem fá aflann á lægra verði af því að þau eru með tangarhald á útgerð einnig koma inn á ferskfiskmarkaðina erlendis þá hefur verið um undirboð að ræða. Við vitum alveg hvað það þýðir þegar eitt íslenskt fyrirtæki undirbýður önnur. Það þýðir einfaldlega minni gjaldeyristekjur og slakari útkomu fyrir þjóðarbúið. Við getum velt því fyrir okkur ef það á að vera hluti af stefnunni, samkvæmt tillögu frá Byggðastofnun, að heilu landshlutarnir eigi að nærast á niðurgreiddu hráefni umfram þær fiskvinnslur sem eru með útgerðir sér við hlið og geta keypt hraéfni af sjálfum sér. En þessi hugsunarháttur virðist ganga ljósum logum, að það sé allt í lagi fyrir okkur að hafa þennan slaka í sjávarútveginum. Mönnum virðist finnast að það geti alveg gengið. Mig fýsir jafnan að vita, þegar menn tala þannig, hvað menn eru þá tilbúnir til að fara með þjóðartekjurnar langt niður, hvað menn eru tilbúnir til að rýra kaupmáttinn og setja mikinn slaka í þetta. Annaðhvort hljóta menn að vilja það eða að þeir átta sig hreinlega ekki á því hvað sjávarútvegurinn er stór þegar kemur að efnahagsstarfsemi okkar.

Herra forseti. Þetta var um byggðakvótana. Þeir hafa kannski ekki verið ræddir nægjanlega í þessari umfjöllun vegna þess að hér er ekki bara verið að setja tímabundna byggðakvóta upp, ekki bara verið að búa til einhver bráðabirgðaákvæði inn í lögin um stjórn fiskveiða, heldur er verið að gera byggðakvótana ,,varanlega`` --- innan gæsalappa þó því að ekkert er varanlegt í þessari veröld.

Hin efnislega stóra breyting er ekki bara sú að verið sé að bæta við 1.500 lestum heldur er verið að gera þessa byggðakvóta varanlega. Það eru ákveðin skilaboð, herra forseti. Kannski eru þau ættuð úr Byggðastofnun, ég veit það ekki. En skilaboðin eru alla vega þessi: Við ætlum að taka ákveðinn hluta sjávarútvegsins út fyrir sviga. Við ætlum ekki að reikna með því að ákveðinn hópur fyrirtækja geti spjarað sig á markaðsforsendunum. Þessi kvóti hefur alltaf verið að aukast, potturinn hefur alltaf verið að stækka. Þó að menn segi: Nú er þetta nóg, nú verður ekki lengra gengið, er alltaf gengið lengra næst. Þetta gera menn til að halda frið út af úthlutuninni í hinu kerfinu. Þessu verði er það keypt.

Herra forseti. Eitt af því sem menn ræddu dálítið mikið og mér finnst ástæða til að nefna, vegna þess að menn höfðu af því nokkrar áhyggjur við 2. umr. og við atkvæðagreiðsluna, er ákvæði 1. gr. frv. um Hafrannsóknastofnun. Það kemur fram í 1. gr. að Hafrannsóknastofnun þurfi ekki að greiða fyrir þann kvóta sem hún nýtir við rannsóknir sínar. Það hefur út af fyrir sig verið þannig að Hafrannsóknastofnun hefur getað stundað rannsóknir án þess að kaupa kvótana á markaðsverði og þarna átti að lögfesta þá tilhögun. Það má kannski segja að menn hafi aðeins hrokkið upp við þá staðreynd að þarna var verið að lögfesta það að Hafrannsóknastofnun hefði tiltekna einokun á íslenskum hafrannsóknum, ekki það að hún hefði ekki haft hana heldur hrökkva menn við árið 2002 þegar staðfesta á slíkt í löggjöf. Mér fannst í umfjöllun nefndarinnar að ef sjútvn. gæti náð saman um eitthvað þá væri það einmitt að breyta þessu atriði. Ég hélt satt að segja að það hefði náðst nokkur sátt um það að þarna gætum við öll verið sammála um að til þess að vísindin væru sem frjálsust og Hafrannsóknastofnun hefði það aðhald sem hún sannarlega þarf og er viðurkennt mundum við ekki hafa ákvæðið svona heldur byggja það inn í löggjöfina að aðrir vísindamenn, stofnanir eða hópar vísindamanna, bæði innlendir og erlendir, gætu sótt um að fá að stunda hafrannsóknir við Ísland og Hafrannsóknastofnun væri þá ekki hliðvörður í því dæmi. Menn ættu ekki að þurfa að sækja til þeirrar stofnunar um að fá að stunda rannsóknir heldur fannst ýmsum okkar hægur vandi að nýta þá þekkingu sem þegar liggur fyrir varðandi mat á rannsóknaráætlunum og menn mundu sækja til hlutlausrar nefndar sem yrði sett saman af þessu tilefni og tæki við slíkum umsóknum, mæti þær og mælti síðan með eða ekki.

[17:30]

En nei, herra forseti, sú varð ekki niðurstaðan. Niðurstaða meiri hlutans varð einhverra hluta vegna sú að Hafrannsóknastofnun héldi þessari einokun. Það er reyndar opnað á að menn geti sótt um það til Hafrannsóknastofnunar að fá að gera tilraunir án þess að kaupa kvótann á markaðsverði, og þá má segja að með því sé Hafrannsóknastofnun komin í þá stöðu að geta úthlutað ofboðlitlum kvóta. Það er út af fyrir sig merkileg staðreynd að menn skulu vera tilbúnir til að gera það þannig í staðinn fyrir að vera með óháða nefnd og síðan sæi sjútvrh. um leyfisveitinguna til að nýta auðlindina til rannsókna.

Ég skil ekki alveg, herra forseti, og hef ekki fengið á því viðhlítandi skýringar af hverju meiri hluti nefndarinnar ákvað að fara þessa leið. Ég er hins vegar handviss um að þessi aðferð mun ekki ganga lengi. Hún mun breytast vegna þess að ég held að það fái ekki staðist að við samþykkjum að sá aðili sem hefur séð um hafrannsóknir verði jafnframt sá aðili sem ákveður hverjir megi rannsaka auðlindirnar að auki og geti valið sér gagnrýnendur eða vini eftir atvikum. Hafrannóknastofnunin þarf í rauninni að fá þetta aðhald, þetta ,,second opinion``, sem menn kalla eftir.

Ég ætla þá, herra forseti, að víkja að þessari nafnbreytingu sem ég gat um í upphafi.

Ég sagði strax og þetta frv. kom fram að hér væri lítið mál á ferð, hér væri fyrst og fremst fjallað um það að menn vilji breyta nöfnum á þeim gjöldum sem þegar væru greidd. Það stendur, herra forseti, og það hefur verið margítrekað. Eins og ég gat um áðan hafa hvorki þeir lögfræðingar né hagfræðingar sem á fund nefndarinnar hafa komið talið að hér væri um breytingu að ræða sem skipti nokkru máli. Formaður endurskoðunarnefndarinnar, sá sem var formaður hennar, Friðrik Már Baldvinsson, sagði á fundi sjútvn. þegar einhverjir nefndarmenn höfðu af því áhyggjur að þessi gjaldtaka --- þeir voru kannski fyrst og fremst að tala um form gjaldtökunnar sem er út af fyrir sig gagnrýnivert --- gæti gengið harðar að ýmsum fyrirtækjum en öðrum að þetta væri svo lítið að fyrirtækin mundu líklega ekki finna fyrir þessu. Það finnst mér dálítið merkilegt, herra forseti. Það sagði mér meira en flest annað hvað var að gerast.

Af því að ég nefndi að aðferðin við þessa gjaldtöku væri kannski gagnrýniverðust langar mig, herra forseti, að vitna til þess sem Seðlabankinn sagði um þetta mál. Mér finnst Seðlabankinn hafa komið fram með einna skýrastar ábendingar um það hvað miður fer eða hvað betur mætti fara ef menn vilja endilega fara þessa leið við gjaldtöku í sjávarútvegi. Með leyfi forseta, segir Seðlabankinn í umsögn sinni frá 25. mars sl.:

,,Ástæða þykir til að benda á ágalla á útreikningsaðferð veiðigjaldsins sem lýst er í c-lið 10. gr. frumvarpsins og útjöfnun veiðigjaldsins miðað við aflaheimildir í þorskígildum samkvæmt skilgreiningu þorskígilda í a-lið 10. gr. Í fyrsta lagi er tekjuhugtak reglunnar, aflaverðmæti, að hluta byggt á viðskiptum milli deilda innan sama fyrirtækis. Þegar er fyrir hendi hvati til að vanreikna aflaverðmæti vegna áhrifa þess á launakjör sjómanna og sá hvati mun heldur vaxa ef veiðigjald vex með vaxandi aflaverðmæti. Hagsmunir hvers fyrirtækis af því að vanreikna eigin aflaverðmæti eru að sönnu litlir, þar eð veiðigjaldið fer eftir heildaraflaverðmæti, en þar sem vanreikningurinn þarf engu að breyta um raunverulega starfsemi, er ekkert sem vinnur á móti honum nema aðhald sjómanna að launasamningum.``

Ég vil aðeins, herra forseti, biðja menn að leiða hugann að því hvernig sjómönnum hefur gengið að hafa uppi það aðhald. Það er kannski sérmál sem þyrfti að ræðast á hinu háa Alþingi hvernig meðferð útvegsmanna er á ákvæðum þess gerðardóms sem sjómenn búa við um þessar mundir en ég held áfram, herra forseti:

,,Í öðru lagi er kostnaðarhugtak reiknireglunnar of þröngt á heildina litið. Enginn varnagli er í reglunni sem tryggir að ekki sé tekið gjald umfram auðlindarentu og að gjaldið falli niður ef afrakstur veiðanna er ekki nægur til að standa undir afskriftum og vöxtum af nauðsynlegri fjárbindingu. Við það geta fjárfestingarákvarðanir skekkst ef oftaka veiðigjaldsins stendur lengi. Þar sem gjaldtaka virðist tiltölulega lítil miðað við líklega heildarrentu af fiskstofnunum er þessi hætta þó sennilega ekki stórvægileg.``

Ég vek athygli á því, herra forseti, að Seðlabankinn er fyrst og fremst að tala teóretískt og gagnrýna regluna út frá fræðikenningum ýmiss konar en ítrekar alltaf að gjaldið sé kannski svo lítið að ekki sé hætta á ferðum núna. Það getur auðvitað enginn svarið fyrir það að þessar upphæðir kunni að breytast í framtíðinni. Síðan segir í umsögn Seðlabankans:

,,Í þriðja og alvarlegasta lagi ber að benda á skekkju sem reiknireglan felur í sér varðandi gjaldtöku af veiðum einstakra tegunda. Álagning veiðigjalds byggist á aflamælingu í þorskígildum en þorskígildi eru reiknuð samkvæmt aflaverðmæti. Renta af veiðum einstakra tegunda fer hins vegar bæði eftir tekjum og útgjöldum. Ef hálft kílóverð fisktegundar er vegið upp af háum kostnaði við veiðar getur útjöfnun veiðigjalds miðað við aflaverðmæti leitt til þess að gjaldtakan verður umfram rentu af nýtingu tegundarinnar og að veiðarnar verði óarðbærar og leggist af, jafnvel þó gjaldtakan sé hófleg á heildina litið. Útjöfnun veiðigjalds samkvæmt aflaverðmætisreiknuðum þorskígildum felur því í sér óhagkvæmni auk þess sem það samrýmist illa jafnræði að innheimta mishátt hlutfall raunverulegrar rentu eftir fisktegundum. Því er vert að gefa því gaum hvort ekki eru tök á að reikna þoskígildishlutfall fisktegunda eftir metinni rentu í viðkomandi veiðum fremur en aflaverðmæti.``

Herra forseti. Það sem Seðlabankinn gagnrýnir hér er sú aðferð að allir skuli greiða gjald sem miðast við meðaltalsafkomu. Það greiðir ekki hver gjald miðað við sína afkomu eins og gerist við skattalög heldur greiðir hver gjald miðað við meðaltalsafkomu. Þótt gjaldið sé jafnlágt og raun ber vitni er það þó óréttlátara en þau gjöld sem nú eru innheimt vegna þess að þetta gjald á að miðast við meðaltalsafkomu og gildir þá einu þótt það sé bullandi hagnaður í einni grein útgerðar og miklir erfiðleikar í annarri. Allir greiða meðaltalsgjaldið.

Ég tek undir með Seðlabankanum að e.t.v. er ekki hætta á ferðum þar sem gjaldið er svo lágt. Ég ítreka það sem Friðrik Baldvinsson sagði, að menn mundu vart finna fyrir því, það væri svo lágt. Aðferðin, herra forseti, er þó auðvitað forkastanleg. Fulltrúar Seðlabankans sögðu á fundi með nefndinni, og undir það tóku fulltrúar Þjóðhagsstofnunar, að mun eðlilegra væri ef menn vildu innheimta rentuskatt, auðlindagjald, að horfa til þess hvað aðilar eru tilbúnir til að greiða fyrir veiðiheimildir á markaði. Á markaðnum gætu menn best séð hver umframrentan er í veiðunum. Hvað eru menn tilbúnir til að borga þar? Af því mætti helst leiða út niðurstöðu um hvað væri eðlilegt að innheimta.

Einhverra hluta vegna, herra forseti, eru menn ekki tilbúnir til að tengja þetta tvennt saman. Þess vegna sitjum við uppi með reglu sem er að mörgu leyti fráleit, ekki síst vegna þess að þarna er verið að vinna með meðaltal.

Að sönnu hefur mörg undanfarin ár farið fram mikil umræða um stefnuna í stjórn fiskveiða og úthlutun veiðiréttinda. Einkum herti á þessari umræðu upp úr 1990 og sumir sem hafa skoðað þessi mál telja að umræðan sem varð þá eigi kannski fyrst og fremst stoð í þeim miklu breytingum sem urðu fyrir 1990, þ.e. að þeir erfiðleikar sem urðu í sjávarútvegi á árunum 1987, 1988 og 1989, m.a. vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem hér voru innan lands og tóku eina ríkisstjórn í sundur eins og menn muna, hafi ásamt þeirri uppstokkun sem átti sér stað í því framhaldi orðið til þess að þessi mikla umræða spannst um það hvernig kerfið virkaði, hvaða afleiðingar það hefði og hvað væri í raun að gerast. Þannig hafi lögin frá 1990 í sjálfu sér ekki gert annað en að staðfesta það sem þegar hafði gerst, hafi í sjálfu sér ekki valdið þeim breytingum sem þegar voru orðnar eða komnar í farvatnið. Nú er ég ekki að segja þetta af því að ég vilji taka ábyrgð af lagasetningu varðandi þá stöðu sem er í þessum málum en ég held hins vegar að okkur sé öllum hollt að horfa til þess að stjórn í sjávarútvegi byrjaði ekki árið 1990 og þeir erfiðleikar sem ýmis sjávarútvegsfyrirtæki, reyndar flest þeirra, þurftu að takast á við áratuginn á undan leiddu auðvitað til þess að mjög mikil breyting varð á eignarhaldi fyrirtækja. Það varð mjög mikil breyting á því sem þá var að gerast, m.a. á fyrirtækjastrúktúr í landinu, og menn fóru auðvitað að hugsa dálítið öðruvísi í framhaldinu en þeir höfðu gert fram að þeim tíma.

Þegar Davíð Oddsson varð forsrh. árið 1991 var eitt af því sem hann taldi sér skylt að gera að fordæma þær ákvarðanir sem fyrri ríkisstjórn hafði tekið og þær aðgerðir sem farið hafði verið í til að aðstoða fyrirtækin við að takast á við þá erfiðleika sem voru uppi á árunum 1986--1987. Ég tel að það væri áhugavert fyrir bæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem var ráðherra á þessum tíma og eins fyrir hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem hér hefur verið með merka fyrirspurn um Þróunarsjóð (GAK: Og verður áfram.) að fylgjast með máli mínu þegar ég kem að þeim hluta ræðu minnar. Eins og ég sagði, þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson tók við embætti vorið 1991 þurfti hann að gera sig breiðan á ýmsum sviðum og eitt af því sem hann þurfti að ræða dálítið um voru þær aðgerðir fyrri ríkisstjórnar sem hún hafði beitt til að aðstoða fyrirtækin við að takast á við erfiðleika áranna 1986--1988 og tóku þáv. ríkisstjórn í sundur, ríkisstjórn sem Sjálfstfl. átti þá aðild að.

[17:45]

Þær aðgerðir sem þá var farið í voru skuldbreytingar að afloknu mati á möguleikum fyrirtækjanna til að lifa af og Ríkisendurskoðun tók þátt í því mati, en eftir að það hafði verið skoðað hvort fyrirtækin ættu sér framtíðarmöguleika var þeim heimiluð --- og ég bið alla um að halda sér --- ríkisábyrgð á tiltekna skuldbreytingu. Þetta var faglega unnið og fór óskaplega í taugarnar á mörgum, líka vegna þess að ekki þýddi að koma með pólitískar beiðnir. Þær urðu að vera faglega studdar sakir þess að það varð að ganga upp að þau fyrirtæki gætu spjarað sig og endurgreitt þau lán sem var verið að skuldbreyta með þessari ríkisábyrgð.

Davíð Oddsson ákvað það strax þegar hann komst til valda að þarna hefði verið um milljarða sukk að ræða, milljarða sukk og pólitísk heift hans var það mikil að í snarhasti var býsna mikið afskrifað af þeim lánum. Þau voru færð inn í Þróunarsjóð sjávarútvegsins og afskrifuð í stórum stíl til þess að sanna það að þarna hefði verið um hreina óráðsíu og sukk að ræða með almannafé. Síðan lenti Þróunarsjóðurinn í ákveðnum vandræðum. Það kom nefnilega í ljós að þessi lán voru greidd til baka og sjóðurinn fékk peninga og endurgreiðslur, endurgreiðslur og peninga og það þurfti að fara að bakfæra. Og starfsmenn Þróunarsjóðsins eru búnir að standa í því undanfarin ár að bakfæra greiðslur vegna hinna pólitísku afskrifta sem áður höfðu átt sér stað, þ.e. þegar hæstv. forsrh. af pólitískri heift hlutaðist til um að þarna ættu sér stað stórfelldar afskriftir til að sanna það að hér hefði verið illa farið með almannafé, hér hefði ríkisábyrgð verið misnotuð.

Herra forseti. Síðan biður hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson um yfirlit yfir stöðu Þróunarsjóðs og m.a. þessar afskriftir. Og hvað kemur þá í ljós? Jú, það kemur í ljós að fyrirtækin höfðu spjarað sig með einum eða öðrum hætti. Sum höfðu runnið saman við önnur, sum höfðu verið keypt, sum höfðu stækkað, ýmsar breytingar áttu sér stað en lánin höfðu verið greidd. Og nú er ekki langt í það að þau lán verði að fullu uppgreidd og engin ríkisábyrgð lengur á neinum fimmeyringum því að þetta er varla að verða meira, en þetta svar var býsna merkilegt af því að það var svo afhjúpandi. Herra forseti. Ekki er hægt annað núna en að rifja þetta upp bara af því að hér er verið að veita ríkisábyrgð á annað borð. Og af því að það er nú verið að gera af þeim manni sem tók svona stórt upp í sig árið 1991.

Það er nefnilega þannig í pólitík, herra forseti, að stundum koma hlutirnir eins og búmerang í hausinn á mönnum. Ef þeir taka of stórt upp í sig og ekki eru innstæður fyrir því sem þeir segja, þá standa þeir stundum með búmerangið fast í enninu og það er nú hlutskipti hæstv. forsrh.

Það hefur verið dálítið merkilegt undanfarinn áratug að fylgjast með umræðunni um hvort eðlilegt væri að útgerðin greiddi fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind. Ýmsir hafa tekið þátt í þeirri umræðu, bæði innlendir og erlendir aðilar og erlendir aðilar sem hafa komið til þess að líta yfir sviðið hafa margir hverjir komist mjög fljótlega að þeirri niðurstöðu að hér væri staða mála þannig að í fyllsta máta væri eðlilegt að menn greiddu fyrir aðgang að auðlindinni. Þau innlegg hafa verið misáhugaverð og sama á við um innlegg innlendra aðila. Þau hafa verið misáhugaverð en fylkingar hafa gróft tekið verið tvær. Ég hef verið, herra forseti, tilbúin til þess að vera í fylkingarbrjósti annarrar þeirra ef á hefur þurft að halda. Þar hef ég að mínu mati verið í góðum félagsskap og við jafnaðarmenn verið í góðum félagsskap, Samtaka iðnaðarins, mjög margra hagfræðinga sem hafa tekið þátt í umræðunni og ýmissa þeirra sem hafa viljað sjá breytingar á efnahagssviðinu. Mér finnst stundum að Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafi leitt hina sveitina en það hefur verið sveit þeirra manna sem hafa talið að best væri að útgerðin ætti bara kvótann, það hafi alltaf verið best að menn ættu það sem þeir væru að vinna með og fengju það helst gefins í upphafi.

Einhver skemmtilegasta grein sem að mínu mati hefur komið fram um þessi mál var skrifuð af ekki ómerkari manni en Benjamín Eiríkssyni en þetta er grein sem hann birtir 15. ágúst árið 1997 í Morgunblaðinu. Mig langar, herra forseti, vegna þess að ég held að mikilvægt sé fyrir umræðuna núna að vitna í þessa grein dr. Benjamíns, en eins og menn vita tók nefndur Hannes Hólmsteinn Gissurarson það að sér að skrifa ævisögu Benjamíns Eiríkssonar og er þess vegna ekkert síður í því ljósi skemmtilegt að sjá hvað Benjamín hefur um málið að segja. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir tæpum áratug var rétt eitt lektorsmálið til umræðu. Dr. Hannes H. Gissurarson hafði verið skipaður lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en tekið misjafnlega vel. Á fundi í félagsvísindadeild hafði hann ekki fengið eitt einasta atkvæði. Ég skrifaði tvær greinar um málið og sagði meðal annars, að yfirburðir Hannesar væru þeir, að hann ætti ekki að vera að sækja um lektorsstöðu heldur prófessorsstöðu, væri hún tiltæk. Þetta hefir nú farið á þann veg: Dr. Hannes er orðinn prófessor Hannes. Er þá ekki ,,allt fengið``? Nei, ekki alveg.

Uppi eru deilur með þjóðinni í stórmáli, miklu hagsmunamáli. Ástandið er þannig að árlega eru tugir milljarða króna af sameign þjóðarinnar gefnir tiltölulega litlum hópi manna.

Þessi sameign, þetta verðmæti, er þannig til komið, að löggjafarsamkoman hefir skapað einokunaraðstöðu fyrir takmarkaðan veiðiflota. Veiðiskip með kvóta fær því meiri afla en það mundi, væru veiðarnar ekki takmarkaðar heldur öllum frjálsar. Auk þess er næsta víst að fiskverð hækkar við þetta. Það myndast einokunargróði. Hann rennur fyrst og fremst til þeirra fáu manna sem fá að nota ókeypis hinn takmarkaða veiðirétt innan fiskveiðilögsögunnar. Þessi gróði er sköpunarverk Alþingis, alþingismannanna. Svona ástand er auðvitað óþolandi til langframa.``

Og dr. Benjamín heldur áfram:

,,Hannes hefir nú birt þrjár greinar í Morgunblaðinu um málið. Hinn 9. þessa mánaðar birtir hann þriðju greinina, þar sem hann dregur saman röksemdir sínar í stuttu máli. Kjarni málsins er þarna ljós. Þar með gín rökvilla hans við lesandanum.`` Og nú vitnar dr. Benjamín beint í dr. Hannes:

,,Það sem Karl Marx skildi ekki, var að myndun einstaklingsbundinna eigna- eða nýtingarréttinda á náttúrugæðum er besta leiðin til þess að tryggja skynsamlega nýtingu slíkra gæða.`` Hér lýkur tilvitnun í dr. Hannes.

,,Já, og hvað svo?`` spyr dr. Benjamín Eiríksson. ,,Jú, segir Hannes, þess vegna verða þeir sem fara með þessar eignir að fá þær gefins í upphafi.

Tökum tvo bændur sem dæmi. Annar erfir jörðina, sem hann býr á, fær hana gefins, hinn kaupir hana á fasteignamarkaðnum. Hvað tálmar því, að báðir fái búið við sömu skilyrði: notið náttúrugæða jarða sinna sem einkaeignar? Þetta þýðir einfaldlega það, að það er eins hægt að búa við einkaeignarréttarskipulagið þótt náttúrugæðin séu keypt. Tal Hannesar um ,,skynsamlegri nýtingu fiskstofnanna`` er því máli óskylt, hvort kvótarnir séu gefnir eða seldir. Svona röksemdir heita á ensku ,,red herring``, rauð síld.``

Síðan spyr dr. Benjamín Eiríksson:

,,Hvað er einokunargróði? Einokunargróði er verðmæti sem skapað er með sérstakri aðstöðu, valdi af einhverju tagi, valdboði, einokun eða fákeppni. Verðmætið verður til án tilkostnaðar, án þjónustu, án framleiðslukostnaðar. Hafirðu þessa aðstöðu, þetta vald, geturðu skapað svona verðmæti. Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins er einfalt dæmi, takmörkun fiskveiðanna með valdboði, annað. Formælendur gjafastefnunnar draga alltaf athyglina frá því grundvallaratriði, að verðmæti kvótans er einokunargróði, skapaður af ríkisvaldinu.

Útgerðarmaðurinn getur greitt allan útgerðarkostnaðinn af andvirði aflans og keypt kvótann að auki fyrir afganginn, sem myndast hefir við það, að aðgengið að miðunum er takmarkað --- sem þýðir að meiri afli fæst með minni tilkostnaði. Hlutur kvótans í aflaverðmætinu er augljóslega hreinn einokunargróði, skapaður af ríkisvaldinu.

Kvótarnir ganga kaupum og sölum --- þessir umframpeningar --- fyrir tugi milljarða. Hvað hugsar þjóðin? Ríkisvaldið vantar peninga til hluta sem ,,við öll`` viljum: Í heilbrigðisþjónustuna, skólakerfið og velferðina, svo eitthvað sé nefnt. Hvað leyfa alþingismennirnir sér að aðhafast --- og aðhafast ekki --- í alþjóðaraugsýn? Hver er skýringin? Bera eigendur kvótanna fé í stjórnmálaflokkana?`` spyr dr Benjamín að lokum. En hann hefur ekki alveg lokið máli sínu því hér kemur:

,,P.S. Síðan ofanskráð var sett á blað hefir prófessor Hannes enn birt skrif um þetta efni. Ég á við grein hans í Morgunblaðinu hinn 14. þessa mánaðar, ,,Gömul hugmynd gengur aftur``. Og enn gín við lesandanum ný rökvilla.

Próf. Hannes líkir veiðileyfagjaldinu við jarðrentuskatt Henrys Georges. Gallinn við þessa samlíkingu er sá, að jarðrenta þessi myndast fyrir tilverknað markaðsaflanna, fyrst og fremst aukningar mannfjöldans. Einokunargróði kvótanna myndast með valdboði löggjafans.``

Herra forseti. Stundum verður líka að vera gaman í þinginu og mér fannst þessi grein vera til þess fallin að við færum yfir alvarlegt mál með óvenjulega skemmtilegum hætti vegna þess að þó að þessi grein sé orðin fimm ára gömul stendur hún að mörgu leyti enn fyrir sínu og dregur kannski fram einmitt það sem ég drap á hér áðan þær tvær öndverðu fylkingar sem hafa tekist á í þessu máli mjög lengi. Þessar tvær öndverðu fylkingar sem annars vegar leggja áherslu á að þegar um er að ræða takmarkaða auðlind í sameign þjóðar, þá sé eðlilegt að þeir sem fá að nýta hana greiði fyrir það og svo hinna sem finnst jafnsjálfsagt að takmörkuðum auðlindum í eigu þjóðar sé úthlutað ókeypis og sumir ganga svo langt að krefjast þess að þær séu gefnar.

Herra forseti. Hugtakið ,,réttlæti`` hefur oft verið notað í umræðunni. Nú er réttlætið afskaplega afstætt og blasir ólíkt við mönnum eftir því hvaða stöðu þeir hafa. Þannig finnst þeim sem hafa fengið kvóta úthlutað á grundvelli veiðireynslu tiltekinna ára það réttlæti að þeir fái það áfram með sama hætti. Öðrum sem eru að reyna að brjótast inn í þessa grein finnst það hins vegar lítið réttlæti og mér finnst ástæða til að rifja það upp, herra forseti, reglulega þegar menn eru að barma sér undan því að þurfa að greiða jafnvel kostnaðargjöld í sjávarútvegi eins og við verðum stundum vör við. Mönnum finnst það mikil áþján ef greinin þarf að fara að borga gjöld sem nálgast kannski 2/3 þess kostnaðar sem af hlýst, þá finnst mér ástæða til að rifja það upp, (Gripið fram í.) --- það fer eftir sanngirninni, hv. þm. Gísli Einarsson --- að það er ekki eins og við þurfum að dekstra þessa aðila eða kaupa til að vera í útgerð. Það er nefnilega eftirspurn eftir því.

[18:00]

Hvað svo sem menn barma sér og vilja telja þjóðinni trú um að hlutskipti þeirra sé aumt er það samt sem áður niðurstaðan að miklu fleiri vilja gera út á Íslandsmiðum en komast að með góðu móti. Miklu fleiri vilja fá úthlutun aflakvóta á Íslandsmiðum en fá. Við alþingismenn, ekki síst við í sjútvn., fáum símhringingar, bréfasendingar og heimsóknir frá einstaklingum eða fulltrúum hópa sem eru tilbúnir til að borga meira, fái þeir að komast að. Það verður kannski sífellt erfiðara, ekki fyrir okkur sem ekki réttlætum þetta ástand heldur þá sem vilja réttlæta það, að réttlæta úthlutun sem byggir á veiðireynslu tiltekinna ára í fyrndinni, ekki síst þar sem útvegsmenn sjálfir hafa reynt að segja þjóðinni að stærstur hluti þess veiðikvóta hafi skipt um hendur, búið sé að innleysa auðlindarentuna af stærsta hlutanum og kvótinn hafi skipt um hendur.

Herra forseti. Þessir aðilar viðurkenna einfaldlega að þessi reynsluviðmiðun eigi ekki við lengur. Þeir sem fengu úthlutað ókeypis vegna reynslu eru ekki lengur í veiðum þannig að úthlutunin byggir ekki á reynslu þeirra.

Sömuleiðis finnst mér ástæða til að halda því til haga að alveg þangað til í fyrra gátu menn afskrifað kaup sín á veiðiheimildum. Það eru nokkur ár síðan lögin voru sett en þetta virkaði þannig að árið í fyrra var síðasta árið sem menn gátu afskrifað. Þegar þetta allt er lagt saman við ákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, að úthlutun aflahlutdeilda myndi ekki óafturkræfan rétt, getum við sagt með réttu að jafnvel þó menn hafi keypt kvóta einhvern tíma á þessu tímabili hafi það ekki skapað þeim nokkurn rétt umfram það sem lögin segja. Grundvallarforsendan þar er sú að fiskstofnarnir kringum landið eru sameign íslensku þjóðarinnar.

Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp reglulega, herra forseti, vegna þess að menn gleyma sér stundum. Það er jafnframt nauðsynlegt að rifja upp að lögfræðingar sem hafa skoðað þessi mál, þá vil ég vitna til bæði Sigurðar Líndals og Þorgeirs Örlygssonar sem saman skrifuðu pappír fyrir auðlindanefnd um þetta mál, telja að auðvitað hafi Alþingi vald til að breyta lögunum um stjórn fiskveiða, þ.e. breyta þannig að sá réttur sem menn telja sig hafa í dag væri ekki lengur þeirra. Menn hafa þó það fororð á að til þessa þurfi tiltekinn aðdraganda en að Alþingi hafi valdheimildir til að breyta þessu kerfi á þann veg sem Alþingi telur betri eða réttlátari, þar með talið að fara með úthlutun veiðiréttar og þar með sölu að aðgangi að auðlindinni yfir í svokallaða fyrningarleið.

Þetta lá allt fyrir þegar Samfylkingin tók ákvarðanir sínar um hvernig hún vildi sjá þróunina varðandi stjórnkerfi fiskveiða, hvaða breytingar hún vildi sjá á stjórnkerfinu og hvernig auðlindarenta yrði innheimt, hvernig eðlilegur afrakstur þjóðarinnar ætti að koma fram af þessari sameiginlegu auðlind sem er takmörkuð og ekki allir geta haft aðgang að.

Þegar Samfylkingin bauð fram fyrir síðustu kosningar var þegar að finna í stefnuskrá hennar ákvæði þess efnis að hún vildi að fram færi fyrning á veiðiheimildum og að menn litu til breytinga á stjórnkerfinu. Þegar eftir að þingflokkur Samfylkingarinnar, 17 manna þingflokkur, hóf störf á Alþingi var hafin vinna við frv. sem hér hefur síðan verið flutt og liggur enn fyrir hinu háa Alþingi, þess efnis að farin yrði fyrningarleið. Við höfum ekki þreyst á því, herra forseti, að endurflytja það mál og rökstyðja að hvaða leyti það mál tæki öðrum þeim aðferðum fram sem menn hafa nefnt til sögunnar. Sú aðferð er einfaldlega líklegust til að herma eftir því ástandi sem var áður en farið var að stjórna veiðunum með þeim hætti sem nú er gert, þó með viðurkenningu á því að aðgangur að auðlindinni hefur fengið verðgildi.

Okkur hefur aldrei komið til hugar, herra forseti, að það væri hægt að breyta þeirri staðreynd, a.m.k. ekki meðan við eigum svo öflugan flota sem raun ber vitni og takmarka þarf aðgang að auðlindinni. Við vitum að við getum ekki gengið að lífríkinu af öllu því afli sem býr í tækni okkar og þekkingu til að veiða fisk.

Með þeirri aðferð sem Samfylkingin hefur lagt til þykjumst við sjá fyrir að þeir staðir sem best liggja við miðum og hafa það atgervi að menn vilji gera út þaðan ættu að geta blómstrað. Menn væru þá að öðru leyti jafnsettir.

Þegar deilur standa um þessa aðferð hafa menn aðallega teflt því fram að fyrningarleið mundi auka útgerðinni óöryggi, það yrði enn óöruggara fyrir íslenska útgerð en er í dag. Þær fullyrðingar byggja hins vegar á miklum misskilningi vegna þess að við ættum fremur að spyrja: Hvaða öryggi býður kerfið í dag íslenskri útgerð upp á? Hvaða öryggi er í því kerfi sem er þannig vaxið að menn fá úthlutað frá ári til árs með löggjöfina þannig að henni er hægt að breyta með stuttum fyrirvara þannig að ekki standi lengur það sem var í fyrra eða hittiðfyrra? Menn hafa ekkert í höndunum annað en það að fiskstofnarnir í kringum landið eru sameign íslensku þjóðarinnar.

Sé þetta borið saman við hugmyndir okkar sem viljum fara fyrningarleið þá erum við auðvitað að tala um, eins og fram kemur í frv. okkar, að þeir sem öðlist veiðiheimildir eftir þeirri leið fái þær auðvitað til tiltekins tíma. Þeir leigja þær til tiltekins tíma og hafa þannig það rekstraröryggi þann tíma, sem þeir hafa ekki nú. Þess vegna er svolítið merkilegt að samtök útgerðarinnar skuli hafna þessum hugmyndum svo eindregið. Að mínu mati er þetta álíka vanhugsað og það var fyrir tíu árum þegar þeir lömdu frá sér allar hugmyndir um greiðslur fyrir aðgang að auðlindinni. Nú eru þeir þó farnir að horfast í augu við að líklega þurfi þeir að viðurkenna þá kröfu að greitt sé fyrir aðgang að auðlindinni. Það er dálítil breyting. En þeir eru seinir á ferðinni eins og jafnan. Sama á að mínu mati við varðandi fyrningarleiðina.

Ég teldi, herra forseti, að það væri betra fyrir samtök útvegsmanna að ganga í lið með Samfylkingunni og þeim sem vilja breyta lögunum á þennan veg og skapa þannig það öryggi sem atvinnugreinin þarf á að halda fremur en að berjast sífellt gegn breytingunum og hafa þar af leiðandi minni áhrif á þróun mála. Ég er sannfærð um að það verður aldrei friður um það fyrirkomulag sem nú er, hvað svo sem líður þeirri nafnbreytingu sem menn eru að tromma upp með hér í dag. Um þetta verður aldrei friður vegna þess að ekki er tekist á við þau atriði sem ófriðurinn hefur staðið um. Það er verið að skerpa á þeim ef eitthvað er, eins og ég rakti áðan varðandi kvótaþakið. Nafnaskiptin skipta engu. Byggðakvótar eins og þeir eru settir upp núna eru ekki til þess fallnir að skapa ró. Það segir okkur sá órói, sú úlfúð og þeir erfiðleikar sem hafa í raun fylgt notkun þeirra á ýmsum stöðum.

Herra forseti. Málið sem við ræðum hér í dag er auðvitað mjög víðfeðmt. Það nær yfir þessa þrjá meginþætti sem ég rakti í upphafi. Sjávarútvegur á Íslandi hefur verið grundvallaratvinnugrein og haft áhrif á byggðaþróun alla síðustu öld. Allar breytingar í sjávarútvegi hafa þar af leiðandi áhrif á byggðaþróun áfram í dag og inn í framtíðina. Það er auðvitað ekki hægt annað en víkja að þeim þáttum þegar verið er að fjalla um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Sú umgjörð sem við sköpum skiptir auðvitað máli.

Ég gerði það að sérstöku umtalsefni í ræðu minni við 2. umr. þessa þingmáls hvernig kvótakerfið hefur í raun virkað á þau félagskerfi sveitarfélaganna, sem fyrir voru og áttu þátt í niðurbroti þeirra. Það ásamt óörygginu sem fólk býr víða við þegar það skynjar að grundvöllur fyrir útgerð eða fiskvinnslu á viðkomandi stað er að hverfa er auðvitað erfiðast. Við höfum gengið í gegnum miklar og erfiðar atvinnuháttabreytingar víða um landið og það er ömurlegt að ríkisvaldið skuli svo takmakmarkað mætt því fólki sem hefur vegna atvinnuháttabreytinga horft á húsin sín lækka í verði, á ævisparnað sinn brenna upp og verða að engu. Þetta fólk hefur þurft að takast á við miklar breytingar án þess að fá svo mikið sem tilboð um endurmenntun. Eitt af meginmálum okkar í Samfylkingunni, þegar byggðamál ber á góma, er að efla þurfi menntun til að fólk verði hæfara til að takast á við þessar breytingar, til að það öðlaðist sjálfstraust og geti í ríkara mæli tekið örlög sín í eigin hendur til að afla sér þekkingar á því sem er mögulegt og til að geta með sjálfstæðum hætti lagt mat á möguleika byggðarlags síns og skapað sér þá nýja atvinnu eða nýja tekjumöguleika.

Stefnan í menntamálum undanfarin ár hefur verið þannig að ég hef stundum haft á tilfinningunni að hæstv. menntmrh. sem nú er orðinn framboðskandítat til borgarstjórnar Reykjavíkur hafi ekki áttað sig á þeim hjörtum sem slá ofan Elliðaáa. Sjóndeildarhringur hans virðist ekki ná lengra en úr Hlíðunum og út að háskóla. Það er ekki gott veganesti, herra forseti, þegar atvinnuháttabreytingar eru svo miklar víða um landið og fólk þarf á því að halda að fræðast um hvað er að gerast.

[18:15]

Það hefur verið aðall ríkisstjórna víða í kringum okkur, ekki síst þeirra sem hafa verið með Evrópusambandið í liði með sér, að flytja þekkingu og þekkingarmöguleika inn á þau svæði sem að öðru leyti hafa verið að missa frá sér atvinnutækifæri, t.d. í nýtingu náttúruauðlinda. Ég tek sem dæmi kolanámusvæðin í Wales þar sem starfsmenn hafa, vegna tæknibreytinga þar sem vinnan hefur þjappast á færri staði eða verið unnin með skjótvirkari hætti, misst atvinnuna og þurft að snúa sér að öðru eða orðið atvinnulausir. Þar hafa verið unnin þrekvirki eftir ýmsum leiðum af meðvituðum stjórnvöldum. Hér hafa skólamenn víða um land barist í því að reyna að kalla fram þessar breytingar. Þannig var Verkmenntaskólinn á Akureyri frumkvöðull í fjarkennslu á framhaldsskólastigi, barðist um á hæl og hnakka að fá viðurkenningu á því að þessi menntunarleið væri líklega það mikilvægasta sem við þyrftum varðandi það að takast á við breytingar í samfélagi okkar. Ekki síst, herra forseti, er einmitt framhaldsskólinn mikilvægur vegna þess að það er sannað mál að menntun á framhaldsskólastigi getur skipt sköpum hvað varðar framleiðni í atvinnulífinu og þar með sköpun auðs fyrir þetta samfélag.

En ekki bara Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur sýnt mikla framsýni heldur Kennaraháskólinn líka, annar skóli sem hefur að sumu leyti verið fjársveltur í þeirri viðleitni sinni að mæta kennaraefnum víða um land. Sá skóli hefur haldið úti mjög víðtækri fjarkennslu fyrir leiðbeinendur, kennaraefni, víða um land sem hafa viljað afla sér réttinda og gerast þannig betri kennarar til að geta alið upp betri nemendur sem síðan áttu þá greiðari leið áfram í atvinnulífið eða til frekari menntunar.

Herra forseti. Það sem hefur gerst í fjarkennslumálum hefur gerst meira og minna fyrir atbeina einstaklinga og skóla, fyrir atbeina manna eins og Péturs Þorsteinssonar á Kópaskeri, fyrir atbeina skóla eins og Verkmenntaskólans og Kennaraháskólans. Og nú eru fleiri háskólar eins og á Bifröst og Háskólinn á Akureyri komnir inn í þetta líka. Þetta er það sem er að bjarga því sem bjargað verður víða um hinar dreifðu byggðir. Eftir þessum leiðum er fólk núna að sækja sér þekkingu til að takast á við breytingar til þess að gera umhverfi sitt frjórra og betra. Það er enn ástæða til að harma það, herra forseti, hve lítið ríkisvaldið hefur lagt af mörkum, verið tregt og hugmyndalaust þegar kemur að þessum þáttum. Um þetta væri hægt að halda langa ræðu sem væri þá komin lengra út fyrir efnið en nú er. Mér finnst enn, herra forseti, að ég hafi ágæta fótfestu í lögunum um stjórn fiskveiða og til að undirstrika það ætla ég að nefna sjómannamenntunina og fiskvinnslumenntunina en sú menntun hefur meira og minna verið að lognast út af á síðustu árum, bæði vegna þess að ungt fólk skynjar að í einokunaratvinnugreinum eins og sjávarútvegurinn er orðinn er ekki mikið olnbogarými og þess vegna betra að snúa sér að öðru en líka vegna þess að það hefur ekki verið neinn sérstakur metnaður til að gera þetta nám þannig að það rímaði við þær væntingar eða langanir sem bærast með ungu fólki. Það er merkilegt að þjóð sem hefur svo stóran hluta gjaldeyristekna sinna af útflutningi sjávarafurða skuli geta leyft sér þann munað að starfrækja engan framhaldsskóla á fiskvinnslusviði. Það mun auðvitað koma niður á okkur síðar þó að við njótum enn starfskrafta þeirra sem hafa útskrifast á undanförnum árum en menn þekkja það að ef menntun er ekki viðhaldið þornar hún smám saman upp og einn góðan veðurdag þurfa menn að takast á við afleiðingar þess ástands. Það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir varðandi menntakerfið þegar sjávarútvegurinn er annars vegar.

Herra forseti. Ég veit að umræðu um sjávarútvegsmál er ekki lokið í dag þó að ég ljúki máli mínu. Ég á eftir að mæla fyrir nál. vegna máls sem er eins konar fylgimál þessa frv. og kemur á dagskrá síðar á þessum fundi. Ef ég sé ástæðu til mun ég að sjálfsögðu biðja um orðið aftur undir dagskrárliðnum Stjórn fiskveiða. Ég get alveg trúað hæstv. forseta fyrir því að ég á ýmislegt ósagt í þessu máli sem ég gæti vel hugsað mér að fara yfir en ég veit að fleiri vilja taka til máls og mun þess vegna láta ræðu minni lokið að sinni.