Upplýsingar um þingmál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 10:39:43 (8605)

2002-05-02 10:39:43# 127. lþ. 135.91 fundur 569#B upplýsingar um þingmál# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er hættur að undrast það að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Framsóknar, hefji daginn á skætingi og útúrsnúningum. Hann kom hér eina ferðina enn og lýsti yfir undrun sinni yfir því að þingmenn leyfðu sér að kalla eftir upplýsingum inn í umræðu á Alþingi. Ég vakti athygli hæstv. forseta á því að til þess að umræðan gæti farið fram af einhverju viti í dag væri mikilvægt að fyrir lægju tilteknar upplýsingar af hálfu hæstv. fjmrh. og af hálfu hæstv. iðn.- og viðskrh. sem venju samkvæmt tjá sig aðeins um málin í lok umræðunnar. Það er hið hefðbundna. Annað heyrir til undantekninga. Ég er að kalla eftir því að þessar upplýsingar liggi fyrir.

Hvað vilja menn yfirleitt upp á dekk hér, segir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og spyr hvort menn hafi sýnt formanni efh.- og viðskn. hæfilega virðingu og óskað eftir fundi. Er hv. þm. ekki kunnugt um að í efh.- og viðskn. hefur verið kallað eftir upplýsingum um þetta mál sem ekki hafa verið látnar af hendi? M.a. hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gagnrýnt það sjálfur. Það er staðreynd málsins. (Gripið fram í: Opinberlega.) Og opinberlega. Hvers konar málatilbúnaður er þá hér á ferðinni af hans hálfu? Hvers konar málaflækjum er þingmaðurinn að festa sig í?

Herra forseti. Þetta er skýringin á því að ég hef kallað eftir þessum upplýsingum í raun til þess að greiða fyrir eðlilegum þingstörfum og eðlilegri umræðu í þinginu.