Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:03:10 (8609)

2002-05-02 11:03:10# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér dálítið á óvart hvað hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur allt á hornum sér varðandi það sem er að gerast í Hafnarfirði. Hann var í eina tíð vinsæll bæjarstjóri í Hafnarfirði og framsýnn þá að mér fannst og var með margar góðar hugmyndir og nýjungar sem ég held að Hafnfirðingar hafi verið mjög hrifnir af. Ég held að Hafnfirðingar hafi yfirleitt verið nýjungagjarnir að mörgu leyti, viljað sjá eitthvað gerast í sínu bæjarfélagi sem væri öðruvísi en annars staðar. Það held ég að sé einmitt að gerast núna. Í skólamálum er að gerast eitthvað nýtt í Hafnarfirði sem er ekki að gerast annars staðar.

Það kemur mér dálítið á óvart að hv. þm. skuli hjakka svona í bókhaldslegum atriðum um hvort þetta eigi að vera í eignfærðri fjárfestingu eða hvort þetta eigi að vera í skuld eða koma út sem rekstur eða hvaða bókhaldsleg atriði eigi að nota til þess að þetta færist allt á réttan stað.

Hv. þm. er samt sammála því, og ég er ekki hissa á því reyndar, að Hafnfirðingar eigi að sitja við sama borð og aðrir. Auðvitað eiga þeir að gera það og það er það sem verið er að gera með þessum lögum. En ég þykist vita að hv. þm. veit nákvæmlega að verið er að gera samninga um rekstur opinberra stofnana á ýmsum sviðum í dag sem ekki þekktist fyrir 10 eða 15 árum þegar hann byrjaði bæjarstjóraferil sinn.

Ég minni á leikskólamál eins og í Grindavík. Þar er boðinn út leikskóli. Það er einn aðili sem byggir leikskólann, annar aðilinn rekur leikskólann en bæjarfélagið kemur hvergi nærri nema með samningum.

Þegar íþróttahúsið í Reykjanesbæ var byggt var gerður um það sérstakur samningur. Bæjarfélagið borgar ákveðna leigu fyrir húsið á hverju ári og það gengur einnig upp í stofnkostnaðinn og að endingu endar þetta allt í eigu sveitarfélagsins að mörgum árum liðnum.